14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

91. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Frv. þetta á þskj. 100 um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt flytja auk mín þm. Karvel Pálmason, Benedikt Gröndal og Eyjólfur Sigurðsson. Efni frv. er það að nýr stafliður bætist aftan við 10. gr. laganna. Tilgangurinn er sá, að tekjur verkafólks í fiskiðnaði fyrir nætur- og helgidagavinnu verði undanþegnar tekjuskatti. Jafnframt er lagt til í 2. gr. frv. að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu skatta til ríkissjóðs fyrir skattárið 1974.

Verkafólk í fiskiðnaði býr jöfnum höndum við minna atvinnuöryggi en starfsfólk í flestum öðrum atvinnugreinum og meira vinnuálag, einkum á ákveðnum árstímum, en hollt getur talist. Í mörgum verstöðvum ríkir skortur á vinnuafli við fiskvinnslustörf, þannig að vinnuálagið á því fólki, sem við fiskvinnu starfar, keyrir úr hófi fram. Þarf þá að leggja nótt við dag til þess að bjarga verðmætum sjávarafla og er oft á tíðum unnið jafnt helga daga sem virka um langa hríð, einkum og sér í lagi á þetta sér stað í smærri kaupstöðum við sjávarsiðuna og sjávarþorpum. Kvartar verkafólkið á þessum stöðum undan hinu gífurlega vinnuálagi en gengst þó undir það af tveimur meginástæðum: í fyrsta lagi vegna þess að fiskvinnslustörfin eru meðal lægst launuðu starfa í þjóðfélaginu og verkafólkið í þeirri atvinnugrein þarf á öllu sínu að halda til þess að hafa í sig og á, og í öðru lagi vegna þess viðhorfs, sem er ríkjandi í verstöðvum landsins, að verðmætum sjávarafla verði að bjarga frá skemmdum svo að þjóðarbúið geti til fulls notið ávaxtanna af vinnslu auðlinda hafsins.

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því við forseta, að þetta mál yrði tekið fyrir að viðstöddum hæstv. fjmrh. Það kemur fram í ræðu minni síðar, hvers vegna ég vil að hæstv. ráðh. sé við.

Ég hef kynnst þessum málum, sem hér um ræðir, töluvert, bæði af eigin reynslu af störfum í fiskiðnaði, en eins og flestir skólapiltar úr sjávarplássum stundaði ég almenna verkamannavinnu og þá fyrst og fremst fiskvinnu í sumarleyfum mínum, bæði á Patreksfirði og Ísafirði, og einnig af síðari kynnum mínum af verkafólki í fiskiðnaði. Mikið vinnuálag á þessu fólki hefur verið landlægt um margra áratuga skeið, en sú breyting hefur orðið á síðari árum í þeim sjávarplássum, sem ég þekki best til, sjávarplássunum á Vestfjörðum, að í stað þess, að þetta mikla vinnuálag var áður tímabundið, bæði við vertíðirnar og eins milli landana, þannig að álagið var sveiflukennt, fólk fékk nokkurt hlé til hvíldar inn á milli, þá er ástandið nú svo að þetta mikla vinnuálag er nokkuð jafnt árið um kring. Ástæður þess eru ýmsar, t.d. aukin fjölbreytni í vinnslu sjávarafurða, eins og með rækjuvinnslunni, sem skapar mikla vinnu milli vertíða, og eins hitt, að hin mikla fjölgun togara, sem gerðir eru út á bolfiskveiðar allt árið um kring, hefur mjög aukið atvinnuna í landi.

Á ferðum mínum um Vestfjarðakjördæmi bæði í vor, sumar og í haust varð ég áþreifanlega var við þetta. Á svo til öllum stöðunum var verulegur skortur á vinnuafli í fiskvinnslunni með þeim afleiðingum að fólkið þurfti að leggja nótt við dag til þess að hafa undan og vinna um helgar ekkert síður en virka daga Fólkið var orðið dauðþreytt, bókstaflega útkeyrt, og enda þótt hin mikla atvinna skapaði því öryggi, sem það fagnaði og er nauðsynlegt, þá kvartaði það undan hinu óhóflega álagi. Bæði verkstjórar og verkafólk sögðu mér, að meginástæðan fyrir því, að fólkið fengist til þess að gangast undir þetta mikla álag, væri það viðhorf, sem ávallt hefur ríkt í sjávarplássum á Íslandi, að allt yrði að gera til þess að bjarga verðmætum sjávarafla frá skemmdum svo að þjóðarheildin gæti notið þess til fullnustu sem sjórinn legði henni til.

