17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég get strax tekið það fram að ég er mikill áhugamaður um að varanleg vegagerð fari fram og hið fyrsta geti náðst það langþráða takmark, að góður vegur með varanlegu slitlagi verði gerður um höfuðvegi landsins og þá ekki síst hinn fjölfarna veg milli landshlutanna norðanlands og höfuðborgarsvæðisins.

Ég lýsti því yfir, að mjög gladdi mig sú bjartsýni sem fólst í ummælum hæstv. samgrh. þegar hann á dögunum mælti fyrir frv. í sambandi við fyrirhuguð vegalög. Hér er til umr. frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs f.h. Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg. Um leið og ég ítreka að ég er mjög fylgjandi þessari fyrirhuguðu vegalagningu, vil ég taka það skýrt fram, að ég er algerlega andstæður þeirri fjáröflunaraðferð sem á að viðhafa í sambandi við að leggja þennan veg. Ég hef ekki farið neitt leynt með það, og ég held að það hafi komið fram hjá mér bæði í ræðu og riti á nokkuð löngum undanförnum tíma, að mér stendur persónulega, — og ég held að ég tali fyrir munn allmargra ábyrgra aðila, — stuggur af þeirri þróun sem orðið hefur í þessu landi í sambandi við þá stefnu, sem tekin hefur verið um ýmis konar fjármögnun. Sú allsherjarlausn, sem virðist vera orðin allsráðandi, að gefa út svokölluð verðtryggð skuldabréf í sambandi við væntanlega fjármögnun þeirra framkvæmda, sem á að gera og hefur til þessa verið nær eingöngu notuð af ríkinu, er komin í það horf að mér finnst vera stefnt í fyllsta óefni.

Þetta kom ljósast fram þegar frv. til fjárl. fyrir n.k. ár var lagt fram. Þess er getið í aths. með þessu fjárlfrv., sem við vorum að afgr. við 2. umr. í Sþ. í dag, að í jan. á næsta ári fellur í gjalddaga fyrsta lánið sem tekið var af hálfu hins opinbera og var með svokallaðri byggingarvísitölu verðtryggingu. Þetta lán var ekki mikil upphæð, það getur vel verið að það hafi verið góðar krónur. Menn tala mikið um að fyrir nokkrum árum hafi krónur verið góðar, en þær hafa farið síversnandi. Við stöndum andspænis þeirri staðreynd, að 10 árum seinna, þegar á að endurgreiða höfuðstól þessa láns, — sem mig minnir að hafi verið 53 milljónir kr., þori ekki að fara örugglega með hvort það er rétt hjá mér, — þá blasir við okkur sú staðreynd, að það er ekki fjórfaldur, fimmfaldur eða sexfaldur höfuðstóll, sem þarna er verið að endurgreiða. Höfuðstóllinn er orðinn 12-faldur á 10 ára tíma frá því að þetta lán var tekið. Og það er orðið svo erfitt að standa í skilum með þessa greiðslu, að við gerð fjárlfrv. treysta þeir aðilar, sem semja þetta fjárlfrv., sér ekki til þess að taka upp í ákvæði útgjalda við fjárlfrv. alla upphæðina sem þarf til að endurgreiða þetta lán. Þá er svo komið fyrir íslenska ríkinu, að það treystir sér ekki til að standa við sínar fjárhagslegu skuldbindingar, heldur var gert ráð fyrir að hluti af láninu skyldi endurgreiddur með upphæð sem tekin var upp í fjárl., afganginn átti að halda áfram að taka með verðtryggðum skuldabréfum. Þetta minnir mann ískyggilega mikið á það, sem menn hafa lesið í glæpareyfurum og heyrt talað um, hvernig fari fyrir þeim sem lendi í höndum okurkarlanna, að það geti farið svo að smáupphæð verði orðin óviðráðanleg vegna þess að sífellt er verið að auka við þóknunina fyrir að hafa tekið þetta lán, alltaf er verið að hækka höfuðstólinn um vextina, af því að maður gat ekki staðið í skilum, og svo koma vextir af vöxtunum og vaxtavöxtunum og svona heldur holskeflan áfram.

Þetta lán, þetta einstaka atriði, sem ég er nú að gera hér að umræðuefni, er aðeins fyrsti hlutinn af þessu lánakerfi, sem sett var í gang fyrir 10 árum. Síðan er búíð að gefa út marga flokka af þessum svokölluðu verðtryggðu vísitöluskuldabréfum. Ég vil leyfa mér að fara þess á leit við þá, sem það geta, að það verði upplýst við umr. um þetta frv., sem hér er til umr., hve miklu skuldir ríkissjóðs í verðtryggðum skuldabréfalánum nemi, miðað við vísitöluna — við skulum bara segja minnstu töluna, sem er kaupgjaldsvísitalan, og síðustu byggingarvísitölu. Hvað nemur þetta mikilli upphæð þannig reiknað? Hvað var höfuðstóllinn og hver mundi upphæð vera ef við hefðum peninga og aðstæður til að geta greitt hana nú?

Svo á að halda áfram á þessari braut. Það er ekki nóg með það að þeir ágætu menn, sem eru flm. að þessu frv., höfðu í huga 1 200 millj. Jú, þegar var farið að athuga þetta betur, þá fundu aðrir ágætir menn, sem höfðu líka áhuga á að láta vegina ná lengra, að það var enginn vandi að leysa það, bara bæta við, það munar ekkert um að hækka þessa upphæð upp í tvo milljarða. En verðtryggt skal það vera.

