16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

1. mál, fjárlög 1975

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég get nú raunar stytt mál mitt mjög, þar sem frsm. minni hl. hefur gert grein fyrir viðhorfi okkar í langri ræðu og drepið á ýmis þau atriði, sem ég hefði annars gert.

Það er augljóst. að við afgreiðslu þessara fjárl. er hækkun meiri á milli ára en dæmi eru til. Það er þó einkar athyglisvert að rifja upp nál. frá fulltrúum Sjálfstfl. um yfirstandandi fjárlög, en það nál. er dags. 11. des. 1973. Þá deila þeir mjög á þá þenslu, sem orðið hefur í ríkisbúskapnum, og á bls. 3. í því nál. — með leyfi forseta — segir orðrétt:

„Hér hefur áður verið vakin athygli á því hversu stórkostleg hækkun hefur orðið á fjárl. í heild í tíð núv. ríkisstj.“ — þ.e. vinstri stjórnarinnar. „Sýnt hefur verið fram á að sú hækkun stafar í stórum mæli af ört vaxandi ríkisbákni og ríkisafskiptum en hefur ekki að sama skapi orðið vegna verklegra framkvæmda, enda hafa þær í heild ekki aukist að magni til.“

Því miður getum við tekið undir þessi orð enn þá og sagt hið sama, að enn stefnir allt í sömu átt: aukin útgjöld, fleiri krónur og meiri verðbólga. Þetta er eðlilegt, vegna þess að eina ráðið til þess að bjarga atvinnuvegunum, eins og sagt er, er gengisfelling og ekkert nema gengisfelling. Það er alltaf gripið til hins sama ráðs, að færa á milli og jafna það með gengisfellingu. Það leiðir auðvitað af sjálfu sér að fjárlög hljóta að hækka ár frá ári, hver sem situr í valdastóli. Það hefur komið fram hér nú og kom fram við 1. umr., að það er ekki svo létt að breyta til með þessum aðferðum, þegar við hér á hinu háa Alþ. þorum ekki annað en fella blessaða krónuna og gera hana verðminni og slétta þannig út hugsanlega erfiðleika sem skapast hafa fyrir atvinnulífið í landinu. En er þetta eina leiðin? Er ekki kominn tími til þess að hugleiða það kerfi sem við búum við og þora að takast á við þann vanda sem við er að etja? Er það eina leiðin að millifæra í niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum um 31/2 milljarð? Er það eina leiðin að borga með kindakjötinu um 720 millj. í útflutningsuppbætur? Er það eina leiðin hjá okkur að flytja út yfir 3000 tonn af kindakjöti og gera nágrannaþjóðum okkar það mikinn greiða, að á stóru svæði í Norður-Noregi eru allar frystikistur uppseldar til þess að kaupa íslenskt kindakjöt? Það má sjálfsagt velta vöngum yfir þessu. Sumir mundu segja að ég væri hér að ráðast að bændastéttinni, en það er alls ekki svo. Ég er aðeins að deila á það kerfi, sem hefur verið við lýði í fjöldamörg ár og virðist ekki mega með nokkru móti endurskoða. Ég tel að það væri bæði gott fyrir bændur og launþega í landinu og hið háa Alþ. að taka þetta kerfi til rólegrar yfirvegunar og reyna að finna á því betri og heppilegri flöt.

Það er einnig víðar mikil millifærsla í þjóðarbúskapnum eða atvinnulífinu. Gífurlega mikil millifærsla á sér stað í sjávarútveginum, og þess vegna er fellt gengið enn einu sinni, þó að sú millifærsla eigi sér fyrst og fremst stað innbyrðis í atvinnugreininni, frá sjómönnum yfir til útgerðarinnar. En ég mun ekki ræða það mál meira hér.

Af því, sem fram hefur komið hér við aðra umr., er augljóst að mjög stórir þættir í ríkisbúskapnum eru enn óafgreiddir, óvenjulega margir, og hefur þegar verið drepið á orkumál, Póstur og sími er enn í deiglunni, en hefur fengið samþykki fyrir 35% hækkun á almennri þjónustu núna um áramótin, auk þess sem viss sérþjónusta fær mun meiri hækkun. Ríkisútvarpið og vandamál þess eru óleyst. Mikið vandamál er hjá Þjóðleikhúsinu, viðhald og lagfæringar á þeirri byggingu, þó að reksturinn þar sé orðinn mjög umfangsmikill og ef ég man rétt tekur yfir 100 millj. úr ríkissjóði, og einnig rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en þessir tveir þættir munu nú taka nálægt 200 millj. úr ríkissjóði. Ýmiss konar önnur félagsmálastarfsemi á í vök að verjast, og man ég eftir Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, sem sækja á mun meiri fjármagnsfyrirgreiðslu en þegar hefur verið samþ. Þetta er þó starfsemi, sem ég held allir þm. séu sammála um að megi ekki skerða, þar sem starfsemi á vegum þessara samtaka, sem eru landshlutasamtök, er öllum til góðs og til hollrar uppbyggingar fyrir æskuna og allt fólk í landinu.

