16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

1. mál, fjárlög 1975

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft fjárlagafrv. til athugunar og rætt það á samtals 28 fundum sínum. Með tilliti til þess, að Alþ. hóf ekki störf sín að þessu sinni fyrr en í lok októbermánaðar var sýnt að n. mundi hafa mjög takmarkaðan tíma til að gera frv. þau skil sem nauðsynlegt er hverju sinni. Það var með hliðsjón af því að undirnefnd fjvn., sem eins og kunnugt er er skipuð einum manni frá hverjum þingfl., kom saman til fundar nokkru fyrir þingtímann og hóf athugun sína á fjárlagagerðinni. Á þessum fundum sínum ræddi n. m.a. við ýmsa forstöðumenn ríkisstofnana sem veittu margvíslegar upplýsingar um málefni stofnana og fjárþörf.

Síðan Alþ. kom saman hefur fjvn. unnið svo að segja sleitulaust að athugun sinni á frv. Enda þótt fjvn. hafi ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins og skili því tveim nál. er það svo, að þær brtt., sem n. flytur á tveim þskj., 143 og 147, eru fluttar af n. sameiginlega, en eins og fram kemur í nál. áskilur minni hl. sér rétt til að hafa óbundnar hendur við að fylgja og flytja brtt. við frv.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum gott samstarf við afgreiðslu málsins. Allir hafa lagt sig fram um að hjálpa til að störfin í n. mættu ganga sem best. Á þetta jafnt við fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem hina, því að ég tel að allir hafi viljað leggja sig fram um að afgreiðsla málsins gengi sem best fyrir sig, og fyrir það vil ég þakka.

Því er hins vegar ekki að neita að hinn naumi tími, sem n. hefur haft til umráða, hefur leitt til þess að ekki hefur unnist jafngóður tími sem oftast áður til skoðunar á ýmsum málum. Þá ber að geta þess að starfsmenn hagsýslustofnunar fjmrn. hafa veitt n. ómetanlega aðstoð, og fyrir það vil ég einnig þakka. Auk þess sem forstöðumenn hinna ýmsu ríkisstofnana ganga á fund n. og bera upp málefni sín, þá hefur nú hin síðari ár í vaxandi mæli átt sér stað, að sendinefndir utan af landsbyggðinni og forsvarsmenn sveitarfélaga koma til Reykjavíkur á þessu tímabili og óska eftir að fá sérstaka fundi með n. til að fylgja eftir beiðnum sínum um fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda sem ríkissjóður stendur undir að meira eða minna leyti. Fjvn. hefur undantekningarlaust orðið við þessum tilmælum sveitarstjórnarmanna og auk þess margra einstaklinga sem erindi hafa átt við n., en allt þetta er mjög tímafrekt og takmarkar möguleika nm. að öðru leyti.

Fjvn. er löngu ljóst, að til þess að auðvelda fjárlagagerðina og tryggja að þau málefni, sem fjármögnuð eru af hálfu þess opinbera, séu sem best undirbúin, þurfa umrædd erindi að hafa borist viðkomandi rn. í tæka tíð, svo að þau liggi a.m.k. fyrir fjvn. þegar Alþ. hefur störf sín að haustinu.

Á undanförnum árum hefur undirnefnd fjvn. tekið til athugunar ýmsa þætti í ríkisbúskapnum og komið með ábendingar um það, sem n. hefur talið að betur mætti fara. Þá hefur n. beitt sér fyrir því að sérfræðingum eða sérfræðistofnunum yrði falið að kanna og gera till. um bætt skipulag og aukna hagræðingu í rekstri ríkisstofnana.

Eftir því sem fjárlagadæmið verður stærra, verður augljósara með hverju árinu sem liður, að ekki verður komist hjá því að fjvn, fái lengri tíma til undirbúnings og afgreiðslu fjárlagafrv. en nú á sér stað og það enda þótt þinghald hefjist á venjulegum tíma eða um 10. okt. Ýmsum vinnubrögðum þarf að breyta og þá sérstaklega í þá átt að skipuleggja opinberar framkvæmdir og gera áætlanir lengra fram í tímann.

Við höfum þegar komið á 4 ára vegáætlun, sem gefist hefur vel. Nú stendur til að lokið verði við 4 ára áætlun um hafnarframkvæmdir og er þá gert ráð fyrir að árið 1975 verði hið fyrsta í þeirri áætlanagerð. Hafnamálaskrifstofan hefur að undanförnu unnið að því að byggja upp slíka áætlanagerð. Í því sambandi hafa sveitarfélögin lagt fram sínar till. og óskir um framkvæmdir, en Hafnamálaskrifstofan síðan raðað framkvæmdum niður á árin. Ég hef ekki heyrt um að ágreiningur sé milli Hafnamálaskrifstofunnar og heimamanna um það framkvæmdamagn sem menn telja eðlilegt á umræddu tímabili. Hitt greinir menn á um, hvort umrædd framkvæmd eigi að vera á framkvæmdastigi einu ári fyrr eða síðar.

