16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

1. mál, fjárlög 1975

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það var í senn átakanlegt og lærdómsríkt að heyra hæstv. fjmrh. lýsa sínu eigin frv. með þeim orðum að hækkunin á frv. væri algerlega óeðlileg, að þessi hækkun væri algert einsdæmi, að með þessari hækkun á fjárl. værum við að slá algert verðbólgumet í Evrópu. Þetta var lýsing hæstv. fjmrh. á sínu eigin fjárlagafrv. (Gripið fram í.) Það væri afleiðing verðbólgumets, já. Það er m.a. afleiðing af þeirri verðbólgu sem núv. ríkisstj. hefur skipulagt. í hennar tíð hefur verðbólguaukningin orðið sem svarar 60% á ári, hvorki meira né minna.

Hæstv. ráðh. hafði þann hátt á eins og oft áður að vilja kenna fyrirrennurum sínum um allt í þessu sambandi og ég ætla ekki að fara að deila við hæstv. ráðh. um það. Ég vil aðeins minna hann á að hann stóð hér fyrir einu ári í þessum sama ræðustól og þá hafði hann ekki heldur háar hugmyndir um þá þróun sem orðið hefði á undan, en þá taldi hann sér samt fært að skera niður upphæð fjárl. með einu pennastriki um 4 300 millj. kr. Það er upphæð sem jafngildir svo sem 6 000 millj. kr. núna. Þetta sagðist hann geta gert með einu pennastriki fyrir ári þrátt fyrir þá þróun sem orðið hafði á undan. Þrátt fyrir þá afleitu stjórn sem verið hafði á landinu í 3 ár, að hans mati, þá gat hann gert þetta með einu pennastriki. Svo fær þessi hv. þm. allt í einu ráðherrapenna, honum er gert kleift að framkvæma það sem hann var að boða hér á Alþ. fyrir ári, og hvað gerist? Lækkuðu fjárl. um 6 000 millj. kr. eins og bann taldi auðvelt verk fyrir ári? Nei, þau hækka um 18 000 millj. kr. Munurinn er hvorki meira né minna en 24 000 millj. Það hefur margt komið fyrir alþm. þann tíma sem ég hef fylgst með gjörðum þeirra hér á þingi, en ég hygg það sé algert einsdæmi að nokkur maður hafi orðið að sporðrenna sínum eigin orðum og sínum eigin stefnumiðum á svipaðan hátt og hæstv. fjmrh. hefur orðið að gera. Að undanförnu höfum við heyrt það undarlega orð „menningarneysla“. Það er hægt að búa til orðið „fjármunaneysla“, og ég bygg að maður, sem sporðrennir 24 000 millj. kr. á einu ári, hafi algjört heimsmet í þeirri íþrótt.

En það eru fleiri menn en fjmrh. sem búa til fjárlög. Fjárl. taka til allra þátta í stjórnarkerfinu og það reynir á marga fleiri en hæstv. fjmrh. að standa þannig að verkum að fjárl. séu sem réttlátust og skynsamlegust. Ég sé nú að vinnubrögðin við þessi fjárl. eru þannig, að jafnmikilvægur þáttur og orkumálin, sem ég tel vera það vandamál sem nú brennur heitast á okkur. á ekki að koma fyrr en við 3. umr., þannig að það verður naumast nokkurt ráðrúm til þess að fjalla um þann mikilvæga þátt. En í frv., sem liggur fyrir nú við 2. umr., eru þó þættir sem snerta heilbrigðis- og tryggingamál og ég hafði sérstakan hug á því að ræða örlítið um nokkur atriði í því sambandi. Ég hafði skýrt hæstv. heilbr.- og trmrh. frá því að ég óskaði eftir að ræða þau mál við hann og bera upp við hann ýmsar fsp. í því sambandi, og mér hefði verið þökk á því, hæstv. forseti, að það yrði kannað hvort hann er hér í þinghúsinu, þannig að hann geti verið viðstaddur þessa umr. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. komi fljótlega. Það er hans verkefni að vera hér á þingi og hlusta á það sem þm. segja. (Forseti: Starfsmaður Alþ. er að kanna hvort hæstv. ráðh. er í húsinu.) Fjárlög eru einhver mikilvægasti þáttur starfa okkar hér á þingi, og ráðh. eru ekkert of góðir til þess að vera hér í þingsalnum og ræða við okkur þm. við afgreiðslu fjárlaga. (Forseti: Mér er tjáð að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi fengið þau tilmæli, sem hv. ræðumaður hefur flutt, um að vera hér viðstaddur umr.) Ég hinkra þá svolitla stund meðan hæstv. ráðh. er að koma í salinn.

