14.12.1974
Neðri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr., aðeins segja hér nokkur orð.

Ég fagna því að þetta frv. er flutt, og er því sammála í öllum höfuðatriðum og get tekið fyllilega undir það með hv. flm. og raunar með síðasta ræðumanni, að við íslendingar höfum gert allt of lítið að því á undanförnum árum að auka verknámið. Það hefur í rann og veru verið útundan og er sannarlega kominn tími til þess að gera hér verulegar breytingar, og þetta frv. er að vissu leyti spor í rétta átt.

Hv. síðasti ræðumaður minntist nokkuð á tæknimál sjávarútvegsins sem að vísu eru ekki beint í sambandi við þetta mál. Það er mjög vandasamt mál, hvernig á að bæta þar úr. Það eru allir sammála um að það þurfi að koma betri og fullkomnari skipan á þau mál. Það frv., sem var flutt um nýja tæknistofnun af fyrrv. sjútvrh., náði ekki fram að ganga, — ég held, að það hafi verið flutt á tveimur síðustu þingum, — vegna þess að það eru nokkuð skiptar skoðanir um á hvern hátt á að leysa þessi mál. Ég var á fundi fyrir tveimur dögum með mörgum framámönnum í sjávarútvegi og þar voru m.a. rædd tæknimál sjávarútvegsins. Þar voru menn ekki á eitt sáttir hvernig ætti að leysa þau og voru afar skiptar skoðanir bæði hjá fulltrúum sjómanna, fulltrúum útgerðar, fulltrúum stærsta stofnlánasjóðs sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóðs, og fleiri aðilum. En ég hef mikinn hug á því að reyna að leita eftir nánara samstarfi allra þessara aðila um það að þeir geti staðíð að sameiginlegri tillögugerð til þess að leysa þennan mikla vanda, sem ég tek alveg undir að er fyrir hendi, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um. Það eru aðeins tvö atriði í sambandi við þetta frv. sem ég vildi aðeins minnast á með það í huga að hv. þn., sem fær það til afgreiðslu athugi í fullri vinsemd.

Það hefur verið mikið rætt um það á síðustu árum, hve margar stofnanir ættu aðsetur hér í Reykjavík og það þyrfti að dreifa stofnunum um landið. Um þetta var mikið rætt á tíma fyrrv. ríkisstj., sérstaklega þó í byrjun valdatímabils hennar. Það var minna farið að ræða um þetta í lokin, hvernig sem á því stendur. En ég vil segja það sem mína skoðun, að það hljóta að vera á því afar miklir erfiðleikar að flytja gamlar og rótgrónar stofnanir héðan burt úr Reykjavík með öllu sínu starfsliði, skipa starfsmönnum þeirra að flytjast til þess staðar sem stofnuninni er ætlað aðsetur eða segja upp ella. Hitt er svo annað mál, hvort við eigum að halda áfram alltaf á þessari braut og tengja heimilisfang allra slíkra stofnana við Reykjavík. Það er sú aths. sem ég vil gera við 1. gr. þessa frv., að heimilt skuli að stofna farskóla, sem heiti Sjóvinnuskóli Íslands, og hafi hann heimilisfang í Reykjavík. Ég er ekki sannfærður um að það sé brýn nauðsyn á því að heimilisfang farskóla af líku tagi og hér er átt við frá hendi flm. sé í Reykjavík, þó að í Reykjavík sé Stýrimannaskóli Íslands. Vildi ég mjög eindregið benda á að menn athugi þetta nánar og í fullri vinsemd.

Svo er annað atriði sem skiptir þetta frv. í raun og veru töluverðu máli þó að það geti ekki leyst þann vanda. Það eru þau kjör sem þeim mönnum eru ætluð sem búnir eru að ljúka námi á þessum námskeiðum. Eiga þeir að hafa sömu kjör, þegar þeir koma um borð í skipin, og unglingar sem ekkert hafa lært og koma alls ófróðir um alla vinnu á sjónum? Þetta er mál sem skiptir sjómannasamtökin og samtök útvegsmanna mjög miklu máli. Ef við ætlum að gera alvöru úr því að auka verknámið, stofna sjóvinnuskóla, eins og þetta ágæta frv. gerir ráð fyrir, þá verður að fylgja því að menn hafi áhuga á því að fara í þetta nám af því að það verði litið svo á þá, þegar þeir koma til starfa, að þeir eigi að bera meira úr býtum en sá sem ekkert hefur kynnt sér, en skráir sig aðeins í skip. Þetta held ég að hafi mjög mikið að segja í sambandi við að gera þetta málefni virkt, þannig að áhugi ungra manna verði meiri að stunda nám í sjóvinnuskóla ef þeir eiga að njóta þess eitthvað þegar þeir koma út í lífið og hefja sína vinnu. Ég vil líka benda á við 1. umr. að það getur vel verið, að n. sjái leið til þess að ræða þetta mál við forustumenn sjómannasamtakanna og forustumenn útvegsmanna og brýna fyrir þeim að það sé ætlun og vilji Alþ. að koma þessum námskeiðum á og hér þurfi einnig að gera breytingar.