14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

84. mál, útvarpslög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ekki er ég nú alveg sammála hv. samflokksmanni mínum Ragnari Arnalds um það, að hæstv. ráðh. sé með þessu frv. fyrst og fremst að losna við óþægan svonefndan fóstra sinn úr ráðinn. Ég hygg að það búi annað og meira þar að baki, þ.e. það sem ég hef áður bent á. Það er hins vegar sjálfsagt rétt, að það er ósköp ákjósanlegt og gott að gera það í leiðinni. En ég hygg að grunnástæðan sé nú allt önnur.

Mig langar aðeins til þess vegna þess að ég var hér með svolítið órökstuddar fullyrðingar í gær út af þeim hraða, sem á þessu frv. er, og því skjóta nefndarstarfi, sem hér var leyst af hendi, að þá var ég með nokkurn samanburð við þingið í fyrra varðandi það og fór þá betur ofan í það í morgun og sá, að sá samanburður var allhrikalegur fyrir þetta þing miðað við þingið í fyrra. Þetta er kannske einhver sérstæð reynsla fyrir mig. Ég á nú sæti hér í þrem nefndum og á móti 4 fundum nú voru 15 fundir í þessum sömu nefndum í fyrra, 12 sinnum fleiri frv. frá hæstv. ríkisstj. í fyrra en nú og a.m.k. 20 sinnum lengri fundartími í þessum nefndum, svo að ekki sé meira sagt. því athyglisverðara er það, þegar svona stór mál koma eins og hér virðist vera um að ræða, og nefndarstörf ganga svona fljótt og vel fyrir sig og mál komast svona fljótt í gegnum n. eins og raun ber vitni. Sjálfur er ég búinn að koma hér með tvö frv., og ég hygg að menn séu allsammála báðum. En lítið hefur gerst varðandi þau mál bæði og öðru þeirra var fyrst vísað til umsagnar í gær eftir líklega liðlega 3–4 vikur.

Af því að hæstv. menntmrh. var hér ekki viðstaddur umr. í gær, þá vildi ég nú enn einu sinni koma þeirri áskorun á framfæri við hann að hann endurskoðaði afstöðu sína í þessu máli. Það er nú einu sinni svo, að hver maður á leiðrétting sinna fyrri fljótræðisverka og málið er einu sinni þannig vaxið, að ég hef orðið þess mjög glögglega var, að það er almennt fordæmt. Ég hef orðið þess var, að almenningsálitið er á móti svona aðferðum, hvað sem líður viðhorfum þess til einstakra útvarpsráðsmanna eða meiri hluta núv. útvarpsráðs. Fólk óttast, eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um áðan, að þetta sé bara upphafið að einhverju öðru verra. Og fólk er enn þá það heilbrigt í hugsun og skoðunum, að það er hrætt við slíkar pólitískar ofsóknir sem þetta gæti vel verið upphafið að. Það er skoðun manna yfirleitt, held ég, að þetta frv. hefði betur orðið steinbarn þeirrar svokölluðu húsmóður í Vesturbænum, sem lengi hefur alíð þetta afkvæmi undir brjósti. Hæstv. ráðh. veit mætavel hverjir hafa fjandskapast út í útvarpsráð, meiri hl. þess útvarpsráðs sem hér er greinilega verið að losa sig við. Hæstv. ráðh. veit það jafnvel og ég, að það eru ekki hans flokksmenn, sem hafa hér verið að kvarta, og Tíminn síðustu daga sannar þetta mjög vel. Hann er þögull um málið og vill lítið um það segja. Við vitum það mætavel hverjir það eru, sem hafa verið að óskapast út í þetta mál. Það er íhaldið í landinu, og þar á ég við þetta svarta íhald, m.a. það íhald, sem saknar nú svo sárlega Kanasjónvarpsins síns og finnst kannske að í þessu fái það einhverjar smávægis sárabætur. Og það er einmitt þess vegna sem ég tek það skýrt fram, að mér þykir sárt að sjá hæstv. ráðh. ganga erinda þessara aðila. Ég tel að það sé gert með þessu, fyrir utan það fordæmi sem hér er gefið, fordæmi sem er hættulegt, sem ég er andvígur og ég held að geti orðið fleirum hættulegt eða varhugavert en þeim sem nú eru í stjórnarandstöðu, komið illa við þá. Það eru sviptingar í íslenskum stjórnmálum, og ef menn fara að misnota vald sitt á allan mögulegan máta þannig og fá til þess fordæmi og réttlætingu, þá er ekki gott að vita á hverjum eldurinn brennur heitast þegar öll kurl eru til grafar komin. Þar af leiðandi held ég, að slíkur drengskaparmaður sem hæstv. ráðh. er ætti ekki að taka hér í nokkurn þátt og hreinlega láta þetta mál sofna, eins og Morgunblaðið orðaði það svo fallega fyrir mig núna á dögunum: „svæfa það undir jólasálmum.“ Ég var mjög ánægður yfir þessu orðalagi og ég hygg, að ráðh. ætti einmitt að fara að þessu orðalagi Morgunblaðsins, í þessu eina tilfelli þó.