13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með að þetta frv. er nú fram komið og hafði raunar vænst þess að það gæti komið fram snemma eða þegar í þingbyrjun, en það hefur dregist af einhverjum ástæðum sem mér eru ekki fullkunnar. Þetta er tvímælalaust mjög mikilsvert mál, ég vil segja stórfellt framfaramál fyrir Suðurnesin og hefur í rauninni orðið þeim mun mikilvægara sem olíuverð hefur hækkað meira. Ég skal ekki fara frekari orðum um það, hvílíkt hagræði verður að því þegar byggðirnar á Suðurnesjum fá hitaveitu. En það verður varla ofsögum af því sagt, hversu mikið hagræði og hversu mikill gjaldeyrissparnaður er að slíku.

Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína með að þetta frv. er nú fram komið og aðilar virðast hafa komið sér saman um þau meginatriði sem þarna þurfti um að semja. Þess er því að vænta að þetta mál geti fengið hér greiðan gang í gegnum hv. Alþ.

Ég vildi aðeins í sambandi við þetta mál víkja nokkrum orðum að því atriði, sem hæstv. iðnrh. nefndi í ræðu sinni, að hitaréttindi þau, sem hér um ræðir, og landsréttindi eru eins og hann sagði að mestu leyti í einkaeign. Mér er ekki grunlaust um, að það hafi tafið nokkuð framkomu þessa máls að það hefur verið í nokkurri óvissu hvort tækist að ná eðlilegum samningum við þá aðila sem hér eiga landsréttindi og hitaréttindi, og það er vel að í 14. gr. þessa frv. er heimild til þess að taka slík réttindi eignarnámi ef nauðsyn ber til, en segir þó í aths. við 14. gr., að æskilegt sé að samningar geti tekist milli aðila um kaup á þessum jarðhitaréttindum og öðrum réttindum sem hér er um að ræða. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh., hvort honum er kunnugt um, hvar þessi samningamál eru á vegi stödd eða hvort líkur séu á því að samningar takist við eigendur þessara jarðhitaréttinda á næstunni eða hvort svo geti farið að undirbúningur undir þetta stórmál dragist enn af þeim sökum, ellegar í fjórða lagi að það verði ekki látið dragast dengi, heldur verði notuð heimild 14. gr. þessa frv. sem væntanlega verður að lögum nú fljótlega.

Ég vildi sem sagt, um leið og ég undirstrika að ég tel þetta mjög mikilsvert mál fyrir suðurnesjabúa, spyrja að þessu atriði, hvort hæstv. ráðh. er kunnugt um, hvar þessi samningamál við landeigendur eru nú á vegi stödd og hvort nokkur hætta eigi að vera á því að slíkir samningar tefji þetta mikilsverða mál allra íbúa Suðurnesja.