Ég vil minna hér á einn þátt sem ekki hefur verið drepið á núna við 2. umr., en verður að bíða til 3. umr. Það er Lánasjóður námsmanna. Það er sérstakt vandamál sem ég kom hér inn á við 1. umr. og hæstv. fjmrh. fjallaði þá nokkuð um. Ég man ekki betur en hann gæfi í skyn að nýtt frv. um Lánasjóðinn yrði tilbúið í tæka tíð og jafnvel afgreitt fyrir áramót. Það hefur ekki enn komið fram. Ég læt hiklaust í ljós þá skoðun að við ættum að þora að verðtryggja vissan hluta af þessu kerfi, þannig að eftir 5 ár færi kerfið að skila eðlilegu fjármagni til baka, því að ella sæjum við fram á það; að við þyrftum fyrr eða síðar að vaxta úr ríkissjóði 11/2 milljarð eða jafnvel allt að 2 milljörðum kr. í þetta kerfi. Spá mín er sú að það verði okkur um megn. Við ráðum bókstaflega ekki við þetta nema horfast í augu við að það fólk sem nýtur þessara lána, sem er nú blessunarlega mun stærri hópur en var áður, verði að gera sér grein fyrir því að hluta af þessu fjármagni verður að greiða í raunhæfum krónum til baka. Ég hef hugsað mér að kannske 1/5 eða allt að 1/4 yrði verðtryggður og með þá hagkvæmum vöxtum. Þetta ætti engum ungum manni að vaxa í augum, Það er miklu skynsamlegra að vita að hann fái eðlilegri eftirspurn fullnægt, þegar hann er að læra, og það er fjárfesting í hans námi og hann er að læra til þess að hafa góð kjör síðari hluta ævinnar. Ég tel þess vegna að allir alþm. ættu að standa að því að taka þessa stefnu. Og ég vænti þess að hæstv, fjmrh. greini okkur eitthvað frá hvað er í deiglunni í þessu efni. Við komum sennilega til með að þurfa að rétta þessum sjóði enn þá nokkur hundruð millj. í viðbót við það, sem er á fjárl. Þeir hafa farið fram á rúman milljarð; en enn liggur þetta í fjvn.

Það hefur verið drepið á vissa aðra þætti hér, svo að ég get sleppt því, eins og Sjómannaskólann. Það verður að gera sérstakt átak til þess að hressa upp á þá byggingu. Hún er þegar orðin l. að gömul, að það verður ekki gengið fram hjá því lengur að gera sérstakt átak fyrir þá byggingu. Einnig verður að veita Fiskvinnsluskólanum meiri fyrirgreiðslu. Hann er að undirbúa vissan þátt í starfsemi sinni, sem ekki verður fram hjá gengið að gera, ella er starfsemi hans lömuð. Til þess þarf fáeinar millj. í viðbót.

