13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykn. hafa látið orð falla í þá átt, að frv. þetta sé undarlega seint fram komið og það hafi dregist af ástæðum „sem mér eru ekki kunnar“, eins og hv. 3. þm. Reykn. komst að orði.

Þegar hv. þm. kemst svo að orði hljóta það að vera einhverjar ástæður hjá fyrrv. ríkisstj., sem honum eru ekki kunnar, því að eins og hér kom fram var mál þetta á döfinni hjá fyrrv. ríkisstj. og það strax í jan. 1973, hálfu öðru ári áður en fyrrv. ríkisstj. lét af störfum, sem Orkustofnunin skilaði ítarlegri grg. um varmaveitu frá Svartsengi og mælti með að í hana yrði ráðist. Hvers vegna málið hefur dregist svo lengi hjá fyrrv. ríkisstj. er mér ekki kunnugt, en staðreyndin er að þrátt fyrir það þótt það væri svona lengi á döfinni hjá henni, hafði hún ekki lokið þeim undirbúningi, að hún legði málið fyrir þingið. Hins vegar eftir að stjórnarskiptin urðu var þetta mál þegar í stað tekið upp og hefur verið fylgt eftir með þeim hraða, sem unnt hefur verið í samráði og samvinnu ágætri við fulltrúa sveitarfélaganna, svo að þessi ummæli þessara tveggja þm. eru á misskilningi byggð að því er snertir núv. stjórn. En hverjar ástæður eru til þess að fyrrv. stjórn lauk þessu ekki þannig að leggja það fyrir þingið, það veit ég ekki.

Varðandi fsp. hv. 3. þm. Reykn. um viðræður við eigendur hitaréttinda í Svartsengi vil ég taka fram að þær viðræður hafa átt sér stað að undanförnu og .standa yfir. Það eru bæði fulltrúar sveitarfélaganna eða framkvæmdanefndin, sem hafa tekið þátt í þeim viðræðum, auk fulltrúa frá iðnrn. og fjmrn. Hvar þær viðræður eru á vegi staddar er ekki hægt að gefa neinar upplýsingar um nú, nema það mun hafa í vor eða sumar komið fram tilboð af hálfu landeigenda þar, það var fyrir stjórnarskiptin. Nú hefur verið kannað hvort það tilboð eða sú uppástunga stæði, og það mun vera vafasamt, en þessar viðræður standa sem sagt yfir milli fulltrúa ríkisins og sveitarfélaganna annars vegar og landeigendanna hins vegar.

Ég vil undirstrika það, sem tekið er fram í grg. um 14. gr. og ég las hér upp áðan, að æskilegt sé, að samningar um það takist. Ef hins vegar svo fer, að þeir takast ekki, þá er eignarnámsheimild í frv.

Frv. um háhitasvæði ætla ég ekki að ræða hér, það gefst tækifæri til þess síðar að ræða það mál. En ef ætti að afgreiða þessi tvö mál samtímis þýddi það að frv. um Hitaveitu Suðurnesja næði ekki fram að ganga á þeim tíma sem fulltrúar sveitarfélaganna óska eftir, því að í frv. um háhitasvæðin eru ýmis ágreiningsefni eins og kom fram á síðasta þingi, ekki síst frá hálfu ýmissa sveitarfélaga sem vildu ekki fella sig við sum ákvæði þess frv.

Hvort samþykkt slíks frv. mundi greiða fyrir þessu máli varðandi kaup á hitaréttindum og landsréttindum, það veit ég ekki um og skal ekkert um segja, hvort það mundi greiða fyrir. Sannleikurinn er sá, að ef til eignarnáms kemur, veltur það fyrst og fremst á túlkun dómstólanna á stjórnarskránni, hvort eða hverjar bætur landeigendur eiga, en ekki fyrst og fremst á almennum lögum, sem Alþ. setur. Það er fyrst og fremst eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og túlkun þess, sem þar ræður úrslitum.