17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér neinar kappræður í sambandi við þetta mál, ekki síst vegna þess að mér skilst af ræðum allra hv. þm. að þeir séu sammála um meginatriði málsins. Meginatriði málsins er að halda áfram að bæta vegakerfið í landinu. Þetta álít ég að skipti höfuðmáli, og mér dettur ekki í hug að einar 2 000 millj. kr. verði til þess að ljúka þessu verki. Það held ég að öllum sé ljóst að ekki getur orðið.

Það, sem hins vegar hv. þm. velta fyrir sér, er í fyrsta lagi hvort það ákvæði að tengja þetta við viss svæði sé hættulegt fyrir önnur svæði og eins og sumir hafa orðað það, að menn hafi gleymt öðrum svæðum og það sé gott ef einhver muni eftir því, eins og t.d. hv. þm. Vestf. hafa nefnt hér og hv. þm. Stefán Jónsson. Um þetta vil ég segja það, að ég held að eitt síðasta málið, sem ég bar fram hér í hv. Alþ. sem í fjmrh., muni hafa verið happdrættislán fyrir Djúpveg. Ég taldi, að þó að ég bæri það mál fram væri ég ekki á neinn hátt að skerða möguleika í vegagerð annars staðar, heldur öfugt, að ég væri að tryggja með því að þetta fé kæmi þarna til ráðstöfunar, að ekki þyrfti að taka það af öðru ráðstöfunarfé til vegagerða. Eins og ég tók skýrt fram um daginn er mergur málsins í þessu heildarstefna í vegamálum þjóðarinnar, og ástæðan til þess, að minni hyggju, að happdrættisleiðin er valin með þeim hætti að tengja hana vissum svæðum, hefur eingöngu verið sú, að það hefur verið talin álitlegri leið til sölu á happdrættisbréfunum. Það var álit fjármálamanna, þeirra sem sinna mest okkar efnahagsmálum, að happdrættisskuldabréfin fyrir Djúpveginn mundu ekki seljast nema að takmörkuðu leyti, og jafnvel var haldið að það þýddi ekki að bjóða út nema u. þ. b. 20–25 millj. kr. Það varð svo niðurstaðan að bjóða það lán út, en jafnframt var það mat þeirra að þá þýddi ekki að bjóða út Skeiðarársandsbréfin, þá yrði að geyma þau. Reynslan varð hins vegar sú, að þessar 80 millj. runnu út eins og heitar lummur, og eins og ég gat um hér um daginn, þá er ekki ætlunin að skilja Vestfirði eftir eða tengja Vestfirði ekki við aðalkerfið. Af þessu láni eru nú 55 millj. kr. til þess að nota í áframhaldandi vinnu í Djúpvegi og á þeirri leið, sem verður svo unnið að, að tengja það aðalvegakerfi landsins, svo að þar er engri leið lokað og dettur heldur engum í hug að það eigi að gera.

Það sama hefur gerst hér þegar hafa verið uppi áætlanir á sínum tíma, Vestfjarðaáætlun, Austurlandsáætlun og Norðurlandsáætlun. Þá hefur öllum verið ljóst, að þetta var aðeins leið til þess að hraða heildarvegagerðinni í landinu en ekki að það ætti að fara að einangra þetta og skilja hina eftir. Og ég held að reynslan hafi sýnt okkur, að þessar áætlunargerðir og þessi lánaöflunarleið hefur flýtt ferð okkar í vegagerðinni og það sé það sem við séum allir sammála um.

Þegar Keflavíkurvegurinn var lagður á sínum tíma var tekið lán til þess að leggja þann veg, og þá var lengi vel þannig á því máli haldið, að það var tekið lán til þess að greiða vexti og afborganir af því láni, sem tekið var til Keflavíkurvegarins, og það var ekki fyrr en í minni fjármálaráðherratíð sem því var breytt og þetta var greitt eins og önnur ríkislán. Þannig hefur verið að þessu unnið, og ég held að enginn sjái eftir því, að það hafi verið gert.

