16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

1. mál, fjárlög 1975

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mjög, svo mjög sem liðið er nú fram yfir skaplegan fundartíma og fáir orðnir til þess að heyra mitt mál, og er það kannske ekki að undra á þessum tíma sólarhringsins, svo fáliðað sem stundum er á reglulegum fundartíma að degi til.

Hér hefur komið fram sandur af brtt. við fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram, og ég hygg að við getum öll sagt að þær séu þannig vaxnar að ekkert væri okkur kærara en að geta samþykkt þær allar eins og þær liggja fyrir. Það hefur verið sagt hér og er vafalaust rétt að það skiptir miklu að fénu, sem til skiptanna kemur, sé réttlátlega skipt. Þetta er hárrétt. En kannske skiptir þó enn meira máli að einhverjir fjármunir séu til að skipta, og við það hljótum við að miða okkar afstöðu og okkar till., að þær séu raunhæfar og ekki út í bláinn.

Þær till. til breytinga á fjárlagafrv., sem komið hafa fram, standa mér að sjálfsögðu næst sem snerta mitt kjördæmi fyrir vestan, þótt ég viti að við megum ekki einblína um of á okkar sveit og okkar kjördæmi. En það er ein þeirra sérstaklega, sem hefur að vísu verið í brennipunkti í kvöld og ég ætla enn að gera að umræðuefni, af því að mér finnst ýmislegt vera hér sem skiptir máli sem ekki hefur verið minnst á. Hér á ég við brtt. Karvels Pálmasonar o.fl. við till. nr. 64 á þskj. 143, um hafnarmannvirki og lendingarbætur. Þar er talað sérstaklega um Súðavík og Ísafjörð. Báðir þessir staðir þurfa vissulega mjög nauðsynlega á auknum fjárframlögum að halda. Ég ætla þó að halda mér við Súðavík, því að mér finnst hennar tilfelli augljósast.

Ég sé ekki betur en það sé verið að fremja hér ranglæti á litlu byggðarlagi sem hefur síst til þess unnið. Það hefur af harðfylgi og dugnaði sótt fram á s.l. árum. Það á skuttogara, togarann Bessa, sem er toppskip í vestfirska flotanum, og ríður á framar öllu að skapa þessu skipi og öðrum fiskiskipum aðstöðu í höfninni.

Ég held að upplýsingar hæstv. samgrh., sem ég veit að hefur allan vilja til þess að greiða hér úr, mér býður í grun að hans upplýsingar, sem hann hefur frá Hafnamálastofnuninni, — og ég veit raunar að þær stangast algerlega á við þær upplýsingar sem heimamenn sjálfir gefa. Það er gert að ágreiningsefni, sem ekki er það í rauninni, hvort gert skuli stálþil eða staurabryggja. Hér er þetta gert að þröskuldi í veginum, sem ég hygg að sé alls ekki fyrir hendi. Heimamenn gera ekki ágreining út af því, og ég hef heyrt af viðtali mínu við hreppsnefndarmenn og forsvarsmenn frystihússins, að staurabryggja er þeim fullt eins hugstæð og stálþil, og þau rök, sem hér hafa verið færð á móti stálþili, hygg ég að séu viðurkennd þar fyrir vestan.

