13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Páll Pétursson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallaði upphaflega um Norðurveg. Nú er það farið að fjalla bæði um Norðurveg og Austurveg og ég vil taka það sérstaklega fram að mér þykir það ljómandi gott. Það hafa orðið um það alllangar umr. hér í hv. d. og það hefur verið ofurlítill undirtónn af togstreitu vegna ýmissa séráhugamála hinna einstöku þm. Það er vissulega rétt að það er alls ekki nóg að komast hringinn í kringum landið, við verðum að komast um allar byggðir, og ég lít svo á að þetta frv. verði þróun vegamála og öllum framkvæmdum í vegamálum sérstaklega til framdráttar. Þessi fjáröflun léttir á vegáætluninni, og hún má ekki verða til þess að fé í hana minnki. Það er undirstrikað sérstaklega. Vegáætlunin á að hafa meira fjármagn til ráðstöfunar til annarra verkefna. Og verkefnin eru mörg og það mega engin byggðarlög gleymast, það vil ég sérstaklega taka fram. Það er ekki nóg að tala um hringveg, það mega engin byggðarlög gleymast því að vegamálín eru einn meginþáttur byggðastefnunnar, samgöngumál yfirleitt hafa áhrif á alla lífsafstöðu fólksins í dreifbýlinu, bæði á sviði atvinnumála, menntamála og félagsmála.