17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil strax lýsa yfir að ég er sammála þeirri meginstefnu, sem fólgin er í þessu frv., að rétt sé að verja 1000 millj. kr. utan við hina almennu vegáætlun til þess að byggja upp traustan og vetrarfæran hringveg umhverfis landið, sérstaklega milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þjóðbrautin umhverfis landið og tenging út frá henni til aðalþéttbýlisstaðanna er aðalatriðið. Ég hef reyndar lengi hugleitt hversu varhugavert það er að þjóðbrautir á Vesturlandi og Norðurlandi og í öðrum landshlutum eru kenndar við eimstök kjördæmi, en eru ekki teknar sem ein heild. Eins og menn vita liggur þjóðbrautin norður á Akureyri úr Reykjaneskjördæmi um Vesturland, Vestfirði á litlu svæði um Holtavörðuheiði, en síðan tekur Norðurland við. Við, sem höfum fylgst með samgöngumálum á undanförnum árum, þekkjum það að löngum er mest áhersla lögð á þau viðfangsefni í vegamálum sem koma sér best fyrir hvert byggðarlag fyrir sig, en síður litið á heildina, og afleiðingin hefur orðið sú að viss svæði, sem liggja á mörkum tveggja eða fleiri kjördæma, hafa orðið út undan. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna Holtavörðuheiði. Norðurárdalur og leiðin upp á heiðina hefur því miður ekki verið helsta áhugamál vestlendinga, enda þótt þessi vegarspotti liggi í þeirra kjördæmi, og eins er um norðurhluta Holtavörðuheiðar, hann hefur gjarnan orðið út undan vegna þess að hann liggur ekki í Norðurlandskjördæmunum, heldur tilheyrir Vestfjörðum.

Ég tel að með því að líta á Norðurveginn milli Reykjavíkur og Akureyrar sem eina heild og með því að taka hann fyrir sem sérstakt verkefni sé mikið unnið. Að þessu leyti er ég algerlega sammála meginstefnu frv., þótt ég telji að vísu eðlilegast að líta á hringveginn allan sem eina heild án þess að fella úr einstök landssvæði eins og gert er í þessari till. Ég er einnig sammála því, að útvegað verði mikið fjármagn, ekki minna en 2000 millj., til þess að unnt sé að ráðast í verulega stórt átak við lagningu hringvegarins. Hins vegar er ég síður en svo ásáttur með fjáröflunaraðferðina.

Eins og menn vita eru aðallega tvær leiðir sem hafa verið farnar fram að þessu þegar framkvæmdir í vegamálum hafa veríð fjármagnaðar. Annars vegar hafa framkvæmdirnar verið greiddar af tekjum ríkisins, hins vegar hafa verið tekin lán, sem greiðast með jöfnum afborgunum næstu árin á eftir af tekjum Vegasjóðs. Nú er aftur á móti farið að reyna þriðju leiðina, sem er eðlisólík hinum tveimur, en það er að taka verðtryggð lán sem greiðast ekki fyrr en kannske áratug eftir að þau eru tekin. Þessi lán eru að því leyti frábrugðin hinum venjulegu lánum að það, sem framkvæmt er í dag, er ekki borgað fyrr en eftir heilan áratug. Og á þessum 10 árum eru engar afborganir greiddar, aðeins vextir sem í þessu tilviki lýsa sér í happdrættisvinningum. Öllum kostnaðinum er sem sagt raunverulega velt á herðar skattgreiðenda að 10 árum liðnum. Í þriðja lagi er það sérkenni þessarar fjáröflunarleiðar að bréfin eru verðtryggð, og jafnvel þótt vextir, sem eru í formi happdrættisvinninga, geti talist nokkuð lágir, þá er ljóst að þessi lán verða a.m.k. tvöfalt dýrari en venjuleg lán með t.d. víxilvöxtum og langtum óhagstæðari en erlend lán.