Nú vil ég í örstuttu máli gera grein fyrir þeim kjörum sem eru á þessum happdrættislánum ríkissjóðs. Nú er það svo um þessi lán, eins og segir bæði í þessu frv. og almennri tekjuöflun vegasjóðs í tekjum vegna vegagerðar, að reglurnar um þetta eru ákveðnar af fjmrn. og Seðlabankanum og slíkum peningastofnunum. En um þessi lán gilda þær reglur að bréfin eru seld og þau eru til 10 ára. Þau eru með 10% vöxtum, og þessir vextir eru notaðir til þess að greiða happdrættisvinningana, þannig að maður, sem á þessi bréf og ekki fær neinn vinning, fær enga vexti af sínum bréfum, það eru engir vextir greiddir á þessi happdrættisbréf. Hins vegar er greidd verðtrygging á bréfin þegar þau eru borguð út að 10 árum liðnum, og það, hvað við þurfum að endurgreiða mikið fer auðvitað eftir því hvað við gefum mikið út á ári hverju, og þá er það framfærsluvísitalan, en ekki byggingarvísitalan, sem er á þessum bréfum. Þetta vildi ég nú útskýra hér vegna þess, sem kom hér fram um daginn, og þess, sem komið hefur fram hér nú. Um að skrá þessi bréf á nöfn hefur veríð farið nákvæmlega eins og með önnur happdrætti. Happdrættismiðar eru ekki skráðir á nöfn í venjulegri sölu. Hins vegar eru spariskírteinalánin skráð á nöfn, en þau eru ekki framtalsskyld frekar en þessi.

Það er svo annar þáttur í okkar efnahagskerfi, sá þáttur að sparifé, spariskírteini, happdrætti og annað því um líkt skuli ekki vera framtalsskylt, því að það er ekki nokkur vafi á því og það vita allir þeir sem fást við skattamál, að þessi þáttur í okkar efnahagskerfi kemur þar mikið við. En þá yrði að taka allt peningakerfið til athugunar í sambandi við þennan þátt, en ekki einstaka þætti, því að það verður að falla saman. Það var á sínum tíma ákveðið að gera innstæður í sparisjóðsbókum eða í bönkum ekki skattskyldar og ekki framtalsskyldar nema að nafninu til. Það var gert til þess að örva innlegg manna í banka. En hinu er ekki að neita að í þessu og öllu peningakerfi okkar eru veilur. Ég er reiðubúinn til að taka undir það að þessa veilu þarf að taka til athugunar í sambandi við skattamálin, og hún var mjög svo athuguð og er mjög mikið um hana fjallað eins og aðra þætti skattamála í grg. þeirrar n. sem vann í minni fjármálaráðuneytistíð og skilaði áliti í fyrravor. En kjörin á þessum happdrættisbréfum eru ekki það sérstaklega góð að þau ein nægi til þess að gera þetta eftirsóknarvert eða valda eftirsókn manna í að kaupa. Ég álít hins vegar að hinn þátturinn sé sá að menn hafa áhuga á vegakerfinu og þess vegna kaupir það þessi bréf og þetta sé mikið notað til tækifærisgjafa og á þann hátt náist í fjármagn til vegagerðar í landinu sem að öðrum kosti mundi ekki verða.

Í sambandi við þetta vil ég svo einnig biðja menn að hafa það í huga, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykn., hvað framkvæmdir, sem var á sínum tíma gerð fyrir slíka lánsfjáröflun eins og hér hefur átt sér stað, mundi kosta nú. Ef það er borið saman við kostnaðinn af þessum lánum, þá kemur upp mynd sem vert er að hafa í huga, því að það er æðimikill munur að framkvæma með verðlagi dagsins í dag eða því sem var fyrir 10 eða 12 árum. Þess vegna held ég að á mynd þá, sem hv. 2. þm. Reykn. greip hér á áðan, verði að líta einnig í sambandi við þessi lánamál.

