14.12.1974
Neðri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það frv., sem hér er til umr., felur í sér heimild til stofnunar farskóla, sem eins og segir í 2. gr. frv. hafi að verkefni að kenna þá sjóvinnu sem þörf er talin á vegna náms í stýrimannaskóla og einnig fyrir þá sem hyggja á nám við slíkan skóla, enn fremur að annast kennslu við verknám gagnfræðastigs við unglingaskóla og fjölbrautaskóla, annast kennslu í sjóvinnunámskeiðum fyrir yngri aðila, 13–15 ára, og fyrir aðra þá aðila, t.d. útvegsmenn eða sjómannafélög, sem beita sér fyrir slíkum námskeiðum, og einnig að standa fyrir námskeiðum fyrir leiðbeinendur og kennara, er kennslu í sjóvinnu stunda. Frekari markmiðum skólans, sem fram koma í 8. og 9. tölul. 2. gr., kem ég að síðar.

Það munu að sjálfsögðu margir hafa ástæðu til að spyrja hvaða þörf sé á kennslu í þessum störfum sem til þessa dags hafa að mestu verið sjálflærð, og einnig hvort þörf sé á slíkum lúxus eins og skóla og hvort fyrra fyrirkomulagið geti ekki nægt. Til þess að hv. þm. geti gert sér betur grein fyrir svörum við þessum spurningum, hlýtur hugurinn að leita að því, hvaða þróun hafi verið í þessum málum frá fyrstu tíð. Þótt svo sé orðið áliðið þings sem nú er og tími orðinn naumur fyrir þm. að sinna einstökum málum, þá vil ég samt leyfa mér að gera nokkra grein fyrir þessu atriði frá mínu sjónarmiði, og reyndar er það ekki aðeins mitt, heldur margra annarra, og þá leyfi ég mér líka að vitna til mjög ítarlegs sögulegs ágrips um sjóvinnukennslu, sem birtist í tímariti Fiskifélagsins, Ægi, snemma á þessu ári. Áður en kemur að því verður að hafa í huga að frá fyrstu tíð, frá því að útgerð hófst hér á landi, hefur menntun, ef hægt er að tala um hana sem slíka, og kennsla í sjóvinnu að sjálfsögðu farið fram á útgerðarstöðunum sjálfum, sem frá því fyrsta var bundin við heimilin, og þar lærðu unglingar og nýliðar þau vinnubrögð, sem nauðsynleg voru talin til þess að geta róið til fiskjar í þann tíð á árabátum. Ég þekki það sjálfur og er ekki lengra síðan, enda sonur fiskimanns, sem stundaði þau störf nær alla sína ævi og það var einnig þannig til skamms tíma, að þessi vinna barst inn á heimill slíkra manna fyrir vertíðar, við undirbúning vertíðar og í öðrum hléum. Þannig komust unglingar einnig í kynni við þessi störf. En að sjálfsögðu hefur þessi kennsla að mestu leyti, ef um kennslu er að ræða, farið fram á þann veg, að í sjávarplássunum voru drengirnir og unglingarnir í beinu sambandi við bryggjurnar og bátana, við beitingaskúrana, þar sem þeir lærðu með því að horfa á það, sem fram fór, og með því að fá að taka þátt í þessum störfum, eftir því sem áhugi þeirra leyfði.

