16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

1. mál, fjárlög 1975

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. við frv. til fjárl. um 1 millj. kr. fjárveitingu til Sjóminjafélags Íslands. Sjóminjafélag Íslands var stofnað á s.l. vori af áhugafólki víðs vegar að af landinu. Helstu stefnumál félagsins eru að veita væntanlegu Sjóminjasafni Íslands, sem risa mun í Hafnarfirði, brautargengi, vinna að björgun og varðveislu gamalla báta og sjóminja sem siðar munu varðveitast á safninu, svo og að stuðla að hugsanlegri byggingu knarrar fyrir safnið, eins og hugmyndir voru uppi um fyrir þjóðhátíð þótt eigi kæmust í framkvæmd þá.

Sjóminjafélag Íslands hefur fyllsta samráð við þjóðminjavörð, sem raunar er einn af félagsmönnum, og formaður félagsins á sæti í nefnd þeirri er vinnur að undirbúningi sjóminjasafnsins. Félagsmenn hafa nú þegar bjargað þremur bátum, einum frá Stað í Grindavík, en tveimur vestan af Barðaströnd, en óþrjótandi verkefni eru fram undan. Allt starf við þetta er unnið af áhugamennsku og endurgjaldslaust, en tilkostnaður er samt allmikill við hverja ferð, þó að eigendur flutningstækja þeirra, er notuð hafa verið, hafi stillt verði mjög í hóf. Félagið hefur á vegum Þjóðminjasafnsins fengið útihús á Bessastöðum til afnota til að varðveita áðurnefnda báta svo og þá báta og muni, er safnast munu á næstunni. Mikill hugur er í félagsmönnum að halda áfram söfnun báta og annarra sögulegra sjóminja víðs vegar um land, en fjárskortur háir tilfinnanlega. Því er þessi till. flutt hér í von um skilning og velvilja, enda oft dagamunur hvenær ómetanlegir sögulegir munir glatast sé þeim eigi bjargað og ólíkt ódýrara að styrkja áhugamannasamtök til þessa en að safna munum á ríkisins kostnað þegar væntanlegt safn er komið á legg.

Herra forseti. Þar sem ég treysti því að hv. fjvn. muni taka þessu máli með velvilja og skilningi mun ég ekki láta till. ganga til atkv. við þessa umr., heldum fara þess á leit við hv. fjvn. að hún taki málið til meðferðar á milli 2. og 3. umr. Ég endurtek að ég treysti henni til þess að leggja málinu lið og taka upp þessa till. mína í þeim till. sem hún gerir við 3. umr. fjárlagafrv. Að öðrum kosti mun ég að sjálfsögðu endurflytja hana við þá umr.