13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Forseti. Í orkumálum er nýting jarðhita til hitunar húsa eitt hið mikilvægasta. Hitaveitur hér á landi, fyrst í Reykjavík og síðar annars staðar, hafa þegar sýnt gildi sitt. Nú er orðið alllangt síðan fyrst komu upp hugmyndir um hitaveitu fyrir Suðurnes og hafa þar ýmsar leiðir og möguleikar verið nefndir. Árið 1971 voru boraðar tvær holur í Svartsengi nálægt Grindavik eftir ósk Grindavíkurhrepps og gáfu þær holur góðar vonir. Síðan hafa farið fram athuganir og nú á þessu ári boraðar holur til viðbótar, og er í fáum orðum hægt að segja að þessar rannsóknir og tilraunaboranir hafa gefið mjög góða raun, þannig að nú þykir alveg sýnt að á Svartsengi megi byggja mannvirki sem geti orðið hitaveita fyrir öll Suðurnes.

Í grg. þessa frv. er gerð allítarleg grein fyrir málinu í heild og ég skal því vera fáorður hér í framsögu.

Haustið 1973 var stofnuð samstarfsnefnd Suðurnesja til þess að vinna að þessu máli og hrinda því í framkvæmd. Sú samstarfsnefnd hefur unnið að framgangi málsins og haft samráð við iðnrn. og fjmrn. Er þetta frv. samið í samvinnu þessara aðila og um það fullt samkomulag.

Nú var mér að berast bréf frá samstarfsnefnd sveitarfélaga á Suðurnesjum, en að henni standa 7 sveitarfélög og beina fulltrúar þessara sveitarfélaga því til Alþ. að veita frv. brautargengi og fara eindregið fram á það að það geti orðið að lögum áður en til jólaleyfis alþm. kemur.

Það er rétt að taka það fram að um er að ræða 7 sveitarfélög sem að þessu máli standa. Það eru Keflavíkurkaupstaður, Njarðvíkurhreppur, Gerðahreppur, Miðneshreppur, Hafnahreppur, Grindavíkurkaupstaður og Vatnsleysustrandarhreppur. Það kom til athugunar að sjálfsögðu og umræðu hvort og þá í hve ríkum mæli ríkið ætti að vera aðili að slíkri framkvæmd. Hitaveitur þær, sem áður hafa verið reistar hér á landi, eru eign sveitarfélaganna. Hins vegar kom það snemma til að eðlilegt væri að ríkið væri þarna meðeigandi, m.a. og einkum vegna flugvallarins sem er á þessu svæði og hefur niðurstaðan af þeim samningaviðræðum orðið sú, eins og greinir í 2. gr. frv., að eignarhluti ríkissjóðs skuli vera 40%, en sveitarfélögin skuli samtals eiga 60%.

Í 7. gr. er svo ákveðið um stjórn Hitaveitunnar. Gert er ráð fyrir að iðnrh. og fjmrh. skipi hvor einn fulltrúa í stjórnina og sveitarfélögin, sem eru aðilar að fyrirtækinu, skipi 3 stjórnarmenn og eru svo nánari ákvæði um þetta í gr.

Það er rétt, til þess að menn átti sig á hversu hér er um stórt mál að ræða, að geta þess að þegar þessi væntanlega hitaveita er borin saman við rafstöðvaafl og mælt í megawöttum, þá er gert ráð fyrir því að varmaþörf þessara byggða og flugvallarins sé um 110 mw. og er því gert ráð fyrir að þessi hitaveita geti framleitt þann hita eða þann varma. En 110 mw. eru á stærð við Búrfellsvirkjunina eins og hún var í fyrstu, en hún var 105 mw. Af þessu geta menn nokkuð ráðið um stærð þessa fyrirtækis.

