17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Mér sýnist að menn séu almennt nokkuð sammála um þetta mál. Menn eru sammála um að það beri að leggja góða vegi um landið allt og hafa beri í huga allt landið, og fyrst og fremst ber að hafa í huga að gera akfæra vegi um landið sem öll þjóðin getur haft gagn af. Það, sem menn eru hins vegar ekki sammála um, hvernig afla skuli tekna til þessa verkefnis.

Ég get verið sammála því að þjóðfélagið þoli ekki að taka ótakmörkuð lán. Það bolir ekkert efnahagskerfi að taka endalaust lán. Það er talað um að við séum að velta byrðum yfir á herðar skattgreiðenda framtíðarinnar. Það er nú svo að í mörgum tilfellum veltum við ýmsu yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar, Við tókum lán til atvinnuuppbyggingar, lán sem borga sig, skila arði, en það fæ ég því miður ekki skilið — og á ég þá sérstaklega við það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan — að það væri allt annað að taka lán til raforkuvera vegna þess að slík lán skiluðu arði, þ.e.a.s. það væri fjárfesting sem skilaði tekjum. Það fer nú allt eftir því hvernig við lítum á þetta. Við getum vel hugsað okkur að í staðinn fyrir það að innheimta svonefnt bensingjald, þá innheimtum við vegaskatt og þar með skilar þessi sami vegur tekjum. Ég get ekki séð að það sé nokkur munur þarna á. Vegur skilar tekjum í gegnum þetta gjald sem mætti fella niður og innheimta skatt í staðinn þegar farið væri um þennan veg, og þar með væri væntanlega sá sami vegur farinn að skila tekjum.

Mér hefur fundist að hér væri einkum rætt um galla þess að taka happdrættisskuldabréfalán, en ekki kostina. Það er nú svo að sérhvert þjóðfélag vill stuðla að því að sparnaður verði sem mestur í viðkomandi þjóðfélagi. Þetta er gert á ýmsan hátt. Þetta er gert m.a. með því að vextir af sparifé eru gerðir skattfrjálsir og á ýmsan annan hátt. Það getur verið mjög jákvætt fyrir ríkisvaldið að verðtryggja lán og stuðla þannig að auknum sparnaði, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur aukið mjög sparnað í þessu landi að það skuli vera til þetta form af skuldabréfum. Sparnaður kemur að vísu fram á margan hátt. Menn leggja fé í banka, menn fjárfesta í íbúðum og menn kaupa skuldabréf. Og eftir því sem formin eru fleiri til þess að leggja fé í, þeim mun meiri sparnaður verður í viðkomandi þjóðfélagi. Þetta er hið jákvæða í þessu máli og mér finnst vert að menn hafi það í huga þegar þessi mál eru rædd.

Ég vil taka það fram að lokum, að það eru ákvæði varðandi happdrættisskuldabréfin um það að þau séu undanþegin framtalsskyldu, og ég er því algjörlega mótfallinn. Þarna er verið að skapa þeim aðilum, sem hafa með höndum skatteftirlit í landinu, mikla erfiðleika. Ég tel að þarna eigi að breyta um svo fljótt sem auðið er og gera þessi skuldabréf framtalsskyld, jafnvel þótt vextir og verðtrygging væru skattfrjáls, en þeir aðilar, sem keyptu þessi bréf, væru skyldugir til að geta þeirra á sínum skattskýrslum, því að annars er hætt við að þetta form skapi þeim aðilum, sem taka undan fé eða skila ekki skatti af vissum tekjum til ríkissjóðs, möguleika að fela sitt fé á þennan hátt.