16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

1. mál, fjárlög 1975

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Þegar ljóst var á sumarþinginu, að Alþ. yrði ekki kallað saman aftur fyrr en undir mánaðamótin okt.– nóv., átti ég viðræður við hæstv. fjmrh. og form. fjvn. og lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi óhjákvæmilegt að fjvn. eða a.m.k. undirnefnd fjvn. kæmi saman ekki síðar en í byrjun okt. og reyndi að ljúka sem mestu af viðtölum við forráðamenn ríkisstofnana og helst sveitarfélaga einnig áður en þing hæfist, ella væri ólíklegt að n. ynnist tími til að ljúka störfum við fjárlfrv. í tæka tíð fyrir jól. Þessi tilhögun var höfð á að því leyti, að undirnefnd fjvn. lauk viðtölum við allmarga forstöðumenn stofnana, eins og form. n. greindi frá áðan, en af viðræðum við sveitarstjórnarmenn varð því miður ekki. Ég tel að sá tími, sem undirnefnd notaði til viðtala fyrir þingbyrjun, hafi verið of stuttur, en notast vel og þau störf hafi reynst forsenda þess að fjárl. verði afgreidd fyrir jól. Hins vegar er það skoðun mín að tíminn frá þingbyrjun hafi verið nýttur miklu síður en skyldi og miður en ég hef áður þekkt, einkum í upphafi þings. Þetta hefur leitt til þess að á síðustu stundu hefur orðið að afgreiða mál af of mikilli skyndingu og án þess að tími gæfist til að ræða hin ýmsu erindi og málaflokka sem skyldi. Hefur n. þó oft áður verið hart keyrð í þessu efni, en aldrei eins og nú. Þá tel ég að tengsl n. við fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi verið of lítil að þessu sinni og miklu minni en áður.

Um þessi atriði skal ég ekki hafa fleiri orð. Þessir vankantar hafa ekki bitnað á einum aðila öðrum fremur, en ég tel einsýnt að gera verði ráð fyrir að enda þótt þing komi saman á venjulegum tíma, um 10. okt., þá verði undirnefnd fjvn. að hefja störf varðandi einstök atriði í fjárlfrv. ekki síðar en einum mánuði áður en þinghald hefst. Með því að skipuleggja störf n. í heild og undirnefnda, sem fjalla um einstaka málaflokka, í samráði við fjárlaga- og hagsýslustofnun, og ætla meiri tíma en nú hefur verið gert til nefndarfunda til upplýsingaöflunar fyrstu vikurnar eftir að þing kemur saman gæfist rýmri tími til ákvarðanatöku seinni hluta starfstímans.

Þrátt fyrir þá annmarka sem verið hafa á störfum n., annmarka, sem sumir eiga sér eðlilegar orsakir og eru ekki að koma fyrst upp núna, þá hefur samstarf innan n. verið með miklum ágætum og flyt ég samnm. mínum bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf, einkum form. n. fyrir þá sérstöku lipurð og ljúfmennsku, sem honum er lagin og mér er áður vel kunn frá fyrri formannstíð hans.

Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn. stöndum sameiginlega að nál., sem birt er á þskj. 152. Að venju flytur n. sameiginlega margar brtt. Um þær gildir hið sama og venjulega. Slík tilhögun þýðir ekki að hver einstakur nm. sé sammála öllum till., sem þar eru fluttar. við nm. í minni hl. höfum óbundnar hendur um afstöðu til einstakra brtt., sem fluttar eru í nafni allrar n., og höfum áskilið okkur rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Mjög margir veigamiklir þættir fjárlfrv. eru óafgreiddir í n. auk tekjuhliðar þess og auk þess ýmis smærri atriði. Vegna þess hve seint 2 umr. fer fram, hún hefur aldrei verið svo seint svo langt sem ég man, gefst, miðað við hversu margt er samt sem áður óafgreitt, tiltölulega lítill tími milli 2. og 3. umr. að þessu sinni.

Minni hl. n. flytur ekki sem slíkur brtt. við þessa umr. a.m.k. Hann hefur reynt að koma sínum sjónarmiðum að við afgreiðslu einstakra mála í n., eftir því sem tækifæri hefur gefist til í þeim óhemju tímaskorti, sem þar hefur ríkt, einkum eftir að afgreiðsla loksins hófst. En að sjálfsögðu hljóta ríkisstjórnarflokkarnir hverju sinni að móta heildarstefnuna og ákvarða heildarútgjöldin. Tilraunir minni hl. n. þegar til afgreiðslu kemur í þinginu til að koma fram breytingum á frv. koma því að jafnaði fyrir lítið, jafnvel er ólíklegra að slíkar till. nái fram að ganga en till. einstakra þm. Þar að auki hefur stjórnarvöldum að þessu sinni tekist að spenna rekstrarkostnað ríkisins og samsvarandi skattheimtu svo ógnarlega upp, að hverjum og einum hlýtur að óa við að þar sé við bætt og er þó vissulega þörf á fjárveitingum til málefna, sem engan veginn er nægilega séð fyrir í fjárlfrv. eða þeim brtt., sem n. flytur. Er þar bæði um að ræða framkvæmdaliði og þó einkum framlag til lífeyristrygginga.

Við 1. umr. rakti ég fjárlfrv. nokkuð. Í höfuðatriðum hefur starf fjvn. og ákvarðanir meiri hl. hennar milli umr. ekki raskað aðaleinkennum frv. og mun ég því ekki fjalla um það í mjög löngu máli nú, þegar það kemur öðru sinni til umr., enda er nú svo komið afgreiðslu þess, að eigi að ljúka henni n.k. föstudag eða laugard., þá mun n. ekki veita af að 2. umr. ljúki tiltölulega fljótt, svo að frv. komist sem fyrst í hendur n. að nýju, þar sem mjög mörg meiri háttar mál bíða afgreiðslu.

