16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

1. mál, fjárlög 1975

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það standa mörg spjót á hæstv. ríkisstj. þessa dagana hvað snertir beiðnir um hækkun á fjárveitingum. En það er eitt mál sem ég ber sérstaklega fyrir brjósti og vil gjarnan gera hér að umtalsefni, en það eru fjárveitingar til íþróttastarfseminnar.

Það er ljóst af fjárveitingum bæði nú og áður að þetta málefni hefur átt í vök að verjast og virðist vera nokkur þörf á því að útskýra og upplýsa hv. þm. og ágæta stjórnarherra um þau mál og þau verkefni sem unnin eru á þessum vettvangi, þó sérstaklega um þær miklu fjárþarfir sem knýja á í því sambandi. Ég vonast til þess að menn hafi skilning á því að þetta er hafið yfir pólitískar deilur og á ekki að leiða til flokkadrátta manna á meðal, enda þótt þetta málefni, sem snertir æskulýðs- og uppeldismál með þjóðinni, sé gert hér að umtalsefni.

Fjárveiting á fjárl. árið 1974 var aðeins rétt tæpar 10 millj. og í fjárlagafrv., sem lagt var fram nú í haust, var ekki gert ráð fyrir mikilli hækkun, eða sem nam um 600 þús. kr. og upphæðin er 10 millj. 317 þús. í frv. Þetta hefur verið hækkað nokkuð í meðförum fjvn. og er nú komið upp í 13.5 millj. kr. Þess er að geta að Íþróttasamband Íslands fór fram á í erindi sínu til fjmrn. og fjvn. að fjárveiting til Íþróttasambands Íslands næmi 20 millj. kr., og var það að mínu áliti hófleg beiðni vegna þess að þar er um að ræða sömu beiðni og á síðasta ári. Til þess að skýra út þá fullyrðingu mína, að Íþróttasambandið sé orðið nokkuð eftir á í fjárveitingum frá hinu opinbera, vildi ég upplýsa til fróðleiks fyrir hv. þingheim að árið 1965, fyrir 10 árum, námu fjárlög 3 milljörðum 525 millj. kr. sem sagt 31/2 milljarði, fjárl. 1965. Þá fékk Íþróttasamband Íslands á fjárl. 3 millj. 151 þús. kr. Núna, 10 árum síðar, má gera ráð fyrir því að fjárl. verði um það bil 47 milljarðar, en það er hækkun um 1245%. En á fjárveitingunni til Íþróttasambands Íslands, ef hún verður einhvers staðar á bilinu milli 10 og 14 millj., er um 205% hækkun að ræða. En ef sömu hlutföllum hefði verið haldið á þessu 10 ára tímabili, þá hefði fjárveiting til Íþróttasambands Íslands fyrir fjárlagaárið 1975 numið 43 millj. kr. Er þá ekki gert ráð fyrir þeirri aukningu íþróttaiðkenda og þeirri vaxandi starfsemi sem orðið hefur á þessu tímabili. Má geta þess að samkv. skýrslum, sem fyrir liggja, voru árið 1965 um 22 þús. iðkendur íþrótta á Íslandi, en samkv. þeim skýrslum, sem liggja fyrir um iðkendur árið 1973, er þessi tala komin upp í 50 þús. iðkendur.

Árið 1965 var stigið það myndarlega spor að ætla íþróttastarfseminni nokkra aura af hverjum seldum sígarettupakka. Var þá ákveðið, að 22.5 aurar af hverjum seldum sígarettupakka rynni til Íþróttasambands Íslands. Árið 1964 var t.d. Camel-pakkinn seldur í útsölu á 25.20 kr. og námu þá tekjur Íþróttasambandsins af þessari ákvörðun eða þessu fyrirkomulagi 2.3 millj. kr. Í dag er Camel-pakkinn seldur, að mér skilst, á 127 kr., í staðinn fyrir 25.20 1964, en enn í dag fær Íþróttasamband Íslands 22.5 aura af hverjum seldum sígarettupakka, og má þá sjá hversu ótrúlega þessi fjáröflun hefur dregist aftur úr. Nú verða menn líka að hafa í huga að þessar tekjur, sem þarna eru upp taldar af sígarettusölu, eru innifaldar í þeim tölum sem ég nefndi áðan um heildarfjárveitingar til Íþróttasambands Íslands. M.ö.o.: í 10 millj. 317 þús. kr. eða 13.5 millj., sem nú er gert ráð fyrir í brtt. fjvn., er fjáröflunin vegna sígarettusölunnar innifalin.

Nú má álíta að einhver haldi að það sé frekja af minni hálfu og af Íþróttasambandsins hálfu að fara fram á aukna fjárupphæð, eftir að fjvn. hefur samþykkt þó þessa hækkun, sem er þakkarverð. En það er mín skoðun og okkar, sem sinnum íþróttamálefnum, að enda þótt þessi hækkun eigi sér stað núna milli umr., þá geri það ekki meira en halda í við þær almennu verðlagshækkanir, sem átt hafa sér stað á þessu eina ári, og að raunverulega hafi ekki komið til neitt aukaátak til þess að efla eða auka fjárveitingar til þessarar starfsemi.

