16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

1. mál, fjárlög 1975

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég stend hér að flutningi brtt. við fjárlfrv. Annars vegar er um að ræða brtt. á þskj. 153, sem þegar hefur verið mælt fyrir af hv. 5. þm. Vestf. og nokkrar umr. hafa spunnist hér út af, og hins vegar er um að ræða brtt. á þskj. 170, sem ég flyt ásamt hv. þm. Gils Guðmundssyni. Ég mun takmarka mál mitt hér við þessar till.

Ég vil fyrst fara örfáum orðum um þá brtt., sem ég er flm. að ásamt hv. 5. þm. Vestf. og hv. 8. landsk. þm. Þar er um að ræða, eins og komið hefur fram m.a. í þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar næst á undan, í fyrsta lagi till. um það að til hafnarframkvæmda í Vestfjarðakjördæmi verði varið 14 millj. kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlfrv. og brtt. meiri hl., hins vegar er till. um að 20 millj. kr. verði varið til flugvallarins á Ísafirði.

Ég tel að þetta séu ákaflega hógværar till., alveg sérstaklega hógværar. Það er rétt að menn hafi í huga í sambandi við hafnamálin í Vestfjarðakjördæmi það sem ég hygg að hafi ekki komið hér fram beint við umr. áður, að samkvæmt fjárlfrv. er um að ræða niðurskurð á framkvæmdamagni við hafnarframkvæmdir á Vestfjörðum frá fyrra ári um hvorki meira né minna en 50–60%. Við þessu væri að sjálfsögðu ekki ýkjamikið að segja ef verkefnum, sem mest aðkallandi ern, væri lokið eða u.þ.b. að vera lokið. En nú er þessu alveg þveröfugt farið. Þarna er um að ræða að fjöldinn allur af ákaflega brýnum verkefnum kallar að, og þau kalla alveg sérstaklega að nú með tilliti til þeirrar uppbyggingar skipaflotans sem átt hefur sér stað eins og öllum er kunnugt.

Ég hygg að til þeirra þm. Vestf., sem hér ern í hópi stjórnarþm., verði horft mjög af fólki á Vestfjörðum í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu nú varðandi hafnirnar. Geta þeir hv. þm., sem bar er um að ræða, ekki komið fram í sínum flokkum, stjórnarflokkunum, neinni leiðréttingu í þessum efnum? Það er ákaflega slæmt ef þeir eru ekki þess megnugir.

Þessi till., sem flutt er í sambandi við hafnamálin, snertir annars vegar Súðavík og hins vegar Ísafjörð, eins og hér hefur verið rætt um, og ég lít á hana í raun og veru aðeins sem minni háttar tilraun til að vita hvort ekki sé hér hægt að hreyfa hið allra minnsta, ekki einu sinni það. Hæstv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, segir í sinni ræðu hér áðan að varðandi hugsanlega fjárveitingu til hafnarinnar í Súðavík, þá sé málið þannig statt að það hafi ekki neinn tilgang að hugsa sér fjárveitingu til þeirrar ákveðnu uppfyllingar sem þarna er um að ræða, og við höfum í okkar till. gert ráð fyrir að veitt væri fé til, vegna þess að það væri óútkljáð hvort þarna ætti að koma staurabryggja eða stálþil og gerð þessarar uppfyllingar muni ráðast af því. Ég vil svara þessu með því að halda því fram að það ætti að vera ákaflega auðvelt að ganga frá ákvörðun um þetta áður en næsta ári lýkur, hvort komi staurabryggja eða stálþil, þannig að slík fjárveiting sem við leggjum til. kæmi að fullu gagni. Og ég er alveg sannfærður um að það þýddi ekki að bjóða heimamönnum í Súðavík upp á þessa ástæðu fyrir því að ekki megi veita það fé til þessarar hafnar sem þeim hafði verið lofað mjög ákveðið á síðasta ári, en ekki var þá staðið við og á að taka af þeim aftur nú.

