16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

1. mál, fjárlög 1975

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á tveimur þskj. nokkrar brtt. við frv. til fjárl. og ætla að fara um þær nokkrum orðum. Ég geri ekki ráð fyrir að það þýði mikið að hafa um þær langt mál, því að það eru ekki möguleikar, jafnvel þótt maður yrði langorður og sannfærandi, að sannfæra mjög marga hv. alþm., þar sem þeir eru ekki svo ýkjamargir hér í salnum.

Á þskj. 154 hef ég leyft mér að flytja átta brtt. og á þskj. 170 á ég eina brtt.

Fyrstu 3 brtt., sem ég flyt á þskj. 154, eru alveg sérstaklega til þess fluttar að reyna að leggja á það áherslu hvílík nauðsyn það er að verklegt nám verði aukið og því verði skipað eðlilegt og sjálfsagt rúm í íslensku skólakerfi, að það verði ekki öllu lengur við það unað að verklega námið sé þar hornreka og sé ekki metið til jafns við það hreina bóklega nám. Það er nú svo, að ég hygg að ekki aðeins núv. hæstv. menntmrh., sem skamma hríð hefur gegnt því embætti, heldur fyrrv. menntmrh., flestir þeir sem ég man til, hafa látið í ljós að þeir teldu nauðsynlegt að þeir skólar, sem mennta fólk til starfa á hinum ýmsu sviðum, verði efldir og metnir til jafns við hina skólana, þar sem um bóknám er eingöngu að ræða. En þrátt fyrir þessar yfirlýsingar þeirra menntmrh. sem ég man sérstaklega eftir, tveggja, þriggja síðustu menntmrh., þá hefur það einhvern veginn farið svo, að ég hygg vegna þess að hinn almenni skilningur hefur ekki verið fyrir hendi, að verknámsskólarnir hafa löngum setið eftir.

Fyrsta brtt. er um það að gjaldfærður stofnkostnaður Tækniskóla Íslands hækki verulega, eða úr 18 millj. kr. í 64 millj. kr., en það er sú upphæð sem menntmrh. lagði til að tekin yrði inn á fjárl. til þess að hægt yrði að ná mjög nauðsynlegum áfanga í sambandi við byggingu þessa nýja og mikilvæga skóla.

Önnur brtt. er um Fiskvinnsluskólann. Þar er um það að ræða að gjaldfærður stofnkostnaður hækki úr 3.6 millj. kr. í 12 millj. Það er einnig sú upphæð, sem menntmrn. telur að þurfi til þess að ná þeim áfanga sem þyrfti að nást á næsta ári.

Þriðja brtt. á þskj. 154 er um Sjómannaskólahúsið hér í Reykjavík, að gjaldfærður stofnkostnaður þar hækki úr 3 millj. í 43 millj. kr. Ég ræddi nokkuð um þetta ágæta hús hér í sambandi við umr. um frv. til l. um sjóvinnuskóla fyrir nokkrum dögum og skal ekki endurtaka margt af því sem ég sagði þá. Ég vil aðeins á það minna að þetta hús, sem er nú u.þ.b. 30 ára gamalt, er engan veginn fullfrágengið enn í dag á þann hátt sem þurft hefði að vera, og eru margir til vitnisburðar um það og þá sérstaklega nemendur og kennarar þeirra skóla, sem þarna starfa. En þar að auki var aldrei byggður nema hluti af því húsnæði sem frá upphafi var talið nauðsynlegt fyrir þessa skóla, þ.e.a.s. Stýrimannaskólann og Vélstjóraskólann. Enn er óbyggt það hús, þar sem hin verklega kennsla ætti að fara fram fyrst og fremst. Það er til þess að ná áfanga í byggingu þess húss og til þess að gera þær allra nauðsynlegustu aðgerðir á Sjómannaskólahúsinu, sem óhjákvæmilegar eru, að þessi brtt. er flutt, en hún er í samræmi við það sem menntmrn. lagði til að veitt yrði til þessara framkvæmda á næsta ári. En þess vil ég geta að till. eða hugmyndir skólanefnda og skólayfirvalda um það, sem þyrfti að koma á næsta ári í fjárveitingu var miklu hærri, ég hygg um eða yfir 80 millj. kr.

Þessar þrjár fyrstu till. eru sem sagt fluttar til þess alveg sérstaklega, að leggja áherslu á það að við megum ekki láta svo til ganga áfram, eins og of mikið hefur átt sér stað á undanförnum árum og áratugum, að verknámsskólarnir sitji á hakanum, bæði að því er byggingar snertir og ýmiss konar búnað. Ég vil láta þess getið að ég mun taka til baka til 3. umr. a.m.k. 3. till., um Sjómannaskólahúsið, þar sem hv. form. fjvn. skýrði frá því í ræðu sinni í dag, að það mál væri enn í athugun hjá n. og líkur til þess að flutt yrði till. um fjárveitingu til nauðsynlegra viðgerða á því húsi.