Það má segja, að þegar fram í sótti, eftir að vélatíminn og tækniöldin gekk í garð í okkar útgerð, þá hafi orðið þörf á frekara námi í þessu efni. Ég veit hins vegar, að það varð ekki verulegt vandamál fyrr en við komu nýsköpunartogaranna í lok síðustu heimsstyrjaldar. Þá var það mikið af vönum mönnum á þeim skipum, að ég minnist þess, að fyrstu kynni mín og fleiri ungra manna, sem þá ætluðu að leggja þetta starf fyrir sig, voru í því fólgin að leyfa okkur að benda skipstjóra skipsins á, að við óskuðum eftir því, að ákvæðum sjómannalaga væri breytt þess efnis, að menn ættu að taka framförum og þekkingu í starfi, sem auðvitað kom niður ekki aðeins á þeim yfirmönnum skipsins, sem áttu að sjá um þessar framfarir, heldur og á bökum þeirra unglinga, sem leyfðu sér að segja þetta, einfaldlega vegna þess að þeir eru þá látnir vaka sí og æ á frívöktum til að læra þessa sömu hluti. En þannig var þetta til skamms tíma í okkar þjóðfélagi. Það hefur engin bein kennsla farið fram í þessum efnum fyrr en þá Æskulýðsráð Reykjavíkur tók upp formlegt námskeið til þess að kenna unglingum og laða þá að störfum sjóvinnunnar. Og það má segja, að það hafi einnig verið hér í Reykjavík og það svo snemma, að það var árið 1951, að þetta námskeiðahald var tengt skólakerfinu, en þá var það að hinn ágæti skólastjóri, Jón Á. Gissurarson, beitti sér fyrir fastri sjóvinnukennslu við Gagnfræðaskóla verknáms. Þetta starf hefur haldið áfram síðan á vegum æskulýðsráðs og á vegum þessa gagnfræðaskóla, en það hefur aðallega verið Fiskifélag Íslands sem hefur ýtt undir, að þetta starf yrði fært út, og það hefur verið látið ganga lengra. Ég held, að það hafi fyrst tekið verulegan fjörkipp nú fyrir nokkrum missirum, eða í tíð fyrrv. sjútvrh., er hann beitti sér fyrir að veita fé til starfseminnar og framkvæmdin var að nokkru falin Fiskifélagi Íslands. Alla vega fengu þeir, sem gegndu starfinu, aðstöðu þar og gátu beitt Fiskifélaginu og fulltrúum þess til þess að koma því áleiðis, og sú hugsun hefur orðið æ ríkari hjá þeim mönnum, sem hafa áhuga fyrir þessum málum, að tímabært væri að gera þetta að formlegra starfi heldur en áður hefur verið. Ég vilna enn til hinnar gagnmerku greinar um þróun þessara mála, sem kom í umræddu tímariti Fiskifélagsins.

Til þess að hlaupa langt yfir skammt vil ég um leið og ég bendi á þessa þróun og óskir, ekki aðeins fulltrúa, sem eru innan raða Fiskifélagsins og hafa mætt á þingum þess og hafa lagt fram þessar óskir sínar, sem hafa samþ. þær nær einróma, ég vil líka benda á óskir útvegsmanna í þessu efni og ég verð því miður að segja um leið, að það hafi ekki verið þeirra hagsmunasamtök, sem þarna hafa átt stærstan hlut að máli, heldur þeir fulltrúar, sem sitja þing Fiskifélags Íslands, sem þá aftur mér mun ábyggilega verða svarað að séu hinir einu og sömu. En ég minnist þess, að það hefur verið nokkurt áhugaefni sjómannafélaga að koma á og halda við ekki aðeins þessum námskeiðum, heldur og að gera þau fastari í sessi.

Nú mun kannske einhver spyrja: Hvað er það, sem veldur því, að nú er gengið til þess leiks að flytja frv. um stofnun skóla og formlegri kennslu í þessum efnum en verið hefur? Ég hef bent á það, sem kannske voru mín fyrstu kynni af þessu, því að ég var sjálfur ungur maður og var að byrja mína sjómennsku. Það má líka benda á, að hugur minn mótaðist mikið í þessu efni, þegar ég sjálfur var við nám í Stýrimannaskólanum, en þar einmitt sá maður hve mikið vantaði á þá verklegu kennslu sem þeim mönnum, sem þaðan eiga að koma, er nauðsynleg, þótt ég hins vegar haldi því fram að kennslan í þeim verklegu fögum, sem þar var kennd, hafi verið alveg frábær.

Í grg. með frv. mínu kemur m.a. fram áhugi minn strax þegar ég tók sæti á Alþ. að reyna að betrumbæta þessi mál, og að vísu kemur líka þar fram, sem ég tel ekki minnsta atriðið, að reyna að láta felast í þessari kennslu það nám, sem gerði viðkomandi aðilum, og þó sérstaklega væntanlegum skipstjórnarmönnum, mögulegra að leita sér atvinnu þegar og ef þeir þyrftu í land að leita. En það má segja, að þetta sé eina stéttin, sem sjómennsku stundar, sem býr við það að á henni er eiginlega ekki tekið mark fyrr en í land er komið. Hún hefur engan stöðulegan rétt, ef farið er í land að leita. Vélstjórar; matsveinar, loftskeytamenn og aðrir slíkir geta gengið í sambærileg störf í landi og notið launa í samræmi við sinar stöður. En hinir, sem jafnvel hafa verið skipstjórar á okkar stærstu og bestu skipum, verða þá frekar að taka sér önnur störf, þar eð þeir geta ekki notið sinnar menntunar.