Þótt þjóðarbúinu sé mikill akkur í því að þetta verkafólk leggi á sig svo mikla vinnu til þess að færa henni björg í bú og standa undir lífsafkomu annarra atvinnustétta fer ekki hjá því að þetta mikla vinnuálag hefur óheillavænleg áhrif bæði á félagslíf og almennt menningarlíf úti á landsbyggðinni, en þó fyrst og fremst á heilsufar fólksins, sem undir það þarf að gangast.

Þegar svo mikið vinnuálag eins og hér um ræðir, er orðin regla, en ekki undantekning, fer ekki hjá því, að hætta er á varanlegu heilsutjóni af þess völdum. Þessu atriði þykir mér ekki nægilegur gaumur gefinn og væri jafnvel ástæða til þess að láta kanna það sérstaklega hvort þessi langvarandi þreyta verkafólksins við sjávarsíðuna væri ekki þegar farin að ógna heilsufari margra í þess hópi.

Flm. þessa frv. telja, að þjóðarbúið hafi ekki sem skyldi metið vinnuframlag þessa fólks og það óhóflega vinnuálag sem það leggur á sig í þágu heildarinnar. Bæði er, að störf þess eru illa launuð, og svo hitt að hið opinbera, ríki og bæjarfélög, hirða til sín í opinber gjöld bróðurpartinn af launum þess og þá fyrst og fremst af þeim viðbótarlaunum sem þetta fólk hlýtur fyrir hina óhóflegu aukavinnu. Kvartar fólkið réttilega undan því og þykir það lítil viðurkenning fyrir það viðhorf sitt að leggja á sig vinnu langt umfram það sem tíðkast hjá flestum öðrum atvinnustéttum til þess að bjarga verðmætum fyrir þjóðarbúið, að sú vinna verði til þess að lyfta því í hæstu skattstiga með þeim afleiðingum að önnur hver króna, sem það fær fyrir nætur- og helgidagavinnuna, gangi beinustu leiðina til þeirra opinberu aðila sem mestan hag hafa af því að þessi vinna sé af höndum leyst.

Við flm. þessa frv. teljum það bæði réttlátt og sanngjarnt að þessu sé breytt á þann veg að verkafólk í fiskiðnaði verði undanþegið tekjuskatti fyrir nætur- og helgidagavinnu. Vissulega er sú ábending réttmæt, að annað láglaunafólk, sem þarf að vinna slíka vinnu til þess að hafa í sig og á, ætti að njóta sömu réttinda, og ég er fylgjandi því að slíkt sé athugað mjög gaumgæfilega, m.a. vegna þess að slíkt mundi ekki hafa í för með sér verulega rýrnun á skatttekjum ríkissjóðs. En einhvers staðar verður að byrja og mér þykir rétt að byrjað sé eins og við flm. leggjum hér til á því að veita fiskverkunarfólki þessa undanþágu.

Ástæðurnar fyrir því, að mér þykir rétt að hefjast þar handa, eru einkum þrjár: Í fyrsta lagi sú, að störf fiskverkunarfólksins eru þjóðfélaginu ákaflega mikilvæg, þar eð hér er um að ræða störf við sjálfan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar sem stendur undir almennum lífskjörum hennar og þá bæði beint og óbeint undir lífsafkomu annarra atvinnustétta. Í öðru lagi sú sérstaða sem fiskverkunarfólkið nú hefur og felst í því að viðast hvar er yfirvinnuálagið á því til muna meira en á öðrum atvinnustéttum. Í þriðja lagi sú staðreynd að fiskiðnaðurinn stendur höllum fæti í samkeppni við aðrar atvinnugreinar um vinnuafl. Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að gera þessi störf eftirsóknarverðari en þau eru í dag og það mundi vera hægt að gera með samþykkt þessa frv.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að reyna að gera sér einhverja grein fyrir því, hvað þetta frv., ef að lögum yrði, kæmi til með að geta kostað ríkissjóð í tekjutapi. Eins og við segjum í grg. með frv., teljum við að þar sé ekki um verulega fjármuni að ræða. Tiltölulega auðvelt ætti að vera að sannreyna það af þeirri hv. n. sem málið fær væntanlega til meðferðar að lokinni þessari umr. Ég vil þó hér og nú nefna nokkur atriði sem ættu að geta varpað nokkru ljósi á þetta.

