13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að sjá að hv. n. hefur komið sér saman um afgreiðslu þessa máls. Við 1, umr. málsins vakti ég og fleiri þm. athygli á því, að það nægði ekki að afla fjár til vegarins frá Reykjavík til Akureyrar, ef annað væri skilið eftir sem ekki væri þýðingarminna. Þm. Sunnl. og þm. Austf. gerðu sér grein fyrir því að við svo búið mátti ekki standa. Hæstv. samgrh. hafði sagt, að það bæri að leggja höfuðáherslu á Vesturlands- og Norðurlandsveg. Út af fyrir sig var það rétt, það varð að leggja áherslu á þennan veg, en auðvitað jafnhliða á aðra vegi sem hefðu eins mikla eða meiri umferð. Ég fagna því að það er komin nokkur breyt. á því sem áður var.

Þegar till. til vegáætlunar var lögð fram á s.l. vetri var gert ráð fyrir að verja til hraðbrauta, þ.e. vega með bundnu slitlagi 2 550 millj. kr. á 4 árum. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir að vegir á Suðurlandi fengju aðeins 270 millj. kr. af upphæðinni. Sem betur fer var sú till. til vegaætlunar ekki samþykkt í því formi og hún hefur enn ekki verið samþ. En vegáætlun verður vitanlega samþ. á þessu þingi.

Ég hef rætt við hæstv. samgrh. um þessi mál og um væntanlega vegáætlun og ég geri mér fyllilega vonir um, að hann vilji beita sér fyrir því að vegafénu verði skipt á sanngjarnan hátt. Það er þess vegna sem við sunnlendingar og austfirðingar sættum okkur við að fá að þessu sinni aðeins 1/3 af því fjármagni sem kann að safnast með sölu verðtryggðra happdrættisbréfa. Það er vegna þess að við reiknum með því að fá réttlátan hlut í skiptingunni af hinu almenna vegafé. Þegar talað er um réttlátan hlut, þá er um það að ræða að meta umferðina á vegunum og gildi þeirra fyrir þjóðina. Það er þessi margumtalaði hringvegur sem hér er rætt um. Vegurinn austur til Egilsstaða frá Reykjavík, vegurinn norður til Akureyrar frá Reykjavík, og hv. frsm. minntist á veginn á milli Akureyrar og Egilsstaða. Auðvitað verður þeim kafla ekki gleymt þegar um hringveg er rætt.

Þetta allt út af fyrir sig er ágætt, en þrátt fyrir það þótt þessu frv. sé breytt eins og raun ber vitni, að gera ráð fyrir 2 000 millj. kr. bréfasölu á 4 árum, þá er ekki um hærri upphæð að ræða en það sem er selt af slíkum bréfum á þessu ári. Sparifjármyndunin er mikil. Ætli hún verði ekki nálægt 6 þús. millj. á þessu ári? 500 millj. af þeirri upphæð eru ekki það mikið fjármagn, það há prósenttala að hægt sé með réttu að tala um, að bréfasalan verði til þess að tæma sparisjóði eða bankana. Ég held að það sé nauðsynlegt að við tökum lán hjá okkur sjálfum, innlend lán til nauðsynlegra framkvæmda. Ég held, að við verðum að hugsa okkur vel um áður en við höldum áfram að taka mikið af erlendum lánum, sem auka ekki beinlínis gjaldeyrisöflunina. Það má segja að með því að gera varanlega vegi sé verið að gera ráðstafanir til þess að spara gjaldeyri. En það er eigi að síður spurning hvort það er nægilegt til þess að réttlæta miklar erlendar lántökur, eins og nú er komið. Við þurfum að leggja áherslu á að taka aðeins erlend lán til þeirra mála sem auka erlendan gjaldeyri, sem beinlínis auka framleiðsluna. Það verður að viðurkenna það að skuldasöfnun erlendis er mikil og greiðslubyrðin í vöxtum og afborgunum er þungbær ef eitthvað bjátar á og framleiðslan dregst saman. En erlendar lántökur til framkvæmda, sem auka framleiðsluna, sem auka erlendan gjaldeyri, eiga vitanlega rétt á sér og hlýtur ávallt að verða að athuga á hvern hátt unnt sé að auka framleiðsluna.

Ég held að bréfasala sé rétta leiðin til fjáröflunar í vegamálum, þar sem aðrar leiðir eru lokaðar, til viðbótar því sem Vegasjóður fær með öðrum hætti og skipt er af hv. Alþ. á 4 ára fresti. Það er enginn vafi á því, að þessar höfuðlínur, aðalvegir, Austurvegurinn og Vestur- og Norðurlandsvegurinn, hafa mestan umferðarþunga yfirleitt. Ég vil þó í þessu sambandi minna á að á Suðurlandi eru fleiri vegir sem eru í hraðbrautatölu og með það miklum umferðarþunga að þeim verður ekki haldið við með því að bera lausamöl á þá vegi. Ég get nefnt Eyrarbakkaveg. Ég fór hann nokkrum sinnum á s.l. sumri þannig að hann var í rauninni ófær. Þetta var eins og bárujárn, en ekki eins og venjulegt bárujárn vegna þess að bárurnar voru miklu stærri. Það varð þess vegna að skipta niður í annan gír til þess að halda bílnum á veginum. Þar er umferðin orðin mjög mikil og má ekki dragast að setja olíumöl á veginn. Það þarf að muna eftir því þegar skiptingu fjárins samkv. vegáætlun verður ráðstafað.

Það má einnig tala um Þorlákshafnarveg þar sem umferðin er mjög mikil og þung og vaxandi, þar sem margar þús. tonna, jafnvel tugir þús. tonna af fiski er flutt frá Þorlákshöfn til Suðurnesja. Þessi vegur er mörgum stundum ófær, og þótt allt sé gert til þess að hefla hann og reyna að halda honum færum, þá er umferðarþunginn orðinn það mikill að það er raunverulega ekki hægt. Þegar umferðarþunginn er kominn að vissu marki á malarvegum, þá er ekki unnt að halda þeim ökufærum nema binda slitlagið.

Grímsnesvegur hefur einnig fengið þennan mikla umferðarþunga og beðið er eftir því að koma bundnu slitlagi á hann. Sama máli gegnir um Skeiðaveginn. Það er þess vegna ekki nóg að fjármagn sé útvegað í aðallínuna, þar sem umferð er, miklir hlíðarvegir, eins og á Suðurlandi, eru einnig fyrir hendi.

Það er ekki ástæða til að tala langt mál að þessu sinni út af frv. Það er aðeins ástæða til þess, að lýsa ánægju yfir því, að Alþ. virðist ætla að sameinast um lausn í þessu máli og virðist hafa í huga að skipta því fjármagni, sem til ráðstöfunar verður í Vegasjóði, bæði lánsfé og öðru fjármagni, sem sjóðurinn hefur, réttlátlega niður. Er þá horfið frá þeirri leið sem mörkuð var á síðasta þingi, þegar átti að skammta sunnlendingum 270 millj. til hraðbrauta, þegar ætlaðar voru í Vesturlandsveg 2 280 millj. Það er eðlilegt, þegar um fjármuni er að ræða og hagsmuni heilla byggðarlaga, heilla landsfjórðunga, að þá verði að því spurt, hvað sé sanngjarnt, hvað sé réttlátt og á hvern hátt þær fjárhæðir, sem aflað er, komi að sem bestum notum. Ég er vongóður um að það sjónarmið verði nú ráðandi hér á hv. Alþingi.