14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 17, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr. í þessari hv. d., er þmfrv., sem var flutt í hv. Nd. og hlaut þar afgreiðslu á fundi í gær. Í meðferð málsins í fjh.- og viðskn. hv. Nd. var gerð nokkur breyting á frv. og varð algert samkomulag í n. um málið eins og það fór frá henni. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að gefin verði út á næstunni, svo sem 4 árum, happdrættisskuldabréf vegna vegagerðar til Norður- og Austurvegar allt að 2000 millj. eða ca. 500 millj. kr. á ári. Þetta er gert til þess að hraða varanlegri vegagerð í landinu á því svæði, sem hér er tilgreint. Þetta svæði, sem um er að ræða, nær til flestallra kjördæma landsins, þó að það sé í mismunandi ríkum mæli, en með því er ekki heldur ætlunin, eins og ég greindi frá í hv. d., er ég talaði fyrir vegalagafrv., að dáta þar staðar numið um athugun á þessum málum, heldur hefur Vegagerðinni verið falið að vinna áfram á svipaðan hátt og hún hefur nú gert, bæði við veginn frá Akureyri til Egilsstaða, aðalveginn, og einnig í sambandi við Djúpveginn að halda áfram að tengja þann veg við aðalvegakerfi í hringvegi landsins. En um þann veg er það að segja, að nokkur afgangur er af þeim happdrættisskuldabréfum, sem seld voru á þessu ári, til framhaldsvinnu í þeim vegi og er þar helst um að ræða rannsóknir á væntanlegri tengingu úr Djúpinu á Vestfjarðaveginn, yfir Þorskafjarðarheiði eða á annan hátt. Það er ætlun Vegagerðarinnar og samgrn. að beita sér fyrir því að láta gera heildaráætlun um gerð hringvegarins kringum landið og á þá höfuðvegi, en að sjálfsögðu þýðir ekki þetta það að ekki eigi að sinna einnig vegum innan hinna einstöku héraða. Það verður hins vegar meira mál, eins og þetta reyndar allt, afgreiðslumál í sambandi við vegáætlun, og eru þeir þættir betur á veg komnir en þessi þáttur. Það er hins vegar veruleg trygging fyrir því í sambandi við vegagerðina að fá ákvörðun Alþ. slíka sem þessa til þess að hafa í bakhöndinni í sambandi við þessa framkvæmd.

Ég treysti því að hér í hv. d. verði það eins og í hv. Nd., að það verði samstaða um þetta frv. og afgreiðslu þess geti orðíð hraðað, svo að það megi verða afgr. fyrir þinghlé nú. Ég vil endurtaka það, sem ég hef áður lýst yfir í þessari hv. d. að þeim höfuðþáttum í athugun á helstu vegaleiðum landsins, sem ekki er þegar búið að ljúka frumskoðun á, verður haldið áfram, og e.t.v. get ég skýrt eitthvað betur frá þeim málum þegar vegáætlun verður lögð fram, sem ég vona að geti orðið fljótlega eftir að þing hefur störf hér á nýjan leik í vetur.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta mál. Ég vil endurtaka það að þetta er trygging fyrir þessum framkvæmdum í vegamálum og á ekki að útiloka neina aðra, nema síður sé. Að heildarmálinu á að vinna með skynsamlegum og sanngjörnum hætti. Ég legg því til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.