Aðrir málaflokkar, sem brýn nauðsyn er að skipulagðir verði fram í tímann, eru byggingar skóla og sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Hér er um tvo málaflokka að ræða, sem árlega taka til sín verulegan skerf af því framkvæmdafé sem til ráðstöfunar er innan ramma fjárlagafrv. Það segir sig sjálft, að slík vinnubrögð sem hér um ræðir eru ekki aðeins æskileg frá sjónarmiði ríkissjóðs, heldur einnig og ekki síður ætti slík áætlanagerð að vera sveitarfélögunum hagstæð.

Þá eru að lokum raforkumálin eða orkumálin, sem nauðsyn ber til að tekin verði föstum tökum og áætlanir gerðar fram í tímann, — áætlanir, sem byggðar eru á fullkomnum rannsóknum, þannig að ekki sé ráðist í fjárfrekar framkvæmdir áður en öll grundvallaratriði hafa verið fullkönnuð og tryggð, en á það hefur því miður allt of oft skort, svo sem mörg dæmi sanna. Hér gegnir sama máli hvort um er að ræða hagnýtingu vatnsorkunnar eða jarðvarmans, hvort um er að ræða orkuréttindin eða náttúruvandamálið. Viðbótartill. um fjárveitingar vegna raforkuframkvæmda og virkjana bíða að þessu sinni til 3. umr. Að sjálfsögðu gildir nokkuð sama máli um heimildir til lántöku og beinar fjárveitingar. Hvort tveggja hefur sinar takmarkanir við greiðsluþol þjóðarinnar og þeirra fyrirtækja sem verið er að fjármagna hverju sinni.

Eins og fram kemur í aths. um fjárlagafrv. eru launaliðir þess miðaðir við kauplag eins og það var í septembermánuði s.l. og gjaldaliðir almennt miðaðir við verðlag á sama tíma. Að því leyti áttu áhrif kjarasamninganna á síðasta vori að vera komin inn í fjárlagafrv. Sama máli gegndi um áhrif gengislækkunarinnar frá í sept., söluskattshækkunina, sem tók gildi 1. okt. s.l., og aðrar gjaldahækkanir, sem hafa orðið á árinu.

Varðandi launakostnaðinn var gengið út frá 35% hækkun, ef miðað er við fjárlagatölur yfirstandandi árs, en þar sem 400 millj. kr. fjárupphæð var til ráðstöfunar á fjárlögum 1974 til að mæta hækkun launakostnaðar, en þá stóðu yfir samningar á vinnumarkaðinum, svo sem kunnugt er, er þessi mismunur enn meiri eða sem nemur 8.8%.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjvn. liggja nú fyrir nýjar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um þróun efnahagsmála á yfirstandandi ári og mun ég koma nánar að því síðar hvaða breyt. á fjárlagafrv. er nauðsynlegt að gera með tilliti til þeirra nýju upplýsinga. Það bíður að öðru leyti til 3. umr. eins og venjulega að bera fram brtt. við tekjubálk frv.

Ég mun því þessu næst bera fram brtt. við fjárlagafrv., sem fjvn. flytur sameiginlega við þessa umr., en þær eru á þskj. n. 143 og 147. Koma þar fyrst brtt. sem falla undir menntmn. Ég vil taka fram strax að hjá n. eru enn óafgreidd mál, sem þetta rn. snerta, og verða þau tekin til afgreiðslu á milli umr. Þar á meðal eru atriði, sem snerta Háskóla Íslands, Stýrimannaskólann o.fl. sem ég fer ekki nánar út í að skýra að þessu sinni.

Hér er fyrst lagt til, að liðurinn Endurskoðun námsefnis lækki um 3 millj. kr. frá því sem er í frv., en þess í stað er till. um samtals 6 millj. kr. hækkun við liðinn Iðnfræðsluráð, annars vegar 4 millj. kr. hækkun við launaliðinn og hins vegar 2 millj. kr. við liðinn Önnur rekstrargjöld. Báðar þessar upphæðir eru vegna námsskrárgerðar í verkfræðslu í samráði við menntmrn. Ætlast er til að námsskrá iðnfræðslu verði endurskoðuð svo að hún samræmist námsskrá framhaldsskólastigsins. Hér er um 3 millj. kr. hækkun að ræða frá því sem er í frv., en samtals er hækkunin 9 millj. 529 þús. kr. frá fjárl. yfirstandandi árs.

Þá er lagt til, að tekinn sé inn nýr liður að upphæð 1 millj. kr. vegna námskeiðahalds fyrir barnakennara, sem ekki hafa full réttindi.

Lagt er til að inn komi nýr liður vegna bókasafns í Húsi Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, 100 þús. kr.

Til orðabókar Háskólans er tillaga um að launaliður hækki um 555 þús. kr. Er það til ráðningar sérfræðings í stöðu, sem hefur ekki verið skipað í um skeið. Að sjálfsögðu nægir þessi upphæð ekki fyrir fullum launum til sérfræðingsins, en talið er að fjárveiting til orðabókarinnar að öðru leyti sé það rúm, að hún fylli mismuninn. Samtals verður því fjárveiting til þessarar merkilegu bókar 8 millj. 469 þús. kr.