Síðan eru orkumálin og Rafmagnsveitur ríkisins. Þetta er mjög stór málaflokkur, sem ekki hefur enn verið tekinn til endanlegrar meðferðar í fjvn., en mun þurfa mjög vaxandi fjármagn. Rannsóknartilraunir einar vegna hitaveitu munu kosta marga tugi millj. kr., og liggja fyrir beiðnir er nema mörgum tugum millj. og ekki er vitað hvernig afgreiddar verða. Þessar rannsóknir eiga að fara fram bæði norðanlands og sunnanlands og því mikilvægt fyrir þá staði, sem bíða eftir niðurstöðu í því sambandi, að fá afstöðu hins háa Alþ. sem fyrst.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að Áfengisverslun ríkisins skili nettógróða upp á rúmlega 3.5 milljarða eða jafnvel 3.6 milljarða. Gæsluvistarsjóður á að hafa vissar tekjur af áfenginu. Umr. urðu um áfengisvandamál hér á Alþ. fyrir nokkru, og þá lýsti ég því yfir og reyndar fleiri að við yrðum að líta á áfengissjúklinga með breyttu viðhorfi og líta á þá sem raunverulega sjúklinga, en ekki eingöngu ógæfumenn. Ég hefði því kosið að við sýndum Gæsluvistarsjóði meiri ræktarsemi en frv. gerir ráð fyrir. Í byggingu er nú myndarlegt heimili fyrir þá sem verst eru settir, en fjármögnun í það gengur rólega. Þó að hún sé nú nokkur, þá tel ég samt sem áður að við þurfum að gera hér myndarlegra átak, því að sjúkrabíls á þessum vettvangi eru ekki fyrir hendi. Þessir vesalings menn, sem eru sjúklingar vegna áfengisneyslunnar, eiga hvergi höfði sínu að halla og fá ekki inngöngu í venjulegt sjúkrahús nema að undangengnum miklum harmkvælum. Það er gert nú mjög myndarlegt átak í uppbyggingu sjúkrahúsa á landinu, óvenjulega myndarlegt, og er það vel. En við megum samt ekki gleyma þessum þætti, sérstaklega ekki þegar við getum gert ráð fyrir svo stórum tölum í tekjuhlið sem raun ber vitni um. Því vildi ég mjög mælast til þess að það yrði endurskoðað, að Gæsluvistarsjóður gæti fengið nokkra viðbót.

Landsspítalinn er enn óafgreiddur endanlega, en fjármagnsþörf þar er verulega mikil, og í nýjan atanga í fæðingarheimilinu eru veittar 60 millj., umsókn var um lágmark 80 millj. Á tveimur árum er talað a.m.k. um 130 millj. til að ljúka hinni margumræddu byggingu. Síðan var mjög fast sótt með byggingu á nýjum áfanga fyrir tannlækningar o. fl. og breytingu á Hringbraut, en það mál allt er nú lagt til hliðar. Þó kom byggingarnefnd á fund okkar í fjvn, og lagði mjög ríka áherslu á það, og einnig hefur það komið fram frá háskólarektor, að brýna nauðsyn bæri til að hefjast handa í þessum þætti Landsspítalans, sem er sameinaður einnig við Háskólann. Allt er þetta ákvörðun um fjármögnun á næstu árum upp á mörg hundruð millj. En ég sé ekki betur en hæstv. ríkisstj. hafi lagt það til hliðar varðandi næsta ár og muni ekki sinna þeirri beiðni.

Margar aðrar beiðnir liggja auðvitað óafgreiddar eins og ævinlega og eitthvað verður hlustað á þær fyrir 3. umr. og þarf ég því ekki að fjalla nánar um þær að sinni í von um það að hlustað verði á þær þrátt fyrir mikla hækkun, þar sem sums staðar er um óhjákvæmileg atriði að ræða, sem við verðum að mæta.

Því miður er það svo í fjárlagafrv., að „önnur rekstrargjöld“ hjá ríkissjóði hækka um 65.7%. Einhver hlutfallsleg breyting kann að eiga sér stað við afgreiðslu fjárl., en þetta er auðvitað gífurleg hækkun á milli áranna. Veldur þessu margt. Erlend verðbólguáhrif eru í vaxandi mæli núna hjá okkur. Olían hefur þrefaldast og ýmsar aðrar rekstrarvörur hafa einnig stórhækkað, og gert er ráð fyrir í þeirri þjóðhagspá, sem minnst var á hér áðan af báðum ræðumönnum, að áhrif almennrar erlendrar vöru séu a.m.k. 10% til hækkunar á næsta ári. Þetta er geigvænleg þróun fyrir ríkisbúskapinn og von að þröngt sé um fyrir Alþ. eða fjárveitingavaldið að hreyfa ríkisútgjöldin, þegar þau eru orðin svo mjög bundin eins og fjárlagafrv. ber með sér. Það er því í raun mjög lítil tala frá ári til árs, sem við getum hreyft, eins og þetta er fram sett.

