14.12.1974
Neðri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess í fyrsta lagi að lýsa þeirri skoðun minni, að sú meginhugsun, sem liggur að baki þessa frv., eigi hinn fyllsta rétt á sér, og vil jafnframt með nokkrum orðum nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli hv. þdm. á því og leggja áherslu á það, hversu verknám almennt séð hefur allt of lengi setið á hakanum innan hins íslenska skólakerfis og þar verður að verða gerbreyting á. Það er vissulega veríð að hreyfa hér merkilegra máli en e.t.v. ýmsir gera sér grein fyrir í fljótu bragði áður en þeir hafa athugað aðstæður. En ég fullyrði, að hér er um að ræða mál, skipulag sjóvinnukennslumála, sem hefur verið tímabært í langan tíma, en verður enn þá brýnna og nauðsynlegra með hverju árinu sem líður vegna breyttra þjóðfélagshátta, eins og hv. flm. vék að í sinn máli.

Ég held að sé óhætt að fullyrða það að verkleg menntun hefur setið á hakanum í hinu íslenska skólakerfi nú um býsna langt skeið. Menn viðurkenna að vísu, alþm., ráðh. og aðrir, nauðsyn hennar í orði og eitt og annað er gert, en það er í flestum tilvikum of lítið og of seint. Verklega menntunin hefur ekki notið og nýtur ekki enn þeirrar viðurkenningar á borði sem henni ber og okkur er lífsnauðsyn að hún njóti ef við eigum að halda áfram að standa undir því þjóðfélagi sem við þó gerum í dag.

Ég vil aðeins í stuttu máli nefna nokkur atriði, þar sem mér virðist að skortur nægilegs skilnings á gildi verkmenntunar hafi komið fram á síðari tímum.

Það er, að ég hygg, áratugur síðan eða meira, að ég ásamt öðrum hv. þm., Geir Gunnarssyni, bar fyrst fram þáltill. um tæknistofnun sjávarútvegsins. Við litum þannig á að þar sem um það væri að ræða að við keyptum og ættum mikinn og dýran skipaflota með margvíslegum tækjum og veiðarfærum sem skiptu ekki tugum, heldur hundruðum millj., þá væri allt eins nauðsynlegt að einhver og ekki nein lítil stofnun hefði með þau mál að gera að framkvæma rannsóknir og miðla upplýsingum í sambandi við öll þessi mál. Við bentum á það og það hefur oft verið gert síðan, að t.a.m. bændastéttin hefði rannsóknastofnanir og hefði marga ráðunauta í sinni þjónustu og engum dytti í hug að fækka þeim, heldur hefði þeim jafnvel fjölgað verulega í tímans rás, en þessu væri sáralítið sinnt að því er snertir sjávarútveginn, þar sem er þó enn stórkostlegri fjárhæðir og verðmæti um að ræða. Síðan flutti hæstv. fyrrv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, frv. um tæknistofnun sjávarútvegsins sem einmitt var byggt á þessari meginhugsun. Því miður fékk það frv. ekki þann byr hér á hv. Alþ., sem full ástæða var til, og verður að teljast furðulegt, að menn skuli ekki hafa enn í dag séð nauðsyn slíkrar stofnunar sem ynni fyrir sjávarútveginn, því að það lítið sem hefur verið gert í þessum efnum. Það hefur verið allt af svo skornum skammti, að það er rétt að það taki að nefna það.

Þá vil ég minna á, að ég hygg að það hafi verið með fræðslulöggjöf þeirri, sem sett var á 5ta áratugnum, sem góðu heilli var ákveðið að verknám skyldi tekið upp í framhaldsskólum. Þessi fræðslulöggjöf mun hafa verið sett 1946, ef ég man rétt. Hún var að þessu leyti og mörgu fleiri ágæt, en því miður hefur orðið miklu minna um framkvæmdir í þessum efnum en ástæða hefði verið til og nauðsyn hefði borið til. Iðnskólana vil ég aðeins nefna í þessu sambandi. Þeir hafa mjög lengi búið við slæman kost af hálfu ríkisvaldsins. Þar hefur í mörgum tilvikum bæði skort húsnæði og tæki og alla aðstöðu og eitt og annað má segja um uppbyggingu þeirrar fræðslu í heild sinni, þótt ég fari ekki út í það í sambandi við þetta mál.

Þá hefur þessi skortur á skilningi í framkvæmd á nauðsyn þess að efla verklega menntun komið mjög óþyrmilega niður á Sjómannaskólanum sem reistur var fyrir um það bil 30 árum. Það hefur komið í ljós nú, jafnvel hinar síðustu vikur, sem margir vissu, að frágangi þessa húss hefur verið ábótavant, og má raunar segja að þeim byggingarframkvæmdum, sem þarna voru fyrirhugaðar, sé engan veginn lokið enn. Árum saman skorti fé til þess að ganga þannig frá skólalóðinni að þar væri ekki stórkostleg slysahætta, og ekki fékkst árum eða jafnvel áratugum saman nauðsynlegt fé til þess að ganga þannig frá þessum skóla að sómasamlegt væri.