Menntaskóli á Austurlandi: Það er till. um 15 millj. kr. hækkun á byggingarframlagi, þannig að liðurinn í heild verður þá 30 millj. kr.

Launaliður menntaskóla almennt hækkar um 1500 þús. kr., svo sem til greiðslu á launum kennara, sem eru í orlofi, en nota sinn orlofstíma við samningu nýrra kennslubóka.

Lagt er til að viðhaldsliður menntaskóla hækki um 5 millj. kr., en það er fyrst og fremst vegna menntaskólans á Akureyri, sem þarf á verulegu viðhaldsfé að halda um þessar mundir.

Til Stýrimannaskólans í Rvík er till. um 3 millj. kr. fjárveitingu, en það er vegna kaupa á ratsjártækjum. Í fjárlagafrv. er till. um að veita 9 millj. kr. í þessu skyni, en viðbótarfjárveiting er vegna gengisbreytingarinnar. Um Stýrimannaskólann er að öðru leyti það að segja, að ekki verður hjá því komist að veita skólanum verulega upphæð til viðhalds, en það mál er hjá n. enn þá, eins og ég vék að fyrr, og verður afgr. fyrir 3. umr.

Til Iðnskólans í Reykjavík er lagt til að liðurinn Önnur rekstrargjöld hækki um 328 þús. kr., og til iðnskóla almennt er lagt til að gjaldfærður stofnkostnaður, þ.e. byggingarstyrkir, hækki um 4 millj. kr., en um skiptingu á heildarupphæðinni, sem verður þá samtals 34 millj. kr., vísast til þess sem fram kemur á þskj. 143.

Fiskvinnsluskólinn: Tekið hefur verið á leigu húsnæði fyrir skólann í Trönuhrauni í Hafnarfirði. Þar er um verulegan kostnað að ræða vegna innréttinga og tækjakaupa, og lagt er til að fjárveiting til skólans að þessu sinni verði 3 millj. kr.

Til Verslunarskóla Íslands er till. um 11 millj. 400 þús. kr. hækkun, og til Samvinuskólans í Bifröst er till. um 1600 þús. kr. hækkun. Þá er lagt til að fjárveiting til Bréfaskóla SÍS og ASÍ hækki um 240 þús. kr.

Næst kemur liðurinn Héraðsskólar. Lagt er til að gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 27 millj. kr., en um skiptingu á upphæðinni vísast til þess sem fram kemur á þskj. 143.

Til Skálholtsskóla er till. um 7 millj. kr. fjárveitingu, en í fjárl. 1974 er þessi upphæð 6 millj. Liður þessi hafði verið felldur niður í fjárlagafrv.

Til grunnskóla er till. um hækkun sem nemur samtals 218 millj. 884 þús. kr. Hér var úr miklum vanda að ráða og sú hækkun, sem hér á sér stað milli ára, nemur 360 millj. 484 þús. kr. Sérstök undirnefnd hafði með þessi mál að gera innan n. ásamt með athugunum með öðrum skólamannvirkjum og eyddi til þess miklum tíma. Um till. n. um skiptingu á heildarupphæðinni milli einstakra skólabygginga vísast til þess, er fram kemur í þskj. á sérstöku yfirliti. En til þess að gera sér grein fyrir þeirri miklu þörf, sem jafnan er fyrir hendi í þessum málaflokki, vil ég vekja athygli hv. þm. á listanum til undirbúnings að framkvæmdum fyrir nýjar skólabyggingar. Hér er um 36 skólamannvirki að ræða, en ekkert þeirra er komið á framkvæmdastig. Þær fjárveitingar, sem hér um ræðir og eru 300 þús. kr. til hvers skólamannvirkis, eru að sjálfsögðu aðeins til frumundirbúnings.

Þá er lagt til að liðurinn Til útgáfustarfa hækki um 150 þús. kr. og er það hækkun á framlagi til Hins ísl. bókmenntafélags.

Til Myndlistarskólans í Rvík er till. um 90 þús. kr. hækkun, en áður hafði styrkur til skólans verið hækkaður um 250 þús.

Liðurinn Til jöfnunar á námskostnaði er lagt til að hækki um 10 millj. kr. Í fjárlögum yfirstandandi árs er fjárveiting í þessu skyni 75 millj., en verður nú alls 110 millj. kr. eða hækkar um 47% frá síðustu fjárlögum.

Til Landsbókasafns hækkar launaliður um 280 þús. kr., en það er vegna ráðningar manns í hálft starf við vörslu í lestrarsal.

Þá er framlag til byggðasafna. Till. er um 500 þús. kr. hækkun, en skipting á þessum lið fer fram á vegum þjóðminjavarðar og er þar um litlar upphæðir að ræða til styrktar hinum ýmsu byggðasöfnum í landinu.