4. brtt. mín, í tveimur liðum, snertir Reykjaneskjördæmi og er í fyrsta lagi um það að skóli í Grindavík, sem gert er ráð fyrir að veittar verði til 3 millj. kr., fái 8.9 millj., en það er sú upphæð sem menntmrn. telur algerlega nauðsynlegt að sá skóli hljóti, ef á að ná þeim áfanga sem að er stefnt og bráðnauðsynlegt er að unnið verði á næsta ári. Ég legg alveg sérstaka áherslu á að þessi framkvæmd er mjög brýn og þætti mikils virði ef hv. fjvn. vildi taka þetta atriði til endurskoðunar alveg sérstaklega, þar sem óviða held ég að þörfin sé brýnni fyrir fjárveitingu til skólabyggingar heldur en þarna.

Í öðru lagi flyt ég undir þessum líð, framlög til byggingar grunnskóla, till. um það að til Digranesskóla í Kópavogi, þar sem áætlaður er nýr og nauðsynlegur áfangi, verði veittar 10 millj. kr. í stað 4 millj. Það eru að sjálfsögðu ýmsir fleiri skólar í byggingu í Reykjaneskjördæmi sem ekki fá þá fyrirgreiðslu sem æskileg hefði verið, en ég hef einungis flutt hér till. um tvo skóla, og ég hygg að a.m.k. að því er Grindavík snertir sé þörfin alveg sérstaklega brýn, að við þessu verði orðið með þeim hætti sem hér er lagt til.

5. brtt. mín á þskj. 154 er um Menningarsjóð, að framlag til hans hækki úr 10 millj. 720 þús. kr. í 15 millj. Hér er að vísu ekki eingöngu um beint framlag úr ríkissjóði að ræða, hér er að verulegu leyti um að ræða áætlun á tekjustofnum Menningarsjóðs, en þar til viðbótar kemur nokkurt fjárframlag úr ríkissjóði. Sú upphæð, sem í fjárlfrv. er, 10 millj. 728 þús. kr., þýðir mjög umtalsverða lækkun á framkvæmdafé Menningarsjóðs á næsta ári, sem vissulega hefur sinnt og sinnir ýmsum mikilsverðum verkefnum á sviði menningarmála, ekki aðeins bókaútgáfu, heldur einnig stuðningi við íslenska kvikmyndagerð, við tónlistarstarfsemi ýmiss konar og stendur fyrir þeirri starfsemi, sem nefnd hefur verið „List um landið“ og ég hygg að hv. alþm. kannist nokkuð við. Til þess að Menningarsjóður geti haldið í horfinu á næsta ári mun hann hiklaust þurfa þá fjárveitingu sem hér er lagt til að hann fái, 15 millj. kr.

6. brtt. mín á sama þskj. fjallar um það að almenningsbókasöfn, þ.e.a.s. bæði bæjar- og héraðsbókasöfn og sveitabókasöfn og lestrarfélög, fái svolitla úrlausn sinna mála, en hv. alþm. mun kunnugt að þar hefur ríkt kyrrstaða nú um alllangt skeið. Það er nokkuð síðan, — ég hygg að það séu 2 eða 3 ár, — síðan endurskoðuð var löggjöf um almenningsbókasöfn og samið frv. sem átti að bæta allverulega úr þeim efnum. M.a. var þar gert ráð fyrir verulega auknu framlagi ríkisins til þessara bráðnauðsynlegu og mikilsverðu menntastofnana. En einhverra hluta vegna og að því er manni er tjáð vegna ágreinings um einhver minni háttar atriði hefur þetta frv. ekki náð fram að ganga og raunar ekki séð dagsins ljós nú um sinn, eftir að það hlaut nýja endurskoðun, að ég hygg í fyrra, en hefur að vísu verið boðað að það muni verða lagt fram á þessu þingi. Till. mín um að tvöfalda þessar lítilfjörlegu upphæðir, sem hafa nú um nokkurt skeið verið á fjárl. til þessara mikilsverðu stofnana, er aðeins til þess að undirstrika nauðsyn þessa máls. Þessi hækkun á fjárhæðinni hefði vissulega þurft að vera miklu meiri og verður það væntanlega þegar frv. það, sem trúlega kemur nú fljótlega fram um almenningsbókasöfn, verður að lögum. En það er auðséð að það dregst enn nokkuð, og á meðan það er ekki orðið að lögum væri þó viss bót í því að hv. Alþ. samþ. þessa litlu hækkun, sem ég tel vera, þó að um tvöföldun sé að ræða á þeirri fjárveitingu sem fjárlfrv. ætlar til þessara mála.