Ég nefni í þessu sambandi, hversu seint við fengum tækniskóla og hversu erfiðlega gekk að koma slíkri nauðsynja-menntastofnun á fót. Það verður hins vegar að viðurkenna að nú er komin allgóð undirstaða í því efni og nokkur skriður er á þeim málum, þrátt fyrir það að löngum hafi verið um að ræða allsendis ófullnægjandi fjárveitingar til þeirra miklu framkvæmda, sem þar voru og eru nauðsynlegar.

Fiskiðnskólinn er nú loksins risinn og verður að segjast, að þar var furðuseint byrjað á nauðsynlegu starfi og enn virðist svo að það ætli að ganga allt of seint að byggja upp þá bráðnauðsynlegu menntagrein sem þar er um að ræða. En vissulega má fagna því, að það er þó hafist handa og verður ekki aftur snúið í þeim efnum, heldur verður knúið á um nauðsynlegar fjárveitingar til þess að byggja upp slíka fiskiðnkennslu, eins og hún þarf að vera, svo bráðnauðsynleg sem hún er.

Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta mál að vekja með nokkrum orðum athygli á bréfi sem ég hygg að öllum hv. alþm. hafi verið sent nú fyrir rúmri viku. Það er bréf frá Nemendafélagi Fiskvinnsluskólans, frá Skólafélagi Vélskóla Íslands og frá Skólafélagi Stýrimannaskólans. Ástæðan til þess að ég vek athygli á þessu bréfi nú er engan veginn sú að ég vilji drepa á dreif því máli, sem hér er til umr., sjóvinnuskólanum, með því að koma þar að öðrum atriðum. Ég skal víkja nánar að sjóvinnuskólahugmyndinni hér á eftir. En ég tel fulla ástæðu til þess að nota tækifærið til þess að vekja athygli á og undirstrika nokkur þau atriði, sem eru í bréfi þeirra ungu námsmanna og áhugasömu manna sem hafa sent alþm. sinar aths. að því er snertir það hvernig búið er að þeim skólum þar sem þeir stunda hið allra nauðsynlegasta nám. Ég skal ekki lesa mikið úr þessu bréfi en vil aðeins — með leyfi virðulegs forseta — lesa stuttan kafla, þar sem segir svo:

„Nú liggur fyrir Alþ. fjárlagafrv. fyrir árið 1975. Með þessu bréfi viljum við nemendur Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði, Vélskóla Íslands og Stýrimannaskólans í Reykjavík mótmæla harðlega, hversu þessum skólum er ætlaður lítill hlutur á fjárl. fyrir árið 1975. Ástæðurnar fyrir mótmælum okkar er að finna í því, sem hér fer á eftir“ — og skal ég aðeins vitna til þessara atriða sem nú segir:

„Í fjárl. fyrir árið 1974 var áætlað, að 30 millj. færu í byggingarframkvæmdir við Sjómannaskólann í Reykjavík, en sú staðreynd blasir við að ekki ein einasta króna hefur farið í þessar framkvæmdir. Ástæðan fyrir því, að ekkert hefur verið byggt, er sú, að ekkert hefur verið gert af hálfu ríkisvaldsins til að hefja byggingarframkvæmdir. Samkv. upplýsingum fulltrúa í menntmrn. eru þessar 30 millj. enn til, en í fjárlagafrv. fyrir árið 1975 er þess getið, að þessi fjárhæð verði dregin til baka. Í samtali, sem við áttum við fulltrúa þann, sem áður er greint frá, kom fram eftirfarandi í sambandi við fjárlagafrv. fyrir árið 1975:

Stjórn Sjómannaskólahússins sendi beiðni um 93 millj. kr. til byggingarframkvæmda árið 1975 til menntmrn. Í meðförum rn. lækkar þessi upphæð niður í 43 millj. kr. Frá menntmrn. fer síðan beiðni til fjmrn. upp á 43 millj. Fjármálasérfræðingar þess rn. samþykktu síðan aðeins 3 millj. kr. til þessara byggingarframkvæmda.

Skólanefnd Fiskvinnsluskólans fer fram á 5.5 millj. kr. í stofnkostnað í sínum till. Í fjárlagafrv. eru honum veittar 3.5 millj. Nú liggur fyrir beiðni frá skólanefndinni um 12 millj. til stofnkostnaðar skólans. Er það krafa okkar, að sú beiðni verði tekin til greina,“ segja hinir ungu menn.

