14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur hv. félmn. tekið til athugunar og hefur n. orðið sammála um að mæla með samþykkt þess óbreytts. Ég sé ekki ástæðu til þess við framsögu að þessu nál. að fara mörgum orðum um efni frv.

Með þessu frv. er Lánasjóður sveitarfélaga efldur. Samkvæmt núgildandi l. eiga að greiðast í sjóðinn 15 millj. árlega úr Jöfnunarsjóði og úr ríkissjóði eftir ákvörðun fjárl. hverju sinni. Þetta var ákveðið fyrir nær 10 árum. En þessi ákvæði hafa reynst ófullnægjandi fyrir starfsemi sjóðsins, og af því er lagt til að auka tekjur sjóðsins á þann veg, að í 1. gr. frv. er svo kveðið á að hin árlegu óafturkræfu framlög til sjóðsins verði í ákveðnu hlutfalli við tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, þ.e. framlag Jöfnunarsjóðs verði árlega 5% af brúttótekjum sjóðsins. Enn fremur er tekið fram að mótframlag ríkissjóðs verði ákveðið í fjárl. hverju sinni og miðað við 2.5% af brúttótekjum Jöfnunarsjóðs.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði um að skuldabréf sjóðsins skuli undanþegin stimpilgjaldi. Þetta ákvæði er hliðstætt ákvæði um aðra fjárfestingarlánasjóði. Í þessu sambandi má vekja athygli á því að lántakendur sjóðsins eru einvörðungu sveitarfélög.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi, sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um efni frv. Það hefur farið ágreiningslaust í gegnum hv. Nd., var afgr. ágreiningslaust í hv.. félmn. þessarar d., og ég vænti þess að það verði samþ. ágreiningslaust sem lög frá þessari hv. deild.