17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

312. mál, rannsóknir og virkjunarundirbúningur á Kröflusvæðinu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr um hversu langt sé komið rannsóknum á háhitasvæðinu við Kröflu og hver sé árangur þeirra rannsókna, sem fram hafi farið, enn fremur hvenær ákvörðun verði tekin um kaup á vélum í væntanlega Kröfluvirkjun og hvenær áætlað sé að hún taki til starfa.

Jarðfræðirannsóknir jarðhitasvæðisins við Kröflu og jarðeðlisfræðilegar mælingar hafa farið fram og samkv. þeim virðist jarðhitasvæðið við Kröflu allt að því tvöfalt stærra en við Námafjall. Nú um síðustu mánaðamót lauk borun á tveimur rannsóknarholum við Kröflu. Var sú fyrri 1 170 m djúp, en hin síðari 1 206 m. Í fyrri holunni hefur mælst yfir 290 stiga hiti Celsíus við 1 000 m dýpi. Svo skammt er líðið síðan borun síðari holunnar lauk, að ekki liggja enn fyrir hitamælingar sem byggjandi er á. En stefnt er að því að heildarniðurstöður rannsóknanna á svæðinu liggi fyrir í næsta mánuði. Þó er óhætt að segja, að árangur verður að teljast mjög góður og jafnvel betri en áætlað var þegar boranir hófust.

Í nóv. s.l. var undirritaður samningur af hálfu Kröflunefndar við verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens og amerískt ráðgjafafyrirtæki um hönnun virkjunarinnar. Sérstök áhersla var lögð á nauðsyn þess að flýta virkjunarframkvæmdum eftir því sem frekast væri unnt. Um miðjan jan. n.k. munu væntanlega liggja fyrir upplýsingar um þá aðila, sem til greina koma að selji vélar og tæki til virkjunarinnar, og er hugsanlegt að hægt væri að gera samninga um þessi efni um mánaðamót jan.–febr., eftir því sem Kröflunefnd hefur upplýst. Er talið að hægt sé að fá vélaútbúnað til virkjunarinnar afgreiddan á 18–20 mánuðum frá undirskrift samninga. Ef áætlanir um boranir og aðrar byggingarframkvæmdir standast er hugsanlegt að raforkuvinnsla frá Kröflu gæti hafist á árinu 1977. Gert er ráð fyrir að vinnsluboranir við Kröflu verði hafnar vorið 1975, og gert ráð fyrir að vinnsluholurnar verði allt að 2 000 m djúpar.

Eins og kunnugt er, þá er aðeins einn djúpbor til hér sem mundi geta annað þessu verkefni, þ.e. sá bor sem keyptur var fyrir 17 árum hingað og er sameign ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar. Nú hefur einnig verið ákveðið að festa kaup á gufubor til viðbótar sem á að geta komið hingað snemma á næsta ári. Annar hvor þessara bora mundi svo fara norður að Kröflu strax snemma næsta vors. Er gert ráð fyrir að fyrirhuguð virkjun í Kröflu verði í tveim einingum, 25–30 mw. vélum, en slík ráðstöfun er talin tryggja mjög rekstur orkuversins. Þegar fyrstu virkjun er lokið, sem yrði þá væntanlega að afli 50–60 mw., ætti að mega auka framleiðslugetu orkuversins síðar með viðbótarvélaafli og ætti slík aukning að geta átt sér stað á mun skemmri tíma en sú virkjun sem nú er fyrirhuguð.

Loks er rétt að geta þess, að það hefur verið til sérstakrar athugunar hjá Kröflunefnd og iðnrn. hvort mögulegt væri að gera einhverjar ráðstafanir til bráðabirgða, þannig að raforkuframleiðsla í Kröflu gæti hafist fyrr en á árinu 1977, eins og ég gat um áðan. Af hálfu iðnrn. og Kröflunefndar er lögð á það megináhersla að virkjunin komist í notkun sem allra fyrst.