Ég held að það þurfi ekki mikla glöggskyggni til að sjá, að ef haldið er áfram á þessari braut, þá er stefnt að fjárhagslegu hruni hins íslenska peningakerfis. Hvað verður af krónugildi þess þjóðfélags, sem komið er út í þær ógöngur sem stefnt er í með slíkri stefnu og þeirri fjármögnunarleið sem á að fara skv. þessu frv.? Ég held að það sé fyrir löngu kominn tími fyrir ráðamenn þessa þjóðfélags og fyrir hið háa Alþ. að taka til alvarlegrar athugunar endurskoðun og endurmat á öllu þessu okkar peningakerfi, þegar svo er komið, að frá æðstu peningastofnun landsins, sem á að hafa yfirumsjón og yfirforsjá um allt það sem snertir fjármálakerfi þjóðarinnar, glymur í öllum fjölmiðlum á hverju kvöldi og hverjum degi þessi viðvörun, auglýsing eitthvað í þessa átt: „Það er hægt að tryggja verðgildi peninganna.“ Það er verið að tilkynna að. seðlarnir, sem eru ávísun á verðmæti og þjóðfélagsþegnarnir taka gilda sem greiðslu fyrir það verk, fyrir þá þjónustu sem þeir hafa innt af hendi, sem ávísun á ákveðið verðmæti, — það er beinlínis verið að tilkynna þegnunum að sama daginn og þeir taki við þessari ávísun, sem gefin er út af æðsta fjármálavaldi þjóðarinnar, sé hún að mörgu leyti lítils virði, menn skuli flýta sér að bjarga því sem bjargað verður, koma því í eitthvað annað en í það verðmæti sem felst í þessum pappír.

Inn í hugleiðingar sem þessar hlýtur líka að blandast hvort ekki sé komin fyrir löngu ástæða til að taka einnig til athugunar þær reglur, sem gilda í þjóðfélagi okkar yfirleitt um vegferð fjármagns að og frá þessu landi. Staðreyndin er sú, að í þeim málum búum við við algera sérstöðu, þannig að það er ekki hægt að finna eitt einasta lýðræðisríki meðal vestrænna þjóða sem býr við svipaðar reglur og svipaðar reglugerðir og við íslendingar yfirleitt um meðferð fjármála og hvernig menn mega haga sér í sambandi við fjármál.

Allt þetta hlýtur að koma upp í huga manns, þegar maður stendur andspænis þeirri staðreynd, að það virðist vera orðið stefnumark hjá ráðamönnum þjóðarinnar að ekki sé hægt að fjármagna neina orðágerandi framkvæmd nema á þann veg að búa til eitthvert gervifé og helst að ávísa á framtíðina upphæðum sem enginn getur sagt um hve háar verða þegar þær koma til greiðslu. Ég efast um að nokkrir af þeim aðilum, sem nú fjalla um þessi mál og leggja á ráðin um hvaða ferð og hvaða stefna er höfð í þessum málum, séu þess umkomnir að segja okkur hvað við erum að gera og hvernig þessi mál líta út og í hvaða einingum þau verða t.a.m. að 10 árum liðnum. Nei, ég held að nú sé kominn tími til að spyrna við fótum, og þar er áreiðanlega ekki of snemmt að gert.

Ég efa ekki að við verðum að fá fjármagn og við verðum að afla okkur fjármagns til þess að framkvæma þá hluti, sem við viljum gera í þessu þjóðfélagi. En við skulum jafnframt gera okkur ljóst, að við getum ekki frekar en aðrir skapað fjármagn og fengið fjármagn án þess að greiða fyrir fjármagnið nokkurn veginn það sem það kostar. Þar er eitt grundvallaratriðið, sem ríkir og verður naumast brotið gegn til lengdar, að þar hlýtur að ráða framboð og eftirspurn. Ég er ekki á nokkrum vafa um að það væri miklu farsælla í málum eins og þessum að bjóða t.a.m. út skuldabréfalán á opinberum vettvangi, sem væri jafnvel með afföllum. Ég hygg að það kæmi mjög til mála. Slíkur verðbréfamarkaður er alls staðar í þeim frjálsu lýðræðisríkjum vestan hafs sem ég þekki. Satt best að segja bjóst maður við því, þegar lög um Seðlabanka Íslands tóku gildi og ákvæði voru þar um að eitt af hlutverkum Seðlabankans væri að komið væri á fót í þjóðfélaginu frjálsum verðbréfamarkaði, að þá mundi ekki framkvæmd þess ákvæðis dragast svo úr hömlu sem orðið er.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef notuð hefði verið sú fjáröflunarleið og það miklu fyrr að bjóða út á almennum markaði skuldabréf, hvort heldur eru opinber eða almenn fasteignaveðskuldabréf á frjálsum markaði, þá stæðum við miklu betur og hefðum ráðið miklu betur við þróun verðlagsmálanna og peningamálanna í heild en við gerum nú. Þess vegna vil ég, herra forseti, á þessu stigi málsins lýsa því yfir, að ég get undir engum kringumstæðum stutt þetta frv., ef ekki verður breytt ákvæðunum um það, hvernig á að fjármagna þessa vegagerð. Ég leyfi mér fastlega að vonast til þess, að þegar málið verður rætt í n., þá verði það tekið til alvarlegrar athugunar, hvort ekki sé hægt að hugsa sér einhverja aðra leið til fjármögnunar, sem gæti sinnt því verkefni, sem við allir viljum láta komast í framkvæmd, — einhverja aðra leið en þessa, sem ég tel að sé nú kominn tími til að við tökum til alvarlegrar athugunar og segjum: Hingað, en ekki lengra. við skulum reyna að treysta okkar peningakerfi þannig að krónan verði sá mælikvarði, sem við getum treyst á, en ekki alltaf að vera að leika okkur að því að búa til einhvern gervigjaldmiðil, sem hefur ekkert gildi þegar á reynir.