Til Listasafns Íslands hækkar gjaldfærður stofnkostnaður um 300 þús. kr. sem er vegna viðgerðar á málverkum Jóns Stefánssonar listmálara, sem safnið keypti. Að öðru leyti liggur hjá n. beiðni frá Listasafni Íslands og menntmrn. um fjárveitingu til byggingarframkvæmda við listasafnshúsið við Fríkirkjuveg, en til þeirrar beiðni hefur fjvn. enn ekki endanlega tekið afstöðu og verður það mál athugað nánar á milli umr.

Þá er lagt til að framlag til Vísindasjóðs hækki um 2 millj. kr. og verður þá samtals 5 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að Vísindasjóður fái 12 millj. kr. af arðsjóði Seðlabankans og mun því hafa til ráðstöfunar um 17 millj. kr. á næsta ári.

Þá koma fjárveitingar til leiklistar. Er lagt til, að fjárveiting til Leikfélags R-víkur hækki um 1200 þús. kr., til Bandalags leikfélaga um 200 þús. og til leiklistarstarfsemi almennt um 2 millj. kr., en þar er ætlunin að helmingur upphæðarinnar gangi til Leikfélags Akureyrar sem nú gerir tilraun til þess að reka svokallað atvinnuleikhús.

Lagt er til að styrkur til Rithöfundasambands Íslands hækki um 50 þús. kr.

Til leiklistarskóla er till. um 800 þús. kr. hækkun og verður styrkurinn um 2 millj. og 300 þús. Skólar þessir eru tveir, en um það standa samningar að skólarnir sameini starfsemi sína í einn skóla. Með því ætti að nýtast betur það fjármagn sem til þessarar starfsemi er varið.

Lagt er til. að upp verði tekinn nýr liður að upphæð 200 þús. kr. til Söngskólans í Rvík. Hér er um nýjan skóla að ræða sem tók til starfa á s.l. ári, en auk þess fær skólinn rekstrarfé eins og aðrir tónlistarskólar skv. lögum.

Til Tónlistarskólans í Árnessýslu er till. um 100 þús. kr. fjárveitingu vegna endurbóta, sem fram fara á húsnæði skólans. — Til Tónlistarskólans í Garðahreppi 500 þús., en sá skóli er um þessar mundir að eignast húsnæði ásamt með öðrum félagssamtökum í hreppnum. — Til Tónlistarskólans í Rvík og Barnamúsíkskólans er till. um 3 millj. kr. fjárveitingu. Tónlistarfélag R-víkur, sem staðið hefur undir kostnaði af rekstri þessara skóla, hefur ákveðið að hefja byggingu á nýju húsnæði fyrir skólana og hefur yfir nokkru fjármagni að ráða til framkvæmdanna. Skv. erindi sem fjvn. barst frá skólastjórum þessara skóla, er farið fram á að ríkissjóður styrki bygginguna að 1/4, Reykjavíkurborg að 1/4, en að öðru leyti mun Tónlistarfélagið standa undir byggingarframkvæmdum.

Jöklarannsóknafélagið fór fram á hækkaða fjárveitingu til jöklarannsókna og mælinga og er lagt til að liðurinn Til jöklarannsókna og mælinga hækki um 100 þús. kr., og er þá orðið við beiðni félagsins.

Þá kemur liðurinn Norræn samvinna. Lagt er til að fjárveiting hækki um 100 þús. kr. og að sú upphæð renni til Norræna félagsins. Verður þá styrkur til félagsins alls 500 þús. kr.

Á árinu 1976 er fyrirhugað þing Norræna vatnafræðifélagsins hér á landi. Lagt er til að veittur verði 100 þús. kr. styrkur í þessu skyni.

Þá er lagt til að fjárveitingar til íþróttamannvirkja hækki um 12 millj. 932 þús. kr. Upphæð þessi nægir til þess að fjárveitingin, samtals 53 millj. 932 þús., stendur undir annarri greiðslu af fjórum, sem samið var um við aðila, að þannig skyldi greiða hallann, sem myndast hafði. Auk þess er full fjárveiting til greiðslu á fyrsta hluta af fjórum til íþróttamannvirkja, sem samþ. voru í fjárl. 1974, og loks til undirbúnings nýrra íþróttamannvirkja. Vísast í þessu sambandi til lista yfir framkvæmdirnar á þskj. 143.

Til Ungmennafélags Íslands er lagt til að fjárveiting hækki um 800 þús. kr. — Til KFUM og KFUK er lagt til að tekinn verði nýr liður til styrktar þeirri starfsemi, að upphæð 500 þús. kr. — Til Íþróttasambands Íslands er till. um hækkun sem nemur 3 millj. 200 þús. kr., og til Íþróttafélags fatlaðra 250 þús. kr.

Til blaðsins Lögberg-Heimskringla í Kanada er lagt til að fjárveiting hækki um 108 þús. kr. Er hér um að ræða að bæta upp vegna gengislækkunar ísl. krónunnar, en jafnframt er lagt til að hinn árlegi styrkur við þetta merkilega blað hækki um 1000 dali frá því sem verið hefur. Með því að fjárveiting var nokkuð hækkuð í fjárlagafrv. nægir þessi viðbótarupphæð til að tryggja að styrkurinn til blaðsins verði 1000 dölum hærri en verið hefur á undanförnum árum.

