17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

315. mál, orkumál á Austurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. er um það, hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir orkuskort á Austurlandi í vetur. Fyrir nokkrum dögum var þetta mál rætt nokkuð utan dagskrár. Ég skal gefa nokkurt yfirlit um hvernig málum er komið þar eystra og hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar.

Ef vikið er fyrst að samveitusvæði Grímsárvirkjunar á Austurlandi, þá er það raforkukerfið sem nær norðan frá Bakkagerði suður til Djúpavogs. Á þessu svæði eru þrjár vatnsaflsstöðvar, alls 3600 kw. Auk þess eru þar dísilstöðvar með 9500 kw. afli. Heildarafl þessara rafstöðva á svæði Grímsárvirkjunar er því nú 13 100 kw. en þar af mikill meiri hluti dísilstöðvar. Þegar athugað er hvort þetta vélaafl sé fullnægjandi, þá er af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins gerð sú áætlun, að á loðnuvertíð nú eftir áramót muni vera þörf fyrir um 11100 kw. Samkv. þessu er því ástimplað afl rafstöðvanna að dísilstöðvunum meðtöldum um 2000 kw. meira en áætluð aflnotkun á væntanlegri loðnuvertíð á þessu svæði. En þessar tölur segja ekki alla söguna, því að forsenda þess er auðvitað að allar aflstöðvarnar geti skilað þeim afköstum sem þær eru gerðar fyrir, skilað ástimpluðu afli.

Svo sem kunnugt er er stundum vatnslítið í Grímsá og getur Grímsárvirkjun þá ekki skilað fullum afköstum. Einnig er það svo um dísilvélarnar, að ávallt er nokkur hætta á bilun einhverrar þeirra um stundarsakir og minnka þá afköstin að sama skapi. Vatnsskortur í Grímsá á vissum árstímum er gamalkunnugt vandamál. Vatnsmiðlunarlón við virkjunina er svo til ekkert, aðeins aðrennslislón. Á sínum tíma var byggð upp miðlun upp til fjalla hjá svonefndum Ódáðavötnum. Miðlun þessi er í um 35 km fjarlægð frá virkjuninni og í ríflega 600 m hæð yfir sjó. Frá Ódáðavötnum rennur vatnið eftir lækjarfarvegi niður í Grímsá. Að vetri til í frosthörkum skilar þetta vatn sér illa niður í virkjunina, því að hluti þess frýs á hinni löngu leið. Af þessum sökum, vatnsþurrð í rennsli Grímsár og erfiðleikum við núverandi miðlun, verða afköst Grímsárvirkjunar oft innan við helming af ástimpluðu afli.

Sú óvissa, sem hér hefur verið greint frá, veldur því að ástimplað afl rafstöðva á Austurlandi þarf að vera verulega meira en áætluð notkun. Sá munur þarf að vera meiri en áðurnefnd 2000 kw.

Það er ljóst að mjög rík þörf er á mikilli og hagkvæmri vatnsmiðlun fyrir allar vatnsaflsstöðvar, sem byggðar eru og byggðar verða á Austurlandi. Till. eru uppi um miðlun við væntanlega Lagarfossvirkjun og í Skriðuvötnum til bættrar hagnýtingar Grímsárvirkjunar. Siðar er fyrirhuguð Bessastaðaárvirkjun með góðri miðlun. Þetta snertir svæði Grímsárvirkjunar, en rétt er í þessu sambandi að geta Vopnafjarðar og nágrannabyggða, sem eru enn utan samveitusvæðis Grímsárvirkjunar. Þetta svæði fær raforku frá dísilstöð í Vopnafirði. Stærð hennar er 1 200 kw., en áætluð mesta notkun í vetur er um 1 000 kw. Í till. Rafmagnsveitna ríkisins til nýrra framkvæmda á árinu 1975 er gert ráð fyrir háspennulínu frá Lagarfossvirkjun til Vopnafjarðar 60 km að lengd. Með því verður Vopnafjörður og nágrenni komið inn á samveitusvæði Austurlands. Áætlað er, að kostnaður hverrar tengingar verði um 140 millj. kr.

Varðandi Hornafjörð er þess fyrst að geta, að dísilvélaafl á Hornafirði nú í dag er samtals um 1 350 kw. Vatnsaflsstöðin í Smyrlabjargaá er í kringum 1 300 kw., og nú eftir áramót ráðgert að flytja frá Blönduósi gastúrbínu sem er 800 kw. Með þessu móti yrðu þá í Hornafirði til ráðstöfunar um 3 454 kw. Rétt er að geta þess að mesta álag þar er nú 1900 kw., en má gera ráð fyrir að álagið aukist á loðnuvertíð upp í 2 600–2 700 kw. Ef Smyrlabjargaárvirkjun framleiðir það sem hér er gert ráð fyrir, þá ætti ekki að vera hætta á ferðum. En þegar þar verður vatnsskortur, eins og varð svo alvarlegur í fyrravetur, þá er vitanlega viðbúið, að skortur verði á raforku. Það má að lokum geta þess í sambandi við Hornafjörð, að á vori komanda er væntanleg þangað ný dísilvél um 2000 kw. að afli.

Varðandi ráðstafanir nú af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins til að sporna við orkuskorti á Austurlandi víl ég geta um þetta:

1) Rafmagnsveitur ríkisins hafa þegar fest kaup á einni rafstöð, rafvél 500 kw., sem kemur væntanlega til landsins fyrir áramót.

2) Verið er að ganga frá kaupum á rafstöð 660 kw., sem byggð verður á vagni og þannig hreyfanleg. Gert er ráð fyrir að þessi vél verði afgreidd frá Englandi fyrir áramót.

3) Ráðgerð eru kaup á 512 kw. rafstöð frá Þýskalandi og er unnt að fá afgreiðslu á þeirri vél fyrir n. k. áramót frá Hamborg.

Ég vænti þess, að með þessu yfirliti hafi fsp. veríð svarað, eftir því sem unnt virðist vera á þessu stigi.