16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

1. mál, fjárlög 1975

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 170 flyt ég ásamt hv. 6. landsk. þm., Guðmundi H. Garðarssyni, brtt. varðandi fjárveitingu til byggingar orlofsheimila verkalýðssamtakanna og fjárveitingu til sérstofnana Alþýðusambands Íslands. Ég skal ekki fjölyrða um þessar till., aðeins geta þess að Alþýðusambandið sendi fyrir miðjan maímánuð á þessu ári umsókn til félmrn. um hækkun á þessum liðum og raunar nokkrar aðrar till. varðandi fjárl. og verkalýðssamtökin, en það virðist sem þessar till. Alþýðusambandsins um beiðni hafi stöðvast við fyrstu þröskulda í stjórnarráðinu og ekki komist lengra.

Þær till., sem hér eru fluttar, miðast einvörðungu við það að þeir liðir, sem hér um ræðir, haldi nokkurn veginn verðgildi sínu miðað við það sem þeir voru s.l. ár, — miðast ekki við þær till., sem Alþýðusambandið gerði í vor, heldur einvörðungu við það að þessir liðir lækki ekki í verðgildi.

Það sem hér er um að ræða, er í fyrsta lagi bygging orlofsheimila verkalýðssamtakanna, en þetta er búið að vera á fjárl. nokkur ár og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hve nauðsynleg fjárveiting þetta er. Verkalýðsfélögin hafa á síðustu árum ráðist í myndarlegt átak til þess að koma upp orlofsbúðum fyrir verkafólk, og hefur það orðið til þess að margir þeir, sem ekki hafa haft möguleika til að nýta orlofsdvalir á viðunandi hátt, hafa nú getað veitt sér slíkt, en þó í allt of litlum mæli. Nú er þannig ástatt, að allmörg orlofshús eru í byggingu og aðrar byggingarframkvæmdir eru fyrirhugaðar. Má þar t.d. nefna, að í Vestfirðingafjórðungi, þar sem engar slíkar orlofsbúðir eru, er fyrirhugað að byrja á þeim á næsta ári. Nokkur undirbúningur hefur átt sér stað, búið að ákveða þeim stað og undirbúningi langt á veg komið. Ég ætla ekki að eyða tíma í að skýra fyrir mönnum hve mjög þýðingarmikið mál þetta er. Ég veit að hv. alþm. skilja það.

2. brtt. okkar er varðandi fjárveitingu til Menningar- og fræðslusambands alþýðu. Þessi stofnun, sem er tiltölulega ung innan verkalýðssamtakanna, hefur notið nokkurrar fjárveitingar, og eru henni í því frv., sem fyrir liggur, áætlaðar 2,5 millj., en við leggjum til, að það verði hækkað í 3.5 millj. og verði þá að verðgildi svipað og nú er. Það, sem hér er um að ræða, er fræðslustarfsemi Menningar- og fræðslusambands alþýðu, en það hefur á allra síðustu árum haldið uppi allvíðtækri fræðslustarfsemi, sem fyrst og fremst miðast við að mennta forustumenn og trúnaðarmenn verkalýðsfélaga. Ég held, að það sé augljóst, jafnþýðingarmiklu hlutverki og verkalýðsfélögin gegna í okkar þjóðfélagi, sífellt vandasamari störfum sem trúnaðarmenn þessara félaga verða að inna af höndum, að þá sé ákaflega nauðsynlegt einmitt að þeir séu sem allra bestri þekkingu búnir í þeim störfum sem þeir þurfa að vinna. Og það er ekki hvað síst nauðsynlegt að unga fólkið, sem kemur og tekur við af hinum eldri, hafi möguleika til þess að afla sér þeirrar fræðslu sem nauðsynleg er til þess að geta sinnt þessum störfum. Í raun og veru ætti að mínu viti þessi fræðslustarfsemi að vera einn þáttur í skólakerfi okkar, og hefur oft verið flutt frv. þar að lútandi, og vonandi verður það að veruleika áður en langt um líður.

3. till., sem við flytjum, er varðandi alþýðuorlof, en það er mjög ung stofnun innan Alþýðusambandsins, — stofnun, sem hefur unnið að því að greiða fyrir orlofsferðum verkafólks aðallega, bæði innanlands og utan. Þetta er stofnun sem hefur nú orðið æðimikið umfangs, og má m.a. gata þess, að tvö undanfarin ár hefur þessi stofnum rekið orlofsdvalarheimili við Héraðsskólann í Reykholti. Það hófst á árinu 1973, þegar orlofsheimilin í Ölfusborgum voru ekki tiltæk fyrir það fólk sem þar hefur dvalið á sumrin í orlofi, en eins og allir vita lánuðu eigendur Ölfusborga þau húsakynni til þess fólks sem varð að flýja eldana í Vestmannaeyjum. Þessi rekstur í Reykholti hefur orðið mjög vinsæll, og ég held að það væri mjög nauðsynlegt að færa þá starfsemi út, en orlofsdvalirnar, hvort sem er um slíka staði eins og héraðsskólana að ræða eða orlofsheimilin, þetta er það dýrt, að það er ekki hægt að selja fólki dvalir á því verði sem það raunverulega kostar. Verkalýðsfélögin standa undir stórum fjárhagsbyrðum varðandi þessa starfsemi, og er áreiðanlega ekki nema réttmætt að ríkið komi þarna ofurlítið til móts. Hér er um smáupphæð að ræða, það er ein millj. í fjárlagafrv., en við leggjum til, að það hækki upp í 1.5 millj. Eins og ég sagði virðast þessi mál hafa einhvers staðar lent á milli og ekki komist alla leið til fjvn., og það er von okkar að þessi atriði verði tekin til athugunar fyrir 3. umr. fjárl.