Ég get lýst því strax yfir að ég er algerlega á móti því að fjármagna opinberar framkvæmdir með þessum hætti. Þetta hefur verið gert í litlum mæli með skuldabréfaútgáfu í sambandi við vegalagningu á Skeiðarársandi, en ég lít svo á að þar hafi verið um undantekningartilvik að ræða. Við settum okkur það takmark að ljúka þessu mikla verkefni á þjóðhátíðarárinu 1974. Það mátti að vísu kallast nokkur dirfska að fjármagna þessa dýru framkvæmd með þessum sérstæða hætti, því að afborganir af þessum lánum verða geysilega mikil byrði fyrir ríkissjóð þegar þar að kemur. En þessa fjármögnun mátti þó afsaka vegna hinna sérstöku aðstæðna, sem ríkjandi voru í sambandi við að það þurfti að ljúka þessu verki fyrir ákveðinn tíma. En aftur á móti þegar um það er að ræða að taka kannske tvöfalda eða þrefalda þá upphæð, sem tekin var í Skeiðarársandi, til almennra vegaframkvæmda, þá er vissulega ástæða til að tala um ábyrgðarleysi í þessu sambandi. Eins og menn vita eru verðtryggð skuldabréf frábrugðin öðrum verðbréfum að því leyti að þau eru seld með gífurlega hagstæðum kjörum. Vísitölubréf á vegum ríkissjóðs, sem seld voru í nóv. 1965 fyrir 10 þús. kr., er hægt að fá endurgreidd hjá Seðlabankanum í dag fyrir 90 þús. Á aðeins 9 árum hafa verðbréfin nífaldast að vöxtum.

Menn kunna nú að spyrja, hverjir geta í raun og veru notað svona lán, hverjir geta tekið svona lán, ef dregið er í efa að ríkið geti það. Ég skal svara því. Það má nota lán af þessu tagi í byggingarstarfsemi þar sem byggingarnar halda verðgildi sínu um margra áratuga skeið og skila síðan árlegum arði, sem getur staðið undir greiðslu af þessum lánum. Þetta getur vel átt við um íbúðarhús. Margir eru fegnir að taka slík lán. Eins getur þetta vel átt við um t.d. byggingu raforkuvera eða lagningu hitaveitu, vegna þess að þar er um að ræða fyrirtæki sem skilar lántakandanum stöðugum tekjum sem hann notar síðan til að standa straum af viðkomandi láni. Eins er hægt að hugsa sér að lán af þessu tagi sé veitt til atvinnufyrirtækja sem þola að greiða svo háa vexti sem raun ber vitni vegna þess að þau eru óvenjulega arðvænleg. Það er vel hægt að hugsa sér að fyrirtæki vilji taka lán af þessu tagi. Eins er alveg sérstaklega hægt að hugsa sér að verðtryggð skuldabréf séu keypt af fjárfestingarsjóðum sem síðan endurláni þau fyrirtækjum með öðrum lánum þannig að t.d. fyrirtæki, sem tekur lán, greiði verðtryggingu að 1/3 hluta til, vegna þess að sjóðurinn hefur tekið 1/3 af ráðstöfunarfé sínu að láni sem verðtryggð lán, og hann getur þá blandað þessu saman við annað fjármagn sem hann hefur, þannig að raunvextirnir verða að vísu nokkuð háir, en þó ekki óbærilega háir. En þegar farið er að nota verðtryggð lán til þess að byggja mannvirki sem skilar lántakandanum ekki neinu fjármagni í hendur til þess að greiða lánin með og það meira að segja á þann hátt, að ekkert er greitt á fyrstu 10 árunum, heldur er beðið með það í 10 ár að greiða upphæðina og þá er um að ræða að upphæðin hefur tvöfaldast, fyrir utan það að við bætast fullar verðbætur, þá eru þetta að sjálfsögðu orðnar drápsklyfjar sem menn eru að taka á sig.

Ég vil ítreka það hér að ég, eins og ég hef margoft sagt, er algerlega sammála því að lán sé tekið upp á t.d. 2000 millj. kr. til þessara framkvæmda, en vil í fyrsta lagi að þetta mál sé skoðað í einhverjum tengslum við þá vegáætlun, sem á að samþ. hér í þinginu í vetur, og í öðru lagi vil ég að við stöndum undir innlendum opinberum framkvæmdum fyrst og fremst með tekjum ríkisins, jafnóðum og þær verða til, og ef við tökum lán, sem við þurfum stundum að gera, þá sé séð fyrir tekjuöfluninni til að greiða þessi lán á næstu árum. Ég tel það hins vegar ótrúlegt ábyrgðarleysi að ætla að hefja framkvæmdir sem nema 2000 millj. kr. og fjármagna þær með ávísun 10 ár fram í tímann og ganga þar að auki þannig frá málum að upphæðin á tölulega eftir að margfaldast og a.m.k. tvöfaldast að raungildi áður en kemur til endurgreiðslunnar. Þetta er nefnilega ekkert annað en segja: Ég ætla að hlífa kjósendum mínum og skattborgurunum í dag við því að standa straum af ákveðnum framkvæmdum ríkisins á næstu árum, vegna þess að ég ætla að láta þá stjórn og það þing, sem hér verður við völd eftir svo sem 10 ár, um að útvega peningana og innheimta það fé hjá fólkinu, sem til þess þarf að greiða þessar skuldir, og mig varðar ekkert um það hvað skattborgararnir eftir 10 ár þurfa að greiða mikið, jafnvel þótt um verði að ræða tvöfalda þessa upphæð, ef ég bara get fengið hlutina framkvæmda nú í minni valdatíð.

