14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

91. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það mátti vel heyra á ræðu hv. 8. landsk. þm. að það frv., sem hann flytur hér ásamt þremur öðrum þm., er ekki hugmynd sem hann átti sjálfur eða þeir sem frv. flytja. Hv. þm. gerði grein fyrir því í ræðu sinni, hvaðan hugmyndin væri komin, og vildi gjarnan eiga von á því að hugmyndasmiðirnir yrðu nú ekki síður liðtækir í stuðningi við hans frv. heldur en hvað þeir voru hugvitssamir sjálfir þegar þeir sömdu frv. sítt á síðasta þingi.

Nú langar mig aðeins til að benda þessum hv. þm. á að ég lét þess getið hér fyrir nokkrum dögum á Alþ., þegar til umr. var frv. til l. um breyt. á sömu l. á þskj. 79, en flm. þess frv. eru hv. 3. þm. Sunnl. og hv. 8. þm. Reykv. og fjallar það um frádrátt til handa sjómönnum, að það hefði verið rætt um með hvaða hætti hægt væri að koma til móts við útveginn og við fiskvinnsluna til þess að fá fólk til vinnu og tryggja þannig að sá sjávarafli, sem á land kemur, fái vinnslu á sem allra skemmstum tíma frá því að hann kom á land, til þess að sem minnstur skaði yrði að og varan sem allra best til neyslu, hvort heldur er innanlands eða til útflutnings. Ég vakti athygli á því — það var enginn vísdómur eða nein uppfinning að málið væri töluvert vandasamt, af því að ég gerði mér einmitt grein fyrir því, sem hér var vikið að af hv. 8. landsk., að það væri ekki aðeins um að ræða þá sem öfluðu fisks, heldur væri um að ræða vandamál hjá þeim aðilum sem yrðu að vinna úr aflanum þegar á land væri komið.

Nú hafa þessir hv. 4 þm., sem ég vék hér að áðan, tekið upp þann hluta þessa vandamáls sem er nokkuð í samræmi við þá till. sem við hæstv. núv. sjútvrh. fluttum á síðasta þingi. En enn kemur í ljós hjá þessum þm. eins og þeim, sem fluttu frv. varðandi tekjur sjómanna af bolfiskveiðum á bátaflotanum, að málið er töluvert vandasamara en þeir gera sér grein fyrir. Og úr því að þeir voru á annað borð að taka upp þessa annars ágætu hugmynd, þá hefði ég í þeirra sporum tekið hana upp orðrétt, því að í till. frá því í fyrra, á þskj. 171, mál 132, stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal fjmrh. að veita þeim, er við fiskvinnslu starfa, sérstakan frádrátt skv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Þetta er sérstaklega orðað svona þar sem okkur var ljóst að það væri ekki aðeins verkafólkið sem vinnur við fiskvinnsluna, þar væru ýmsir aðilar sem til greina koma. Við skulum taka dæmi: Ef skip kemur að landi og ekki fást bifreiðastjórar til þess að aka fiskaflanum til fiskvinnslustöðvanna vegna þess að þeir fá ekki frádregið til skatts eins og þeir sem inni í frystihúsunum vinna, þá er til lítils að veita aðeins verkafólkinu frádrátt. Þess vegna er þessi till. okkar orðuð með þessum hætti: að veita fjmrh. heimild til þess að setja um þetta reglugerð, af því að okkur var fyllilega ljóst, að hér er um mjög vandasamt mál að ræða sem þarfnast sérstakrar skoðunar, og líka hitt, að vel má vera að slíkar undanþágur séu réttlætanlegar á ákveðnum tímum, þó að þeir tímar geti komið sem ástæðulaust er að veita slíkan frádrátt. Ég er nákvæmlega sama sinnis í dag. Þetta verður að skoða út frá þessum tveim sjónarmiðum: annars vegar á hvaða tímum á að gera slíkt, og þá verður að gera það með þeim hætti að ekki slái saman tveimur hópum manna sem vinna að sjávaraflanum og gæti haft þær afleiðingar að það næði ekki tilgangi sínum, það sem fram kemur í frv. þessara hv. 4 þm.

Ég vil svo gjarnan vekja athygli á því, að ég gat um það í minni fjárlagaræðu að gert væri ráð fyrir 500 millj. kr. lækkun á tekjum reiknuðum af tekjuskatti vegna breytinga á skattalögunum. Ég gerði grein fyrir því að sú n., sem hafði það hlutverk á vegum fyrri stjórnar að gera athugun og úttekt á skattamálum, hefði verið leyst frá störfum, hennar störfum hafi verið lokið, og unnið yrði áfram að till. um breyt. á skattal., þar sem m.a. gert yrði ráð fyrir að þessar 500 millj. kr. kæmu til með að verða til sérstakrar athugunar, þ.e.a.s. með hvaða hætti tekjuskattur yrði lækkaður.

Ég gat þess í ræðu minni þegar frv. á þskj. 79 var hér til meðferðar að mér fyndist sjálfsagt að þær till. yrðu skoðaðar sem þar komu fram, og gildir nákvæmlega sama um það frv. sem hér er til meðferðar. Og ég get glatt þennan hv. þm. og hans meðflm. með því, — ég veit þeir hafa ánægju af því, — að ég hef ekki gleymt þeim till. sem ég flutti hér á Alþ. fyrir ári síðan í sambandi við skattalögin. Hitt væri með öllu óeðlilegt að þm., sem gerðist fjmrh. færi að taka upp sínar eigin till. og flytja þær sem þm. Hann verður að sjálfsögðu að skoða þá löggjöf sem hér er til umr. og sjá með hvaða hætti honum getur tekist innan ríkisstj. að koma fram þeim breytingum sem hann áður hefur haft áhuga á að næðu fram að ganga.