16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

1. mál, fjárlög 1975

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þrem litlum brtt. sem mér er reyndar ekki fulljóst um hvort athugun hafi fengið í hv. fjvn. eða fullnaðarafgreiðslu, svo óljóst sem nú virðist um hvaða þættir þar hafa verið afgreiddir eða ekki.

Ég mæli fyrst fyrir lítilli brtt. um aukinn fjárstyrk til Íslenskra ungtemplara. Sú vargöld, sem nú ríkir í öllum okkar áfengismálum, er verð fyllstu athygli og umhugsunar. Ekki síst ber að huga að þeim aðilum, sem hafa hér uppi nokkurt viðnám, og þá alveg sérstaklega þeim sem vitað er að eru virkastir og áhrifaríkastir gagnvart þeim ungu sem á vegamótum standa varðandi spurninguna um áfengisneyslu eða ekki.

Íslenskir ungtemplarar standa þar ótvírætt fremstir í flokki. Starf þeirra ber árlega mikinn árangur, og þann eina félagsskap veit ég geta snúið almennu áliti og viðhorfi ungs fólks gegn áfengisneyslu og einmitt með sérstöku tilliti til skemmtanalífsins sem er svo snar þáttur sem raun ber vitni í lífi ungs fólks í dag og er raunar sjálfsagt. Ríkisvaldið þarf að sýna að það kunni að meta slíkt viðnámsstarf, sjálfboðaliðsstarf, sem unnið er af miklum myndarskap og hefur greinilega borið árangur, þrátt fyrir allt, - starf sem þarf og á að eflast þar eð hér er um ungt fólk að ræða sem er af fullri alvöru og í einlægni að reyna að hamla á móti sívaxandi áfengisneyslu jafnaldra sinna og gerir það einmitt á þann hátt sem vænlegastan má telja til áhrifa á þann aldurshóp, þar sem sérstaklega ber að vinna að þessu á þann veg að áfengisneysla verði óþarfur þáttur í félags- og skemmtanalífi þessa unga fólks, gagnstætt því sem því miður virðist reyndin í dag.

Ég vísa til bréfs sem alþm. mun hafa verið sent frá Íslenskum ungtemplurum þar sem þeir telja sig knúða til að sækja um hærri styrk til starfsemi sinnar en nú er, ef einhver meiri árangur á að nást og starfsemin að geta aukist sem mest. Við hljótum að vera sammála um það að einmitt svo þurfi að vera.

Till. mín um 150 þús. kr. styrk ríkisvaldsins til þessa ágæta félagsskapar getur vart talist ofrausn og ekki vansalaust að láta fjárhæð til hans vera óbreytta ár eftir ár. Ég treysti því á stuðning þm. eða hv. fjvn. við þetta litla mál, sem snertir eitt stærsta vandamál okkar þjóðfélags og gæti orðið til ávinnings í þeirri baráttu sem þar þarf nú að efla á öllum sviðum.