Í fjárlfrv., eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir að skattheimta ríkisins á næsta ári yrði rúmlega 16 þús. millj. kr. hærri en í núgildandi fjárl., en með þeim hækkunartill. sem fluttar eru á þskj. 143 o, 147 og nema um 800 millj. kr., og þeim hækkunum, sem fyrirsjáanlegar eru þar til viðbótar, má gera ráð fyrir að skattheimta ríkisins á næsta ári nemi 47–48 milljörðum kr. og hækki frá núgildandi fjárl. um 17,5–18 þús. millj. kr. og verður aukningin, aðeins aukningin á skattheimtunni á næsta ári, miðað við núgildandi fjárl., a.m.k. 1 þús. millj. kr. hærri upphæð en nemur öllum tekjum ríkissjóðs á fjárl. 1972. Fjárl. hækka nú í einu lagi um hærri fjárhæð en nemur öllum fjárl. 1972. Fjárlög hækka því að þessu sinni um 60–62% frá núgildandi fjárl., og mun það vera langsamlega mesta hækkun á fjárl. sem um getur í þingsögunni, og gerist hæstv. fjmrh. þegar í stað alger methafi á þessu sviði. Það er svo kaldhæðni örlaganna að hann skuli hafa fyrir ári haldið því fram hér á hv. Alþ. að það væri auðvelt — ekki aðeins unnt, heldur auðvelt að skera niður ríkisútgjöld um 4 300 millj. kr. á árinu 1974, en það gæti svarað til 6 þús. millj. kr. á því ári, sem fjárlfrv. snýst um. Nú, 12 mánuðum seinna beitir flm. frv. um skattalækkunina miklu, núv. hæstv. fjmrh., sér fyrir því að auka skattheimtuna um 18 þús. millj. kr. á næsta ári. Það munar ekki minni upphæð en 24 milljörðum eða um 82% af niðurstöðutölum núgildandi fjárl. Minna hefði mátt gagn gera.

Við framlagningu fjárlfrv. kom í ljós að hæstv. ráðh. taldi, þegar á hólminn var komið, ekki eins auðvelt að skera niður ríkisútgjöld og minnka skattheimtuna og hann áleit í fyrra, heldur vildi þá afgr. fjárl. með 16 þús. millj. kr. hækkun þess í stað. Nú kemur hann aftur og telur verkefnið ekki auðveldara en svo að enn þurfi hann um 2 þús. millj. kr. í viðbót. Lækkun ríkisútgjalda átti að dómi hæstv. núv. fjmrh. að vera auðveld með því að minnka framkvæmdahraða og með sparnaði á vissum sviðum, eins og hann orðaði það. Þessum sviðum hefur hæstv. ráðh. sýnilega misst sjónar af og ekki fundið enn.

Ég hef áður haldið því fram, bæði í stjórnaraðstöðu og í stjórnarandstöðu, að ekki sé einfalt og auðvelt að koma við skyndilegum stórsparnaði í ríkiskerfinu eins og það er upp byggt, sérstaklega ef menn taka mark á æviráðningu starfsmanna ríkisins, en það eru aðrir í ríkisstj. en hæstv. fjmrh., sem hafa síðustu dagana gert tilraunir í því efni að setja æviráðningu ekki of mikið fyrir sig. En þó að þær óútskýrðu patentlausnir til stórlækkunar í ríkisútgjöldum, sem boðaðar voru í fyrra, hafi verið sparaðar að þessu sinni, hefði mátt vænta þess eftir svo karlmannlegar yfirlýsingar fyrir ári að þess sæjust einhvers staðar merki í fjárlfrv. og við meðferð stjórnarliða á því á Alþ. að það væri haft í huga a.m.k., að aðgát skyldi höfð við ákvörðun rekstrarliða, en það sést hvergi svo mikið sem örla á tilhneigingu til þess. Í grg. með frv. er beinlínis tekið fram að liðirnir Önnur rekstrargjöld hækki meir en almennt verðlag, eða um 65,7%, eftir að þá er búið að draga frá útgjaldaaukningu vegna sérstakra hækkana á verði olíu til skipa ríkisins og vegna hækkana á prentkostnaði hjá Ríkisútgáfu námsbóka, en þessir þættir hafa hækkað umfram annað í þjóðfélaginu sem kunnugt er. Þrátt fyrir að áhrif þessara sérstöku hækkana hafi verið dregin frá, hækka önnur rekstrargjöld um 65.7% eða meira en almennt verðlag í landinu.

Forráðamenn Reykjavíkurborgar hafa ekki getið sér orð fyrir sérstaka aðhaldssemi um rekstrarútgjöld borgarsjóðs og eyddu mjög miklu umfram tekjur á þessu ári, eins og komið hefur til umr. hér á hv. Alþ. í umræðum um neyðarráðstafanir sem grípa varð til í lánamálum til að draga þá að landi. En þannig stendur hæstv. fjmrh. að afgreiðslu fjárlfrv. fyrir ríkissjóð, að jafnvel borgarstjórinn í Reykjavík hendir á lofti hinar gífurlegu hækkanir á rekstrarliðum fjárlfrv. og hælist um í borgarstjórn og á síðum aðalmálgagns Sjálfstfl., er hann ber þessar risahækkanir rekstrarútgjalda hjá hæstv. fjmrh. saman við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár. Það er sem sagt að koma á daginn að nú er þannig haldið á málum ríkissjóðs, að ekki aðeins hæstv. fyrrv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, er hvítþveginn af öllum fyrri ásökunum Sjálfstfl um óráðsíu, heldur sér jafnvel borgarstjórinn í Reykjavik sér leik á borði að fá syndakvittun líka út á frammistöðu hæstv. núv. fjmrh.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1974, sem lagt var fram í fyrrahaust, hækkuðu eiginleg rekstrargjöld ríkissjóðs, en þá er átt við útgjöld að frádregnum mörkuðum tekjustofnum, um 26.6% frá þágildandi fjárlögum, en útgjaldaþættirnir Önnur rekstrargjöld hækkuðu þá um 20.2% eða um 24.1% minna en útgjöldin í heild. Nú er þessu á annan veg farið. Nú hækka Önnur rekstrargjöld um 37.7% meira en hækkun er á áætluðum heildarútgjöldum. Heildarhækkun eiginlegra rekstrarútgjalda er 47.7%, en hækkun liðanna Önnur rekstrarútgjöld 65.7%.

