13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

104. mál, almannatryggingar

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 119 hef ég leyft mér ásamt 4 öðrum hv. þm. að flytja frv. um breyt. á l. um almannatryggingar. Þetta frv. er gamall kunningi héðan úr þingsölum, hefur verið flutt í einu eða öðru formi allnokkrum sinnum og m.a. á síðasta þingi. Það hefur verið borið fram af þm., sem hafa haft skilning á vandamálum íþróttahreyfingarinnar og skyldum málefnum.

Það hefur verið svo í okkar þjóðfélagi, að meir og meir hefur verið gengið í þá átt að tryggja borgarana fyrir áföllum, sem þeir verða fyrir í lífinu, og íþróttahreyfingin hefur í þessu tilliti sett fram þá sanngjörnu ósk af sinni hálfu að fara fram á, að íþróttafólk, sem verður fyrir áföllum vegna íþróttaiðkana, fái bætt það tjón sem hlýst af þeim áföllum. Íþróttahreyfingin hefur rekið sjálfstæða slysatryggingasjóði um nokkur ár, og hafa þeir sjóðir getað leyst úr minni háttar slysatjónum. Þessir sjóðir hafa verið fjármagnaðir með fé íþróttastarfseminnar sjálfrar, enda þótt það fé sé sannarlega ekki til skiptanna. Þessir sjóðir eru hins vegar engan veginn færir um að greiða bætur vegna varanlegrar örorku eða dauðsfalla og það yrði merkasta og mikilvægasta breytingin í þessum efnum, ef slík slys yrðu bætt eins og frv. gerir einmitt ráð fyrir og stefnir að.

Það unga fólk, sem stundar íþróttir, er í blóma lífsins, er að hefja lífsbaráttuna, koma fótunum undir sig og sína fjölskyldu og það er mikið áfall, þegar fjölskyldufaðirinn fellur frá eða verður varanlega öryrki vegna íþróttaiðkana. Og það er engan veginn vansalaust að þjóðfélagið geti ekki stutt við bakið á þeim sem eftir standa. Þetta segi ég vegna þess, að þjóðfélagið og þegnar þess hafa haft skilning á íþróttastarfseminni og viljað stuðla að henni sem mest hjá æskufólki, og því er það eðlileg og réttlát krafa í framhaldi þar af, að þjóðfélagið hjálpi til, þegar til slíkra slysa eða áfalla kemur, eins og oft vill verða við íþróttaiðkanir. Því er það einlæg von mín, að þetta frv. nái nú fram að ganga, en það felur í sér, eins og fyrr segir, að það gangi inn í hið almenna tryggingakerfi, að íþróttamenn, sem verða fyrir slysum, fái tjón sitt, tap sitt og kostnað sinn bættan eins og þegar um önnur slys er að ræða á vinnustöðum og í lífinu almennt. Íþróttahreyfingin hefur fyrir sitt leyti viljað leggja fram fjármagn og hún hefur boðið, að höfuðstólar slysatryggingasjóðanna, sem nú eru starfandi, renni óskiptir til þess að standa undir iðgjaldagreiðslum til að byrja með og samkv. nánara samkomulagi.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að skýra þetta mál öllu frekar. Það er alveg ljóst, hvert efni frv. er. Þetta er gamalt baráttumál íþróttahreyfingarinnar og yrði mikið fagnaðarefni af hennar hálfu, ef hið háa Alþ. sýndi nú þann skilning að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir eða í aðalatriðum í svipuðu formi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til heilbr.- og trn.