16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

1. mál, fjárlög 1975

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla að segja hv. þm., sem var að ljúka hér máli sínu áðan, það að ég var ekkert að slóra, ég var að störfum hér í húsinu. Flestir þm., venjulegir þm., hafa látið sér nægja undir flestum kringumstæðum að flytja mál sitt í áheyrn annarra ráðh. En þessi hv. þm., þegar hann sat í ráðherrastól, þá svaraði hann einu sinni: Ég sit ekki í ráðherrastól til þess að svara fsp. þm. — og með töluverðu yfirlæti eins og hans var háttur. En ég ætla ekki að hafa þennan hátt á, eins og þessi fyrrv. ráðh. gerði og varð sér auðvitað alltaf til stórskammar í hvert skipti sem hann hafði slík ummæli hér um hönd sem von er. En hins vegar eru takmörk fyrir því hvað þm. geta spurt ráðh. að alveg skilyrðislaust og ætlast til þess að fá tölulegar upplýsingar um fjölmörg atriði án þess að sýna þá kurteisi að segja frá því um hvað á að ræða. En þó að þessi hv. þm. hafi flutt hér langa lofgerðarrollu um sjálfan sig, er hann einn til þess, aðrir opna ekki sinn munn orðið til þess, og hann verður að flytja þessa lofgerðarrollu sjálfur. Hann hefði þess vegna getað lofað mér að vera aðeins lengur á fundinum, sem ég var á hérna niðri, því að ég er búinn að hlusta svo oft á þessa lofgerðarrollu af hans vörum að ég hefði ekkert misst.

Þessi hv. þm. talaði um gífurlega hækkun á verðlagi í landinu. Þegar hann fór úr ráðherrastól var eftir að taka til eftir hann, þá var eftir hrúga af erindum, hrúga af vandamálum sem voru færð yfir á næstu ríkisstj. Hækkun á verðlaginu er því synd þessara herra sem eru á brott hlaupnir, og engir gengu lengra en þeir, sem eru farnir, í því að stuðla að þessu ástandi sem ríkjandi var. Svo hneykslast þeir yfir því að verðlag hafi hækkað, hneykslast yfir því hve litlu er varið til hinna ýmsu mála í fjárl. og tala um hundruð millj. eins og ekkert sé, á sama tíma og þeir eru að hneykslast yfir, hvað fjárl. hækka. Það má segja að það sé ekki heil brú í ræðuflutningi þessa hv. þm. og ég vil segja að að sumu leyti var hann nú fullfljótur á sér. Ég vil benda honum á að hér eru nú fjárlagafrv, til 2. umr., en ekki 3. umr. Það hefur skeð áður og meira að segja þegar Magnús Kjartansson var heilbr.- og trmrh. og iðnrh. að það var beðið með margar breytingar á fjárlagafrv. til 3. umr.

En mikið var þm, óheppinn þegar hann fór að taka upp listann sinn frá því í fyrra, hvað hann hefði nú lagt til að taka upp af fjárveitingum til þess málaflokks sem hann fór með stjórn á, og bera það svo saman við fjárlagafrv. eins og það stendur núna. Hann sagði að í sambandi við elliheimilin hefði verið á listanum sínum framlag til Ísafjarðar 5 millj. kr., nú væru í fjárlagafrv. 800 þús. Og hann nefndi fleiri staði í þessu sambandi. En það er sitt hvað óskalisti herra Magnúsar Kjartanssonar eða gildandi fjárlög fyrir þetta ár sem samþ. voru af herra Magnúsi Kjartanssyni. Þar er t.d. framlag til elliheimilis á Ísafirði ekki 5 millj. eins og á óskalistanum hans Magnúsar Kjartanssonar, heldur 800 þús. Þannig var með margar þessar tölur sem hann var að fara með. Það er sitt hvað óskalistinn eða fjárl., sem hann samþykkti. Og það voru þau sem giltu í þessu sambandi. (MK: Það voru fjárlög næsta árs.) Það voru till. um fjárlög ársins á undan, þetta var till. sem Magnús Kjartansson sagði hér áðan að væri 5 millj. til elliheimilisins á Ísafirði, svo að dæmi séu nefnd. Það eru 800 þús. kr. í fjárlagafrv, En það er auðveldara að bera fram og lesa upp óskalista heldur en það sem Magnús Kjartansson fékk inn í fjárl. sem hann stóð að. Þetta veit hann mætavel. Það þarf ekki að vera að gjamma fram í þess vegna hvað eftir annað, enda eru taugarnar ekki í góðu lagi hjá þm. Það vita allir að hann hefur verið kúskaður og laminn í sínum flokki, hefur orðið að svíkja hugsjónamál sitt eins og málmblendiverksmiðjuna, og þá brýst þetta út í ergelsi og árásum út af því hve hinar og þessar fjárveitingar hafi verið miklu meiri og stærri hjá honum sem heilbrrh., því að einhvers staðar verður hann að fá rós í hnappagatið þegar búið er að klæða hann úr hverri spjör hvað snertir afrek hans á sviði iðnaðarmála af hans eigin flokki.