Ég gat þess við 1. umr. að með fjárlagafrv. væri lagt til, að 53 lausráðnir ríkisstarfsmenn verði fastráðnir og 69 að auki, sem ekki hafa verið starfsmenn ríkisins, verði einnig fastráðnir. Þessar ráðningar 122 manna koma til viðbótar aukningu í kennarastétt. Í till., sem lagðar eru fyrir til afgreiðslu við 2. umr., er enn lagt til að bæta við þessa tölu. Þar er um að ræða lögreglumenn, 4 búnaðarráðunauta og jafnvel prest. Það er sama hvernig árar hjá þjóðinni, enn virðist tímabært að þenja út rekstrarkostnaðinn, hvað sem líður öllum yfirlýsingum ráðamanna um gagnstæðan vilja. Það kann að vera eðlilegt, að þar sem fólki fjölgar mest fjölgi líka prestum, en að mínum dómi er fráleitt að taka ekki um leið til athugunar að fækka þeim, þar sem fólksfækkun og stórbættar samgöngur gefa tilefni til. Ég er þeirrar skoðunar að Alþ. eigi ekki að ljá máls á því að fjölga þessum starfsmönnum í þéttbýli fyrr en tala þeirra og niðurröðun úti á landsbyggðinni hefur verið færð til samræmis við breyttar aðstæður þar.

Þótt n. eða meiri hl. hennar öllu heldur hafi nú þegar samþ. fjölgun landbúnaðarráðunauta og presta, hefur engin afstaða verið tekin til beiðni sem fyrir liggur frá stjórn ríkisspítalanna um fjölgun starfsfólks hjá sjúkrastofnunum, en sótt er um 225 nýjar stöður. Vegna þess hversu mikið átak hefur verið gert í þessu efni síðustu ár eftir langa vanrækslu fyrri ára er ástandið í þessu efni ekki jafnslæmt og fyrr. Í fyrra var t.d. veitt heimild fyrir 165 nýjum störfum á sjúkrastofnunum og þjónustustofnunum ríkisspítalanna. Með of mikilli tregðu á ráðningu þessa fólks er aðeins verið að fresta vandanum og gera hann enn meiri á næsta ári og næstu árum En að sjálfsögðu ber að veita aðgæslu við þessar ráðningar sem aðrar. Hættan er sú, sem ég er hér að benda á, að þegar afgreiðslu er svo hagað að aðrar beiðnir um mannaráðningar en til sjúkrahúsanna eru teknar fyrir fyrst, þá sé sýnd meiri linkind gagnvart óþarfari stöðum, störfum og beiðnum, sem er siður brýnt að sinna, en afgr. eru þegar menn hafa ekki eins rekið sig á þau mörk, sem tekjuáætlunin setur og verður jafnan á síðasta stigi afgreiðslu í fjvn. Síðan, þegar á loks að taka fyrir beiðni um ný störf hjá sjúkrastofnunum, er komið á það stig að lítið rúm er fyrir frekari hækkanir, og þá er tregðast meira við að ráða menn í ný störf en þegar fjallað var um búfræðingana og prestana. Þetta er ekki sagt þessum starfsmönnum sérstaklega til lasts né heldur er ég að halda því fram að þessi vinnubrögð séu ný, en niðurstaða mín er sú, að fjvn. eigi að afgr. allar beiðnir um ný störf samtímis í heild og í samhengi og velja þá og hafna úr öllum hinum mismunandi umsóknum á sama tíma.

Í ræðu sinni fyrir frv. um lækkun skattheimtu ríkisins í fyrrahaust lýsti hæstv. núv. fjmrh. því yfir, eins og ég hef áður getið, að auðvelt væri að brúa bilið í rekstri ríkisins, annars vegar með sparnaði á vissum sviðum og hins vegar með minni framkvæmdahraða. Ég hef nú lýst því yfir, að varðandi sparnaðinn í ríkisútgjöldum hefur verið haldið í þveröfuga átt þegar það kom til kasta flm. skattalækkunarfrv. að leggja fjárlagafrv. fyrir Alþ. Í fjárlagafrv. voru hins vegar skorin niður framkvæmdaframlög í samræmi við það, að í grg. með fjárlagafrv. kemur fram sú yfirlýsta stefna stjórnarfl., Sjálfstfl. og Framsfl., að dregið skuli úr verklegum framkvæmdum ríkisins, þ.e.a.s. minnkuð skuli framlög úr ríkissjóði til ýmissar uppbyggingar úti á landsbyggðinni, uppbyggingar sem ríkið stendur annaðhvort að eitt eða leggur fram fé að ákveðnum hundraðshluta á móti sveitarfélögunum. Þessari stefnu er haldið á lofti annars vegar til þess að auðvelda ríkissjóði að standa undir útþenslunni á rekstrarliðunum, sem hækka meira en almennt verðlag í landinu, og hins vegar er ætlun ríkisstj. með þessu að hamla gegn því sem hún kallar þenslu á vinnumarkaðnum. En í því felst m.a. sú stefna hægri flokka, að fjárfesting einkaaðila eigi að sitja fyrir fjárfestingu vegna samfélagslegra þarfa, þegar erfitt verður um útvegun vinnuafls eigi að draga saman framkvæmdir opinberra aðila úti um alla landsbyggðina til þess að byggingarframkvæmdir einkaaðila á mestu þéttbýlissvæðunum geti gengið ótruflaðar og án þess að framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga valdi á vinnumarkaðnum samkeppni við þessa aðila.