Ég mæli einnig hér fyrir brtt., nánar tiltekið við lið 999 hjá félmrn., ýmis framlög, að þar komi inn nýr liður, styrkur til Styrktarfélags vangefinna á Austurlandi að upphæð 300 þús. kr. Styrktarfélagið sótti um 500 þús. kr. til fjvn., en við vitum að í mörg horn er að líta og von að einhver verði út undan í því flóði öllu. Hér er hins vegar um umsókn að ræða sem ég vona að menn séu mér sammála um að eigi rétt á sér, því að vanræksla ríkisvaldsins gagnvart þeim, sem hér eru bornir fyrir brjósti, hefur verið vitaverð og ekki síst í þeim landshluta sem hér um ræðir. Framtak austfirðinga, almenn þátttaka þeirra og virðingarverður áhugi almennings sem sveitarstjórna er sérstakt, og ég er sannarlega stoltur af að hafa mátt eiga þar að lítinn hlut, bæði hér og heima í héraði. Nauðsyn á að sinna þessu fólki sem best er svo sannarlega orðin öllum ljós, sem betur fer. En það er ekkert smáátak, þar sem áður hefur nær ekkert verið að gert og Styrktarfélag vangefinna á Austurlandi stendur andspænis stórverkefni sem þegar hefur í margháttuðu undirbúningsstarfi kostað stórfé. Heimaaðilar hafa létt þessa byrði mjög myndarlega, en til þess að endar nái saman að fullu þarf til að koma stuðningur ríkisvaldsins ef unnt á að reynast að halda þeirri áætlun okkar og staðföstum ásetningi að hefja byggingu vistheimilis fyrir vangefna á næsta ári. Þar er undirbúningur allur í fullum gangi. En félagið hefur einnig efnt til námskeiða, fræðslufunda, hyggst reka sumarbúðir og í samvinnu við skólayfirvöld, með góðum velvilja hæstv. menntmrh., að koma á sérkennsluaðstöðu í fjórðungnum strax á næsta hausti, þótt í smáum stíl yrði. Ofrausn væri það ekki af Alþ. að tryggja þetta margþætta starf í þágu þessara borgara sem hafa lengst af verið olnbogabörn, og því treysti ég á stuðning við sæmilega fjárveitingu til Styrktarfélags vangefinna á Austurlandi. Sú fjárveiting fer ekki í súginn og á fyllsta rétt á sér að mínum dómi, svo að engin hætta verði á að fjárskortur hái því mikla átaki sem þar er fram undan.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjárl. um að þar komi inn undir liðinn Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins aðgreindur líður: Til steinefnaleitar á Austurlandi 1 millj. kr. Þessi liður er okkur austfirðingum lífsnauðsyn gagnvart öllum okkar byggingarframkvæmdum, því að rannsóknir þær, sem þegar hafa verið gerðar, benda til mjög alvarlegs ástands fyrir mörg stærri byggðarlög á Austurlandi og reyndar viðast um Austurland. Nauðsynin er því ótvíræð. Hún var viðurkennd í fyrra með sérstakri fjárveitingu frá þessari stofnun upp á 1/2 millj. kr. auk aðstoðar frá Byggðasjóði einnig. Þessi fjárveiting kom sér vel og mikið ávannst í þessum efnum. En betur má ef duga skal, og allra úrræða verður að leita til að unnt verði að finna þau byggingarefni sem dugi sem næst helstu þéttbýlisstöðum.

Ég frétti reyndar núna rétt áðan að lokaákvörðun hefði einmitt ekki verið tekin í hv. fjvn. um þennan lið, og því legg ég þessa till. inn til þess fyrst og fremst að málið gleymist ekki eða týnist í þeirri hv. n., því að svo furðulegt sem það er þá eigum við austfirðingar engan fulltrúa í hv. fjvn. til að fylgja þessum málum eftir af okkar hálfu og verðum að treysta á liðsinni annarra góðra þm. þar. Ef það upplýsist að málið eigi eftir að fá afgreiðslu í n., þá mun ég að sjálfsögðu taka till. aftur til 3. umr. og, ef viðunandi úrlausn fæst draga hana alveg til baka, enda skal ekki öðru trúað að óreyndu fyrst ekki er farið að taka á þessu máli í alvöru.

Aðeins að lokum vildi ég mega lýsa mjög eindregnum stuðningi mínum við 1. brtt. á þskj. 153, til jöfnunar á námskostnaði, sem hv. 5. þm. Vestf. er 1. flm. að og hefur þegar talað fyrir henni fyrir hönd okkar þriggja tillögumanna. Ég átti sæti í n. þeirri er undirbjó þessi lög, og með tilliti til þróunarinnar frá því að þau voru samþ. er óhætt að segja að sú tala sem nú er lagt til að verði 140 millj. í stað 110, er í fullu samræmi við þann ásetning er við allir nm. úr öllum flokkum álitum sjálfsagðan til að jafna að fullu námskostnað nemenda af landsbyggðinni miðað við þéttbýlið. Hér varð á nokkurt áfangasamkomulag, sem þegar var víss óánægja með, en nú ætti að vera hafið yfir efa, að ná ætti markinu að fullu, og því skal skorað á hv. þm. að sýna þessum nemendum þá rausn að koma til móts við þá á þann hátt, sem hér er lagt til og brýn og rökstudd þörf er fyrir.