16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

1. mál, fjárlög 1975

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það má vel vera að séð hafi verið býsna vel fyrir fjárveitingum til hafnarframkvæmda annars staðar en á Norðurl. e. A.m.k. vantar upp á fjárveitingar til hafnar á Húsavík á að giska tæplega helminginn af því fé sem ætlað er til þess háttar hafnarbóta á Akranesi sem henta til þess að flytja knattspyrnuáhugamenn til Reykjavíkur.

Við flytjum hér þrír till. um breyt. á fjárveitingum til hafnarinnar á Húsavík á þá lund, að í stað 12.6 millj. kr. fjárveitingar til hafnarinnar komi 24 millj. Þessa till. okkar Jóns Árm. Héðinssonar og Karvels Pálmasonar vil ég rökstyðja með því að sjómenn á Húsavík hafi að vissu leyti algera sérstöðu um nýtingu hafnar sinnar. Í fjárlagafrv., eins og það kemur nú frá fjvn., eru ætlaðar 12 millj. kr. til lífsnauðsynlegra framkvæmda sem munu kosta 30 millj. kr. og til þarf a.m.k. 24 millj. kr. fjárveitingu á fjárl. ef úr framkvæmdunum á að verða. Hér er um að ræða gerð 30 m hafnargarðs, svokallaðs Norðurgarðs, við Húsavíkurhöfn. Þessi garður er hluti af þeim mannvirkjum sem áætluð eru á líkani því sem gert var af Húsavíkurhöfn og ljóst að höfnin verður ekki trygg fyrr en þessi garður hefur verið reistur. Garðurinn á að loka höfninni fyrir báru að því marki að hægt sé að taka upp legufæri eða múrningar úr höfninni og fiskibátar þeirra húsvíkinga fáist tryggðir við bryggju. Ekki er nú farið fram á meira en það. Húsavíkurbátar eru nú um hálft hundrað að tölu. Í fyrra skiluðu þeir 6 þús. tonnum af fiski til vinnslu í fiskiðjuverið sem var rekið með þeim hætti að það greiddi 13 millj. kr. í uppbætur á umsamið fiskverð. Ekki ber að líta á þessa till. okkar þremenninganna á þá lund að við teljum að nægilega vel sé búið að hafnarframkvæmdum annars staðar í Norðurl. e. Því fer víðs fjarri. Við 3. umr. um fjárl. mun ég bera fram brtt. varðandi fjárveitingar til hafna á Ólafsfirði og Raufarhöfn. En ég staðhæfi að sjómenn á Húsavík eigi skilið meiri stuðning en þann sem fram kemur í fjárveitingu til Húsavíkurhafnar, eins og hún birtist í talnadálkum fjárlagafrv.

Síst vildi ég kasta rýrð á dugnað þeirra sjómanna sem sækja frá öðrum höfnum, og ég ætla að á engan hátt sé á þá hallað þó að ég fullyrði að húsvíkingar hafi til þess unnið sérstaklega að tekið sé tillit til afreka sem þeir hafa unnið í sjósókn við erfiðar aðstæður. Brtt, sú, sem ég flyt hér ásamt fyrrnefndum tveimur hv. þm., miðar að því að haldið verði áfram með eðlilegum hraða framkvæmd sem miðar að því að Húsavíkursjómenn geti fengið keypta ábyrgð á bátana sína í höfninni, þannig að þeir þurfi ekki að hafast við um borð í þeim á nóttu sem degi.

Ég treysti mér ekki til þess á einu kvöldi að útskýra fyrir hv. alþm. þá sérstöku manndáð sem birtist í smábátaútgerð húsvíkinga. En þeir hv. þm., sem ekki þekkja til sjóstundunar þeirra við Skjálfanda, verða að trúa mér til þess að segja það satt að þeir þm., sem ekki treysta sér til að greiða atkv. með þessari lágmarksfjárveitingu til Húsavíkurhafnar, þeim 24 millj. sem þarf til þess að sinna nauðsynlegum framkvæmdum þar í sumar, þurfa tæplega að reikna með því að verða teknir alvarlega ef þeir kynnu að taka sér í munn orðið byggðastefna.

Og rétt aðeins í lokin, þá er það kunnara en frá þurfi að segja, að hvergi komu áhrif vinstri stjórnarinnar eins fram og í dreifbýlinu. Þar urðu straumhvörf á þeim þremur árum sem vinstri stjórnin sat við völd. Flóttinn að norðan, austan og vestan til Reykjavíkur stöðvaðist, og áður en lauk hafði það skeð, sem áður var óheyrt, að fólk var tekið að leita frá Reykjavík út á land, og raunar stóð þar á engu nema húsbyggingum þótt vasklega væri að unnið að taka á móti fleira fólki út í byggðirnar. Framkvæmdir í dreifbýlinu voru þróttmeiri en nokkru sinni fyrr. Á fjárlagafrv., sem hér liggur frammi, þykist ég sjá að nú hljóti að verða breyting á og fólkið í dreifbýlinu muni nú reyna, hvort það var í tíð vinstri stjórnarinnar heldur að þakka áhrifum Alþb., sem nú er horfið úr ríkisstj., eða Framsfl., sem nú situr í ríkisstj., hverjar framfarir urðu í dreifbýlinu á þessum þremur árum.