13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð við þessa umr. Hér er vissulega stórt mál komið upp, enn stærra en það var þegar frv. var lagt fram, og ég verð að játa að ég hrökk dálítið við þegar 1200 millj. voru komnar upp í 2 000. Á þessu er þó augljós skýring, þar sem annar landshluti er kominn þarna inn í.

Ég vil lýsa því yfir að ég mæli ekki gegn þessu máli og ég unni norðlendingum, austfirðingum og sunnlendingum af heilum hug þeirra umbóta í vegamálum sem þarna er um að ræða. Fullkomið vegakerfi um allt landið er vitanlega það sem við stefnum að, og ég álít að hreppa- eða kjördæmasjónarmið geti verið þar hættuleg og við megum ekki dreifa átakinn um of. Þetta stóra átak nú fyrir þessa landshluta er auðvitað öllum landsmönnum í hag, og við skulum ekki einskorða okkur of mikið við þann landshluta sem við kunnum að hafa sterkastar taugar til og þekkja hvað best til. Hv. 1. þm. Sunnl. sagðist mundu sætta sig við þessa ákvörðun með það í huga að fjárskipting og vegáætlun kæmi réttlátlega niður, og ég verð að segja að ég þakka hv. þm. ekkert fyrir það þó að hann uni bærilega sínum hlut. Ég sé ekki betur en Suðurland og Austfirðir hafi fengið þarna mjög stórum hlut áorkað og ég vil óska hv. 1. þm. Sunnl. innilega til hamingju með það sem honum hefur orðið hér ágengt. Ég veit að Suðurland þarf umbóta við á sínum vegum og ég er í engum vafa um að Austfirðir þurfa þess mjög nauðsynlega.

Frsm., hv. 4. þm. Norðurl. v., sagðist vænta þess að þetta stóra happdrættislán til vegagerðar á Norðurvegi og Austurvegi yrði ekki til þess að raska vegáætluninni. Ég skil orð hans svo að hann ætlist til að vissu marki að þetta komi ofan á það fé sem Norðurlandsvegi kann að vera úthlutað í almennri ráðstöfun vegafjár. Ég tók hins vegar sérstaklega eftir því að þessi hv. þm. sagði að sérstakt tillit hlyti að verða tekið til tengingar Vestfjarða í sambandi við þetta stóra áform og það met ég við hann og legg þunga áherslu á að verði gert. Það er nú svo, að þeim, sem búa við jafnófullkomna vegi og víða gerist á Vestfjörðum, finnst það kannske dálítið súrt í brotið þegar talað er um jafnstórt fjárhagslegt átak til þess að fullkomna vegi með fullkomnu slitlagi, á meðan liggur við að heil byggðarlög þar vestra fari í eyði vegna ófullkomins vegasambands. En þetta á við bæði um Austur-Barðastrandarsýslu og vestasta hluta Vestur-Barðastrandarsýslu. Þarna er að vísu ekki um fjölmenn byggðarlög að ræða. Það eru sveitahreppar, ekki mjög fjölmennir og ekki mjög arðgefandi fyrir þjóðarheildina, það viðurkenni ég, en okkar byggðasjónarmið stefnir nú fyrst og fremst að því að afstýra því að nokkur landshluti fari í eyði vegna þess að hann sé afskiptur af þeim fjármunum sem koma til skiptingar milli hinna ýmsu landshluta. því verður ekki of mikil áhersla á það lögð að við megum ekki horfa á höfðafjöldann þegar við ræðum um mikilvægi byggðaátaka í hinum dreifðu byggðum landsins. Þetta er sjónarmið. Um leið og við höldum á lofti byggðastefnu, — það gera allir flokkar, — þá megum við ekki gera okkur sek um að meta nm of fjölmenni, umferðarþunga á vegum og jafnvel arðsemi og tekjuöflun í þjóðarbúið.