Lagt er til, að Náttúrugripasafnið í Borgarnesi fái 100 þús. kr. — Styrkur til Skáksambands Íslands hækkar um 350 þús. — Til Bandalags ísl. skáta vegna hjálparsveita er till. um 600 þús. kr. hækkun og til Dýraverndunarfélags Íslands 50 þús. kr. hækkun.

Til n. bárust erindi um fjárbeiðnir í tilefni af hinu svokallaða kvennaári. Samþ. var að leggja til að styrkur til Kvenfélagasambands Íslands hækki að þessu sinni um 800 þús. kr. — Lagt er til að styrkur til Zonta-klúbbs Akureyrar vegna Nonnahúss hækki um 25 þús. kr. — Til Landakotsskóla er till. um 500 þús. kr. hækkun, og til Hliðardalsskóla er till. um 600 þús. kr. hækkun, — Til sumarnámskeiða að Leirárskóla er till. um 400 þús. kr. hækkun, en Sigurður Guðmundsson skólastjóri hefur haldið uppi eins konar íþróttaskóla að Leirá undanfarin sumur við góðan orðstír. — Og til Íslenska dýrasafnsins er lagt til að fjárveiting hækki um 100 þús. kr. — Þá er loks lagt til, að teknir verði upp 3 nýir líðir, þ.e. til Bridgefélags Íslands 100 þús., til varðveislu gamla verslunarhússins á Flateyri 100 þús. og byggingarstyrkur til barnaheimilis í Kumbaravogi 125 þús. kr.

Þessu næst koma brtt. fjvn. við málefni sem heyra undir landbrn.

Lagt er til að launaliður við Búnaðarfélag Íslands hækki um 600 þús. kr. vegna ráðningar á tölvuritara í nautgriparækt.

Til rannsóknastöðva landbúnaðarins eru till. um hækkanir á eftirtöldum liðum: Til búfjárræktardeildar vegna uppsetningar á tækjum, sem gefin voru frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í tengslum við FAO, 500 þús. kr., til bútæknideildar vegna byggingar á íbúðarhúsi að Hvanneyri fyrir einn starfsmann 5 millj., til gróðurrannsókna, hækkun launa vegna ráðningar starfsmanns, 790 þús. kr. Þá er till. um 3 millj. kr. fjárveitingu til tilraunastöðvarinnar á Akureyri vegna flutnings á tilraunastöðinni að Möðruvöllum.

Lagt er til að samþ. verði 1 millj. kr. fjárveiting vegna ylræktarverkefnis í Hveragerði, en það er einnig í tengslum við FAO. — Við landgræðslu er till. um að liðurinn Gjaldfallinn stofnkostnaður hækki um 6 millj. kr., en það er til að hefja framkvæmdir við nýtt starfsmannahús að Gunnarsholti, en á því er mikil nauðsyn. — Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður vegna grænfóðurverksmiðjunnar í Gunnarsholti að upphæð 6 millj. kr. Er það styrkur til að standa undir kostnaði við kaup á nýjum vélum fyrir verksmiðjuna, en hinar eldri eru mikið úr sér gengnar og taldar nær ónýtar.

Þá er till. um, að framlag til Fiskræktarsjóðs hækki um 1 millj. kr. og verður þá alls 5 millj. kr. fjárveiting á árinu. Skv. upplýsingum, sem fjvn. fékk hjá veiðimálanefnd, er talið að ógreiddir styrkir út á fiskvegi og eldisstöðvarhús á árinu 1973 og áður muni nema um 7 millj. kr., og áætlað er að við bætist á yfirstandandi ári um 4 millj. Liðurinn Jarðræktarlög er lagt til að hækki um 7 192 þús. Upphæðirnar skiptast þannig að 2192 hús. eru vegna ráðningar á 4 nýjum ráðunautum og 5 millj. kr. vegna aukningar á framlögum á framkvæmdaári. Í frv. er sá hluti, sem ætlað er að greiða út á jarðræktarframkvæmdir á framkvæmdaári, áætlaður um 15 millj. kr. og verður því alls um 20 millj. verði þessi till. n. samþ.

Þá er till. um að framlag til veðdeildar Búnaðarbankans hækki um 3 millj. kr.

Til Landssambands hestamanna er till. um 75 þús. kr. hækkun til leiðbeininga í hestamennsku. — Lagt er til að framlag til Efnarannsóknastofu Norðurlands hækki um 150 þús. kr. og til Tilraunastöðvar Búnaðarsambands Suðurlands er till. um 1200 þús. kr. vegna byggingarframkvæmda Búnaðarsambandsins.

Þá er lagt til að framlög til Garðyrkjuskólans að Reykjum hækki sem hér segir: Laun nýs kennara við skólann 843 þús., gjaldfærður stofnkostnaður vegna viðhalds 500 þús. og til skipulagsgerðar 500 þús. kr.