Hvernig er með niðurgreiðslur á vöruverði? Hvaða breyting er á niðurgreiðslum á vöruverði í frv. núna frá fjárl. yfirstandandi árs? Þær hafa hækkað um hvorki meira né minna en um 2170 millj. kr. Það var létt verk að lækka landbúnaðarafurðir í vor og gefa bara út víxil sem aðrir áttu að taka við og borga, eins og þessir herrar gerðu. Hvaða tekjuöflun átti sér stað þegar brbl. voru gefin út rétt fyrir kosningar? Við sitjum svo eftir með það núna, vegna þess að það er ekki fært að draga meira úr niðurgreiðslum en raun ber vitni. Hvernig er ástandið í sambandi við niðurgreiðslurnar? Hvað verður samfélagið að greiða niður af vöruverði? Af dilkakjöti er greitt niður kr. 151.30, af ærkjöti 85 kr., af smjöri 377 kr. á kg, og þannig má lengi telja. Það er auðvelt að taka svona ákvarðanir eins og Magnús Kjartansson gerði í vor og hlaupa svo í burtu. Hann tók enga ákvörðun um hvernig ætti að afla fjár. Þessi sami maður flutti frv. hér á sumarþinginu um hækkun og um gjald á raforku til þess að jafna hinn mikla halla sem er á Rafmagnsveitum ríkisins. Svo snerist hann öndverður gegn þessu frv. um leið og hann fór úrráðherrastólnum. Þetta er framkoma sem er engum manni til sóma.

Þessi hv. þm. talar hér mikið um lífeyristryggingarnar og um almannatryggingarnar almennt og afrek sín á þessu sviði. Viðreisnarstjórnin, sem var svo bölvuð að hans dómi, gekk frá löggjöf um almannatryggingarnar sem átti að taka gildi þegar leið á haustið, þá var þessi maður kominn í ráðherrastól. Það gerðist að þessi löggjöf tók gildi, kom til framkvæmda. Það er það sem hann er að gorta af núna.

Ef við lítum á, hvað er í þessu fjárlagafrv. til lífeyristrygginga og berum það saman við fjárl. fyrir árið 1974, þá hækkar ellilífeyrir úr 2 522 millj. í 3 573 millj. samkv. frv. eins og það liggur fyrir eða var lagt fram á s.l. hausti. Örorkulífeyrir hækkar frá fjárl. úr 764.1 millj. í 904.4 millj., örorkubætur úr 180.4 millj. í 231.2 millj., barnalífeyrir úr 189.4 millj. í 318.3 millj., mæðralaun úr 160.4 millj. í 205.9 millj., fæðingarstyrkir úr 107.5 millj. í 139.5 millj. og ekkjubætum og lífeyrir úr 115.8 millj. í 203.9 millj. Þegar við leggjum þetta saman án fjölskyldubóta, þá er í fjárl. ársins í ár þetta samtals 4 039.7 millj., en í frv. til fjárl., sem hér liggur fyrir til umr., er það komið í 5 576.4 millj. kr.

1. des. kom til framkvæmda 3% almenn launahækkun. Hún kemur á ellilífeyrinn frá 1. jan. Sama er að segja um þá hækkun samkv. kjarasamningum, sem á að verða 1. júní, 3%. Með henni verður reiknað í sambandi við afgreiðslu þessara fjárl. og eins þessari 3% launahækkun frá 1. des. Þetta kemur allt til útborgunar mánuði síðar.

Ef við lítum á láglaunabæturnar, sem hv. þm. telur að séu einskis virði, og lítum á þær og þá breytingu sem gerð var á almannatryggingalögunum, — tiltekin atriði innan almannatrygginganna náðu ekki til þessara laga og því varð að gefa út sérstaka löggjöf, — þá er hér um bætur að ræða sem hækka samkv. þessum lögum og reglugerð um hvorki meira eða minna en 676 millj. kr., ef ég man rétt. Það má segja út af fyrir sig að þegar við tökum þetta í smærri einingar á mánuði séu þetta ekki háar upphæðir. En þegar við lítum á þessa heildarupphæð og heildarupphæðina til allra lífeyristrygginga og sjúkratrygginga, þá er hér um mjög verulegar hækkanir að ræða.

Í sambandi við sjúkratryggingarnar, þá hækka þær frá gildandi fjárl. úr 4979 millj. í 7005 millj. M.ö.o.: hækkun sjúkratrygginganna er yfir 2 milljarða eða 2026 millj. Og hér á eftir að gera eina breytinguna enn á milli 2, og 3, umr., vegna þess að talið er að hækkanir verði á rekstri sjúkrahúsanna sem verða teknar upp í daggjöldin. Ég skal ekki á þessu stigi alveg fullyrða hver sú till. verður, en mér finnst ekki ósennilegt, eftir því sem mál liggja fyrir, að hér geti orðið um hækkanir að ræða upp á hvorki meira né minna en 450 millj. kr. Og það er engin smáupphæð. Það eru því engar smáupphæðir sem varið verður til sjúkratrygginga og til lífeyristrygginga og síst minni en voru í tíð fyrrv. ráðh.

