14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Það var sérstaklega ein gr. þessa lagafrv. sem mig langaði til að benda hv. þn., sem það mun fá til meðferðar, á, en það er 10. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðh. skipar 4 menn í skólanefnd samkv. tilnefningu eftirtalinna aðila: Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og fimmta manninn samkv. tilnefningu Fiskifélags Íslands og er hann formaður skólanefndar.“

Mér dettur í hug og þá sérstaklega með tilliti til 4. liðar 2. gr. frv., sem hljóðar svo — með leyfi forseta — um markmið skólans:

„Að annast kennslu í sjóvinnubrögðum við verknám gagnfræðastigsins við unglingaskóla og fjölbrautaskóla hinna stærri staða í samvinnu við viðkomandi fræðsluyfirvöld.“

Ég sé ekki betur en það væri eðlilegt og nauðsynlegt með tilliti til 4. gr., sem ég vil sérstaklega taka undir, að skólanefnd væntanlegs sjóvinnuskóla yrði skipuð einnig fulltrúa frá hinu almenna grunnskólastigi. Ég tel það ákaflega mikilvægan þátt og vil leggja áherslu á að þessi sjóvinnuskóli eða þessi sjóvinnukennsla komi inn í hið almenna nám unglingaskólanna að svo miklu leyti sem hægt er. Það er satt best að segja að hugmyndin um sérverknámsskóla hjá okkur hefur ekki tekist sem skyldi og þess vegna tel ég rétta þá stefnu að færa hina verklegu menntun og almenna verkþjálfun með eðlilegum hætti inn á námsskrá skólanna við hlið annarra námsgreina, en skipa ekki verknáminu, eins og hingað til hefur verið gert, í óþarflega miklum mæli í sér bása. Þessi sjóvinnukennsla hefur í rauninni farið fram viða í helstu útvegsbæjum landsins og gefist mjög vel. Þar hafa veríð nýttir kennslukraftar, sem fyrir eru á staðnum, verkvanir menn sem vita, hvernig á málum skal halda þar, og ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að stefnt yrði einmitt í þá átt að hver staður yrði sem mest sjálfum sér nógur með alla útvegun kennslukrafta frekar en að stýra þessu með ráðleggingum og stjórnun héðan frá Reykjavík. Vil ég taka þar mjög eindregið undir orð hæstv. sjútvrh., að það yrði skoðað hvort nauðsynlegt er að binda þetta Reykjavík fremur en öðrum stöðum á landinu, sem mikilvægir eru í sjávarútvegi og fiskveiðum.

Það er aðallega um þetta atriði, sem ég vildi koma ábendingum til hv. sjútvn., um 10. gr. Ég vil lýsa sérstöku samþykki mínu við 8. gr. sem fjallar um slysa- og öryggismál í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands. Það hafa vissulega orðið þeir atburðir og verða þeir atburðir sem minna okkur á að leiðbeiningar og varnaðarráðstafanir í þessu efni eru mjög nauðsynlegar.