Ég hjó eftir því að hv. 2. þm. Austf. lagði, að ég tel alveg réttilega, áherslu á að átak okkar í vegamálum þyrfti að beinast að hringvegi um allt landið. Ég er honum hjartanlega sammála. En þessi hv. þm. eins og forðaðist að minnast á Vestfirði í þessu sambandi. Ég er nú dálítið hissa, því að ég sem vestfirðingur hneigist til þess og tel það sjálfsagt að taka Vestfirði og Austfirði alltaf í sama númerinu. Ég held að mér mundi aldrei verða það á í umr. um þetta mál að gleyma Austfjörðum, eins og virtist koma fyrir hjá þessum hv. þm. Þegar hann talaði um hringveginn allan, þá byrjað hann á að tala um veg frá Reykjavík til Akureyrar, síðan frá Reykjavík til Egilsstaða um Suðurland og frá Egilsstöðum norður um til Akureyrar og þar með er hringurinn búinn. En Vestfirðir eru nú enn til, og ég vænti þess að þetta sé gleymska, en ekki ásettri andúð gegn Vestfjörðum að kenna, að hv. þm. varð þetta á í sinni ræðu. Sannleikurinn er sá að tenging Vestfjarða er auðvitað ákaflega brýnt hagsmunamál landsfjórðungsins. Þar eru fjórar heiðar sem þurfa ýmist endurbóta við eða nýbygginga á vegum. Það er Þorskafjarðarheiðin, það er Tröllatunguheiðin, það er Laxárdalsheiðin og það er fyrirhugaður vegur um Kollafjarðarheiði sem að vísu er ekki búið að taka ákvörðun um og á þessu stigi málsins nokkuð deildar meiningar um, hvort eigi að velja sem tengingu Vestfjarða við Vesturlandsveginn eða endurbæta og breyta veginum yfir Þorskafjarðarheiði. Hitt er svo annað mál, þegar við tölum um tengingu Vestfjarða við Norðurlandsveginn, þá hefur það komið hér fram áður að við þurfum að fara alla leið suður í Fornahvamm til þess að komast á leiðina norður, þannig að ég vil leggja áherslu á það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. benti á, — náið er nú nef augum, Vestfirðir og Norðurl. v., — að það verði mjög eindregið haft í huga að tengja Vestfirðina beint við Norðurlandið í staðinn fyrir að það þurfi að krækja suður undir Reykjavík til þess að komast á veginn norður. En ég er sannfærð um, að það verði tillit tekið til þessa. Vegáætlun er óunnin, og ég treysti því að þar verði sérstakt tillit tekið til Vestfjarðanna hvað snertir þá stórfjármuni sem nú er verið að bjóða út í happdrættisláni til Norður- og Austurvegar.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram á Alþ. og nú síðast í ræðu hæstv. samgrh., að ég tel happdrættislánin jákvæða fjáröflun. Hún stuðlar að sparnaði og það er landsfólkið sjálft sem leggur sína fjármuni fram í hluti sem það veit hvað er. Við vestfirðingar þurfum ekki að kvarta undan slæmum undirtektum varðandi okkar litla happdrættislán í Djúpveginn. Þau happdrættisbréf runnu út eins og heitar lummur á 3–4 dögum, og við væntum okkur góðs af þeim afgangi af 80 millj. sem munu fara til þess að fullgera Djúpveg á næsta ári. Vitanlega má benda á að slík happdrættisskuldabréf geta verið hættuleg fjárskuldbinding fyrir ríkissjóð, ekki síst á þeim óðaverðbólgutímum sem yfir okkur hafa gengið. En í von um stöðvun á þeirri þróun og ákveðnara og meira jafnvægi í okkar fjármálum, þá held ég að þetta sé leið sem við getum verið ánægð með og sé í alla staði eðlileg.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess að þessi þarfa framkvæmd komist á með sem skjótustum og bestum hætti og allir landsmenn njóti góðs af.