Ég vil bjóða hæstv. heilbr.- og trmrh. velkominn í þingsalinn. Mér finnst fara vel á því að ráðh. séu viðstaddir þegar rætt er um fjármál og fjárlög, vegna þess að þau eru undirstaða margra þeirra starfa sem við eigum að vinna í þjóðfélaginu, og það er ekki til of mikils mælst að ráðh. séu viðstaddir og að við getum rætt við þá.

Að því er heilbrigðis- og tryggingamál varðar, þá eru þau einhver allra mikilvægasti þáttur fjárl. Þangað rennur, að ég hygg, um það bil þriðja hver króna sem tekin er af landslýðnum í fjárl., og það er ákaflega mikilvægt hvernig þeim fjármunum er varið og hvernig gætt er hagsmuna þess fólks sem þessi málaflokkur snertir. Það er um ákaflega mikinn fjölda manna að ræða. Elli- og örorkulífeyrisþegar munu vera 21 000 og þar við bætast ótaldar þúsundir sem fá öðruvísi bætur frá almannatryggingakerfinu. Þjóðin öll á hagsæld sína undir því að vel sé staðið að heilbrigðismálum.

Fyrrv. stjórn leit mjög stórum augum á þessa málaflokka og lét þá ákaflega mikið til sín taka. Á þessum sviðum var náð árangri á síðustu 3 árum sem breytti þjóðfélagi okkar verulega til vaxandi jafnréttis og öryggis. bil þau 3 ár, sem fyrrv. ríkisstj. starfaði, var unnið samfellt að endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Ég ætla ekki að fara að tíunda þau verk hér en ég hygg að allir séu sammála um það að að þessum málum var mjög mikið unnið. — Eitthvert mikilvægasta verkefnið var að hækka lífeyri aldraðs fólks og öryrkja, en hann var svo lágur, áður en fyrrv. ríkisstj. tók við, að hann var þjóðfélagi okkar til algjörrar vansæmdar. Þá var svo ástatt að fólk, sem átti afkomu sína undir tekjum almannatrygginga, var langt fyrir neðan það að hafa tekjur sem nægðu því til einfaldasta mataræðis. Það gerðist á þessum árum margsinnis að fólk kom til læknis vegna þess að það var veikt, og úrskurður læknisins var sá að það þjáðist af næringarskorti. Á þessu sviði var unnið ákaflega mikið verk og náð árangri sem enn þá stendur sem betur fer þótt farið sé að skerða hann til muna.

Ég vil minna á það að á tímabilinu frá 1. maí 1971 til 1. apríl 1974 hækkaði lífeyrir þeirra, sem aðeins höfðu bætur almannatrygginga til lífsframfæris, um 285%. Almennur elli- og örorkulífeyrir hækkaði um 149% en vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 56% á þessu sama tímabili. Rauntekjurnar hækkuðu því mjög verulega, nær þrefölduðust hjá þeim sem — áður höfðu versta afkomu. Í fyrra var svo ákveðið að tekjutrygging næði einnig til fólks með minni háttar tekjur, t.d. úr lífeyrissjóðum eða fyrir minni háttar störf, tekjur sem næmu allt að 200 þús. kr. á ári. Þessar breyt. höfðu í för með sér fjármunatilfærslur í þjóðfélaginu sem námu milljörðum kr., og þetta var þeim mun stærra og erfiðara verkefni sem á sama tíma voru lagðir niður nefskattar sem áður voru hafðir til að standa undir tryggingunum og lögðust að sjálfsögðu þyngst á þá sem lægstar höfðu tekjurnar.

Á meðan ég gegndi störfum sem heilbr.- og trmrh. taldi ég það vera verkefni mitt að tryggja hlutdeild fólks sem á viðskipti við almannatryggingakerfið. Ég beitti mér fyrir því að almennar hækkanir, sem urðu á almennu verkamannakaupi, kæmu þegar í stað til framkvæmda hjá þessu fólki, en áður hafði það verið dregið, oft mánuðum saman. Ég beitti mér fyrir því að það yrði tryggt að þessar bætur hækkuðu í samræmi við hækkun á framfærsluvísitölu. Í þessu sambandi gerði ég miklar og mjög erfiðar kröfur til þáv. fjmrh., Halldórs E. Sigurðssonar, og ég veit að ég bar fram kröfur, sem oft ollu honum erfiðleikum. Hitt skal ég mjög fúslega viðurkenna, að Halldór E. Sigurðsson, þáv. hæstv. fjmrh., tók þeim kröfum alltaf vel og reyndist alltaf maður til þess að lýsa þessi vandamál, í samræmi við stefnu þáv. ríkisstj.