Ég vil ekki gerast langorður um þessi efni, — það er búið að mæla fyrir þessum till., — ég vil aðeins undirstrika það varðandi flugvöllinn á Ísafirði að þar er einfaldlega um það að ræða að þau tæki sem geta unnið það verk sem ætlast er til að unnið verði, malbikun á flugvellinum, verða til staðar á Ísafirði á næsta ári, en ekki á þar næsta ári. Það er vegna almennra malbikunarframkvæmda í sambandi við gatnagerð á vegum sveitarfélaganna á Ísafirði og í nágrenni. Ég sé ekki annað en þar sem það er viðurkennt af öllum að þarna sé um nauðsynlega framkvæmd að ræða, sem hefur verið frestað á undanförnum árum vegna þess fyrst og fremst að tækin hafa ekki verið til staðar, þá sé ég ekki annað en það væri hreint glapræði ef ekki ætti að nýta þetta tækifæri nú til að vinna þessa framkvæmd. Og ég segi fyrir mig, að ég læt mér ekki duga það að hæstv. samgrh. gefi um þetta einhvern ádrátt, að það geti komið til mála að það verði reynt að gera þetta, en segi jafnframt að það sé ekki hægt að fallast á að fjárveiting í þessu skyni verði sett inn á fjárl. Það eru þó þrátt fyrir allt fjárl. og þau ein, sem eiga að skera úr um það hvaða framkvæmdir sé ráðist í og hverjar ekki. Ég vil því mælast til þess mjög eindregið, að menn hugleiði hvort ekki séu svo gild rök fyrir þessari till. að á hana beri að fallast. Von mín er sú að fjvn. skoði þetta mál, áður en til 3. umr. kemur, og einnig varðandi hinar till. sem við flytjum á þskj. 153.

Ég vil þá snúa mér að brtt. á þskj. 170 sem ég flyt hér ásamt hv. 3. þm. Reykn. Þessi brtt. lýtur að lið á bls. 32 í fjárlagafrv., þar sem lagt er til í fjárlagafrv. að 12 millj. kr. skuli varið til íslenskra rithöfunda og höfunda fræðirita vegna útgáfu frumsaminna verka, enda verði settar sérstakar reglur um úthlutun fjárins. Till. okkar er sú að þessi liður hækki úr 12 millj. í 18 millj. Hér er á ferðinni mál sem á sér alllanga sögu, og ég ætla nú ekki að rekja hana ítarlega, en hlýt að rifja nokkuð upp rað sem áðar hefur gerst.

Vorið 1972 var samþykkt hér á Alþ., ég hygg einróma, till. sem var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. um að fjárhæð, er nemi sem næst andvirði söluskatts af bókum, renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun eftir reglum sem samdar verði í samráði við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda.“

Þessi till. var samþ. vorið 1972. Áður hafði rithöfundaþing, sem haldið var 1969, sett fram þá kröfu sem þarna var verið að samþykkja á Alþ., þ.e.a.s. þá kröfu að söluskattur af bókum rynni til höfundanna sjálfra, en yrði ekki notaður í aðrar þarfir. Þetta var á sínum tíma rökstutt með því að væri lítið til annarra listgreina en bókmennta, þá væri þar ekki um söluskattsheimtu að ræða af hálfu ríkisins. Í hópi listamanna þjóðarinnar væru það í raun rithöfundarnir einir sem þetta væri lagt á, að ríkið heimti söluskatt af þeirra verkum. Alþ. féllst á þetta sjónarmið og þessi till. var samþykkt.

Næst gerðist það í málinu, að þegar að fjárlagaafgreiðslu kom næsta haust eftir að þessi till. var samþ., þá voru settar inn á fjárlög — það voru fjárlög ársins 1973 — 12 millj. kr. í þessu skyni sem gert var ráð fyrir í till. sem ég minnti á hér áðan og las upp. Þessar 12 millj. voru að vísu ekki nema nokkur hluti af söluskatti af bókum, sem upphaflega till. hafði í rann og veru gert ráð fyrir að rynni allur til rithöfunda. Það var áætlað þá að söluskattur af frumsömdum bókum hefði verið árið 1972 milli 21 og 22 millj., en ef þýddar bækur væru teknar með, þá milli 38 og 39 millj. En 12 millj. voru sem sagt settar inn á þennan ákveðna lið fjárl. Síðan gerðist það í málinu, að menntmrn. skipaði sérstaka n. þann 16. jan. 1973 til þess að semja reglur um úthlutun þessa fjár samkv. þáltill., og þessi n. hefur sett ákveðnar bráðabirgðareglur sem nú eru í gildi í þessum efnum, en vinnur áfram að varanlegri reglugerð. Á fjárl. þessa árs, sem nú er að líða, voru aftur ákveðnar þessar sömu 12 millj. til rithöfunda á þessum lið. Það var að sjálfsögðu enn fjær því að nema þeirri upphæð sem samsvaraði söluskatti af bókum heldur en árið áður. En nú standa málin þannig við 2. umr. fjárl. ársins 1975 að það eru enn í fjárlagafrv. aðeins þessar sömu 12 millj. óbreyttar. Ég hygg, að ef menn litu á það hver söluskattur af bókum væri í dag, sem var 21–22 millj. 1972, og hvað hann yrði á næsta ári, þá er á það að líta, að það er ekki aðeins að bókaverð hafi stórhækkað eins og allt annað verðlag í landinu, heldur hefur söluskattsstigunum einnig fjölgað verulega. Það munu vera ein 6 stig, svo að ekki sé talið með viðlagasjóðsgjaldið sem eðlilegt er að halda þarna utan við, og ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi að áætla mætti söluskatt af bókum næsta ár og þá eingöngu frumsömdum bókum íslenskra höfunda ekki lægri en 70–80 millj. kr.