7. brtt. mín, sem er í 3 liðum, fjallar um nokkra hækkun á listamannalaunum. Það er í fyrsta lagi að heiðurslaun listamanna hækki úr 4 millj. í 6 millj. kr., að starfslaun listamanna hækki úr 3.3 millj. í 5 millj. og hin almennu listamannalaun, sem svo hafa veríð nefnd, hækki úr 13 millj. í 18 millj. kr. Ég hafði talið og tel að það sé full ástæða til þess fyrir Alþ. að láta þessar fjárveitingar til listamanna ekki liggja eftir þegar um er að ræða þær verðlagsbreytingar sem yfir okkur ganga. Það er að vísu svo, að ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi verulegar breytingar á því fyrirkomulagi, sem er á þessu listamannalaunakerfi okkar öllu, og gæti vel hugsað mér og teldi það raunar geta horft til verulegra bóta að í staðinn fyrir þetta þrefalda kerfi, ef svo má segja, sem við búum við nú, í fyrsta lagi heiðurslaun listamanna, í öðru lagi starfslaun listamanna og í þriðja lagi hin almennu listamannalaun, verði aðeins um tvenns konar listamannalaun að ræða. Annars vegar verði heiðurslaun, þar sem þeir listamenn, sem þau hafa einu sinni hlotið, geti gert ráð fyrir því að hljóta þau framvegis til æviloka og þar verði um að ræða sómasamlegar fjárhæðir. Ég geri ekki ráð fyrir að þjóðin telji sig hafa möguleika á að heiðra á þann hátt nema takmarkaðan fjölda sinna bestu listamanna, og þá verður það e.t.v. oft svo að þau hljóta listamenn, sem komnir eru á fullorðinsár. En svo verði í annan stað um verulega upphæð að ræða, sem gæti í rauninni heitið starfslaun listamanna, og yrðu veitt til ákveðins tíma og þá gert ráð fyrir að þeir listamenn, sem þau hljóti, geti sinnt því starfi þann tíma sem þeir njóti starfslaunanna, en síðan geti þeir ekki gert ráð fyrir því að halda slíkum listamannalaunum eftir þann tiltekna tíma, sem þeim hafa verið veitt þau, fyrr en þá að þeir fengju starfslaun aftur síðar, ef ástæða þætti til, og þyrfti ekki að líða langur tími á milli. En ég held að þessi almennu listamannalaun, sem hafa á undanförnum árum numið eins og í besta tilviki svo sem tveggja mánaða launum, komi að mjög takmörkuðu gagni og starfslaunin ættu að geta gert þarna miklu meira gagn. Ég vil aðeins benda á þetta til athugunar, en hef ekki treyst mér til að gera um þetta till. í sambandi við fjárlfrv. nú, heldur aðeins um nokkrar hækkanir á þessum þremur liðum listamannalauna til þess að þau rýrni a.m.k. ekki að ráði við þær verðlagsaðstæður sem við búum nú við.

8. brtt. er um að lítil fjárveiting til vísinda- og fræðimanna, sem menntamálaráð hefur lengi úthlutað, hækki úr 800 þús. í 1 millj. og 600 þús. kr. Þessi fjárhæð, sem hefur, að ég hygg, komið ýmsum fræðimönnum, ekki síst hinum alþýðlegu fræðimönnum okkar, að nokkru gagni, hefur stundum hækkað um leið og listamannalaunin, en stundum legið þar eftir og það raunar oftar. En ég tel ástæðu til, ef leiðrétt verða listamannalaun, að þá verði þessir fræðimannastyrkir einnig leiðréttir nokkuð.

Loks á ég eina litla till. á þskj. 170. Það er 3. till. á því þskj. og er þess efnis að fjárhæð sú, sem ætluð er á fjárlfrv. til sjóvinnunámskeiða og skólabáta, 3 millj. 536 þús. kr., hækki upp í 6 millj. kr. Þarf ekki að hafa um þessa till. mörg orð. Það er enginn efi á því, eins og kom fram hér við umr. um frv. til l. um sjóvinnuskóla nú nýlega, að þau sjóvinnunámskeið, sem hafa verið haldin síðustu ár, hafa komið að verulegu gagni og þessi tiltölulega litla upphæð hefur notast býsna vel. Og það er enginn efi á því að það er full þörf á að auka þessa starfsemi. Hækkun upp í 6 millj. mundi gera dálítið betur en að halda í við dýrtíðina og á því er vissulega full þörf.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt., herra forseti, en vænti þess að á þær verði lítið af hæstv. alþm. með skilningi og velvild.