En nú er sannarlega komin önnur öld. Nú er svo ástatt að heilbr.- og trmrh. og fjmrh. ern báðir í Sjálfstfl. Þannig eru kjör aldraðs fólks og öryrkja orðin að eins konar innanflokksmáli hjá forustu Sjálfstfl. og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Í stjórnarsáttmálanum, sem birtur var í ágústmánuði var ekki orð að finna um heilbrigðis- og tryggingamál. Hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason mun ekkert hafa verið ófús að setjast í ráðherrastól, en hann reyndist ekki hafa nein málefni að berjast fyrir á þessum vettvangi. Hann hafði ekkert um þau að segja, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég hygg að æðimargir hafi veitt því athygli að á þessu þingi í vetur hefur ekki verið borið fram eitt einasta frv., ekki ein einasta till. frá heilbr.- og trmrn. Ég hygg að öll önnur rn. hafi flutt frv. og till., en ekki þetta rn. Hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason virðist ekki hafa neinn áhuga á þessum málefnum, sem snerta þó ákaflega stóran hluta þjóðarinnar.

Síðan núv. ríkisstj. tók við hefur verðlag í landinu hækkað um 20%. Almennur lífeyrir aldraðs fólks og öryrkja hefur hins vegar aðeins hækkað um 6% og almennur lífeyrir að viðbættri tekjutryggingu hefur hækkað um 10%. Í þessu sambandi vil ég minna á það að þegar núv. ríkisstj. tók að fjalla um svokallaðar láglaunabætur var fyrst uppi hjá henni hugmynd um að greiða 4 500 kr. mánaðarlega á mann og væri þá miðað við dagvinnu. Í viðræðum við verkalýðssamtökin báru verkalýðssamtökin fram þá sjálfsögðu kröfu að slíkar bætur yrðu einnig greiddar í eftirvinnu og næturvinnu og þarf ég að sjálfsögðu ekki að rökstyðja það sjónarmið. Það liggur í hlutarins eðli að þessi krafa er fullkomlega rökrétt, en hæstv. ríkisstj. brást þannig við henni að hún féllst að vísu á að greiða láglaunabætur á eftirvinnu og næturvinnu, en hún lækkaði dagvinnubæturnar úr 4 500 kr. í 3 500 kr. eða um 1000 kr. á mánuði. Með þessu móti var verið að skerða kjör þess láglaunafólks sem ekki vinnur eftirvinnu og það er æðistór fjöldi, ekki síst í iðnaði, þar sem tekjur eru lágar. Og þarna var verið að skerða alveg sérstaklega bæturnar til aldraðs fólks og öryrkja, og ég veit ekki til þess að hæstv. heilbr- og trmrh. hafi haft nokkra aths. við þetta að gera.

Ég nefndi áðan prósentur, annars vegar um verðhækkanir og hins vegar um tekjur. En við skulum minnast þess að neyslugrundvöllur aldraðs fólks og öryrkja, sem ekki hefur aðrar tekjur en bætur almannatrygginga, er allt annar en neyslugrundvöllur hinnar almennu vísitölu. Á þessum 3 mánuðum, sem liðnir eru síðan núv. ríkisstj. var mynduð, hafa matvæli hækkað meira en allt annað. Á 3 mánuðum hækkuðu þau um 25%, en það jafngildir hvorki meira né minna en 100% á ári ef haldið verður áfram á þann hátt sem gert hefur verið undanfarna 3 mánuði. Ég skal nefna nokkur dæmi um hækkanir á algengustu neysluvörum. Mjólkin hefur hækkað í tíð þessarar ríkisstj. um 66.5%, rjómi um 54.6%, skyr um 88%, smjör um 130.5%, ostur um 36.5%, súpukjöt um 64.5%, læri um 57.1%, kótelettur um 51%. Maður, sem fær fulla tekjutryggingu, er með tæpar 20000 kr. í mánaðartekjur. Tekjur hans fara fyrst og fremst í mat, ljós og hita. Þegar verðlag hækkar, eins og gert hefur undanfarna mánuði, verður slíkur maður að spara við sig. Þegar mjólkurafurðir hækka um allt að 131% þá getur slíkur maður, sem á að lifa á bótum almannatrygginga, ekki gert annað en að spara við sig neyslu á mjólkurafurðum. Þegar kjöt hækkar um allt að 64% verður slíkur maður að spara við sig kjötneyslu. Þetta eru þær einföldu staðreyndir sem blasa við. Við skulum átta okkur á því að það eru mannleg viðhorf á bak við þær tölur sem við erum að flíka í þessum sal. og það er nú þegar búið að skerða mjög verulega kjör þess fólks sem á erfiðasta afkomu á Íslandi og á afkomu sína undir því hvernig við hér á þingi og þeir sem gegna ráðherrastörfum duga við að gæta hagsmuna þessa fólks. Þetta fólk hefur ekki samtök. Þetta fólk getur ekki gert verkfall. Þetta fólk á afkomu sína undir því að við höfum skilning á því að okkur ber að tryggja afkomu þess.