Ég hafði líka í huga og hef haft, þegar ég hef verið að hugsa um þetta frv. ýmiss konar námskeið, sem verkafólki standa til boða, bæði verkamönnum og verkakonum og eins iðnverkafólki, sem jafnvel er stutt af opinberu eða hálfopinberu fé, og auðvitað sjóvinnunámskeiðin, sem ég hef þegar getið um, sem haldin hafa verið hér í Reykjavík og nú síðustu missirin víðs vegar um land, m.a. vegna frumkvæðis fyrrv. sjútvrh.

Eitt atriðið, sem hefur fengið mig til þess að flytja þetta frv., er það að ég átti þess kost ásamt öðrum hv. þm., sem hér situr, hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, að skoða skóla í Leningrad, verknámsskóla fyrir hafnarverkamenn og reyndar fleiri, sem var til mikillar fyrirmyndar að mér fannst og einmitt var stofnaður til þess að gera þá hæfari til síns starfa, en líka til þess að gefa þeim færi á framhaldsnámi. Og þar var kannske það, sem æskilegt er, ljóst, að þar gat maður, sem hafði farið í gegnum þennan verklega skóla fyrst, sem var ákaflega vel búinn öllum tækjum, átt kost á því að halda áfram til frekara náms og jafnvel til þess, sem hér á Íslandi hefur verið kallað æðra nám.

Ég hef þegar getið um það, að ein ástæðan er sá mikli áhugi, sem hefur orðið vart við, sérstaklega á síðustu Fiskifélagsþingum og m.a. vegna ályktana þaðan hef ég tekið inn nær óbreyttar tvær samþykktir frá því þingi, sem eru undir tölul. 8 og 9 í 2. gr. frv.

Þá er kannske komið að þeim atriðum, sem ég tel alls ekki veigaminnst, en það eru öryggismál sjómannanna sjálfra. Þegar mér var falið að semja ályktun fyrir síðasta sjómannasambandsþing um öryggis- og slysavarnarmál, sem var svo samþ. með miklum breytingum og hefur reyndar birst að stórum hluta hér á þskj., þá varð mér hugsað til þess að auðvitað væri ekkert betur til þess fallið, og auðvitað hefur það legið fyrir öllum hugsandi mönnum, að ekkert væri betur til þess fallið að forðast slys til þess að mæta þessari nýju þróun, vélmenningunni og tækniþróuninni, öllum þessum tækjum, en kynna þeim mönnum, sem við eiga að vinna, þær hættur, sem geta skapast af þeim. Og þegar við höfum það í huga að það má heita undantekning, ef við opnum fréttablað nú síðustu vikurnar, að ekki sé getið um eitthvert sjóslys, annaðhvort banaslys, strand eða bruna, þá finnst mér, að Alþingi íslendinga eigi að vera komið á það stig að taka þetta mál alvarlegum tökum. Og ef þetta gæti verið leiðin, þá tel ég, að það eigi ekki að vera að tvínóna við að ganga til þess verks að stofna formlega slíkan skóla.

Það er auðvitað fleira, sem liggur til grundvallar, en þetta. Ég t.d. tel skilyrðislaust að það eigi að gefa þeim mönnum, sem að þessum störfum hafa unnið að undanförnu, stöðulegan rétt sem kennurum innan ríkiskerfisins. Það hafa valist til þessara starfa á undanförnum árum hinir prýðilegustu menn og ágætlega verkfærir menn og við eigum ekki að vera að fara fram á þjónustu þeirra til þessara nauðsynlegu starfa öðruvísi en gefa þeim sama rétt og öðrum kennurum innan skólakerfisins.

