13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

84. mál, útvarpslög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í raun og veru þarf ég ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég lýsti afstöðu minni við 1. umr. og ég spurðist þá fyrir um það, sem enn hefur ekki verið svarað svo að ég viti til, hvað hefði skeð ef myndun vinstri stjórnar hefði átt sér stað. Hefði þá verið farið af stað með þetta frv.? Það væri fróðlegt að fá svar við því við þessa umr. Ég held nefnilega að þá hefði ekki verið hreyft við þessu. Það eru þess vegna annarleg sjónarmið sem liggja að baki svona frv.-flutnings. Ég lýsi undrun minni á þessari meðferð mála hérna í d. og hjá n. og raunar má gera það um störf Alþ. almennt nú í haust. Það hefur sama og ekkert verið starfað í n., eins og hægt er að rekja með að birta heildaryfirlit yfir nefndarfundi og afgreiðslu mála fyrr en nú alveg á seinustu dögum. Og þá ber allt að sama brunni. Ég var bundinn í fjvn. og átti þess engin tök að koma á þennan nefndarfund. Ég var búinn að mæta á öðrum og þá mættu aðrir ekki og síðan er þetta hespað af og maður veit ekkert meira fyrr en við sjáum þetta nál. En hvað um það, ef andrúmsloftíð er þannig hjá meiri hl. að knýja þetta í gegn og gera um leið útvarpið enn að pólitískri stofnun, meir en það hefur verið, andstætt því sem við vildum á sínum tíma að það yrði síður undir slíkum áhrifum, þá er það fróðlegt út af fyrir sig. Ég tel hins vegar að þessar fréttastofnanir, Ríkisútvarpið og Sjónvarpið, sem slíkar og almennar menningarstofnanir, eigi að vera sem sjálfstæðastar og óháðar pólitískum sveiflum í landinu. Það er mín persónulega skoðun. Það má deila um það endalaust með hvaða hætti við kjósum í þetta ráð eða í stjórn þessarar stofnunar, það má mjög deila um það og hafa verið mismunandi aðferðir við það, en ég tel að við séum að taka skrefið aftur á bak. Það litla skref, sem ég benti á að við hefðum gert 1971, var í jákvæða átt, að gera þessar stofnanir sjálfstæðar og óháðar pólitískum sveiflum og deilum í landinu og ég tel vel að svo hafi verið gert.

Eins og kom fram í ræðu Þorv. Garðars, 3. þm. Vestf., á sínum tíma, þá taldi hann að reynslan þessi 3 ár væri svo stutt að það ætti ekki að hlaupa til og breyta l. þess vegna. Það er sama hvaða útvarpsráð situr, það verður alltaf umdeilanlegt. Þetta eru ósköp venjulegir dauðlegir menn, eins og við hér hv. alþm. Um störf okkar er deilt og um störf þessara manna verður deilt líka. Þá er að leggja hér fram rökstuddar skýrslur raunverulega um þeirra afglöp, ef nauðsynlegt er að reka þá þegar í stað. Það er lágmarkskurteisi við þá. Ég vissi ekki annað en við fengjum a.m.k. tök á því í n. að heyra eitthvað frá þessum mönnum eða útvarpsstjóra, en því var alveg hafnað. Þetta, segi ég, eru hrein ofbeldisvinnubrögð, og ég átel þau mjög harðlega.

Að öðru leyti skal ég ekki lengja þessar umr. vegna þess að þær eru komnar á það svið, sem hefur leiðindabrag á sér.