Nú spyrja menn kannske: Hvernig er unnt að gera stórátak í vegamálum, t.d. að verja 2 000 millj. kr. til vegamála á næstu 4 árum, öðru vísi en að taka lán? Það er sennilega illmögulegt. En það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Lánið verður sem sagt að vera þolanlega hagstætt og það á ekki að vera verðtryggt. Í öðru lagi verður að tryggja tekjustofn til að endurgreiða lánið. Ég vil t.d. nefna sem dæmi að það er hægt að hugsa sér lán, annaðhvort innlent eða erlent lán, sem tekið væri til 10 ára og væri þannig vaxið að það dreifði kostnaðinum af þessum ákveðnu framkvæmdum á næstu 10 ár. Þetta er það sem eðlilegt er að gera, að ætla sér kannske ekki að útvega fjármagn á stundinni til þess að framkvæma hlutina, heldur að geta dreift kostnaðinum á nokkur ár. En þá ætlum við okkur um leið að borga lánið upp á þessum sömu 10 árum, en ekki að láta það standa óhreyft og byrja ekki að borga af því fyrr en eftir 10 ár þegar lánið hefur fengið að tvöfaldast. Til þess að svo verði þarf að sjálfsögðu ekki aðeins að útvega lán, heldur þarf að sjá fyrir einhverjum tekjustofnum á næstu 10 árum þannig að það sé alltaf hægt að greiða upp í afborgunina.

Ég tel að það sé tiltölulega auðvelt mál að finna einhverja þá tekjustofna sem tengja mætti slíku láni. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma að nefna dæmi, en ég get þó leyft mér að nefna eitt dæmi. Hugsum okkur að við tækjum 500 millj. kr. lán á hverju ári í 4 ár í þessum sama tilgangi, þá mætti hugsa sér að við útveguðum okkur t.d. 200 millj. kr. tekjustofn sem skilaði sér á næstu 10 árum og gengi til að endurgreiða þetta lán. Þetta gæti t.d. verið, svo að ég nefni dæmi, 5% gjald á allan ferðagjaldeyri. Ferðagjaldeyrir ber engan söluskatt, eins og við vitum, og það hefur vissulega löngum blasað við að það sé mikið óréttlæti að þeir, sem fara til útlanda, þurfi ekki að borga neinn söluskatt af sínum lystireisum, en þeir, sem ferðast hér innanlands borga 19% söluskatt. Og þó að það væri ekki lagður skattur nema 5% á ferðagjaldeyri, þá væru það svo sem ekki nein ósköp og ekkert óeðlilegt þó að það væri notað til þess að standa undir kostnaði við innlendar vegaframkvæmdir.

En ég vil taka fram að margar aðrar leiðir eru hugsanlegar í þessu sambandi. Það er hægt að hugsa sér að gefin séu út skuldabréf og seld með afföllum, og það eru margar aðrar leiðir til. Aðalatriðið er að lánið sé ekki verðtryggt þannig að það sé alveg öruggt mál, að um verði að ræða mjög óhagstætt lán.

