11.11.1974
Neðri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Hæstv, sjútvrh. sagði:

Það verður að taka til lít til erfiðleika útgerðarinnar. — Það má rétt vera. En ég held, að stjórnvöld, — ekki bara núv. hæstv. ríkisstj., heldur og aðrir þeir, sem koma til með að fjalla um þessi mál, — ættu að gera sér það ljóst, að sjómannasamtökin una því ekki, að það sé fjármagnstilfærsla svo að hundruðum eða þúsundum millj. skiptir frá sjómönnum yfir til útgerðarinnar. Og það er staðreynd, a.m.k. er það í mínum huga, að sennilega er með þessa einstaklinga, sjómenn á hinum smærri bátum flotans, hvað verst farið í sambandi við þær ráðstafanir í efnahagsmálum, sem gerðar hafa verið af núv. hæstv. ríkisstj. Það er rétt, sem hér kom fram áðan, að sjómenn höfðu ekki fengið neina hækkun, fiskverðshækkun hafði ekki orðið frá s.l. áramótum. Það voru þó á því tímabili gerðir samningar um kauphækkanir til ýmissa annarra stétta. En eigi að siður er fiskverðshækkunin, sem gert er ráð fyrir hjá hæstv. ríkisstj., bundin við svo til sömu prósenthækkun og hinar svokölluðu láglaunabætur gerðu ráð fyrir. Og ég held, að það sé enginn vafi á því, að a.m.k. sjómenn telja að hér hafi verið harkalega að þeim vegið og telja ábyggilega fulla ástæðu til að snúast til varnar í þessum efnum og enginn vafi á því, að þeir munu gera það.

Ég held, að öllum sé ljóst af því, sem ég hef hér sagt, að ég er andvígur þessum tveimur þáttum þessa frv., sem ég hef nú rætt um. Því miður hef ég ekki trú á því, að það komi til með að fást nein breyt. í þeirri hv. n., sem kemur til með að fjalla um málið, en af framansögðu liggur það ljóst fyrir, að ég mun greiða atkv. gegn þessum tveimur fyrstu gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir. Ég vona að einhverjum góðum mönnum takist að hafa þau áhrif á hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. i heild til breyt. á því hugarfari, sem mér virðist vera komið upp nú og eigi að hafa að leiðarljósi kannske í náinni framtíð, ef þessir tveir stjórnmálaflokkar, sem nú standa að ríkisstj., hafa til þess getu og möguleika að halda því stjórnarsamstarfi áfram.

Ég sem sagt harma það, að það skyldi falla í hlut núv. hæstv. sjútvrh., sem ég taldi vera einn af þeim fáu í þingliði Sjálfstfl., sem tæki upp hanskann fyrir sjómenn, — að þetta skyldi verða hans fyrsta verkefni og hans hlutskipti. Mér þætti gaman að heyra það, hvort hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, er samdóma því áliti, sem kom hér fram hjá hæstv. sjútvrh., að hér sé í engu breytt hlutaskiptum sjómanna. Mér þætti fróðlegt, ef hv. 8. þm. Reykv. vildi lýsa því yfir hér á Alþ., að hann væri sömu skoðunar og hæstv. sjútvrh. í þessum efnum. Þá mundu ábyggilega, — ef það gerðist, sem ég efast nú um stórlega, — en þá mundu ábyggilega sjómenn víðs vegar í kringum landið taka eftir slíkri yfirlýsingu, ef hún kæmi frá hv. 8. þm. Reykv. og yrði samhljóða því áliti hæstv. sjútvrh., sem hér kom fram áðan.