En það er líka annað sem skiptir miklu máli í sambandi við þessi mál öll, og það er hvernig ástandið er í þjóðfélaginu út á við, hvernig ástandið er um sölu á afurðum okkar, og um það verðfall sem hefur átt sér stað. Það hlýtur að hafa áhrif á alla menn og alla málaflokka, bæði í sambandi við afgreiðslu fjárl. og þá ekki síður í sambandi við rekstur fyrirtækja og lifnaðarhætti alls fólks sem þetta land byggir. Þetta eru atriði sem menn verða að hafa í huga, jafnvel þótt þeir séu nýkomnir úr ráðherrastólum.

Hv. þm. spurði mig um Gæsluvistarsjóðinn. Þegar ég kom í heilbr.- og trmrn. var málum þannig háttað að hver eyrir var uppétinn. Fyrirrennari minn í því starfi skildi ekki eftir digra sjóði. Það var yfirleitt búið að yfirdraga allt, það var búið að eyða fyrir fram. En ég hef ekki látið hjá líða að fylgjast með því sem er að gerast í þeim málum og heyrir undir Gæsluvistarsjóð. Ég fékk því framgengt í góðri samvinnu við hæstv. fjmrh. að haldið var áfram framkvæmdum við drykkjumannahælið á Vífilsstöðum, og þar var um verulega umframfjárveitingu að ræða á þessu ári, sem var eitthvað milli 10 og 11 millj. kr., til þess að halda framkvæmdum áfram. Framlag til byggingar drykkjumannahælis á Vífilstöðum er mér sagt að nægi til þess að ljúka byggingu og kaupa búnað í húsið á næsta ári, og það er það sem að er stefnt.

En það verður ekki sama sagt t.d. um ástandið eins og það var í sambandi við byggingu kvensjúkdómadeildarinnar, fæðingardeildarinnar, þegar hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. fór frá. Þá höfðu, held ég, aðeins tveir karlar verið þar í vinnu allmargar vikur að undanförnu, því að öll fjárveiting var búin og ekkert hugsað frekar fyrir fjárveitingum til þess að halda áfram. Það hefur verið erfitt um vik að fá peninga til allra hluta, og það voru aðeins teknar inn 20 millj. kr. í þetta fjárlagafrv. En fyrir atbeina okkar og með góðri aðstoð fjvn. og fjmrh. eru þessi framlög nú hækkuð um 60 millj. kr., eða upp í 80 millj. kr., til þess að halda áfram framkvæmdum við kvensjúkdómadeildina.

Ég vona að hv. þm. verði pínulítið hægara og minna niðri fyrir eftir að hafa fengið þær upplýsingar að eftir er að flaka inn hækkanir á milli 2. og 3. umr., og sömuleiðis hef ég gefið honum þær upplýsingar sem ég hef getað.

En það var ein spurning sem hann lagði fyrir mig, það var í sambandi við starfsmann Heilbrigðiseftirlitsins. Forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins tjáði mér um þennan mann, Einar Valur held ég að hann hafi verið nefndur, að það hafi verið við hann ráðningarsamningur út þetta ár, hann hafi ekki verið nema hluta af árinu í starfi, að hluta hafi hann verið við nám, hann hafi ekki talið ástæðu til þess að endurnýja samning við þennan mann og jafnframt að hann hygðist halda áfram námi. Þetta eru upplýsingar sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins gaf mér fyrir örfáum dögum, eftir að hann hafði tekið þessa ákvörðun, en ég vissi ekki um hana fyrr en eftir á. Hann hefur talið að hann þurfi á því að halda að ráða mann í þetta starf, sem starfi allt árið, og geti ekki búið við að það sé maður í starfinu sem fari frá öðru hvoru eða sé aðeins nokkra mánuði á ári í starfinu og þá vanti mann þar á móti. Þetta er það sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins tjáði mér.

Í sambandi við tannlækningarnar, sem hv. þm. spurði um, eru þær inni í sjúkratryggingunum eftir útreikningi tryggingafræðings Tryggingastofnunar ríkisins. Hins vegar skal ég játa að það eru ekki í fjárlagafrv. laun fyrir starfsmann til þess að fylgjast með tannlækningum, en það erindi mun verða sent til fjvn. á milli 2. og 3. umr. En það er eðlilega ófrávíkjanlegt skilyrði að einhver hafi með þessi störf að gera, og það mun standa í vegi fyrir því að endanlega verði gengið frá samningum á milli Félags tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins að einhver sérstakur, ákveðinn starfsmaður í rn. hafi með þessi mál að gera, og verður ekki komist hjá því að þar verði tannlæknir í þessu starfi.

Ég vona, að það hafi ekki verið bornar upp spurningar sem mér hefur dáðst að svara. En það gefst nú e.t.v. tækifæri síðar til að ræða ýmis önnur mál sem væri fróðlegt að ræða við þennan hv. þm. um, þó að ég geri það ekki núna við afgreiðslu fjárl., því að ég ætla ekki að eyða lengri tíma frá fjárlagaumr.