11.11.1974
Efri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

12. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 12 flyt ég í þriðja sinn frv. til l. um heimild til að setja á fót vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs. Þetta frv. flutti ég í fyrsta sinn á þinginu 1972–73. Þá fékk það meðferð í n. og inn bárust nokkrar umsagnir. Ég endurflutti frv. á þinginu 1973–74, þá með nokkrum breyt., með hliðsjón af þeim umsögnum, sem borist höfðu, en frv. varð ekki útrætt.

Ég flutti þetta frv. upphaflega vegna þess, að ég var sannfærður um, að nauðsynlegt væri að hafa nokkurn hemil á byggingu vinnslustöðva á þeim sviðum sjávarútvegs, þar sem veiðin er bakmörkuð t.d. að aflamagni. Mér hefur sýnst það óhæfa að takmarka slíkt á einn veg, en hleypa lausu á annan, enda hefur það sýnt sig, að slíkt eru ekki góð vinnubrögð. Sú reynsla hafði m.a. fengist á Ísafjarðardjúpi, þar sem rækju hefur verið aflað um margra ára skeið. Þar bættust stöðugt við nýjar vinnslustöðvar, sem leiddu til þess, að bátum var fjölgað, Þessar vinnslustöðvar þurftu meiri afla sem von er. Fljótlega fór svo, að ásókn á rækjustofninn þar varð allt of mikil, grundvöllurinn undir veiðunum hrundi og hefur síðan smám saman verið að byggjast upp að nýju. Nú er enn komið svo á Ísafjarðardjúpi, að bátar eru orðnir of margir, því að vinnslustöðvarnar þurfa meiri afla, og ég held að óhætt sé að segja að grundvöllur til veiðanna þar sé ákaflega lélegur að nýju.

Nýlegra dæmi um þetta er að finna á Húnaflóanum. Þar hafa strandamenn um áratug stundað rækjuveiðar, oft við erfið skilyrði, en þó tekist að komast yfir erfiðleika og byggt upp veiðarnar þar. Stöðvum hefur síðan fjölgað, á Skagaströnd og á Hvammstanga, sem ekki var óeðlilegt, sérstaklega á Skagaströnd, þar sem atvinna var takmörkuð og nauðsynlegt að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Á s.l. vetri var aflamagn á Húnaflóa takmarkað við um 2000 lestir, en fór upp í 2300. Á þessari vertíð telja fiskifræðingar ekki óhætt að heimila nema 1500 lesta afla. Þá gerist það, að ákveðið var að setja upp nýja vinnslustöð á Blönduósi með tveimur afkastamiklum vélum, og var þá þegar ljóst, að þarna stefndi í sömu átt og gerðist á Ísafjarðardjúpi áður.

Ég fagna því að þetta var stöðvað. Ekki vegna þess að ég unni ekki þeim á Blönduósi þess að auka fjölbreytni síns atvinnulífs heldur vegna hins, að ég er sannfærður um að of mikið álag á rækjuveiðarnar á Húnaflóa getur aðeins leitt til hruns fyrir alla aðila á svæðinu og er engum til góðs.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að unnið er að byggðaáætlun fyrir Norðvesturland. Er þar gert ráð fyrir því að rækjuvinnsla verði fyrst og fremst efld á Ströndunum og á Skagaströnd, en hins vegar grundvöllur lagður að ýmiss konar öðrum iðnaði á Blönduósi. Þarna er verið að reyna að vinna skipulega að uppbyggingu atvinnulífs á þessu svæði. Mér sýnist ljóst, að rækjuvinnsla á Blönduósi hefði gengið þvert á þær hugmyndir, sem uppi eru um öruggt atvinnulíf á Húnaflóasvæðinu.

Ég vil taka það fram, að ég er eindregið því fylgjandi að efla atvinnulíf á Blönduósi eftir þeim leiðum, sem hafa verið taldar skynsamlegastar, og það er von mín, að svo verði gert gegnum auknar lánveitingar úr Byggðasjóði.

Þetta dæmi sannar, svo að ekki verður um villst, að nauðsynlegt er að í lögum séu ákvæði, sem óumdeilanlega heimila ríkisvaldinu einnig að takmarka vinnslu rækju, ekki aðeins að takmarka veiðarnar, heldur einnig að takmarka það kapphlaup, sem getur orðið um vinnsluna og hlýtur að leiða til óeðlilega mikillar ásóknar á rækjuna.

Sumir hafa nefnt þetta höft. Ég hef aldrei skilið til hlýtar, hvað eru höft og hvað eru ekki höft. Það eru eflaust höft að mega ekki aka of hratt eða aka undir áhrifum áfengis, svo að ég nefni eitthvað, og það eru eflaust höft að mega ekki veiða rækju hvar sem mönnum sýnist. En það er nú einu sinni svo í okkar nútímaþjóðfélagi, að nauðsynlegt hefur verið talið að takmarka hinar ýmsu aðgerðir okkar. Það er ávallt gert með háleitari markmið í huga, m.a. þau að tryggja okkur sæmileg lífskjör og þann jöfnuð, sem við allir stefnum að.

Ég held að mikilvægast í þessu sambandi sé samræming á þessum takmörkunum. Það er ekki nóg að takmarka einn þáttinn, en sleppa öðrum lausum. Gæta verður þess, að sömu reglur ríki um alla þætti. Svo er ekki síst — og hefur sannast — um veiðar eins og þær sem hér um ræðir. Ég vísa þessu því algjörlega á bug.

Ég vil einnig segja að það er ánægjulegt, að nú hefur verið lagt fram á Alþ. í hv. Nd. stjfrv. um þetta sama efni. Er gert ráð fyrir heimild til sjútvrn. til þess að takmarka fjölda vinnslustöðva. Ég mun ekki gera það frv. að sérstöku umræðuefni hér nú. Þó get ég ekki annað en lýst nokkurri undrun á því, að þar er brugðið í veigamiklum atriðum frá því, sem fram kom í umsögn sjútvrn. fyrir tveimur árum um mitt frv. Þá var talið nauðsynlegt að fleiri aðilar hefðu þarna hönd í bagga og breytti ég mínu frv. til samræmis við það.

Mér þótti það góð ábending, því að ljóst er, að veiðar sem rækjuveiðar, humarveiðar, skelfiskveiðar almennt og yfirleitt þær veiðar, sem eru takmarkaðar að aflamagni, eru mjög mikilvægur þáttur í byggðaþróun og í mörgum tilfellum nauðsynlegt að taka til athugunar í sambandi við leyfisveitingar hvaða áhrif þær veiðar geta haft á byggðaþróun á viðkomandi svæði.

Því hef ég gert ráð fyrir því í mínu frv., að slík leyfi séu rædd í þriggja manna n., sem í sitji fulltrúar sjútvrn., Framkvæmdastofnunar ríkisins og stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands. Að sjálfsögðu er þar gert ráð fyrir því, að Framkvæmdastofnun ríkisins fjalli um þennan mikilvæga byggðaþátt.

Það er von mín og trú að á þessu þingi verði þetta mál útrætt og ég treysti því að takast megi að samræma þau sjónarmið, sem fram koma í því frv. sem ég mæli hér fyrir og því frv. sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram í Nd.

Að svo mæltu vil ég leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.