Í sambandi við þetta síðasta atriði, sem ég las úr bréfi þeirra, skal þess getið að í þeim brtt. hv. fjvn., sem verið var að útbýta, sé ég að er hækkun til Fiskvinnsluskólans úr 3.5 millj. í 6.5 millj. kr., og ber vissulega að meta þá viðleitni sem þar kemur fram.

Ég skal ekki lesa meira úr þessu bréfi, þar sem allir hv. alþm. hafa, að ég hygg, fengið það, en vil aðeins undirstrika það að hér kemur fram, að því er mér sýnist, töluvert rökstutt enn eitt dæmið um það hvernig fjárveitingavaldið á líðandi og liðnum tíma hefur vanmetið nauðsynina á hinni allra brýnustu og bráðustu verkmenntun sem við megum síst án vera.

Ég skal svo snúa mér aðeins aftur að frv. því, sem hér er til umr., frv. um Sjóvinnuskóla Íslands, og ég vil þá enn undirstrika það að kennsla í sjóvinnu er okkur og hefur reyndar lengi verið brýn nauðsyn. Sú nauðsyn verður brýnni með hverju ári sem liður vegna hinna breyttu þjóðfélagshátta sem við búum við. Slík kennsla kostar að sjálfsögðu töluvert, en við verðum að vera menn til þess að standa undir þeim kostnaði ef við ætlum að halda áfram að byggja á sjávarútvegi að mjög verulegu leyti það þjóðfélag, sem við höldum hér uppi.

Það geta að sjálfsögðu verið eitthvað skiptar skoðanir um það hvernig haga beri sjóvinnukennslunni í einstökum atriðum, og ég mun ekki fara langt út í þá sálma að gera aths. við það frv. sem hér er um að ræða. Mér sýnist að margt sé vel um það, en tel þó ástæðu til þess fyrir þá n., sem fær það til meðferðar og ég vona að taki málið alvarlega, að vinna að því sem að mínu viti er mikil nauðsyn, að tengja betur saman þá kennslu í sjóvinnu sem hér er fyrirhuguð, og þá kennslu, sem nauðsynlegt er að taka upp í framhaldsskólum landsins, í verkmenntum ýmsum og þá ekki hvað síst sjóvinnu. Það er enginn efi á því að hin gamla hugmynd um verknámsskóla þarf að komast miklu víðar og miklu betur til framkvæmda en orðið er enn í dag. Kennsla í sjóvinnu á vissulega, a.m.k. á öllum hinum stærri og fjölmennari stöðum, að verða gildur þáttur í þeirri verkmenntun sem unglingarnir eiga að mínu viti að fá í skólunum, hinum almennu framhaldsskólum. En þrátt fyrir það þótt að því verði stefnt, þá hygg ég að það sé full nauðsyn á einhverjum föstum punkti í sambandi við sjóvinnukennsluna og þá m.a. til þess að mennta þá menn sem kæmu til með að kenna sjóvinnu á hinum ýmsu stöðum, þar sem ég vænti þess að hún verði tekin upp sem beinn líður í skólakerfinu.

Ég vil sem sagt mæla eindregið með því, að þetta frv. verði athugað gaumgæfilega, og þakka hv. flm. fyrir að flytja það nú og fyrir áhuga hans á þessum málum bæði fyrr og síðar. Ég vil svo að síðustu, án þess að það skipti miklu máli, þar sem það kemur ekki fram í grg. frv. og kom ekki heldur fram í ræðu hv. flm., minna á að þetta mál, sem hér er hreyft, þ.e.a.s. skipuleg kennsla í sjóvinnu, hefur verið áhugamál mitt um langan aldur. Ég hygg að frv. um sjóvinnuskóla hafi verið annað hvort fyrsta eða annað málið, sem ég lagði fram á hv. Alþ., þegar ég kom hér fyrst inn fyrir dyr fyrir rúmum 20 árum eða árið 1953. Þá naut ég við undirbúning slíks frv. mikilvægrar aðstoðar m.a. þess kennara, sem þá kenndi verklega sjóvinnu við Stýrimannaskólann, Ársæls Jónassonar, og fleiri manna og lagði frv. um þetta efni fram hér á Alþ. Því miður var ekki mikið hlustað á það mál þá, nægur skilningur var þá ekki fyrir hendi og málinu var vísað frá með rökstuddri dagskrá.

Ég vænti þess að á þeim rúmum 20 árum, sem síðan eru liðin, hafi skilningur bæði hv. alþm. og landsmanna almennt á gildi og nauðsyn þess að mennta unga menn til vinnubragða bæði á sjó og við sjávarsíðu, vaxið, og svo mikið er víst, að nauðsynin á því að koma góðu skipulagi á slíka kennslu hefur stórvaxið. Ég vil á engan hátt vanmeta það sem gert hefur verið á síðustu árum að því er varðar kennslu í sjóvinnu. Sú viðleitni er vissulega lofs- og þakkarverð, en hér þarf tvímælalaust að gera enn betur og miklu betur en enn þá hefur verið gert.