Þá koma brtt. varðandi sjávarútvegsmál. Þar er fyrst till. um hækkun á liðnum Skýrsludeild, lagt til að liðurinn hækki um 600 þús. kr., en upphæðin gengur til hækkunar á þóknun til trúnaðarmanna í hinum ýmsu verstöðvum úti á landi, en þóknun þessi hefur á undanförnum árum verið mjög lág.

Þá eru till. um hækkaðar fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunarinnar. Kemur þar fyrst 6 millj. kr. hækkun vegna Bjarna Sæmundssonar til kaupa á nýjum tækjum og til m.s. Drafnar, einnig til kaupa á nýjum tækjum, 2 millj. kr. Vegna útibús Hafrannsóknastofnunarinnar á Húsavík er lagt til að fjárveiting hækki um 950 þús., en það er vegna launa starfsmanns við útibúið. Þá er gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnunin setji á stofn nýtt útibú á árinu 1975 á Höfn í Hornafirði og er áætlaður kostnaður við það um 1500 þús. kr.

Vegna Rannsóknastofu fiskiðnaðarins er till. um 950 þús. kr. hækkun og eru það laun starfsmanns við útibú stofnunarinnar á Ísafirði. Við liðinn 299, Ýmislegt á sviði sjávarútvegs, er lagt til að sú breyting verði gerð að liðurinn 05 falli niður, en það eru 25 millj. kr. vegna rekstrarhalla togara 1973, en þess í stað hækki liðurinn 04, Vegna rekstrarhalla togara árið 1974, um sömu upphæð.

Þá koma næst till. varðandi dóms- og kirkjumál. Er þar fyrst lagt til, að löggæslukostnaður við sýslumannsembættið á Blönduósi hækki um 900 þús. kr., en það er vegna ráðningar eins lögregluþjóns á Skagaströnd.

Lagt er til að launaliður við sýslumannsembættið á Hvolsvelli hækki um 1500 þús. Skiptist upphæðin þannig að 900 þús. eru vegna ráðningar á einum lögregluþjóni og 600 þús. vegna aukinnar aðstoðar á skrifstofu sýslumanns.

Til sýslumanns og bæjarfógeta í Keflavík er lagt til að launaliður hækki um 1800 þús. kr. vegna ráðningar tveggja lögregluþjóna og 900 þús. kr. vegna ráðningar eins lögregluþjóns í Grindavík.

Þá er till. um 700 þús. kr. fjárveitingu vegna ráðningar á einum kvenfangaverði við fangelsið við Síðumúla.

Lagt er til að taka upp fjárveitingu að upphæð 4 millj. kr. til kaupa á húsnæði í Grindavík sem ætlað er til fangavörslu og lögregluvarðstofu. Hér er um tveggja hæða hús að ræða og á bæjarfélagið efri hæð hússins.

Þá koma næst till. varðandi þjóðkirkjuna. Er þar fyrst till. um 300 þús. kr. hækkun, en það er til greiðslu á viðbótarkostnaði við skrifstofu biskups. Lagt er til að liðurinn Kirkjuþing hækki um 200 þús. og liðurinn Prestar og prófastar um 1 millj. og 50 þús., en það er vegna nýs prestsembættis í Breiðholti í Reykjavík. — Til Skálholtsstaðar er till. um 800 þús. kr. hækkun, en talin er brýn nauðsyn á því að verja meira fé til viðhalds á Skálholtsstað. — Til Hallgrímskirkju í Reykjavík er till. um 635 þús. kr. fjárveitingu og er það nýr liður vegna stólakaupa til kirkjunnar, en þessi upphæð nemur áætluðum innflutningsgjöldum af umræddum stólum. — Þá er lagt til að tekinn sé inn nýr liður að upphæð 1 millj. kr. til Hallgrímskirkju í Saurbæ, en það er ætlað til minningar í tilefni 300 ára ártíðar Hallgríms Péturssonar. — Loks er lagt til að fjárveiting til Kirkjubyggingasjóðs hækki um 3 millj. kr.

Þá koma brtt. sem varða félmrn. Þar kemur fyrst brtt. við stofnun skipulagsstjóra og er hún við 3 liði. Lagt er til að launaliður hækki um 2 millj., liðurinn Önnur rekstrargjöld um 1 millj. og liðurinn Til sveitarfélaga er lagt til að hækki um 6 millj. kr. Samtals eru þetta 9 millj. og er afleiðing nýrrar löggjafar, sem samþ. var á síðasta Alþingi.

Lagt er til að fjárveiting til vatnsveitna hækki um 4 millj. og 500 þús. kr. og að upphæðin gangi til viðbótar því, sem áður var ætlað, til Vatnsveitu Vestmannaeyja.