Að lokum vil ég segja það í þessu sambandi, að þegar menn tala um að útvega stóra fúlgu til þess að leggja góða vegi hringinn í kringum landið, þá verða menn að hugsa um tvennt: annars vegar að fá breiða og örugga uppbyggða vetrarvegi, hins vegar að fá vegi með varanlegu slitlagi. Þetta eru þau tvö markmið sem menn hafa í huga. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég lít ekki á þessi markmið sem jafngild í svip, ég geri þarna nokkurn mun á. Ég veit að þeim, sem ferðast lítið að vetrinum um fjarlægar byggðir þessa lands, finnst aðalatriðið að geta verið nógu sprettharðir þegar þeir geysast um þjóðbrautirnar að sumri til. En ég get fullvissað hæstv. samgrh. um það að fólkið sjálft, sem býr við þessa vegi út um landið, leggur meiri áherslu á hinn þáttinn, þ.e.a.s. að vegirnir séu örugglega færir í flestum veðrum og þeir séu það vel uppbyggðir að þeir notist til fulls. Ef fólkið á um tvennt að velja, annars vegar hvort það fær ákveðinn vegarstubb, sem er ekki nógu breiður í dag og ekki nógu hár til að gegna hlutverki sínu og er því mikill vegartálmi á ákveðnu svæði og hins vegar að fá ákveðinn vegarstubb, sem búið er að leggja mikla vinnu í að undirbyggja, en vantar ekkert nema varanlegt slitlag ofan á, þá er ég ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að þó að kannske höfuðborgarbúi vilji helst fá þennan slétta veg með varanlegu slitlagi, þá kýs landsbyggðarfólkið að hin vandamálin hafi forgang. Meðan mjög langir kaflar á veginum milli Suðurlands og Norðurlands eru þriðja flokks vegir, sem eru í fyrsta lagi of linir og eru því oft algjörlega ófærir í margar vikur að vorinu til, of mjóir og eru því mjög hættulegir, bæði að sumrinu til þegar mikil umferð er og þá ekki síður að vetrinum til í mikilli hálku, og of lágir og teppast í miklum snjóum, þegar þannig er ástatt um mjög langa vegarkafla á þessari leið, er það satt að segja lítil huggun fyrir fólk almennt þótt á þeim verði einhverjir smáspottar rennisléttir og með góðu slitlagi. Ég er alls ekki að gera lítið úr þeim þægindum, sem því fylgja, síður en svo, en það er bara svo að þó menn njóti þess að aka á þessum smáspottum — kannske á 90 km. hraða í fáeinar mínútur, þá er hitt, að menn lenda eftir fáeinar mínútur aftur á mjög svo holóttum vegum. Það er satt að segja aðalatriðið að laga þá frá flestra sjónarmiði séð.

Ég vil að lokum segja það við hæstv. samgrh. og bæta því við það, sem ég hef hér sagt, að ég veit að hann vill verða góður samgrh. Hann vill láta mikið að sér kveða, og það er prýðilegt. Þannig eiga ráðh. að vera. Þeir eiga að láta mikið að sér kveða. En ráðh. mega ekki vera þannig að þeim sé alveg sama hvernig fjármagnið er fengið til þeirra framkvæmda sem þeir standa að. Hæstv. ráðh. talaði um erlend lán, sem hefðu fengist í fyrra í hafnir á Suðurlandi vegna Vestmannaeyjagoss, og sagði þá eitthvað á þá leið að þar hefði gefist gott tækifæri, sem við hefðum gripið, og það hefði komið sér vel. Þetta ættum við að gera, við ættum að grípa tækifærin þegar þau gæfust. — En var þetta fyllilega sambærilegt við það sem hér er verið að tala um. Hér er verið að tala um lán, verðtryggð með vöxtum, en í sambandi við hafnirnar á Suðurlandi var um að ræða lán, erlend lán frá Alþjóðabankanum, á óvenjulega hagstæðum kjörum og lágum vöxtum, að mig minnir innan við 8%. Ráðh. veit að sjálfsögðu að um þessar mundir er mikil verðbólga í heiminum og ekki síst því landi þar sem þetta lán var fengið, í Bandaríkjunum. Í fréttum í kvöld var sagt að verðbólga á þessu ári í Bandaríkjunum mundi nema 12%. Sem sagt þetta lán, sem tekið var í fyrra, hefur þá ágætu eiginleika að það hefur rýrnað á því eina ári, sem síðan hefur liðið, um meira en nemur vöxtunum af af því, og má því segja að á því hafi verið negatívir vextir á þessu tímabili. E.i það er víst eitthvað annað sem sagt verður um þessi blessuðu vísitölulán.

Hæstv. samgrh. minntist hér á Vestmannaeyjagosíð og það var vel til fundið. Hvernig fórum við þá að þegar við stóðum frammi fyrir ákveðnum vandamálum? Gáfum við þá út verðtryggð skuldabréf til að bjarga okkur út úr þeim erfiðleikum, sem við stóðum þá frammi fyrir? Nei, svo sannarlega gerðum við það ekki, sem betur fer, enda væri víst nokkuð öruggt að þjóðargjaldþrot eða a.m.k. ríkisgjaldþrot væri fram undan og það skammt fram undan, ef svo hefði verið að við hefðum gefið út verðtryggð skuldabréf fyrir öllum þeim upphæðum sem þar þurfti að útvega. Nei við lögðum að sjálfsögðu þessa byrði á þjóðina með eðlilegri tekjuöflun. Við ávísuðum ekki vandanum á aðrar kynslóðir, ekki langt út í framtíðina.