Ég hef tekið það fram í grg., að þetta frv. er í megindráttum byggt á frv. sem var samið vegna samþykktar áðurnefndrar þáltill., sem ég flutti á sínum tíma ásamt Eggert G. Þorsteinssyni, og þeir, sem frv. sömdu, tóku fram að það væri byggt á starfi sambærilegra skóla í Danmörku og þó kannske sérstaklega í Þýskalandi, því að slíkir skólar, sem eru einn eða tveir í Danmörku, kváðu frekar vera fyrir verslunarskip og flota þeirra. Eins hafa menn meira snúið sér að hinu eiginlega verkefni, vinnunni á fiskiskipunum, í skólunum í Þýskalandi.

Herra forseti. Ég skal ekki vegna tímaleysis deildarinnar nú fyrir jólahlé vera að orðlengja þetta miklu lengur, þótt ég gæti það. En ég er þess fullviss og það eru allir þess fullvissir, að ef slík formleg kennsla kæmist á, þá mundi það auka ekki aðeins öryggi þeirra, sem að þessum störfum vinna, heldur mundi það auka hæfni þeirra sem á skipunum eru. Og ég leyfi mér, herra forseti, að vitna orðrétt í orð sem fylgdu upphaflega frv., sem er að vísu nokkuð mikið breytt núna, en þau eru á þessa leið:

N. varð sammála um, að brýn þörf sé á sérstökum sjóvinnuskóla. Á meðan þjóðin byggir afkomu sína að jafnmiklu leyti og verið hefur á sjávarútvegi og er ekki sjáanlegt annað en svo verði í náinni framtíð, er það lífsnauðsyn þessarar atvinnugreinar, að nægur fjöldi manna fáist til þess að vinna við hana. Frumskilyrðið er að hægt sé að manna skipaflotann hæfum mönnum. Verður að teljast fyllsta ástæða til, að því máli verði sýndur fullur skilningur, og telur n. að sjóvinnuskóli þar sem unglingar, er leggja fyrir sig sjómennsku, fengju tækifæri til að læra algengustu vinnubrögð um borð í skipum, áður en þeir fara til sjós, mundi bæði glæða áhuga þeirra fyrir þessu starfi og gera þá hæfari til þess. Allir, sem sjómennsku hafa stundað, þekkja að fyrir óvana menn fer talsverður tími í að kynnast störfum um borð í skipum og að full vinnuafköst nást ekki fyrr en þau störf hafa verið lærð.“

Ég vil svo að síðustu aðeins taka það fram, að að sjálfsögðu þarf, þar sem mest aðsókn væri að slíkum skóla, að skapa honum aðstöðu og reyndar viðar, á þeim stöðum t.d. þar sem stýrimannaskólanám er stundað. Það vill svo til að það hefur um margra ára skeið, ef ekki áratuga skeið, verið áætlun um að skólahús á lóð Sjómannaskólans hér í Reykjavík yrði reist sem einmitt mundi hýsa hina verklegu kennslu þeirra sjómanna sem þar stunda nám. En það er að vonum ekki að búast við því að það hús sé komið upp meðan skólahúsið sjálft er hvorki vatns- né vindhelt. En þetta er enn á áætlun um framkvæmdir á þessari lóð. Við skulum hafa það í huga líka að þrátt fyrir fleiri hundruð nemendur í þessu húsi þá er ekki hægt að hafa verklega kennslu fyrir nemendur þar nema fyrir 10–15 menn í einu, þannig að það mætti auðvitað gera margt í einu með því að reisa slíkt hús á lóðinni þar. En auðvitað er meginatriðið að þeir, sem við skólann starfa, séu til taks að fara til kennslu hvar sem er á landinu, en að sjálfsögðu þá samkv. fyrirframgerðri áætlun.

Ég hef nú nokkuð farið í gegnum og lýst einstökum gr. enda skýra þær sig sjálfar og kannske ekki ástæða til að gera það frekar fyrr en við 2. umr., ef frv. kemst til hennar. En það auðvitað segir sig sjálft, að það er lagt til jafnframt að hin verklega sjóvinnukennsla við Stýrimannaskólann falli niður eða falli til þessa skóla. Auk þess eiga væntanlegir nemendur, sem fara í þessa skóla, að vera búnir að ljúka námi frá honum. Aðrar greinar skýra sig sjálfar og þykist ég ekki þurfa að hafa fleiri orð fyrir þessu frv., en ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og sjútvn.