Ég hef orðið var við að það gæti nokkurs misskilnings þegar menn eru að fjalla um fjárveitingar til Íþróttasambands Íslands, og standa margir í þeirri trú að þetta fé renni beint til Íþróttasambandsins og rekstrar þess. En það er allmikill misskilningur. Við skulum gera ráð fyrir því að Íþróttasamband Íslands fengi 20 millj. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði eða á fjárl. og þá hefur Íþróttasamband Íslands sett upp áætlun um skiptingu á þessu fé. Sú skipting hljóðar á þá leið, að það er gert ráð fyrir því að til Íþróttasambands Íslands sjálfs, þ.e.a.s. rekstrar þess, skrifstofunnar og annars sem lýtur að yfirstjórn sambandsins, fari 6 millj. kr., í námskeið fyrir leiðbeinendur almennt á íþróttasviðinu fari 1 millj. kr., í útbreiðslu vegna íþróttastarfs fyrir fatlaða er gert ráð fyrir 1 millj. kr., til héraðssambanda víðs vegar um allt land, ungmennafélaga og héraðssambanda, 27 samtals, færu 7 millj. kr., og til 15 sérsambanda, sem eru sundsamband, handknattleikssamband, körfuknattleikssamband o.s.frv., o.s.frv. fari 5 millj. kr. — 5 millj. kr. skiptast á 15 sérsamhönd sem hvert fyrir sig rekur mjög þróttmikla starfsemi.

Jafnvel þó að gert væri ráð fyrir þessari skiptingu og þessari tölu sem ég nefndi áðan, þ.e.a.s. 20 millj. kr., þá hlýtur öllum að vera ljóst að hlutur hvers einstaks aðila, sem fær fé af þessari heildarupphæð, er ákaflega lítill og takmarkaður. Miðað við þær tölur, sem ég nefndi áðan, og þá skiptingu, sem gert væri ráð fyrir, kæmu t.d. í hlut Fimleikasambands Íslands tæpar 300 þús. kr., í hlut Sundsambands Íslands 350 þús. kr. og í hlut Skíðasambands Íslands 330 þús. kr. Og svona mætti áfram telja. Þetta eru auðvitað hlægilega lágar upphæðir og ekki boðlegt þegar haft er í huga að það er rekin ákaflega lífleg starfsemi á vegum þessara sambanda. Það er mikill fjöldi ungmenna og æskulýðs, sem keppir og æfir undir merkjum þessara íþróttagreina, og það er áhugi og vilji til þess hjá þjóðinni að æskulýðurinn stundi íþróttir og þjóðfélagið hvetji æskulýðinn til þess.

Til samanburðar, þegar við ræðum hér um fjárveitingar til íþróttastarfseminnar, vil ég geta þess að í Svíþjóð voru veittar á síðasta ári eða sennilega á árinu 1973 2000 millj. kr. — ekki 10 millj. kr., ekki 13 millj. kr., heldur 2000 millj. kr. Þó er íþróttaáhugi mjög mikill í Svíþjóð og keppni gefur af sér allmiklar tekjur, þannig að það eru líkur til þess að íþróttastarfsemin sem slík standi undir sér. En þá koma þessir peningar frá hinu opinbera til viðbótar til þess að efla íþróttirnar, til þess að útbreiða þær meðal þjóðarinnar.

Það er nú svo komið fyrir íþróttastarfseminni, sem hefur innan sinna vébanda 50 þús. iðkendur, að það er varla mögulegt fyrir menn að standa lengur í störfum þar af áhuga einum saman. Þessi starfsemi er orðin það umfangsmikil og tímafrek að það er ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingar leggi þar mikið starf af mörkum ár eftir ár. Stór sérsambönd hafa ekki haft tök á því að hafa launaða starfsmenn á sínum vegum, enda þurfa stjórnarmenn og forustumenn að vinna störfin af áhuga og endurgjaldslaust, og er ekkert við því að segja. En auðvitað er æskilegt og eins og ég segi að verða bráðnauðsynlegt að þeir hafi tök á því að ráða til sín starfsmenn sem launaðir eru a.m.k, að einhverju leyti. Þetta væri unnt ef hið opinbera kæmi að einhverju leyti og betur til móts við íþróttahreyfinguna í fjárveitingum heldur en verið hefur um nokkuð langan tíma.

Eins og ég gat um í upphafi hefur Íþróttasamband Íslands lagt fram beiðni um hækkaða fjárveitingu í 20 millj. kr. Ég er sannfærður um að slík fjárveiting mundi margfalt borga sig fyrir ríkissjóð þegar af þeirri ástæðu að ef þessi rekstur svo umfangsmikillar starfsemi lenti í höndum hins opinbera, þá mundi þetta margfaldast ár frá ári. Það er æskilegt og það er gott að þessi starfsemi sé rekin af áhuga, og fjárveitingavaldið á að hvetja til þess og reyna að hjálpa til eftir bestu föngum, þannig að starfið gangi með eðlilegum hætti áfram eins og verið hefur í langan tíma á Íslandi.

Ég hafði í hyggju að flytja till. um hækkaða fjárveitingu til Íþróttasambands Íslands með þeim rökum sem ég hef flutt hér. En í samráði við fjmrh. og formann fjvn. mun ég ekki láta verða úr þeim tillöguflutningi að svo stöddu, og það er þá gert í trausti þess að fjárbeiðni frá Íþróttasambandinu verði tekin til jákvæðrar athugunar og afgreiðslu á milli 2. og 3. umr.