16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

1. mál, fjárlög 1975

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. við fjárlagafrv. sem ég vildi gera grein fyrir.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 162. Þar er fyrst um að ræða tvær smátill., í fyrsta lagi gert ráð fyrir, að undir liðnum íþróttamannvirki verði bætt við tveimur nýjum líðum, þar sem gert er ráð fyrir að Golfklúbbur Neskaupstaðar komi inn með 50 þús. kr. fjárhæð og í öðru lagi að veittar verði til skíðamiðstöðvar í Oddsskarði 100 þús. kr. Hér er um alveg hliðstæðar fjárveitingar að ræða og ýmsar aðrar sem er að finna á þessum sama líð í fjárlagafrv., en það hefur fallið niður að taka upp fjárveitingar til þessara aðila. Hér er sem sagt um smáfjárveitingar að ræða og alveg hliðstæðar því, sem er til annarra, og vil ég því vænta þess að þessar till. geti náð fram að ganga.

Þá er á þessu sama þskj., 162, till. sem ég flyt varðandi Hafrannsóknastofnunina. Þar legg ég til að undir liðnum útibú á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar verði fjárveiting til útibús á Höfn í Hornafirði hækkuð úr 1.5 millj. í 4 millj. kr. Það kemur fram í grg. um þetta mál að þessi takmarkaða fjárveiting, 1.5 millj. til útibús í Höfn í Hornafirði, er við það miðuð að aðeins verði unnið að undirbúningi þess máls á næsta ári, en ég tel að sjálfsagt sé að standa þannig að framkvæmdum í þessum efnum með útibú frá Hafrannsóknastofnuninni að komið verði þar upp á næsta ári og hafist handa um rekstur á einu nýju útibúi. Á yfirstandandi ári var opnað útibú frá Hafrannsóknastofnuninni á Húsavík, og til þess var ætlast þegar ákvörðun var tekin um þessi útibú, að a.m.k. eitt útibú bættist við í rekstur á ári, og því tel ég sjálfsagt að auka nokkuð við þessa fjárveitingu svo að hægt sé að halda þessari upphaflegu áætlun.

Þá legg ég til að upp verði tekin ný fjárveiting, einnig í sambandi við Hafrannsóknastofnunina, 50 millj. kr. í sambandi við undirbúning að kaupum eða smíði á nýju hafrannsóknaskipi og þarna verði um undirbúningskostnað að ræða og einnig fyrsta fjárframlag. Það hafði verið unnið í sjútvrn. talsvert að athugun á því máli að hægt væri að eignast eitt hafrannsóknaskip til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og það er mín skoðun að brýn þörf sé á því að við eignumst slíkt skip. Og ég álít að það eigi að taka upp fjárveitingu í þessu skyni nú og þannig verði hafist handa um undirbúning þessa máls á næsta ári og þarna komi til fyrsta fjárveiting til kaupa á slíku skipi.

Þá er á þessu sama þskj. till. frá mér varðandi Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, líka varðandi útibú frá þeirri stofnun, og þar legg ég til að í stað 4 millj. 118 þús. á þeim lið komi 8 millj. 118 þús., þessi liður hækki um 4 millj. kr., en ég geri þar einnig ráð fyrir að það verði gert meira en að opna á næsta ári fyrsta útibúið á vegum þessarar stofnunar samkv. fyrri ákvörðun, heldur verði einnig unnið að opnun annars útibús. En ég hef ekki séð ástæðu til að taka neitt fram um hvort það yrði það útibú sem ákveðið hefur verið að opna í Neskaupstað eða þá á Siglufirði. Það skiptir mig ekki höfuðmáli heldur að unnið sé samkv. áætlun að opna útibú í útgerðarbæjunum úti um land samkv. fyrri ákvörðun um þetta efni. En ég tel að fjárveitingin samkv. þeim till., sem liggja fyrir, sé of lág.

Þá flyt ég á þskj. 170 till. varðandi flugmál með hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan, þar sem lagt er til að í sambandi við flugvallaframkvæmdir bætist við tveir nýir liðir. Annar er varðandi Borgarfjörð eystri, að til flugvallar þar verði varið 1.5 millj., og í öðru lagi að til flugvallar við Djúpavog verði varið 3 millj. kr. Það er mikil þörf á því að þeir litlu flugvellir, sem eru á báðum þessum stöðum, verði lagfærðir verulega, þannig að þeir geti komið að fullum notum, og af því eru þessar till. fluttar. Þetta er líka í samræmi við óskír heimamanna og þá reynslu sem fram hefur komið í sambandi við notkun þessara flugvalla.

Ég hygg að það séu ekki fleiri till. sem ég hef flutt við þessa umr. fjárlagafrv., en ég vonast fastlega eftir því að hv. fjvn. endurskoði till. sínar nú á milli 2. og 3. umr., bæði varðandi till. um skólabyggingar og eins varðandi till. um byggingu sjúkrahúsa. Það vekur m.a. sérstaka athygli mína að gert er ráð fyrir mun minni fjárveitingu til byggingar fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað en gert hafði verið ráð fyrir og mér er kunnugt um að þörf er á til þess að standa við þá áætlun sem gerð hefur verið um þá framkvæmd, og ég trúi varla öðru en hv. fjvn. leiðrétti till. sína í þessum efnum. En verði það ekki gert fyrir 3. umr. mun ég að sjálfsögðu flytja brtt. varðandi þennan líð. Í von um að n. komi með till. í þessa átt, þá hef ég ekki flutt hana að þessu sinni.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar hér um þessar till. né gera fjárlagafrv. sem slíkt að umtalsefni. Það gefst eflaust tækifæri til þess síðar, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í neinar almennar umr. um það mál eins og nú standa sakir.