Á fjárl. þeim, sem hér liggja fyrir til afgreiðslu, er ekki gert ráð fyrir því að þeir, sem eiga afkomu sína undir bótum almannatrygginga, fái neinar bætur á næsta ári, hversu mjög sem vísitalan hækkar. Sú upphæð, sem reiknað er með á fjárl., er við það miðuð að engar slíkar bætur verði greiddar. Þótt verðbólgan æði áfram eins og hún hefur gert að undanförnu, verða kjör þessa fólks skert jafnt og þétt. Ef þessi þróun heldur áfram sem verið hefur undanfarna 3 mánuði og við náum 60% verðbólgu á einu ári, þá jafngildir það því að bætur almannatrygginga kæmust á svipað stig og þær voru í lok viðreisnartímabilsins, svipað smánarstig.

Ég flyt á þskj. 153 till. um að ákveðnar verði 800 millj. kr. til þess að greiða uppbót á tekjutryggingu til aldraðs fólks og öryrkja. Þessi till. er algert lágmark og raunar þó nokkuð mikið fyrir neðan það sem hún þyrfti að vera. Við reiknum með því að kjör þessa fólks skerðist um 15% á þessu ári og að á næsta ári verði meðalverðbólga 25% eins og sérfræðingar ríkisstj. reikna með. Þá er þarna um 40% skerðingu að ræða. Á fjárl. mun vera reiknað með að 1100 millj. fari til tekjutryggingar, þ.e.a.s. viðbótargreiðslna til þeirra sem ekki hafa aðrar tekjur eða mjög litlar aðrar tekjur. Til að bæta upp 40% verðbólgu mundi þurfa um 450 millj. kr., en til þess að tryggja heildarkaupmátt þessa fólks þ.e.a.s. almennu trygginguna að viðbættri tekjutryggingunni, mundi þurfa á annan milljarð króna, og að sjálfsögðu er það slíkt markmið sem við ættum að setja okkur. Og þá er eftir að huga að barnalífeyri, að mæðralaunum, að bótum og lífeyri til ekkna og ekkla, sem allt brennur upp á eldi verðbólgunnar.

Till. mín er ekki hærri vegna þess að ég vil freista þess að fá samstöðu um hana, og í því sambandi vil ég sérstaklega skírskota til þm. Framsfl. Þeir hafa hrósað sér af framförum í tryggingamálum í tíð vinstri stjórnarinnar, og ég vil ekki hafa neinn heiður af Framsfl. í því sambandi. En ef þeir fallast á að láta bætur almannatrygginga brenna þannig upp í eldi verðbólgunnar, sannast það eitt að þeir eru ekki frumkvöðlar að neinni stefnu. Þeir geta fylgt félagshyggjustefnu í samvinnu við Alþb., en þeir geta alveg eins fylgt andfélagslegri stefnu í samvinnu við Sjálfstfl. Þess vegna held ég að það sé afar fróðlegt fyrir almenning um allt land að fylgjast með því hvernig sérstaklega þm. Framsfl. bregðast við þessari brtt.