Í þágu þessara aðila, einkaaðila sem fá lánsfé úr opinberum bönkum og sjóðum og njóta verðbólgugróðans, eru ætlaðar slíkar ráðstafanir ríkisstj. sem boðaðar eru í grg. fjárlagafrv. um samdrátt verklegra framkvæmda. Þær sérstöku ráðstafanir, sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. hefur gert til þess að skerða kjör sjómanna umfram kjör annarra stétta í landinu, verða ekki til þess að vinnuaflið, sem stjórnarflokkarnir hafa í stefnuyfirlýsingum sínum ætlast til að hyrfi frá störfum við opinberar framkvæmdir, leiti til starfa á fiskiskipaflotanum, nema atvinnuleysi neyði menn til þess. En sjómannasamtökin líta svo á, að í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna um samdrátt í opinberum framkvæmdum felist tilraun til þess að láta heppnast aðför hægri stjórnarinnar að sjómannastéttinni í landinu til að knýja það fram, að sjómenn fáist á flotann fyrir þau launakjör, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa skammtað. Enda er þetta sett í samhengi í grg. fjárlagafrv., þar sem fjallað er um magnminnkun verklegra framkvæmda. En í grg. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og kunnugt er hefur ríkt mikið þensluástand í landinu, sem m.a. hefur bitnað á útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar, og er gerð tilraun til þess að hamla gegn því ástandi.“

En allar fyrirætlanir ríkisstj. að láta samdrátt í samfélagslegum framkvæmdum og minnkandi atvinnu af þeim sökum knýja sjómenn til að sætta sig við lögboðna kjaraskerðingu munu mistakast. Og jafnvel þeirri yfirlýstu stefnu ráðh. í ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. um samdrátt í verklegum framkvæmdum ríkis og sveitarfélaga úti á landsbyggðinni tekst ekki að framfylgja í þeim mæli, sem að var keppt með fjárlagafrv.

Í störfum fjvn. hefur orðið bilbugur á þm. að framfylgja þessum stefnuyfirlýsingum eins verulega og ríkisstj. hefur ætlast til. Þetta á einkum við um framlög til sjúkrahúsabygginga og grunnskólaframkvæmda, enda er óhægt um vik í þeim málaflokkum að draga snögglega úr framkvæmdum. Framlög til skólabygginga, skólamannvirkja, sem eru í byggingu, eru umsamin, og þannig var að fjárveitingum til sjúkrahúsabygginga staðið í fyrra að óhjákvæmilegt er að halda þeim framkvæmdum áfram, sem eru hafnar, og nýta það fjármagn, sem þar hefur þegar verið bundið. Enn fremur var í fyrra veitt heimild til mjög margra sveitarfélaga til að undirbúa framkvæmdir í heilbrigðismálum. Þeim undirbúningi er nú lokið og viðkomandi aðilar telja, að nokkur fyrirheit um framkvæmdafjárveitingu í ár hafi falist í framlagi til undirbúnings framkvæmda í fyrra.

Í þessum málaflokkum er því allerfitt að knýja fram þegar á fyrsta ári stefnu núv. ríkisstj. um samdrátt verklegra framkvæmda úti á landi í þeim mæli sem hún óskar. Öðru máli gegnir um fjárveitingar til framkvæmda í hafnargerð og flugvallagerð. Þar eru áfangar ekki jafnbundnir af undanfarandi fjárveitingum, enda nær ríkisstj. betur fram sínu takmarki um samdrátt í þessum málaflokkum. Í framlögðum till. skortir þannig um 21% á að framlög til hafnargerða haldi sama framkvæmdagildi og í ár og varðandi flugvallagerð skortir 36% á.

Á árinu 1973 voru samþ. ný hafnalög, þar sem hlutur ríkissjóðs í hafnargerð sveitarfélaga var stórlega aukinn. Samþ. þessara nýju laga var fylgt eftir með stórauknum framlögum til hafnargerða við afgreiðslu núgildandi fjárlaga, þegar veittar voru úr ríkissjóði 444 millj. kr. til almennra hafnarframkvæmda sveitarfélaga og 169 millj. kr. vegna sérstakra framkvæmda í Grindavík og Höfn í Hornafirði. Þessar fjárveitingar voru taldar algerlega óhjákvæmilegar, m.a. vegna uppbyggingar skuttogaraflotans, sem dreifðist á útgerðarstaði víðs vegar um landið, þar sem viðast hvar skorti og skortir enn aðstöðu fyrir þessi skip, sem hafa orðið undirstaða að endurreisn atvinnulífsins á þessum stöðum, þar sem áður ríkti landlægt atvinnuleysi Auk þess var ástandið þannig í mörgum höfnum, þar sem ekki voru skuttogarar, að aðstaða fyrir vélbáta var algerlega óviðunandi og allur bátaflotinn jafnan í stórhættu í áhlaupaveðrum. Það hefði því vissulega þurft að fylgja eftir því, sem gert var við afgreiðslu núgildandi fjárlaga til að stórauka hafnarframkvæmdir um land allt, í stað þess að draga úr framkvæmdum eins og nú er ætlunin.

Ég get ítrekað þá skoðun, sem ég lét í ljós við 2. umr. um núgildandi fjárlög, þegar ég taldi, að framlög til hafnargerða hefðu um mjög langt árabil verið stórum of lág og hjá þjóð, sem á allt undir sjósókn og fiskvinnslu, verði ekki undan því vikist að gera hafnirnar þannig úr garði að þeim, sem vilja leggja það á sig að sækja sjóinn, sé ekki gert það ókleift vegna óviðunandi aðstöðu fyrir fiskiskipaflotann, þegar að landi er komið.