Flest verkafólk í fiskiðnaði þiggur laun í samræmi við fimmta taxta Dagsbrúnar. Eftir eins árs starf fær það fyrir unna dagvinnustund kr. 234.10, unna eftirvinnustund kr. 327.70 og unna nætur eða helgidagavinnustund kr. 421.40. Fast vikukaup þess er kr. 9.364,00. Auk þess hafa víða verið gerðir sérstakir samningar um bónusvinnu og launauppbætur til þeirra sem vinna í tengslum við bónusvinnuna, og fær verkafólkið víða töluverðar bónustekjur til viðbótar við fasta kaupið. En þá er á það að líta, að til þess að svo geti orðið, þurfa afköst þess að fara yfir ákveðið mark og með því eykst enn vinnuálagið á þessu fólki og er það þó meira en nóg fyrir. Ég hef engar tölur getað fundið um skiptingu vinnu fiskverkafólks í dagvinnu, eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu sem gefið gætu heildarmynd af ástandinu um land allt eða í einstökum landshlutum þar sem fiskverkunin er helsta atvinnugreinin, en það ástand er auðvitað mjög breytilegt eftir landshlutum. Þó hefur kauplagsnefnd gert eða látið gera úrtaksathugun á vinnutíma fiskverkafólks í Reykjavík einni. Tölurnar um vinnuskiptinguna fyrir 2. ársfjórðung 1974 voru þessar:

Unnir dagvinnutímar 38.9 á viku, unnir eftirvinnutímar 9.2 á viku og unnir næturvinnutímar 10 á viku. Fyrir þessa vinnu þiggur verkafólkið í vikulaun kr. 16.592.84, og er þá miðað við vikukaupsfólk. Þetta samsvarar því að nætur- og helgidagavinnan sé um það bil 25% af útborguðum vikulaunum verkafólksins.

Þessi niðurstaða, sem byggð er á úrtaksathugunum í Reykjavík einni, er áreiðanlega ekki rétt viðmiðun fyrir landið allt, þar eð viðast hvar, a.m.k. þar sem ég þekki til, er unnin töluvert meiri nætur- og helgidagavinna. Mætti segja mér að nætur- og helgidagavinnan gæti numið allt að 20 stundum á viku að jafnaði þar sem vinnuálagið er hvað mest eða allt að 40% af útborguðu vikukaupi, jafnvel meiru. Sé miðað við Reykjavíkurtölurnar gefa þær fiskverkafólki í hámarkstekjur 858 þús. á ári eða þar um bil og þar af nemur nætur- og helgidagavinna um 212 þús. kr. og tekjur fyrir dag- og eftirvinnu 646 þús. kr. Eru þá að sjálfsögðu ótaldar aðrar skattskyldar tekjur, svo sem yfirfærslutekjur, hugsanlegar tekjur af eigin húsaleigu o.s.frv.

Samkv. fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. er gert ráð fyrir um 45% hækkun á skattvísitölu við álagningu næsta ár, þannig að persónufrádráttur einstaklinga verði 424 850 kr., hjóna 648 925 kr. og hjóna með eitt barn 741 þús. kr. Lætur því nærri, miðað við þær tekjutölur, sem ég nefndi hér áðan, svo og þær viðbótartekjur sem yfirfærslutekjur og tekjur af eigin húsaleigu, er við bætast til skatts, að það sé nætur- og helgidagavinna fiskverkunarfólksins, sem fyrst og fremst sé skattlögð af því opinbera, þ.e.a.s. að ríkið skattleggi fiskverkafólk fyrst og fremst fyrir tekjur þess vegna hins óhóflega vinnuálags, sem ég nefndi hér áðan og fólkið leggur á sig vegna þess að aðrar tekjur þess nægja því ekki til að hafa í sig og á og vegna þess að það vill forða verðmætum frá skemmdum svo að þjóðarbúið fái notið þeirra. Það er fyrir þetta starf, sem verkafólkið er fyrst og fremst skattlagt, fyrir nætur- og helgidagavinnuna, fyrir hið óhóflega vinnuálag. Því meira álag sem þessu fólki er gert að gangast undir, þeim mun meira tekur ríkið til sín.