Mér er kunnugt um annað í sambandi við fjárlagafrv. Í því dæmi, eins og það liggur fyrir okkur núna, er ekki gert ráð fyrir því að aldrað fólk og öryrkjar fái þá 3% almennu kauphækkun sem kom til framkvæmda 1. des. Það er ekki reiknað með því að aldrað fólk og öryrkjar fái þá sams konar hækkun sem á að koma 1. júní á næsta ári. Þetta er ekki í dæminu, og ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort það sé ekki algert lágmark að reyna þó að tryggja að þessar almennu kauphækkanir komi þessu fólki einnig til góða.

Fyrst inn í dæmið eins og það er lagt fyrir okkur núna vantar jafnsjálfsagða hluti og þessa, vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi áttað sig á því að á síðasta þingi voru sett lög um aukinn kostnað vegna tannlækninga, og inna hann eftir því, hvort gert sé ráð fyrir því í þessu fjárlagadæmi. Frá og með næstu áramótum eiga greiðslur sjúkrasamlaga vegna tannlækninga að ná til barna á forskólaaldri, til 16 ára unglinga, til öryrkja, til ellilífeyrisþega og til vanfærra kvenna.

Ég sagði áðan að þessi till. um 800 millj. væri mun lægri en hún hefði þurft að vera. En ég vænti þess að menn spyrji hvar eigi að taka fjármunina. Því er í sjálfu sér ákaflega auðsvarað. — Ég sé að hæstv. fjmrh. er horfinn hér úr salnum. Hann er kannski nærstaddur samt. En það er a.m.k. hægt að skila því til hans að hann gæti borið saman aukningu á rekstrarútgjöldum Reykjavíkurborgar, sem stjórnað er af flokki sem ég hygg að hann hafi ekkert ógeð á, og hækkun á rekstrarútgjöldum ríkisins. Og ef hann léti sér nú nægja sömu prósentu og Reykjavíkurborg, að rekstrarútgjöldin hækkuðu ekki nema um sama hlutfall og hjá Reykjavíkurborg, þá mundu sparast á því 800 millj. kr. Það er nú ekki farið fram á mikið. Það er farið fram á það að fjmrh. láti sér nægja sömu hækkun á rekstrarútgjöldum og Reykjavíkurborg. Svo get ég aftur minnt á manninn sem taldi í fyrra að það væri hægt að lækka tilkostnað fjárl. um upphæð sem jafngildir 6 000 millj. með einu pennastriki.

Eitt mikilvægasta verkefni fyrrv. stjórnar á sviði heilbrigðismála var setning heildarlöggjafar um heilbrigðisþjónustu sem tók gildi um síðustu áramót. Á fjárl. í ár var fé veitt til framkvæmda við heilsugæslustöðvar og læknismóttökur á 13 stöðum og fé til undirbúningsframkvæmda á 8 stöðum. Í tíð fyrrv. stjórnar var unnið að undirbúningi að fjárlagagerð þeirri sem við fjöllum um nú, og ég hef til fróðleiks borið saman till. rn. og frv. eins og það liggur nú fyrir. Á sama hátt hef ég borið saman till. um elliheimili, en fyrri ríkisstj. setti merk lög sem áttu að tryggja að ríkissjóður greiddi þriðjung af kostnaði við þau. Þau dæmi, sem ég bendi á, eru þessi: Rn. lagði til að Kleppsspítali fengi 20 millj. kr. til nauðsynlegra framkvæmda, í fjárlagafrv. er ekki ein króna til þessa verkefnis. Lagt var til að Heilsugæslustöðin í R-vík fengi 30 millj., í frv. eru 20 millj. Lagt var til að til framkvæmda í Borgarnesi yrði varið 22 millj., í frv. ern 17 millj. Lagt var til að á Blönduósi yrði ráðist í viðbyggingu við sjúkrahúsið, heilsugæslustöð, og varið til þess 15 millj., í frv. eru 10 millj. Á Sauðárkróki var gert ráð fyrir viðbyggingu við sjúkrahúsið, heilsugæslustöð, og lagt til að varið yrði til þess 16 millj. Í frv. eru 10 millj. Á Egilsstöðum var lagt til að lokið yrði þar við mjög merka framkvæmd með því að verja til hennar 15.8 millj., í frv. eru 6.5 millj. 9 Seyðisfirði var lagt til að varið yrði 10 millj. kr., sú upphæð er skorin niður í 1 millj. Í Neskaupstað var gert ráð fyrir að varið yrði 28 millj. til sjúkrahússins, en það var nauðsynleg upphæð til þess að ná þeim byggingaráfanga sem næstur er, sú upphæð er skorin niður í 18 millj. Á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík var gert ráð fyrir framlagi til læknismóttöku, 6 millj. kr. á hvorn stað, þær upphæðir eru skornar niður í 4 millj. á hvorn stað. Á Kirkjubæjarklaustri var lagt til að varið yrði 10 millj. kr. til heilsugæslustöðvar, sú upphæð er skorin niður í 1 millj. Samt var þar um að ræða verk sem var fullkomlega undirbúið og hafði verið unnið að af miklum áhuga af heimamönnum. Lagt var til að Sólvangur í Hafnarfirði fengi 10 millj. kr., sú upphæð er skorin niður í 2 millj. Lagt var til að Laugarás fengi 7.5 millj., sú upphæð er skorin niður í ekki neitt. Þetta gerist á sama tíma og verðbólga geisar. Það er oft sagt og er vissulega nokkuð til í því að rn. séu há í kröfum sínum og geri ráð fyrir því að þær verði skornar niður, og til þess höfum við ágæta menn, eins og kunnugt er, í kerfinu. En byggingarvísitalan hefur hækkað svo hrikalega á þessu ári að ég er alveg sannfærður um að hinar upphaflegu till. rn. eru miklum mun lægri en nokkur skynsemi er í, vegna þess hver verðbólguþróunin hefur orðið. Þar hefur verið framkvæmdur sá niðurskurður sem sannarlega hefði átt að duga.