En framlög ríkissjóðs til hafna eru ekki nema hluti þess vandamáls, sem hafnarframkvæmdir eru, að vísu stærsti þátturinn. Annar aðalþátturinn er á hvern veg sveitarfélög geta séð fyrir sínum hlut, 25% kostnaðar við hafnarmannvirki.

Nú hefur ekki aðeins syrt í álinn varðandi hafnarframkvæmdir að því er varðar fjárframlög úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda, sem nú á að draga verulega úr, heldur hefur af hálfu stjórnvalda verið lýst yfir, að þegar ríkissjóður hefur aukið sinn hlut í 75% af öllum hafnarframkvæmdum sveitarfélaga, þá eigi sveitarfélögin að geta séð um sinn hlut upp á eigin spýtur úr því. Ég bjóst naumast við öðru, þegar hægri stjórn tók við völdum, en að hún kippti að sér hendinni um framlög úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda eins og nú er að gerast. Slík stjórn melur einkafjárfestingu meir en samfélagslega og vill ekki að af fjárframlögum úr ríkissjóði hljóti einkareksturinn samkeppni um vinnuaflið. En ég átti naumast von á svo afdráttarlausri stefnubreytingu varðandi stuðning ríkisins við sveitarfélög í því skyni að gera þeim kleift að reiða sinn hlut af hendi. Ég er ekki þeirrar skoðunar að enda þótt hlutur ríkissjóðs sé nú 75% af framkvæmdakostnaði, þá sé hlutur sveitarfélaganna þar með orðinn svo léttur að ríkið þurfi helst ekki nærri því að koma að aðstoða sveitarfélög við þeirra hluta nema í undantekningartilfellum. Ég var sömu skoðunar í fyrra, þegar ég gerði grein fyrir till. fjvn. um hæsta framlag sem nokkru sinni hefur verið veitt úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda í landinu, og lagði þá áherslu á að til úrbóta í hafnamálum dygði ekki það eitt að veita fé á fjárlögum til að kosta þau 75% framkvæmdakostnaðar við hafnarframkvæmdir, sem ríkið á að sjá um. Þá benti ég á að víða væri hag hafnarsjóða svo komið, að þeir væru einskis megnugir og gætu í raun og veru ekki bætt á sig kostnaði við nýjar framkvæmdir, m.a. vegna erlendra lána, sem hækka með hverri gengisfellingu. Ég taldi óhjákvæmilega nauðsyn og þjóðfélagslega sanngjarnt að gerðar verði ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir. Til þess að sinna þessu verkefni voru sumarið 7973 veittar 40 millj. kr. samkv. sérstakri heimild á fjárlögum til hafnarsjóða víðs vegar um land í lán til 15 ára afborgunarlaus fyrstu tvö árin. Það var einróma álit fjvn. þá, að þessa fyrirgreiðslu hefði þurft að veita sem framlög, en ekki lán, þótt það hafi vissulega komið sjóðunum að miklu gagni.

Á þeim fjárlögum, sem samþ. voru um þetta leyti í fyrra, er heimild til að taka 50 millj. kr. lán til ámóta fyrirgreiðslu til hafnarsjóða og veitt var 1973, en sú heimild hefur ekki verið notuð og enn hafa alls engin lán verið veitt úr Hafnabótasjóði til sveitarfélaga á þessu ári, þótt í dag sé 16, des. Ef sú á að verða í reynd stefna hægri stjórnarinnar, sem nú situr, eins og komið hefur fram, að láta vanda hafnarsjóðanna sem mest lönd og leið, þá verður að sjálfsögðu með tiltölulega auðveldum hætti náð því marki, sem e.t.v. er keppikeflið, að draga að verulegu ráði úr hafnarframkvæmdum sveitarfélaga og fjárútlátum úr ríkissjóði í því sambandi. Það kæmi þá nokkuð af sjálfu sér.

Vanskilaskuldir hafnarsjóða námu s.l. áramót um 58 millj. kr. Ef þær hafnir, sem hér er um að ræða, eiga ekki að dæmast úr leik varðandi frekari lífsnauðsynlegar hafnarframkvæmdir, verður að koma til sérstök aðstoð til þeirra, og þess ber sérstaklega að gæta, að þeim aðilum, sem hafa staðið í skilum með sín lán með útsvarsálagningu á íbúa sveitarfélagsins, verði að gera kleift að halda áfram framkvæmdum án slíkra byrða sem lagðar eru á þetta fólk umfram aðra landsmenn. Vandamál fólks í sjávarplássunum varðandi lífsnauðsynlega hafnargerð, sem er í þágu allra landsmanna, eru ekki leyst með einu saman 75% framlagi úr ríkissjóði, þótt einhverjir kunni að ímynda sér það.

Til þess að gefa hv. þm. nokkra mynd af því, hvað fólk í sjávarplássunum tekur á sínar herðar með því að standa undir kostnaði við hafnarframkvæmdir að 1/4 hluta, skal ég nefna sem dæmi, að í Sandgerði var í hittiðfyrra veitt upphafsfjárveiting til hafnarframkvæmda, sem síðan hefur verið veitt meira fé til og hafnar eru, en ætla má, að þær kosti sveitarfélagið um 26 millj. r. Ef til vill þykir einhverjum sem fjalla um þær 47 þús. millj. kr., sem ný fjárlög munu spanna, þetta engin ógnarupphæð, 26 millj. kr., jafnvel ekki stærri en svo, að það sé ofætlun, að ríkissjóður eða Hafnabótasjóður þurfi að koma þar nærri með fjárframlag eða aðra aðstoð eftir að ríkissjóður hefur greitt 75% framkvæmdanna. En ef tekið er tillit til mannfjölda á þessum stað, þá er það svo, að sú upphæð, sem þessu fólki er ætlað að greiða, svarar til þess að reykvíkingar þyrftu að greiða nálega 2 300 millj. kr. vegna áfanga í hafnargerð. En það er ekki fjarri því að vera um það bil sú upphæð, sem Reykjavíkurborg ver til allra verklegra framkvæmda, gatnagerðar, skólabygginga, byggingar íþróttamannvirkja, heilbrigðisstofnana o.fl., á tveim árum. Þess má geta í leiðinni, að miðað við núgildandi verðlag hafa íbúar í þessu sjávarplássi í sambandi við fyrri hafnarframkvæmdir áður greitt með útsvörum ámóta upphæð og þeim er nú ætlað öðru sinni. Ég þarf ekki að minna á í þessu sambandi að fólk hvarvetna um landið borgar á sama tíma skatt til Reykjavíkurhafnar í verði svo til hverrar vöru, sem það kaupir til daglegrar neyslu, hafnargjöld til Reykjavíkur eru hluti af verði svo til allrar innfluttrar vöru. Svo hrikalegur er aðstöðumunur fólks í þessu landi.