Út af því, sem hefur blandast inn í þessar umr. um endurgreiðslu ríkissjóðs á þessum lánum, þá er það um þessi mál að segja, þ.e. spariskírteinalánin, sem hafa fyrst og fremst verið sú leið sem ríkissjóður hefur valið, að sumt af því verður að sjálfsögðu að endurgreiða með skatttekjum sem aflað er þegar út þarf að borga, vegna þess að það hefur verið notað í hreinar ríkisframkvæmdir, annað hefur verið endurlánað til stofnana sem sjálfar greiða þetta aftur. Nokkuð mikill hluti af þessu fé hefur t.d. farið í rafmagnsframkvæmdir og annað því um líkt, og við skulum gera okkur grein fyrir því, að við stöndum ekki of vel í dag í þeim málum þó að við höfum notað þessa leið til framkvæmda á sviði raforkumála, hvað þá ef við hefðum látið þetta ógert, af því að við höfðum ekki samtíma tekjur til þess að leysa þetta verk.

Ég held að þróunin verði sú, og ég tel að hún hefði raunar þurft að verða það fyrr, að verðtrygging sparifjár þurfi að koma til. Mitt mat er það, að verðbætur hefðu haft áhrif á verðbólgu hér á landi ef þetta hefði verið tekið upp fyrr, og það sækir meir og meir í þetta, það er ég alveg víss um. Ég veit að þessi leið hefur eins og aðrar sína vankanta, en hún hefur líka kosti sem ekki má vanmeta. En aðalatriðið í þessu tel ég að með samþykkt þessa frv. er engu verið að spilla.

Nú mun það vera svo, að vegir, sem þetta frv. spannar yfir, ná til allra kjördæma nema Reykjaness og Reykjavíkur. Ég held að þau muni vera þar fyrir utan. — Nei, ég segi ekki Reykjanes, ég bið afsökunar á því, en það er af því að ég lít á Vesturlandsveginn yfir Kjalarnesið og Kjósina meira í þágu Vesturlands en kjördæmis hv. þm. Reykn. En þá get ég með góðri samvisku sagt að Reykjavík er ein undanskilin, því að það er nú þannig með hana að forsjónin hefur lagt henni svo margt til að það gerist þar af sjálfu sér. Það er nú það sem er munur á þeim, sem eru betur settir í lífinu, og hinum, sem eiga erfiðara, að það kemur af sjálfu sér hjá þeim sem eru betur settir, en verður að hafa fyrir því hjá hinum. Þetta er eiginlega meginmálið í aðstöðumun, og þess vegna verðum við dreifbýlismenn sem svo erum kallaðir, að hafa fyrir ýmsu og það verður meira til umr. vegna þess að það gerist hjá öðrum meira af sjálfu sér. Þess vegna finnst mér að það sé ekki verið að mismuna með þessu, enda endurtek ég það, sem ég sagði hér um daginn og ég mun reyna að vinna að meðan ég fer með samgöngumál, að það þarf að fá heildaráætlun um vegakerfið í landinu, a. m.k. hvað varðar aðalvegina, því að innan héraðs er það meira kjördæmismál og snertir meira hvern einstakan þm. En ég álít að hitt sé mergur málsins.

Það, sem ég sé í sambandi við þessa leið, er einmitt það, sem hefur komið fram í ræðum hv. þm., — þeir hafa fundið að því, að allt væri miðað út frá Reykjavík, — en með þeirri skýrslu, sem ég las fyrir hv. þm. Ed. um daginn, sýndi ég fram á að það eru víðs vegar um landið kaflar sem hægt er að leggja á varanlegt slitlag nú þegar, og það álít ég vera afskaplega mikils virði. Mér finnst það geysilega mikils virði ef hægt er að taka ákveðna kafla á Norðurlandi, ákveðna kafla á Vesturlandi og ákveðna kafla á Suðurlandi og Austurlandi. Og ástæðan til þess,að ég var með þetta svæði hér um daginn og þetta frv. nær til ákveðins svæðis, er fyrst og fremst sú, að það liggur fyrir nú þegar athugun á köflum sem hægt væri að vinna að sérstaklega á þessum svæðum. Hinu verkinu er ekki lokið, því verður haldið áfram, og auðvitað dettur engum í hug að þeir kaflar, sem eru á Austurlandi og Norðausturlandi, eigi að verða út undan í þessum efnum, heldur eigi að halda þessu verki áfram. Mergur málsins er að stilla upp þessum höfuðvegum landsins, ekki þannig að hinir eigi þá allir að verða út undan, því að um þessi mál í heild sem annað verður fjallað við afgreiðslu vegáætlunar og tekið tillit til þess.