Gert er ráð fyrir því í þeim áætlunum sem hér liggja fyrir, að fyrst sé ráðist í hitaveitu fyrir sveitarfélögin, og eins og menn sjá af grg. og því korti, sem er á bls. 7 í frv., er gert ráð fyrir að 6 sveitarfélög verði í fyrstu aðnjótandi hitaveitu. Það eru Grindavík, Vogar og Vatnsleysustrandarhreppur, Njarðvík, Keflavík, Gerðar, Sandgerði. Einn aðilinn, sem stendur að þessu, Hafnahreppur, er ekki talinn með í þessum áætlunum vegna þess að það er til athugunar, hvort sú leið þætti heppilegri að Hafnahreppur fengi hitun með öðru móti, t.d. með rafmagni, en sú upphitun mundi að sjálfsögðu verða á vegum þessa fyrirtækis, Hitaveitu Suðurnesja. Ég get þessa sérstaklega hér vegna þess að sveitarfélögin eru 7, en í þessum áætlunum og greinargerðum er gert ráð fyrir að á þessu stigi verði þau 6, sem njóti hitaveitunnar. Skýringin er þessi, og er þetta allt í góðu samráði við fulltrúa Hafnahrepps.

Gert er ráð fyrir að varmaþörf sveitarfélaganna sé um 40 mw., en þegar bæði Hafnir og flugvöllurinn koma til, þá mundi heildarvarmaþörfin verða 110 mw. Er gert ráð fyrir að á 2–3 árum megi koma hitaveitu til þessara sveitarfélaga og tengja þau hús sem þar er um að ræða.

Þær rannsóknir, sem fram hafa farið, og borholur, sem þegar hafa verið gerðar, benda eindregið til þess að jarðhitavatnið sé ekki nothæft beint til upphitunar og verður því að nota varmaskipti. Hafa verið gerðar umfangsmiklar tilraunir til þess að finna heppilegustu aðferð í því efni. Ætlunin er að hita upp kalt vatn með jarðhitavatni og gufu í varmaskiptum, og telja þeir sérfræðingar sem að þessu hafa unnið frá Orkustofnun og Fjarhitun að þau mál sé tiltölulega auðvelt að leysa og fjarri því að vera nokkur frágangssök. Í þessum áætlunum, sem hér liggja fyrir, er varmaskiptistöð eða stöðvar að sjálfsögðu innifaldar.

Gert er ráð fyrir því í nýjustu áætlunum, eins og greint er á bls. 6, að stofnkostnaður veitunnar án flugvallarins verði alls um 1800 millj. kr. og er það kostnaðaráætlun, sem gerð var í júní s.l. Í frv. eru veittar heimildir til lántöku og ríkisábyrgða fyrir samtals allt að 2000 millj. kr. og er það í samræmi við þessa kostnaðaráætlun sem ég gat um. Ef þetta mál er borið saman — ekki við rafstöð eins og Búrfellsvirkjunina, heldur t.d. við Hitaveitu Reykjavíkur, þá geta menn einnig gert sér nokkra grein fyrir stærðinni. Þegar Hitaveita Reykjavíkur var tekin í notkun í des. 1944, var afkastageta hennar um það bil 55 mw. eða helmingurinn af því sem Hitaveitu Suðurnesja er ætlað þegar hún er fullgerð. Hitaveita Reykjavíkur hefur hins vegar margfaldast síðan og er í grg. þessa frv. nefnt að afkastageta hennar, áður en hún var stækkuð til nágrannabyggða, þ.e.a.s. miðað við árið 1973, hafi verið um 280 mw. og hafa því afköst hennar á þessum árum frá stofnun og til ársins 1973 um það bil fimmfaldast.

Varðandi þau hitaréttindi, sem hér er um að ræða í Svartsengi, eru þau a.m.k. að verulegu leyti í einkaeign og er gert ráð fyrir eignarnámsheimild í 14. gr. þessa frv. Hins vegar er skýrt tekið fram, og það vil ég undirstrika, það er skýrt tekið fram í grg., um 14. gr. að æskilegt er að samningar geti tekist milli aðila um kaup á jarðhitaréttindum og öðrum réttindum, sem nefnd eru í gr., og reynt verður til þrautar að ná samkomulagi áður en til eignarnáms kæmi.

Ég vænti þess að þetta stórmál fái góðar undirtektir hjá hv. Alþ. Það er ljóst að hitaveita eins og hér er um að ræða yrði til mikils hagræðis og fjárhagslegs gagns fyrir íbúana sem hennar nytu, hefði í för með sér verulegan sparnað, auk þess sem varla þarf fram að taka hversu mikinn gjaldeyrissparnað slík framkvæmd mundi hafa í för með sér fyrir þjóðarbúið. Ég vænti góðra undirtekta og skjótrar afgreiðslu og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.