Miðað við fyrri till. frá hæstv. fjmrh., sem drepið var á af síðasta ræðumanni, vildi ég nú samt sem áður sjá sérstakar till. eða vangaveltur um endurskipulagningu á fjármálum ríkisins og nýja stefnu, því að svo oft talaði hann um það og hans menn, bæði í fjvn. og í fjh.- og viðskn., að ég sakna þess að sjá ekki nú, þótt tími sé fremur naumur, eins og oft hefur verið drepið á, nokkur merki þess, að hann leggi til, eins og talað er um þó í aths. við frv., sérstaka breytingu í gerð ríkisfjárlaga og meira aðhald í ríkisrekstrinum en verið hefur. Þó muna hv. alþm. það, að fyrir Alþ. liggja nú tvö frv. sem ég tel mjög jákvæð. Það er um aukið aðhald hjá forstjórum ríkisstofnana að binda ekki viðkomandi stofnanir, sem þeir veita forstöðu, skuldbindingum öðruvísi en viðkomandi rn. hafi um það fjallað, og þakkaði ég hæstv. fjmrh, við 1. umr, þess frv. í Ed. fyrir það frv. Einnig á að móta fastar fastráðningu alls starfsliðs á vegum ríkisins og birta um það skrá með hverju fjárlagafrv. Hvort nafnaskráin verður upp á 10–12 þús. manns, skal ég ekki segja, og hvaða gildi það hefur út af fyrir sig að birta alla nafnaskrána, en ég tel a.m.k. rétt að birta hvað hvert rn. hefur af starfsliði undir sínum verndarvæng. Allt þetta ætti að stuðla að því, að útþensla í ríkisbúskapnum væri hófleg og væri ekki verðbólguvaldandi.

Því miður get ég ekki séð annað en þetta fjárlagafrv., sem við erum nú að ræða hér, sé annað en verulega verðbólguvaldandi, þar sem ríkisþenslan er jafngeigvænleg og raun ber vitni um. Það er auðvitað verðbólguvaldandi að treysta á svo mikinn innflutning til landsins, að halli á viðskiptum gæti numið allt að 10 millj. Sumt í þessu er auðvitað stórar rekstrarvörur og sumt kapítalvörur, en engu að síður reiknar Þjóðhagsstofnunin með, að á 3. milljarð a.m.k. geti verið um hreinan neysluvöruinnflutning að ræða umfram útflutningstekjur. Þetta tel ég mjög hæpið. En ríkisbúskapurinn er allur kominn á það svið, að það er ekki um margt að velja í þessu efni annað en að lifa á gæsku annarra og fá að skulda. Auk þess sem umsvif ríkisins eru nú meiri að þessu leyti en oftast áður er nú treyst á það, að margs konar fjármögnun eigi sér stað í ríkisframkvæmdum hér heima með happdrættiskerfi. Hér er farið út á varhugaverða braut. Það má fara með nokkurri gát í þessu efni. En að stefna í margmilljarða happdrættiskerfi jaðrar við það að við séum að senda framtíðinni óútfylltan víxil, ef ekki verður hamlað miklu meira á móti verðbólgu en verið hefur hér undanfarin ár. Og það eru nú varla drengileg vinnubrögð af hv. alþm. í dag að stofna til stórframkvæmda og segja öðrum að borga siðar. Ég held að við verðum að hugleiða með hvaða hætti við fjármögnum þetta af samtíma lánsútvegun eða samtímatekjum og gá að okkur í þessu efni. Sjálfsagt er þetta réttlætanlegt á ýmsu stigi, en í þessu efni verður að vera hóf sem í mörgum öðrum.

Í upplýsingum Þjóðhagsstofnunar segir, að almennt verðlag í landinu sé að meðaltali nú um 19% hærra í árslok, og gert er ráð fyrir að veruleg verðhækkun verði áfram út næsta ár, þó að nokkuð dragi úr þessari þróun. Þetta er mjög alvarlegt mál. Ég held að það sé tími til kominn fyrir alla hv. alþm. að sameinast um að byrja að draga úr kostnaði í ríkiskerfinu, og við ættum að sýna þá djörfung alveg hiklaust að byrja hér á hinu hv. Alþ. að draga úr rekstrarkostnaði þeirrar stofnunar. Það gæti verið góð fyrirmynd að öðru.

Mörgum ógnar sú þróun í verðrýrnun sparifjár og peninga almennt sem á sér stað í landinu, og er það eðlilegt. Það gæti verið verulega áhrifaríkt sálfræðilegt atriði að sýna það, að alþm. vilja standa saman um það að gæta hófs og draga úr þenslunni. Sumir kunna að brosa í kampinn yfir svona vangaveltum. En þetta gæti verið meira atriði en margir huga, því að ef við sýnum ekkert aðhald sjálfir og erum jafnan það veikir fyrir ýmsum beiðnum, sem okkur eru sendar, að aldrei megi neita neinu og aldrei megi viðurkenna þær tekjur sem við höfum fyrir ríkisbúskapinn, þá er ekki von að vel fari, og er þá sama hver situr við stjórnvöl.