Ég tek undir það, sem hefur komið fram hjá nokkrum þm. sem hér hafa talað, að ég held báðum hv. Vestf.- þm. og öðrum, að heildaryfirlit um lagningu vega sé það sem við eigum að stefna að. Hinar sérstöku áætlanir hafa leyst verulegan þátt í þessu og þess vegna eigum við nú að taka heildarstefnu um lagningu hringvegar í kringum allt landið og tengja hann héruðunum sem best.

Ég held því, að þegar við lítum á þetta mál í heild, þá beri ekki mikið á milli. Það er viss óróleiki yfir því að þarna ætli þessir landshlutar að fara að ota sínum tota. Ég man eftir því þegar ég var í fjvn. og við vorum að afgr. Vestfjarðaáætlun, sem var fyrsta áætlun sem gerð var í sambandi við vegi, þá læddist þetta inn hjá mér og fleirum, að með þessu móti væri þessu skotið fram fyrir. En við betri athugun varð niðurstaðan að þetta mundi flýta fyrir heildarvegagerð í landinu. Og reynsla mín af þessu er sú, að ég legg áherslu á það. Nákvæmlega sami var minn hugsunarháttur í fyrra þegar var verið að deila á mig og fleiri fyrir stórátak í hafnagerð í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði, sem náðust fjármunir til út á Vestmannaeyjagosið. Ég vissi eins vel og ég stend hér í ræðustólnum núna, að þessum fjármunum var ekki hægt að ná nema í tengslum við þetta gos. Engum dytti í hug annað en að það yrði að fjármagna framkvæmdir í höfnum á þessum stöðum. Þetta mundi greiða fyrir hafnarframkvæmdum í landinu almennt. Og reynslan hefur sannfært mig um að þetta er rétt. (Gripið fram í.) Nei, hér þarf ekki gos, hér þarf bara víðsýni. Ef menn eru þröngsýnir, þá sjá þeir harla skammt. En ef þeir hafa sæmilegt víðsýni, þá geta þeir séð yfir landið og verða að gera það og þurfa ekkert gos til. En þeir verða að nota tækifærin sem bjóðast til þess að ná fjármunum til þeirra verka sem góð eru og nauðsynleg og þjóð okkar þarf á að halda. Það var gert í fyrra af þáv. ríkisstj., af því að hún leit á málið í heild og notaði tækifærið vel. Eins eigum við nú að nota tækifæri sem skynsamleg eru til framkvæmda í vegamálum og ekki vera með skæklatog út af þessu, því að það er engin ástæða til þess.

Það er engin löngun til þess að fara að koma einum eða öðrum á kné í þessu, heldur að reyna að byggja upp heildarvegakerfi landsins á sem farsælastan og fljótvirkastan hátt. Þess vegna mun ég beita mér fyrir því að gera heildaráætlun um hetta mál. Eins og ég sagði um daginn, þá er því verki ekki lokið og það er ekki gert á tveim — þrem mánuðum, en að því verður unnið alveg sleitulaust, og það er mergur málsins. Við eigum að nota þessa leið sem aðrir til þess að koma verkunum áfram. Ég þarf ekki að segja hv. þm. það, að án fjármagns verður þetta ekki gert og ef við aðeins vinnum fyrir það fjármagn sem við höfum af samtímis tekjum, þá gengur þetta seint. Okkur getur greint á um leiðirnar og það segir ekki heldur að við ætlum að fara eina leið að þessu marki. Aðalatriðið er það, sem hefur komið fram hjá hv. þm., að þeir vilja stefna að þessu marki, og það skiptir mestu máli.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. hér á fleiru í sambandi við þetta mál, því að ég er sannfærður um að þó að einstakir þm. líti nú svo á við 1. umr. málsins að verið sé að mismuna eitthvað, sem ég þykist nú hafa sýnt fram á að er ekki um mikið að ræða, þar sem þetta nær til allra kjördæma landsins utan Reykjavíkur. Þó að menn geti líka greint á um leiðir, þá er það staðreynd að málið verður ekki leyst nema með meira fjármagni en við höfum eigin tekjur til í sambandi við vegáætlun. En við afgr. vegáætlunina jafnt út frá þessum þætti sem öðrum þáttum í vegamálum landsins.