Til Landssambands verslunarmanna er till. um 50 þús. kr. hækkun, til félagsins Heyrnarhjálpar 500 þús. kr. hækkun og til Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra er till. um 100 þús. kr. hækkun. — Þá er lagt til að Stéttarfélagi félagsráðgjafa verði veittur 250 þús. kr. styrkur til þess að standa undir kostnaði við norrænt félagsráðgjafaþing, sem halda á hér í Reykjavík á komandi sumri, en slík félagsráðgjafaþing eru haldin árlega á Norðurlöndum til skiptis.

Þá eru næst brtt. varðandi heilbr.- og trmrn. Þar er lagt til að stofnkostnaður við Landsspítalann hækki um 35 millj. kr., og til fæðingardeildar Landsspítalans er till. um 60 millj. kr. hækkun og verður þá liðurinn samtals 80 millj. kr. — Til sjúkrahússins á Vífilsstöðum er lagt til að inn sé tekinn nýr liður að upphæð 10 millj. kr., en upphæðin er ætluð til byggingar dagvistunarheimilis fyrir sjúkrahúsið. — Till. er um 4 millj. kr. fjárveitingu til Kristneshælis, en það er vegna kostnaðar við nýja lyftu sem setja á í sjúkrahúsið.

Liðurinn Læknishéraðasjóður er lagt til að hækki um 2 millj. og 500 þús. kr. Og liðurinn Til byggingar sjúkrahúsa o. fl. er lagt til að hækki um 166 millj. og 600 þús. kr. Hér er um hlutfallslega mesta hækkun að ræða í samanburði við aðra framkvæmdaliði fjárlfrv. Fjvn. er það fulljóst að enda þótt svo hárri fjárhæð sé varið til byggingar sjúkrahúsa og heilsuræslustöðva sem hér er lagt til þá verður vandinn ekki minni á næsta ári, nema síður sé. Ég tel að ekki megi fresta lengur að taka ákvörðun um það, sem ég vék að í upphafi máls míns, að gerð verði áætlun fram í tímann um byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, því að án þess að slík vinnubrögð verði viðhöfð verður allt málið erfiðara og ófyrirsjáanlegt á hvern hátt ríkið getur staðið undir sínum hluta við byggingarkostnaðinn, en á því lenda skv. gildandi lögum um 85% af heildarkostnaðinum, nema ríkisspítölunum, þar sem ríkissjóður greiðir allan kostnaðinn. Að öðru leyti vil ég vísa um skiptingu á þessari stóru fjárhæð til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva til eftirlits sem fram kemur á þskj. 143.

Þá er lagt til að liðurinn „Til héraðslækna og heilsugæslustöðva“ hækki um 2 millj. 270 þús. kr., en það er ætlað til tækjakaupa fyrir heilsugæslustöðvarnar.

Lagt er til að fjárveiting til St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði hækki um 1504 þús. kr.

Til matvælarannsókna er till. um 512 þús. kr. hækkun. — Vegna námskeiða fyrir sjúkraliða er lagt til að fjárveiting hækki um 1 millj. og 400 þús. kr. — Á komandi sumri verður haldin ráðstefna hér í Reykjavík á vegum háls-, nef- og eyrnalækna. Gert er ráð fyrir að um 450 manns sæki ráðstefnu þessa og er lagt til að fjárveiting hennar vegna verði 300 þús. kr.

Þá er lagt til að liðurinn Sjúkraflug hækki um 500 þús. kr. Þessum líð er skipt milli fjögurra flugfélaga, sem staðsett eru víðs vegar um landið og gegna þar þýðingarmikilli þjónustu fyrir landsbyggðina.

Þá er lagt til að fjárhæð Gæsluvistarsjóðs verði skipt milli fjögurra aðila, svo sem fram kemur á þskj. 143. Óbreytt stendur fjárveiting til Bláa bandsins 1200 þús. kr. og til félagsins Verndar 500 þús. kr.

Þá koma næst brtt. við málefni fjmrn. Þar er aðeins ein brtt. og hún er um að liðurinn Styrktarfé og ýmis eftirlaun hækki um 4 millj. 708 þús. kr. Um skiptingu á heildarupphæðinni, sem nemur 17 millj. 936 þús., vísast til þess sem fram kemur í yfirliti á þskj. 143.

Brtt. við málefni samgrn. koma næst. Þar kemur fyrst till. n. um hækkun til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. Lagt er til að liðurinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur hækki um 51 millj. 610 þús. kr. Til ferjubryggju er till. um 3 millj. kr. hækkun, og framlag til Hafnarbótasjóðs hækkar um 6 millj. 192 þús., en það er í beinu sambandi við fjárveitingu til hafnarmannvirkja, en skv. lögum skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins nema 12% af framlagi ríkissjóðs til hafnarmannvirkja. Til sjóvarnargarða er till. um 800 þús. kr. hækkun. Um skiptingu á fé þessu milli framkvæmda vísast til sérstakra yfirlita á þskj. og á það við um alla þessa liði: hafnarmannvirki, lendingarbætur, ferjubryggjur og sjóvarnargarða.

