17.12.1974
Efri deild: 23. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

48. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja

Frsm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur yfirfarið frv. það um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja sem hér er til 2. umr. Er n. sammála um að mæla með því að frv. verði samþ. óbreytt. Að mér hefur verið sýndur sá sómi að vera frsm. fyrir þessu nál. mun stafa af því, herra forseti, að ég sem bankamaður lýsti yfir á fundinum, sem fjallaði um þetta mál, mikilli ánægju minni yfir því að með þessum lögum verði stöðvuð sú sívaxandi ásókn sem hefur átt sér stað um að ýmsar ríkisstofnanir væru að þrengja sér inn á hinn svo mjög takmarkaða lánamarkað í bönkum og þjónustustofnunum úti á landsbyggðinni. Hér hefur oft verið um stórar upphæðir að ræða, sem látnar hafa verið í té með ýmsum hætti, þó alveg sérstaklega hjá ýmsum iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum. Hefur það oft komið sér mjög illa fyrir hlutaðeigandi, að erfitt hefur verið að fá greiðslu fyrir selda þjónustu og vöru, sem stafar af því að hlutaðeigandi stofnanir hafa verið búnar að eyða því framlagi, sem þeim hefur verið ætlað í fjárlögum, og því átt á brattann að sækja að fá viðbótarframlög til þess að geta staðið í skilum með greiðslur. Með lagasetningu þeirri, sem ákveðið er um í þessu frv., er sett undir þennan leka. Frv. stefnir að því að skapa aðhald, festu og öryggi í samskiptum opinberra stofnana í almennum viðskiptum, og ber að þakka slíkar aðgerðir.