Það er annað. Það er einhver misskilningur í þessu máli. Það er þrætuefni og það er að mínu mati komin stífni og þrjóska í þetta mál frá hendi Hafnamálastofnunar hér fyrir sunnan. Ég skal skýra aðeins nánar hvað ég á við. Þegar ríkið réðst í hafnarframkvæmdir og uppfyllingu í Súðavíkurhöfn fyrir einum 2–3 árum, þá raskaðist vatnslögn sú sem var fyrir hendi eða réttara sagt frárennsli frá frystihúsinu sem sveitarfélagið á að sjá um. Súðvíkingar vilja meina í dag, að úr því að ríkisframkvæmdin raskaði þessu mannvirki, sem var í lagi áður, þá beri þeim hinum sama skylda til að lagfæra það. Ég hef persónulega leitað álits lögfræðings á þessu og ég vil taka fram að lögfræðingurinn er 100% súðvíkinga megin. En ég hygg að þarna sé lítið þrætuepli sem er orðið að þröskuldi í vegi fyrir stórnauðsynjamáli fyrir þetta byggðarlag. Það hefur verið bent á það hér að þessi uppfyllingarkantur, sem þeir fara fram á að sé gerður, geti skipt frystihúsið og atvinnureksturinn svo miklu, að fyrir það verði lokað á vori komanda. Það hefur verið gefinn frestur æ ofan í æ, en Hafnamálastofnunin hér syðra daufheyrist við till. og beiðnum heimamanna um að koma fram með teikningar og till. sem með þarf til þess að ríkið geti hafið sínar framkvæmdir þarna. Þeir hafa í allt sumar og allt haust beðið eftir því að fá teikningu af festingum á bryggjuna eða hafnargarðinn, svokölluðum pollum á sjómannamáli. Þetta hefur ekki fengist og mér skilst að þeir verði að koma löndunarfestum togarans fyrir núna þannig að bregða þeim utan um sjálft íshúsið eða eitthvert annað hús uppi í þorpinu. En það stendur á þessu. Þeir hafa margítrekað beiðni um að fá þetta á hreint frá Hafnamálastofnuninni. Það fæst ekki. Það er einhver þrjóska og eins og ég segi ósveigjalegheit og skilningsleysi á þörfum þessa þorps, sem íbúarnir nú verða að gjalda fyrir. Ég vildi óska þess að þeir menn, sem eiga að ráða úrslitum hér, leiti upplýsinga frá heimamönnum sjálfum og fái réttan botn í þetta mál. Þeir eru búnir að kaupa malbikið, sem þarf í þessa þekju sem á að steypa þarna á uppfyllingarkantinn, þeir hafa pantað það. Það vantar teikningar, það vantar framtakið til þess að hrinda því í framkvæmd. Samkv. hafnalögum munu. frystihús eiga að sjá um malbikun 3 m frá frystihúsi, en hafnarframkvæmdin tekur síðan við út í næstu 15 m. Súðvíkingar staðhæfa að þeir geti ekki hafið malbikun fyrr en viðlegukanturinn er steyptur, og það er verkefni ríkisins mjög greinilega samkv. ákvæðum hafnalaga.

Ég vona, að enda þótt hæstv. samgrh. sé horfinn af fundi, þá séu það margir áhrifamenn hér inni, sem ég vona að taki þetta til athugunar, hv. fjvn.- menn, ef þeir heyra mál mitt og mál þeirra, sem á þetta hafa minnst hér í kvöld, og ég skal ekki trúa því fyrr en ég tek á því að þessar fáu millj. þurfi að stofna þessu litla sjávarþorpi í jafnstórfelld vandræði og nú horfir. Það er rétt, það eru á árinu 1976 áætlaðar 24 millj. til hafnarframkvæmda í Súðavík. Það, sem farið er fram á, er að fært sé fram að ég hygg 3 millj. sem mundu nægja, eftir því sem heimamenn tjá mér. 6 millj. gerir till. ráð fyrir, og síst vildi ég slá hendinni á móti því ef þess væri kostur. En þeir telja 3 millj. hjálpa þeim út úr þeim vandræðum sem þeir eru staddir í, og það forðar þeim frá því að frystihúsinu hjá þeim verði lokað af heilbrigðiseftirliti, sem líður ekki lengur þær aðstæður sem eru á planinu í kringum hraðfrystihúsið.

Svona liggur málið fyrir, ákaflega einfalt að mínu mati. Og ég vil segja það enn, að ég skil ekki, á meðan talað er um að fjárl. muni hækka um 1000 millj. í meðförum þingsins, að einar litlar 3 millj. til jafnmikils nauðsynjamáls eigi ekki að fást fram.

Ég hefði viljað tala um ýmsar aðrar till. hér, en ég sé ekki að ástæða sé til þess, af því að ekki er tími til þess. En ég verð að segja að mér kemur ókunnuglega fyrir staðhæfing Karvels Pálmasonar, hv. 5. þm. Vestf., og fleiri vinstri manna, sem hér hafa deilt á stjórnarliðið núv. fyrir að Hafnabótasjóður skuli ekki hafa veitt nein lán á yfirstandandi ári. Öll vitum við þó að núv. stjórn kom ekki til valda fyrr en í sept. og þá voru 8–9 mánuðir liðnir af árinu og ekki hafði bólað á þessum þarfalánum úr Hafnabótasjóði þá.