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að vitna til lítils kafla í þeirri grg. sem fylgdi frv. mínu frá 1953, þar sem ég hygg að það, sem þar segir, sé enn í fullu gildi og nauðsynin sé, eins og ég sagði, jafnvel enn brýnni nú en hún var þó fyrir rúmum 20 árum. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslendingar hafa átt því láni að fagna að eiga röska og vel verki farna sjómannastétt. Íslenskir sjómenn hafa sýnt með afköstum sínum og öllu starfi, að þeir hafa staðið stéttarbræðrum sínum í öðrum löndum fyllilega á sporði, og er þá ekki fast að orði kveðið. Svo hefur jafnan verið á liðnum tíma að eldri kynslóð kenndi hinni yngri öll algeng störf, bæði til sjávar og sveita. Þeir æskumenn, sem ólust upp við sjávarsíðu, hófu þegar á ungum aldri þátttöku í störfum hinna fullorðnu og kynntust því snemma öllum verksháttum til sjávar. Var það algengt, að drengir kynnu algeng sjávarstörf um fermingaraldur eða fyrr og töldust því fullgildir í skiprúm þegar er þeir höfðu líkamsburði til. Reyndist þeim auðvelt að ná fullum tökum á starfinu þegar undirstaðan hafði verið rétt lögð og nægilega snemma.

Á síðari tímum hafa orðið gagngerar breytingar á íslensku þjóðlífi, ekki síst vegna aukinnar tækni og sérhæfingar sem einkennir okkar tíma. Hins er ekki að dyljast, að þróun þjóðfélagsins hefur átt drjúgan hlut að því að beina hug og hönd æskufólks frá framleiðslustörfum og í aðrar áttir. Nú er sem betur fer af sú tíð er vel gefnir unglingar áttu þess engan kost að afla sér æskilegrar þekkingar og fræðslu í þeim menntum sem á bók verða lærðar. Hitt þykir mörgum nokkurt íhugunarefni hvort ekki sé nú stefnt út í gagnstæðar öfgar. Er sú skoðun tekin að ryðja sér til rúms að naumast verði öllu lengur við það unað að bóknám sé allsráðandi í skólum og börn og unglingar kynnist að litlu eða engu leyti hagnýtum störfum við atvinnuvegi landsmanna. Svo er ráð fyrir gert í hinu viðamikla fræðslukerfi sem nú hefur gilt um skeið,“ segir hér, „að innan ramma þess sé verknámsdeildum ætlað nokkurt rúm. Hins vegar verður enn lítið vart verknámsdeilda þessara og mun þess að öllum líkindum langt að bíða, að þær komist á fót víðs vegar um land og í sæmilegt horf.“ Enn fremur segir:

„Þess gætir nú í æ ríkari mæli að ungir menn veigra sér við að gera sjómennsku sér að atvinnu, svo sem brýna nauðsyn ber þó til eigi okkur íslendingum að auðnast að halda hér uppi menningarþjóðfélagi og standa efnahagslega á eigin fótum. Hefur sú þörf þó aldrei verið brýnni en nú að sjómannaefni kynnist þegar í æsku hinum ýmsu hliðum sjómennskunnar. Því er svo farið um sjómennsku sem aðrar starfsgreinar að stóraukin tækni hefur gert það nauðsynlegt að nútímasjómaður hafi til að bera margvíslega kunnáttu og þekkingu í starfi, ef hann á að geta talist fullgildur verkmaður og vera fær um að skipa rúm sitt með sæmd.“

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. á því að lesa meira úr þessari gömlu grg., en vil aðeins segja það, að svo réttmæt sem ég hygg að þessi ummæli hafi verið fyrir 20 árum, þá eiga þau e.t.v. enn þá brýnna erindi nú, þar sem tækninni hefur þó a.m.k. fleygt fram á þeim tíma, eins og allir vita.

Ég vil svo ljúka þessum orðum með því sem ég hóf máls á, að mæla fastlega með því að þetta frv. verði athugað gaumgæfilega og nú komist hið fyrsta fullur skriður á það að koma þessum málum þannig fyrir að sómasamlegt geti talist og til nokkurrar frambúðar. En jafnframt vil ég að það verði mín síðustu orð í sambandi við þetta mál að mat okkar alþm. og þjóðarinnar á hinni verklegu menntun þarf að breytast. Það þarf að verða með þeim hætti, að verkleg menntun sé talin a.m.k. fyllilega jafnnauðsynleg og jafnrétthá og sú menntun sem einungis verður lærð á bók.