Þótt e.t.v. þyki ekki til of mikils mælst að fólk í sjávarplássum úti á landi, það fólk sem sinnir mikilvægustu framleiðslustörfunum, standi undir fjórðungi kostnaðar við hafnarframkvæmdir til þess að gjaldeyrisöflun geti farið fram, hygg ég að ýmsir taki að skilja ofurþunga þessarar byrðar, þegar hún er færð upp í mælikvarða höfuðborgarinnar og gert væri ráð fyrir, að byrðin ætti að leggjast af hlutfallslega sama þunga á borgarbúa þar.

Ég tel að Hafnabótasjóð þurfi að efla verulega til þess að unnt sé að beita því ákvæði hafnalaga. sem heimilar að framlag til hafnargerða frá ríkissjóði og Hafnabótasjóði geti samanlagt numið allt að 90% af framkvæmdakostnaði. Það yrði drjúgur áfangi í þá átt að leysa fólk í sjávarplássum undan þeirri byrði að ofan á framlag sitt til gjaldeyrisöflunar með daglegri vinnu þurfi það umfram aðra landsmenn að leggja það einnig til gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar að kosta hluta af hafnarmannvirkjum.

Það hefur komið fram, að fyrirgreiðsla hefur verði veitt af hálfu Byggðasjóðs til hafnarsjóða sem verið hafa í vanskilum með hafnarlán. Ég er þeirrar skoðunar að ráðstöfun á fé, sem kemur úr ríkissjóði og varið er til fyrirgreiðslu við hafnarsjóði, eigi að vera á vegum aðila sem hafa yfirsýn yfir málefni allra hafnarsjóða í landinu og taki tillit til fleiri atriða en vanskila, svo sem þess hvað sveitarstjórnirnar hafa lagt á íbúana í skattgreiðslum til þess að hafnarsjóður standi í skilum, þannig að þeir aðilar séu ekki látnir gjalda þess að þeir leggja hart að sér til þess að greiða sínar skuldir. Byggðasjóður skiptir landinu í fyrirgreiðslusvæði og bannsvæði, þar sem Reykjanessvæðið er auk Reykjavikur, þannig að hugsanlegt er að staður eins og Akureyri, þar sem fólksfjölgun er hvað mest, njóti fyrirgreiðslu í sambandi við hafnamál á sama tíma og sjávarpláss á Suðurnesjum, svo sem Grindavík og Sandgerði, þar sem verður að leggja ofurbyrði á íbúana vegna hafnamála, geti engrar fyrirgreiðslu vænst. Ég tel því rangt að flytja fjármagn og vald frá Alþ. til slíkra sjóða að því er varðar fyrirgreiðslu í hafnamálum sem eru nokkurs sérstaks eðlis. Ég tel eðlilegra að Hafnabótasjóður sé efldur og ákvarðanir um styrki og aðra fyrirgreiðslu til hafnarsjóða vegna framkvæmda séu í höndum viðkomandi rn. og fjvn., þeirra aðila, sem fjalla um fjárveitingar úr ríkissjóði til að kosta 75% þessara sömu framkvæmda og eiga að hafa yfirsýn yfir mál allra hafnarsjóða, en ekki aðeins þeirra, sem eru á viðurkenndum svæðum Byggðasjóðs.

Ef aukið framlag úr ríkissjóði í Byggðasjóð á að verða annars vegar til þess að dregið verði úr fjárveitingum til hafnarframkvæmda eins og nú gerist og hins vegar til þess að dregið sé úr umsvifum Hafnabótasjóðs miðað við það sem ella hefði orðið og færa frá honum verkefni til annarra aðila, þá er ég andvígur slíkum ráðstöfunum. Ég tel hluta af auknu framlagi til Byggðasjóðs væri betur varið til aukinna fjárveitinga til hafnarframkvæmda og þó einkum til eflingar Hafnabótasjóðs.

Ég hef gerst nokkuð langorður um hafnamálin, enda vil ég leggja áherslu á að ég tel þau ein allra mikilvægustu málin sem fjallað er um í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og þykir það alvarleg ákvörðun Alþ. að draga úr fjárveitingum til þessara framkvæmda.

Undanfarið hefur verið rætt mjög um þátt verkmenntunar í námskerfinn og ætla ég ekki að eyða tíma í að ræða frá mínu sjónarmiði um ágalla þess kerfis, sem um langt skeið hefur byggt á þeirri grundvallarmeinloku að líta á hæfileika nemenda á verklegu sviði sem annars flokks hæfileika og talið það eitt til gáfna sem snýr að hæfileikum til bóknáms. Því hafa verknámsdeildir í skólum of lengi verið meðhöndlaðar sem eins konar tossadeildir bóknáms og sú afstaða einnig komið fram í sérskólum verknáms á þann hátt að þar sé hægt að bjóða upp á annars flokks aðbúnað, miðað við það sem gerist í þeim skólum sem hafa sinnt annars konar hæfileikum nemenda. Af þessari grundvallarmeinloku er komið meira en nóg og tímabært að ganga út frá þeirri einföldu staðreynd, að gáfur eru margs konar og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra, hvort heldur þær duga betur við meðhöndlun bóka eða annarra tækja. Þess vegna var ánægjulegt að heyra hæstv. menntmrh. lýsa því yfir að hann vildi taka þessum málum tak. Og þótt orð séu til alls fyrst, þá þarf samt meira en orð ef árangur á að nást. En hæstv. ráðh. virðist ætla að láta orðin nægja við afgreiðslu þessara fjárlaga. Engin merki áhuga hans sjást í fjárveitingum til verknámsskóla. Framlög til iðnskóla stórlækka að framkvæmdagildi. Þau þyrftu að vera 41% hærri til þess að halda framkvæmdagildi til jafns við fjárveitingar á núgildandi fjárlögum.