Sama máli gegnir nm elliheimili. Ég gat áðan um þá merku löggjöf sem sett var á því sviði og átti að ýta undir framkvæmdir sem eru ákaflega brýnar um allt land. Þar var óskað eftir 56 millj. kr., sú upphæð hefur verið skorin niður í 38.3 millj. Framkvæmdir á Ísafirði eru skornar niður úr 5 millj. í 800 þús., Ólafsfirði úr 5 millj. í 3 millj., Dalvík úr 5 millj. í 3 millj., Húsavík úr 5 millj. í 800 þús., Vopnafirði úr 5 millj. í 3 millj., Hellu úr 5 millj. í 3 millj. Blönduósi úr 2 millj. í ekki neitt og Hafnarfirði úr 2 millj. í ekki neitt.

Sama máli gegnir um læknisbústaði. Læknisbústaður á Hellissandi átti að fá 1.5 millj., fær ekkert, Húsavík 3 millj., í frv. stendur 1.5, Ólafsvík átti að fá 3 millj., þar eru 900 þús. í frv., Fáskrúðsfjörður, gerð till. um 3 millj., skorin niður í 1 millj. Og óskir um, að Læknishéraðasjóður fengi auknar tekjur til þess að kaupa tæki sem mikill skortur er á úti um allt land og tekið var að vinna að að endurnýja í tíð fyrrv. ríkisstj., eru skornar niður um helming.

Hér er mjög greinilega að verki mikil samdráttarstefna, ekki síst þegar hliðsjón er höfð af þeirri feiknalegu hækkun byggingarvísitölunnar sem ég gat um áðan. Ég hygg einnig að það sé mikið álitamál hvernig ráðh. hefur tekist að meta þarfir einstakra landshluta. Ég er sannarlega þeirrar skoðunar að enginn landshluti sé ofhaldinn af því fé sem hann hefur fengið eða á að fá samkv. þessu frv. En ég hygg að æðimargir spyrji hvort ekki sé ástæða til þess að gera mun betur við þá landshluta sem afskiptastir eru á sviði heilbrigðismála, en það var sérstaklega tekið fram í löggjöfinni að þeir ættu að ganga fyrir um framkvæmdir.

Ég er ekki með neinar brtt. í sambandi við þessi mál. Ég geri ráð fyrir að þm. einstakra kjördæma liti á þau. En ég vildi aðeins vekja athygli á því að einnig þarna er um mjög alvarlega stefnubreytingu að ræða.

Önnur till., sem ég flyt á þskj. 153, er um það að kostnaður vegna reglugerðar um iðjumengun hækki úr 1.5 millj. í 6.5 millj., þ.e.a.s. um 5 millj. kr.

