14.12.1974
Neðri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

61. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. var lagt fyrir Ed. Þar hefur sú breyting verið gerð á frv., að lagt er til að skólanefndarmenn við Hótel- og veitingaskólann verði 7 í stað 6, sem var í upphaflega frv., og hef ég ekkert við það að athuga. Í aths. við þetta frv. segir svo:

„Með frv. þessu er lagt til, að nemendur fái aðild að skólanefnd Hótel- og veitingaskóla Íslands. Hafa nemendur látið í ljós ósk um það. Rn. álítur þessa stefnu eðlilega og mun einnig athuga um breytingar í þessa átt við aðra skóla, þar sem nemendur eiga ekki nú þegar svipaða aðild.“

Ég hef í sjálfu sér engu við að bæta þessar aths. og leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.