Í fyrsta skipti síðan Fiskvinnsluskólinn tók til starfa fær hann ekki þá fjárveitingu sem forráðamenn hans telja nauðsynlega til þess að halda megi áfram eðlilegri uppbyggingu hans. Framlög til Sjómannaskólahússins eru lækkuð úr 26.3 millj. kr. í 3 millj. Þar með er því slegið föstu að stöðva þær framkvæmdir. Á sama tíma er framlag til Kirkjubyggingasjóðs hækkað um 60% og eru þeir betur settir sem hljóta fjárframlög í stað orðanna einna.

Hin endurfædda helmingaskiptastjórn Sjálfstfl. og Framsóknar hefur setið að völdum í um það bil 31/2 mánuð. Síðan hún tók við völdum í þeim yfirlýsta tilgangi að draga úr verðbólgunni hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað svo að svarar til nær 60% verðbólguvaxtar á ári, og er það mesta verðbólga á rúmlega 3 mán. tímabil sem um getur. Eins og endranær hjá hægri stjórnum töldu stjórnarherrarnir of hátt kaup höfuðorsök verðbólgunnar og afnámu frekari verðlagsbætur á laun, tóku kaupgjaldsvísitöluna úr sambandi með lögum sem gilda að sinni a.m.k. til 1. júní n.k. En þeir hafa látið verðlagið leika lausum hala með þeim árangri sem ég áðan nefndi, enda eru sumir sjálfstæðisflokksmenn nú búnir að uppgötva verðbólgu í öðrum löndum, olíuverðshækkun o.fl., sem þeir höfðu litlar fregnir af um það leyti sem kosið var til Alþ. í sumar. Verðlag hefur undanfarið hækkað meir en á nokkru öðru jafnlöngu tímabili, þrátt fyrir bindingu kaupgjaldsvísitölu, og kaupmáttur launa rýrnað að sama skapi. Þótt þessi þróun bitni mjög á öllu launafólki, þá kemur hún langsamlega harðast niður á þeim öryrkjum og gamalmennum, sem hafa ekki annað sér til lífsframfæris en lífeyri almannatrygginga, tekjutrygginguna. Lífeyrisgreiðslur þessa fólks hafa aðeins hækkað um 10% og almennur lífeyrir um 6%, þegar framfærslukostnaður hefur hækkað um 20%, en kjaraskerðing þessa fólks, sem getur ekki annað keypt en brýnustu lífsnauðsynjar, er þó enn meiri en þessar tölur sýna, þar sem matvæli hafa hækkað meir en allt annað. Fyrirsjáanlegt er, að verðlagshækkanir halda áfram í ríkum mæli. T.d. mun við afgreiðslu fjárl. verða reiknað með 35.4% hækkun gjaldskrár Pósts og síma og hækkanir annarra þjónustugjalda eru á næsta leyti.

Þegar fulltrúar Þjóðhagsstofnunar komu á fund fjvn. gerðu þeir ráð fyrir því, að meðalverðlag 1975 yrði 27–29% hærra en meðalverðlag 1974 og að verðhækkanir innanlands frá næstu áramótum til ársloka yrðu a.m.k. 10%, þótt laun hækkuðu ekki nema um umsamin 3%. Kaupmáttur launa og lífeyrisgreiðslna á nú eftir að lækka enn verulega, ef svo fer fram sem horfir. En við afgreiðslu fjárlaga hefur ekki til þessa verið gert ráð fyrir einni krónu til þess að bæta þá kjaraskerðingu, sem gamalmenni og öryrkjar hafa þegar orðið fyrir og fyrirsjáanleg er til viðbótar, og líklegast er, að meiri hl. Alþingis láti nægja að gera einungis ráð fyrir umsömdum hækkunum til annarra. Er þó hér um að ræða lífsafkomu aðila sem verða að eiga allt sitt lífsviðurværi undir ákvörðun Alþ. og hafa engin tök á að ráða neinu um kjör sín.

Gengislækkun, hækkun söluskatts, binding kaupgjaldsvísitölu, allar þessar ráðstafanir eru gerðar vitandi vits til þess að rýra kjör launþega í þeim yfirlýsta tilgangi að draga úr því sem hagspekingarnir kalla „eftirspurnarþenslu“. En á sama tíma eru rekstrarútgjöld ríkissjóðs þanin svo út, að ríkisstj. krefst 12 þús. millj. kr. meiri ríkistekna á næsta ári en raunverulegum tekjum nemur á þessu ári. Tekjuhlið fjárlaganna byggir ríkisstj. því upp á forsendum sem samrýmast ekki aðgerðum hennar í efnahags- og verðlagsmálum, því að hvernig á að stórrýra lífskjörin með samdrætti í atvinnu og með verðlagshækkunum, sem renna til ýmissa aðila í þjóðfélaginu, og reikna síðan með 12 þús. millj. kr. hækkun á sköttum, sem að langmestu leyti eru neysluskattar?