Eins og kunnugt er var sett ítarleg heilbrigðisreglugerð fyrir allt landið í febr. 1972 og sérstök reglugerð um varnir gegn mengun frá iðjuverum í júní sama ár. Þarna var unnið brautryðjandaverk, ákaflega mikilvægt, og við vissum þá og vitum enn að Heilbrigðiseftirlitið var vanbúið að takast á við þetta vandamál. Það hafði allt of litið fjármagn og of lítið starfslið. Við höfum á undanförnum árum orðið að fást við verkefni sem við höfum enga reynslu af, eins og t.d. mengun frá kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn og álbræðslunni við Straum. Báðum þessum fyrirtækjum var skipað í tíð fyrrv. stjórnar að setja upp hreinsibúnað, og það var Heilbrigðiseftirlitið sem annaðist afgreiðslu á umsókn um það hvernig þeim hreinsibúnaði yrði háttað. Í álverinu var Jóni Þórðarsyni uppfinningamanni heimilað að gera tilraunir á merku tæki sem hann hafði fundið upp, til að kanna hvort það hentaði til að hreinsa eins og vert væri á þeim stað. Því miður kom í ljós að þessi tæki dugðu ekki eða a.m.k. að tilraunir með þau yrðu að halda svo lengi áfram að það væri ekki unnt að bíða eftir því. Þess vegna fyrirskipaði ég álbræðslunni í sumar að setja upp fullgildan hreinsibúnað. En til þess að meta það, hvað er fullgildur hreinsibúnaður í verksmiðju af þessu tagi, duga ekki neinir erlendir staðlar. Það þarf að meta þetta á sjálfstæðan hátt frá íslenskum forsendum. Þetta verður Heilbrigðiseftirlit ríkisins að meta, og þegar það hefur ekki starfskrafta með fullri reynslu á þessu sviði, verður það að tryggja sér erlenda starfskrafta sem að þessu geta unnið í samvinnu við okkur. Það er t.d. hægt að leita til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem hefur á að skipa mjög hæfum sérfræðingum á þessu sviði. Þess vegna fékk ég inn í fjárl. á sínum tíma þessa upphæð sem ég nefndi áðan, hálfa aðra millj., en ég tel að það sé nauðsynlegt að auka hana núna um 5 millj., vegna þess að til viðbótar við þær verksmiðjur, sem ég hef nefnt, er nú rætt um að koma hér upp járnblendiverksmiðju. Þar munu koma upp mjög erfið og flókin og viðkvæm mengunarvandamál, og auðvitað getum við ekki leyst þau vandamál skv. einhverjum bandarískum stöðlum eða skv. einhverjum upplýsingum sem seljendur hreinsitækja gefa upp. Þetta verður Heilbrigðiseftirlit ríkisins að meta á sjálfstæðan hátt. Til þess að geta ráðið sér næga starfskrafta í þessu skyni þarf fjármuni, og þessi till. er flutt til þess að þeir fjármunir séu tiltækir.

Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá því að víkja að næsta furðulegum atburði sem gerðist í síðustu viku, en þá var Einari Val Ingimundarsyni umhverfisverkfræðingi sagt upp störfum við Heilbrigðiseftirlit ríkisins frá og með næstu áramótum. Á sínum tíma kom Baldur Johnsen forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins til mín og óskaði eftir því að honum væri gert kleift að ráða Einar Val til starfa hjá stofnuninni, þar sem hann væri eini íslenski sérfræðingurinn á þessu sviði og gæti orðið stofnuninni ómetanlegur. Ég brá þegar við og útvegaði fjármuni til þess að ráða Einar Val. Hann var þá í framhaldsnámi og varð að samkomulagi að hann lyki því ásamt störfunum og hagaði framhaldsnáminu svo að það kæmi Heilbrigðiseftirlitinu að sem mestu gagni. Mér er fullkunnugt um það, að Einar Valur hefur reynst mjög duglegur og áhugasamur í starfi. Hins vegar mun hafa komið upp ágreiningur milli hans og Baldurs Johnsens um það hvernig ætti að standa að vistfræðilegum ákvörðunum í sambandi við iðjuver, og veit ég þó ekki til þess að Einar Valur hafi á nokkurn hátt farið út fyrir eðlilegt verksvið sitt í sambandi við þann ágreining. Það gegnir furðu að reka slíkan mann úr starfi einmitt þegar Heilbrigðiseftirlitið þarf að fást við erfiðari vandamál en það hefur áður þurft að glíma við og hefur engan annan íslenskan sérfræðing í staðinn. Ég óska eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. gefi skýringar á því, hvernig á þessu stendur, og lýsi afstöðu sinni til þessa máls.