Það er ágætt að eiga lánstraust erlendis. En miðað við þá þróun, sem fram undan er, verður svo gengið á gjaldeyrisvarasjóð okkar, að við verðum nú að lifa á sérstökum skyndilánum svo að við getum staðið við skuldbindingar okkar út á við. Þetta er ekki sæmandi fullveðja og sjálfstæðri þjóð til lengdar. Áföll eru ekki það mikil í okkar þjóðarbúskap að við getum vænst þess, miðað við fjölda annarra þjóða, sem eiga við miklu verri kjör að ræða, að við þurfum ekki að herða lítils háttar mittisólina, þegar verr árar hjá okkur en hjá mörgum öðrum þjóðum. Og það er engin skömm að því að lifa af því, sem við búum til og framleiðum sjálfir, og stilla erlendum lántökum í hóf í neyslu og einnig í eyðslu.

Sú spá, sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram, byggist á mjög miklum bílainnflutningi áfram. Þeir hafa þó sett upp 3 dæmi, og er augljóst, að í þriðja tilvikinu, sem þeir tilnefna, eru hugsanlegar lausar tekjur um 11/2 milljarð og miðað við þá afgreiðslu, sem þegar hefur átt sér stað á fjárl., þá er þegar búið að ráðstafa liðlega helmingnum af þessum væntanlegu tekjum. Svo stórir þættir eru enn eftir til afgreiðslu, að ég ætla að þeir muni nema svipaðri upphæð eða um 800 millj. kr. Þá erum við þegar komnir fram yfir hið þriðja dæmi, er Þjóðhagsstofnun setur upp, og verðum að huga að dæmi nr. 2, en getur gefið okkur 1.9 milljarða í auknar tekjur frá því, sem frv. gerði ráð fyrir. Það byggist á verulega miklum bilainnflutningi og verulega miklum vöruinnflutningi af hátollavöru, sem sagt að eyðslan sé í hámarki. Enn eitt dæmi er sett upp og það skilar okkur nærri 3 milljörðum í tekjuauka. En ég tel persónulega og reyndar heyrðist mér það einnig á talsmönnum frá Þjóðhagsstofnun, að það dæmi sé meira reikningslegt en raunhæft. Ef við viljum vera aðeins raunsæir og fara leið nr. 2 og 3 eða þar á milli, þá er sýnilegt, að svigrúm til að breyta fjárl. mikið frá því, sem þegar er sýnilegt, er ekkert nema hæstv. ríkisstj. ætli að afgreiða þessi fjárlög með halla og honum verulegum. Ég tel það óverjandi, eins og ástandið er í dag, gersamlega óverjandi, þegar fjárl. eru hærri en nokkru sinni og hækka um 50% á milli ára, að afgreiða þau með halla.

Hér er því um nokkurt vandamál að ræða. En ég veit ekki til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi sérstök áform um að mæta þessum vanda. Það hefur ekki komið fram í fjvn. enn þá, en á eftir að koma kannske fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér á eftir, hvernig hann vill snúast við þessu vandamáli. En þetta er sérstakt vandamál sem Alþ. hlýtur að fá að vita um hvernig ríkisstj. hyggst standa að nú innan skamms. Ég tel að tekjurnar séu settar eins hátt og hægt er og jafnvel óvarlega, þegar reiknað er með að útflutningstekjur hækki enn bæði að magni og verðlagi. Útlitið er, eftir því sem ég veit best, ekki á þann veg að við getum treyst slíku. Ég tel einnig hæpið að treysta því að þjóðin noti svo mikið áfengi og svo mikið af tóbaki að það gefi okkur um 3.6 milljarða í hreinar tekjur. Það getur vel verið að það megi hækka þetta enn og fá, eins og mun vera reiknað með eftir síðustu hækkun sem var um 15%, um 600 millj. í óvæntum tekjum, en ég dreg það þó mjög í efa að kaupgeta almennings sé svo mikil að það komi fram í hreinni ágóðamyndun.

Herra forseti. Ég vil ekki hafa þessi orð lengri enda fyrirhugað að gera nú hlé á þingfundi þar sem kl. er orðin fram yfir 16, en ég vænti þess að hæstv. fjmrh. svari einhverju varðandi þessar vangaveltur um ráðstöfun á þeirri litlu tekjuaukningu sem endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir og einnig viðhorfi hans til Lánasjóðsins og þeirra þátta er bæði ég og síðasti ræðumaður drap á að enn eru óafgreiddir, en munu útheimta mörg hundruð millj. ef mæta á þörfum þeirra. — [Fundarhlé.]