Það er e.t.v. fremur ástæða til að ræða tekjuhlið fjárlagafrv. við 3. umr. en nú. En vegna upplýsinga sem fjvn. fékk frá fulltrúum þjóðhagsstofnunar um þann þátt frv. vil ég þó aðeins nefna nokkur atriði sem ljóst er að tekjuhliðin og þessi risavaxna tekjuaukning ríkissjóðs er byggð á. Hún er í fyrsta lagi byggð á viðskiptahalla, sem gæti numið um 10 milljörðum króna á næsta ári. Í öðru lagi á erlendu neysluláni sem nemur milljörðum kr. Það er tekið til þess að geta tryggt það ákvæði í EFTA-samningi að engin höft eða takmörkun sé á innflutningi og til þess að tryggja það magn innflutnings, sem dugir ríkissjóði í því meginverkefni að afla nægilegra neysluskatta til þess að standa undir útþenslunni í rekstrarútgjöldum. Í þriðja lagi á því, að gengið verði á vörubirgðir, þannig að í afrakstri næsta árs felist meira en svarar til framleiðslu á því ári. Í fjórða lagi, að gjaldeyrissjóðir rýrni um 1–2 milljarða. Í fimmta lagi, að áfram renni í ríkissjóð þær stórauknu skatttekjur, sem fást af innflutningsgjöldum og söluskatti vegna sérstakrar hækkunar á verði bensíns og olíu, þrátt fyrir þær fyrri kröfur Sjálfstfl. að þessar sérstöku aukatekjur af bensíni og olíu renni í Vegasjóð. Tekjur í Vegasjóð eiga svo að fást í auknum mæli með sölu verðtryggðra skuldabréfa, sem ríkissjóður á að greiða síðar og ekki þarf að hafa áhyggjur af þessa stundina. Í sjötta lagi er í tekjuáætluninni byggt á því, að þrátt fyrir minnkaðan kaupmátt launa og að samtímis fari fram verðhækkanir á áfengi og tóbaki, þá skili Áfengis- og tóbaksverslunin metgróða, eða 3.6 milljörðum kr. Í sjöunda lagi meiri bjartsýni um aflahorfur en spár fiskifræðinga gefa tilefni til. Í áttunda lagi, að verðlag á útflutningsvöru hækki um 3–4%, þótt ýmsir, sem best til þekkja, séu svartsýnni í þessu efni. Í níunda lagi, að innflutningur minnki ekki að magni til um meira en 2% frá þessu ári, þótt margt bendi til, að minnkunin verði mun meiri. Í tíunda lagi eru endarnir teygðir saman með því að skerða stórlega kjör öryrkja og gamalmenna sem hafa allt sitt lífsframfæri af lífeyrisgreiðslum almannatrygginga.

Hér er því sannarlega margt athugavert við þá undirstöðu, sem fjárhagsafgreiðslan er byggð á. En auðsæjust er þó sú sjálfhelda, að samtímis því sem ríkisstj. gerir ráðstafanir til samdráttar með stórfelldari kjaraskerðingu eykur hún svo gífurlega rekstrarútgjöld ríkissjóðs, að ekkert nema aukinn kaupmáttur frá því, sem nú er, og óbreytt umsvif í atvinnulífinu getur tryggt, að þessir stórfelldu neysluskattar komi til skila eins og þeir eru áætlaðir. Ef eitthvað bregður síðan út af, þá vitum við hvað gerist. Þá verða með sérstökum lögum enn skornar niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda úti á landsbyggðinni, en ekkert getur hins vegar haggað fyrirhuguðum milljarðafjárfestingum af öðrum toga spunnum í næsta nágrenni beggja vegna höfuðborgarinnar.

Áætluð hækkun skattheimtu ríkissjóðs á næsta ári frá raunverulegum tekjum á þessu ári nemur 52–54 þús. á hvert mannsbarn í landinu. Skattheimta hefur áður hækkað milli ára, þótt aldrei hafi hækkunin nálgast þá upphæð sem nú er um að ræða. En undanfarin ár bjó almenningur við vaxandi kaupmátt launa. Nú er fólki hins vegar ætlað að mæta þessari stórhækkuðu skattheimtu með launum sem hafa rýrnað að kaupmætti vegna þeirra auknu skatta, sem ríkisstj. hefur komið fram þegar á þessu ári, og vegna stórfelldra hækkana vöruverðs og þjónustu, sem renna til annarra aðila en ríkissjóðs, og þar að auki er gert ráð fyrir, að flest stærri sveitarfélög hækki útsvör um 10%. Um margra ára skeið naut launafólk vísitölubóta á laun til jafns við verðhækkanir, en nú er því ætlað að mæta allt að 12 milljarða kr. aukinni skattheimtu og öðrum hækkunum með óbreytt laun að frátalinni umsaminni 3% hækkun á grunnlaunum. Verstar eru þó horfurnar hjá hví fólki, sem ekkert hefur nema tryggingabætur að lifa á. Það getur ekkert gert til að bæta kjör sín, það á allt undir löggjafanum, stjórnvöldunum, sem nú undanfarið hafa gert sérstakar ráðstafanir til að snúa við þeirri þróun í lífskjörum þessa fólks sem átt hefur sér stað undanfarin ár. En þá tryggðu þau stjórnvöld, sem þá réðu, í fyrsta sínu þann rétt þessa fólks til lífeyris, að það geti komist af án þess að vera upp á aðra komið.

Þau fjárlög, sem nú er verið að afgreiða, bera margt í sér sem er miður en skyldi, stórfelldustu hækkun rekstrarútgjalda, sem um getur, samdrátt: mikilsverðustu samfélagslegum framkvæmdum, stóraukna skatta á launafólk. En svartasti bletturinn er sú ákvörðun sem felst í því að skerða að yfirlögðu ráði verulega kjör þeirra sem erfiðast eiga í þjóðfélaginu og ekkert er í rauninni unnt að taka af. Engin ríkisstj. á Íslandi önnur en einmitt stjórn þeirra tveggja flokka, sem nú fara með völd, gæti staðið að slíkri ráðstöfun til þess að ná saman endum við afgreiðslu fjárlaga.