Þriðja till., sem ég flyt á þskj. 153, fjallar um verulega hækkun á framlögum til Gæsluvistarsjóðs. Á þessu þingi hafa verið fluttar margar till. og margar ræður um áfengismál. Mér hafa fundist sumar till. dálítið yfirskinsfullar, þótt vissulega beri að meta þann góða vilja og þann áhuga sem till. eru til marks um. M.a. kom nýlega fram frv. frá hv. þm. Oddi Ólafssyni sem leggur til að stofnaður verði sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka með tiltekinni tekjuöflun í því sambandi, 100 kr. af hverri flösku af sterku áfengi. Hv. þm. virðist ekki hafa hugmynd um að slíkur sjóður er til í landinu og hefur verið starfandi um 10 ára skeið og hefur nákvæmlega það verkefni sem felst í frv. þessa hv. þm. Þessi sjóður heitir Gæsluvistarsjóður, og ákvæðin um hann eru í lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra frá árinu 1964. Þessi sjóður á að gera allt það sem felst í frv. hv. þm. Odds Ólafssonar. Mér finnst þetta vera til marks um það að menn átta sig stundum ekki á því hvað eru staðreyndir í málum sem þeir eru þó að flytja hér á þingi. Skyldi það ekki vera forsenda þess að menn geti komið með skynsamlegar till. að þeir leggi á sig þá vinnu að átta sig á því hvernig slíku kerfi er háttað í landinu og hvar hægt er að gera ráðstafanir sem að gagni koma?

Gæsluvistarsjóður hefur síðustu árin fyrst og fremst verið notaður til þess að koma upp lokuðu drykkjumannahæli á Vífilsstöðum. Upphaflega var þetta ákveðið í sérstöku samráði við Reykjavíkurborg sem ætlaði að koma upp að sínu leyti opnu drykkjumannahæli. Því miður hafa efndirnar hjá Reykjavíkurborg ekki verið í samræmi við þær óskír sem fram voru bornar í upphafi. En lokaða hælið á Vífilsstöðum er að verða fullbúið. Það hefur hins vegar reynst Gæsluvistarsjóði ofvaxið fjárhagslega að standa undir þessari merku framkvæmd. Gæsluvistarsjóður mun skulda ríkissjóði vegna byggingarkostnaðar á þessu ári um 18 millj. kr. Auk þess vantar svo 15 millj. kr. til þess að kaupa húsbúnað í þetta hæli. Þannig vantar 33 millj. kr. til þess að þessi stofnun geti tekið til starfa, og hún þarf að taka til starfa sem allra fyrst á næsta ári.

En þessi sjóður skuldar því miður meira. Hann skuldar raunar Kleppsspítala 6 millj. kr., hann skuldar raunar Gunnarsholti aðrar 6 millj. kr. Það hefur verið gerð áætlun um nýjar framkvæmdir í Gunnarsholti fyrir 6 millj. kr. í viðbót. Það hefur verið gert ráð fyrir framkvæmdum í Víðinesi fyrir 12 millj. kr. Og þessi sjóður, Gæsluvistarsjóður, átti að standa undir þessum framkvæmdum. Ég flyt till. um að sjóðnum verði gert kleift að standa undir þessum verkefnum öllum, og ég hygg að ég þurfi ekki að rökstyðja það frekar fyrir hv. þm. sem einmitt á þessu þingi hafa lagt svo mikla áherslu á nauðsyn þess að gripið yrði til raunhæfra aðgerða gegn áfengisbölinu. Auk þess legg ég svo til að sjóðurinn fái til annarra verkefna, í rannsóknir, styrki o. fl., 5 millj. kr., og eru þá þarfir sjóðsins í allt 68 millj. kr. í stað þess að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 29.7 millj. sem hrökkva ekki einu sinni til þess að koma af stað hælinu á Vífilsstöðum, nema þá hæstv. fjmrh. gefi eftir þær 18 millj. kr. sem sjóðurinn hefur notað á þessu ári umfram heimildir.

Ég trúi því ekki að þm. hafi hér uppi stór orð um nauðsyn virkrar baráttu í áfengismálum en ætli á sama tíma að svelta Gæsluvistarsjóð, þá stofnun sem vinnur mest raunhæf störf á þessum vettvangi. Og ég vil sérstaklega spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort það sé ekki ætlun hans að láta hælið á Vífilsstöðum taka til starfa og hvernig hann ætli að gera það ef fjármunir til Gæsluvistarsjóðs eru skornir svo við nögl sem fjárlagafrv. ber með sér.