14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

117. mál, Rafveita Ísafjarðar

Fjmrh:

(Matthías Á. Mathiesen): Hæstv. forseti. Á þskj. 148 er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán fyrir rafveitu Ísafjarðar, en Rafveita Ísafjarðar hefur ákveðið að festa kaup á 2100 kw. dísilrafstöð. Kaup þessi eru talin nauðsynleg til þess að tryggja frystihúsum á Ísafirði og reyndar viðar um Vestfirði næga raforku komi til truflana á afhendingu orku frá Mjólkárvirkjun. Er þess skemmst að minnast að á s.l. ári fór sæstrengur frá Mjólkárvirkjun í sundur þannig að til stórtjóns horfði á birgðum frystihúsanna á Ísafirði. Seljendur dísilstöðvar þeirrar, sem hér um ræðir, óskuðu ríkisábyrgðar á láni sem fylgir stöðinni. Ríkisstj. vill fyrir sitt leyti greiða fyrir því að kaup á þessari stöð geti átt sér stað og er því lagafrv. þetta lagt fram.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Vonast ég til þess að hv. þdm. verði við þeirri beiðni að hér geti verið um skjóta afgreiðslu að ræða svo að lagafrv. þetta geti öðlast lagagildi áður en þm. fara í jólaleyfi.