13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

84. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. frsm. menntmn., að er útvarpslögin voru endurskoðuð síðast var þeim ekki vísað til umsagnar útvarpsstjóra eða til útvarpsráðs eða útvarpsstjórnar, vegna þess að það voru þessir aðilar, sem sátu í n. þeirri, er samdi hin nýju lög, nákvæmlega þeir aðilar sem nú hefði átt að leita umsagnar hjá varðandi breyt. á þessum lögum.

Það kann vel að vera að hv. frsm. hafi þess háttar álit á Blaðamannafélagi Íslands að hann telji það næstum því skoplegt að leitað væri álits þess um fyrirkomulag kosningar í útvarpsráð eða starfsemi útvarpsráðs. Það getur vel verið að það sé vegna þess að mér er fremur hlýtt til þessa félags, sem ég átti lengi sæti í, að ég ímynda mér það enn í dag, að einmitt Blaðamannafélag Íslands væri fært um að leggja á ráð um meðferð svona mála, að ógleymdri heimspekideild Háskóla Íslands. Það kann líka vel að vera að hv. frsm. menntmn. þessarar þd. hafi slíkt vit á þessum málum að hann þurfi ekki að fara í skóla til neinna annarra. Það má vel vera. Ég held eigi að síður að það hafi ekki verið vegna visku meiri hluta menntmn. sem ekki var leitað umsagna réttra aðila um þetta frv., heldur af allt öðrum hvötum. Ástæðan er sú, að það á núna að setja lög til þess að rýma burtu löglega kjörnum starfsmönnum úr útvarpsráði. Það liggur svo mikið á að losna við þessa menn.

Ég þarf ekki að endurtaka hér, þó að ég gæti það eftir minni, helstu rök hv. þm. Þorv. Garðars gegn þessum vinnubrögðum. Sannleikurinn er sá að l. sem sett voru um kjör útvarpsráðs á sínum tíma, voru einmitt miðuð við það að rjúfa samhengið á milli kosninga Alþ. og kjörs útvarpsráðs. Ég er enn þeirrar skoðunar að þar hafi verið unnið að á réttan hátt, og ég hef lúmskan grun um að hinir vitrari fulltrúar í meiri hluta menntmn. séu í hjarta sínu sammála mér um þetta.