Við liðinn Sjóslysanefnd er lagt til að fjárveiting hækki um 300 þús. kr. Hjá n. liggur erindi, sem barst ekki fyrr en á síðasta fund n. áður en gengið var frá till. til 2. umr., en það er um fjárveitingu vegna rannsókna á reki gúmmíbjörgunarbáta, sem er skv. samþ. þáltill. frá síðasta þingi. Það mál er að sjálfsögðu til athugunar hjá n. og verður afstaða til þess tekin fyrir 3. umr.

Þessu næst koma brtt. varðandi fjárveitingar til flugmála. Þar er lagt til að liðurinn Flugmálastjórn hækki um 19 millj. og 600 þús. Hækkun þessi skiptist þannig að 18 millj. koma til hækkunar á framkvæmdum við flugvallargerð og 1600 þús. kr. til snjómoksturs á flugvöllum. Samtals verður varið til snjómoksturs á flugvöllum 5 millj. kr. og er það í fyrsta skipti tekið inn sem sérstakur liður. Að öðru leyti vísast til yfirlits á þskj. 143 um skiptingu á upphæðinni á milli framkvæmda.

Þá er lagt til, að gjaldfærður stofnkostnaður við Veðurstofu hækki um 1 millj. kr., en það er vegna gengislækkunar í sambandi við tæki, sem stofnunin kaupir erlendis frá.

Til flugbjörgunarsveita er lagt til að fjárveiting hækki um 350 þús. kr.

Loks er till. um hækkun á fjárveitingu til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins að upphæð 1 millj. kr.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns bíða nokkur mál frekari athugunar hjá n. Eru þar málaflokkar, sem heyra undir iðnrn., svo sem Rafmagnsveitur ríkisins og orkumál, þ.á m. vegna Kröfluvirkjunar og væntanlegrar virkjunar Bessastaðaár í Fljótsdal, sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi o.fl., enn fremur aðrir málaflokkar, svo sem vegna almannatrygginga, en þar verður um verulega hækkun að ræða frá því sem nú er í frv., bæði hvað snertir sjúkratryggingar og lífeyristryggingar. Þá er eftir að gera grein fyrir endurskoðun á tekjum Vegasjóðs og enn fremur málefnum Pósts og síma, en báðir þessir málaflokkar eru nú í athugun hjá n.

Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir þeim brtt. við fjárlfrv., sem n. flytur sameiginlega við þessa umr. Verði þessar till. n. samþ. hefur það í för með sér hækkun á gjaldabálki fjárlfrv. sem nemur 802 millj. 879 þús. kr.

Eins og ég hef áður að vikið mættu á síðasta fundi n. nú fyrir afgreiðslu málsins við 2. umr. fulltrúar frá Þjóðhagsstofnun. Gáfu þeir n. margvíslegar upplýsingar um þróun efnahagsmála þjóðarbúsins á yfirstandandi ári, jafnframt því sem þeir skýrðu frá því að þeir væru að ljúka við frumdrög að nýrri þjóðhagsspá fyrir næsta ár. Nú hafa n. borist þessar upplýsingar í skýrsluformi, svo að það ætti að vera auðveldara fyrir nm. og aðra að taka afstöðu við endanlega afgreiðslu fjárlfrv. um málið í heild, þegar það kemur til 3. umr., væntanlega í lok þessarar viku. Það kom fram á þeim fundi, sem þeir fulltrúar Þjóðhagsstofnunar áttu með fjvn., að allar áætlanir stofnunarinnar eru byggðar á þeim grundvelli að full atvinna haldist allt árið og að atvinnuvegirnir gætu einnig starfað við eðlileg skilyrði. Þjóðhagsstofnunin hefur gefið sér 3 dæmi um áætlaðar innheimtar tekjur ríkissjóðs á næsta ári, sem að sjálfsögðu eru byggðar á mismunandi forsendum. Nú við lok ársins liggur það betur fyrir en áður hvað ætla megi að atvinnutekjur hafi hækkað á árinu á mann. Það er álit Þjóðhagsstofnunar að breytingin verði meiri en gert var ráð fyrir við samningu fjárlfrv. Nú er talið að atvinnutekjur á mann muni reynast nm 50% hærri, en í frv. er gengið út frá 35% hækkun. Með tilliti til þessa ber að sjálfsögðu að hafa í huga að endurskoða þarf þá skattvísitölu, sem miðað verður við, en eins og í fjárlfrv. kemur fram er þar miðað við skattvísitölu 145 stig. Þessi þrjú dæmi, sem Þjóðhagsstofnunin setur fram og eru, eins og ég áðan sagði, byggð á mismunandi forsendum, gera ráð fyrir því að við vissa viðmiðun geti heildartekjur ríkissjóðs hækkað frá því, sem er í fjárlfrv., samkv. fyrsta dæmi um 3 028 millj. kr., samkv. 2. dæmi um 1 milljarð 954 millj. og samkv. 3. dæmi um 1 milljarð 433 millj. kr.

Um þessar niðurstöður sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða að sinni eða þær brtt. sem fjvn. flytur. Ég hef því lokið máli mínu, herra forseti, og legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.