Nú hefur Alþ. árið 1972 samþ. ákveðna till. um að þetta fé skuli renna til rithöfunda. En þá er spurningin þessi: Vilja menn fara þannig með þessa samþykkt Alþ., sem gerð var á sínum tíma, að halda sig enn þá einu sinni við það að talan skuli ekki hreyfast, vera áfram eingöngu þessar 12 millj. Í till. okkar hv. 3. þm. Reykv. er lagt til, að hún hækki upp í 18, aðeins um 50%. En það hefur reyndar gerst ýmislegt meira í sambandi við þetta ákveðna mál. Hér var lagt fram á Alþ. s.l. vor ákveðið frv. frá þáv. hæstv. ríkisstj. Þetta var stjfrv. um Launasjóð rithöfunda. Það var sama málið og ég er hér að tala um sem þar var á ferð. Þetta frv. var samið af þeirri n. sem hæstv. fyrrv. menntmrh. hafði skipað til þess að semja reglur samkv. þál. frá 1972, reglur um úthlutun. Það var sú n. sem samdi þetta frv., og það er rétt að láta þess getið að hæstv. núv. iðnrh. átti m.a. sæti í n. sem þetta frv. samdi, og ég hygg að við hljótum því að líta svo á að hann sé þar meðal tillögumanna. Í þessu frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal Launasjóð íslenskra rithöfunda. Stofnfé sjóðsins skal vera 21.7 millj. kr. og greiðast úr ríkissjóði.“

Þarna er talan reyndar 21.7 millj. Það er talan sem samsvarar því sem áætlað var sem söluskattur af bókum næmi árið 1972. E n í þessu frv., sem var lagt fram á s.l. vori sem stjfrv., segir áfram: „Fjárveiting samkv. 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárl. fyrir árið 1975.“ Það eru þau fjárlög, sem við erum nú að ganga frá. Og áfram segir: „Í fjárl. ár hvert skal sjóðnum síðan ætluð fjárveiting er nemi eigi lægri fjárhæð en að ofan greinir. Fjárhæðin skal endurskoðuð ár hvert við undirbúning fjárl. með tilliti til breytinga á byrjunarlaunum menntaskólakennara.

Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.“ Síðan: „Menntmrn, setji reglugerð um framkvæmd l. að höfðu samráði við félagasamtök rithöfunda, þar sem m.a. skal kveða á um stjórn sjóðsins, vörslu hans og greiðslur úr honum.“

Þetta frv., sem ég var hér að minnast á, fór til n. á sínum tíma og ég hef hér fyrir framan mig nál. frá menntmn. Nd. dags. 8. maí á þessu ári, og þar kemur reyndar fram að hv. menntmn. Nd. hefur öll verið sammála um að mæla með þessu stjfrv. hæstv. fyrrv. ríkisstj., — frv., sem hæstv. núv. iðnrh. var meðal höfunda að. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir og talað um það alveg beint að á fjárl. ársins 1975 verði þessi ákveðna upphæð ekki 12 millj., heldur 21.7 millj. Frv. fékk ekki fullnaðarafgreiðslu á síðasta þingi með tilliti til þingrofs og þeirra aðstæðna sem þá voru uppi, en sú till. um 50% hækkun á þessum lið fjárl., úr 12 millj. í 18, sem ég flyt hér ásamt hv. 3. þm. Reykn., er tilraun til þess að fá úr því skorið hvort ekki sé hægt að fá um það hér samkomulag, sem raunar er búið að fallast á áður af fulltrúum allra þingflokka, að þarna verði gerð á nokkur leiðrétting og íslenskir rithöfundar nái þeim rétti að fá í sinn hlut nokkru meira af söluskattinum, sem ríkissjóður hefur innheimt af þeirra bókum, heldur en hingað til hefur verið. — Ég hef lokið máli mínu.