Samkv. skýrslum um slysatryggðar vinnuvikur fyrir árið 1971 má gróflega áætla að um 90 þús. manns stundi störf á hinum almenna vinnumarkaði í landinu. Þar af er um 8.1 % vinnuaflsins í fiskiðnaði eða gróflega reiknað um 7200 manns. Hvort í þessari tölu eru aðrir starfsmenn í fiskiðnaði en verkafólk er mér ekki kunnugt, en sé svo lækkar þessi tala að sjálfsögðu að sama skapi hvað áhrærir ákvæði frv. þessa sem stefnir að því að undanþiggja nætur- og helgidagavinnutekjur verkafólks í fiskiðnaði tekjuskatti. En hvað sem því líður, er þetta ekki stór hópur hlutfallslega af vinnuaflinu í landinu, eins og tölur þær, sem ég nefndi hér áðan, sýna greiðir þetta láglaunafólk enn minni hundraðshluta af tekjuskattstekjum ríkissjóðs en nemur hlutfallslegum fjölda þess. Það gefur því auga leið að þótt frv. þetta yrði að lögum mundi ríkissjóður sem áætlað er að hafi á næsta ári nokkuð á 8. þús. millj. kr. í tekjur af tekjuskatti einstaklinga, ekki missa verulegan spón úr sínum aski. Samþykkt frv. mundi hins vegar hafa þeim mun meiri áhrif á kjör láglaunafólksins í fiskiðnaðinum, því að það, sem lítill pokaskjatti í ríkissjóði rúmar, er mikið fé í augum láglaunamannsins.

Í sambandi við mál þetta vil ég sérstaklega geta þess að mælt hefur verið fyrir frv. hér á Alþ. á þskj. 79 um að undanþiggja tekjuskatti tekjur sjómanna af bolfiskveiðum á bátaflotanum. Við flm. þessa frv. teljum eðlilegt að slíkri breytingu, sem við erum meðmæltir, fylgi einnig sambærilegar ráðstafanir varðandi það verkafólk í sjávarútvegi sem stundar störf sín í landi. Því markmiði væri náð með samþykkt þessa frv., og ég hef þá trú að þeir, sem það frv. fluttu, muni skilja okkar sjónarmið og standa með okkur í því að fá það frv. fram sem hér hefur verið lagt fyrir.

En við eigum von á því að eiga fleiri hauka í horni, eiga fleiri góða menn að, þ. á m. sjálfan hæstv. fjmrh. Á 94. löggjafarþinginu flutti hann, þá óbreyttur þm., ásamt öðrum núv. hæstv. ráðh., Matthíasi Bjarnasyni, frv. til l. um breyt. á l. nr. 68 frá 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það var sérstaklega tekið fram af flm., sem fluttu það mál fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl., að hér væri það að gerast í fyrsta sinn í þingsögunni að þingflokkur í stjórnarandstöðu legði fram frv. um heildarbreytingu á tekjuskatti og eignarskatti. Vel og vendilega var að verki unnið, sögðu þeir hv. flm. Ábyrgt og sanngjarnt var það og auðframkvæmanlegt. En hvað fólst í þessu frv? Í 2. gr., 4. tölul., segir m.a. svo með leyfi forseta:

„Nýr liður bætist við 13. gr. 1., er verði g-liður, svo hljóðandi:

Heimilt skal fjmrh. að veita þeim, er við fiskvinnslu starfa, sérstakan frádrátt samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Það er sérstaklega tekið fram í grg. með þessu frv. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þær till., sem hér liggja fyrir um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyllilega tímabærar. Jafnframt teljum við,“ — þ.e.a.s. flm., hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. núv. sjútvrh., — „að þessar breytingar séu viðráðanlegar fyrir ríkissjóð, þar sem hann getur bætt sér upp tekjumissinn með breyttri efnahagsstefnu, sparnað á ríkisútgjöldum, hagræðingu í ríkisrekstrinum og ef nauðsyn krefur með breyttum fjáröflunarleiðum.“

Ekki er ég í vafa um það að þetta er rétt og satt mælt sem þessir ágætu þm., núv. hæstv. ráðh., sögðu og þeir hafa ætlað sér að standa við þetta mál og ætla að gera það einnig nú. Þess vegna þykist ég mega vænta stuðnings frá þessum hæstv. ráðh. báðum og vitna þá í því sambandi sérstaklega til ummæla hæstv. núv. fjmrh, á Alþ., þar sem hann fylgdi þessu frv., sem ég gat áðan um, úr hlaði, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Þá er bætt nýjum stafi. í þessa grein, þar sem fjmrh. er veitt heimild til að veita sérstakan frádrátt þeim til handa sem við fiskvinnsla starfa. Því ber ekki að neita, að það gerist oft að vinnuaflsskortur sé í sambandi við fiskvinnslu, og er með þessari frvgr. gert ráð fyrir því að fjmrh. hafi heimild til þess að veita sérstakan frádrátt handa því fólki, sem við fiskvinnslu starfa til þess að hvetja fólk til að taka þátt í fiskvinnslustörfum.“

Að vísu er það nú svo, að þó að við megum eiga von á því að njóta stuðnings tveggja hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj., þeirra ráðh. Matthíasar Á. Mathiesen og Matthíasar Bjarnasonar, sem fluttu þetta frv. og svo fagurlega mæltu á þinginu hér í fyrra þá er e.t.v. ekki sama að segja um hugarfar allra hæstv. ráðh., vegna þess að þáv. fjmrh. andmælti þessu frv. þeirra Matthíasanna ákaflega harkalega í umr. á Alþ. í fyrra. Orðin, sem hann hafði um það frv., voru: „Nei, nei, nei, þetta er ekki hægt, þetta er ekki framkvæmanlegt. Dettur raunverulega nokkrum hv. þm. í hug að þetta sé framkvæmanlegt?“ sagði hæstv. fyrrv. fjmrh. Og þá er gripið fram í, væntanlega af 1. flm. frv., hæstv. núv. fjmrh., og sagt: „Það má setja reglugerð.“ Það er hægt að framkvæma þetta sem við leggjum hér til. — Síðan hélt hæstv. þáv. fjmrh. áfram og sagði: „Ég er undrandi á því, þegar slíkir menn eins og t.d. hv. 5. þm. Reykv., fyrrv. fjmrh., með jafnmikla reynslu sem fjmrh. og sem borgarstjóri í Reykjavík, skuli láta sér í alvöru detta þetta í hug. Og mér dettur ekki í hug að honum komi þetta til hugar í alvöru, því að það væri alveg óhugsandi. Ef við samþykktum þetta frv., þá dytti andlitið af Sjálfstfl. Slíkt slys hefðu þeir aldrei getað hugsað sér að lifa af.“

Þetta sagði hæstv. fyrrv. fjmrh. um þá till. þeirra Matthíasanna tveggja, hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj., að veita fólki, sem við fiskvinnslu starfar, sérstakar undanþágur frá tekjuskatti.

Auðvitað á ég þess von að ásjóna Sjálfstfl. sé nú á þessum vetri sú sama og hún var á s.l. vetri og það sannist ekki á þá ágætu sjálfstæðismenn að þeir hafi tekið niður grímuna. Þess vegna vænti ég þess fastlega að frv. þetta hljóti góðar viðtökur á Alþ., bæði af óbreyttum þm. og þá ekki síður hæstv. fjmrh. sem raunverulega hefur flutt fyrir aðeins ári frv. um mál sem var í nákvæmlega sömu átt og þetta mál. Þá var hann spurður: „Er þetta hægt, Matthías?“ Og hann svaraði: „Já, þetta er hægt, Halldór.“