12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér hefur verið hreyft við býsna merkilegu máli og mér finnst að þau svör, sem hér hafa komið fram af hálfu ríkisstj., séu ekki fullnægjandi. Ég skildi hæstv. félmrh. þannig, að hann teldi að ríkisstj. vildi leggja sveitarfélögunum það líð, að þegar þau sæktu sérstaklega um það vegna þess að þau stæðu í erfiðleikum, þá mundi hans rn. verða milligönguaðili og hjálpa eitthvað til með lánsútvegun. En þetta tel ég fyrir mitt leyti alveg ófullnægjandi, því að hér er um það að ræða að sveitarfélögin í landinu búa öll við hliðstæða tekjustofna, og það er óhætt að slá því föstu, að þar hallar ekki á Reykjavík þegar á þau mál er litið sem heild. Ef einn af ríkisbönkunum telur ástæðu til þess að veita Reykjavíkurborg fast lán, eins og hér hefur verið upplýst, þá get ég ekki séð annað en að það hvíli á ríkisstj. bein skylda til þess að hlutast til um að önnur sveitarfélög í landinu geti fengið sams konar fyrirgreiðslu hjá viðskiptabönkum ríkisins. Annars er hreinlega verið að mismuna sveitarfélögunum. Að mínum dómi á þetta ekki heldur að fara eftir því hvort menn eru búnir að koma sér út í eitthvert skuldafen eða ekki. Auðvitað hafa mörg sveitarfélög á landinu orðið að hægja á sér með aðkallandi og nauðsynlegar framkvæmdir af því að þau fengu ekki lánsfyrirgreiðslu og þau höfðu ekki tekjur til þess að komast fram úr öllum þessum framkvæmdum. Ef það á að verða leiðin, að menn kasti sér bara út í framkvæmdir, búi til nógu langan hala og þá verði þetta allt saman leyst á eftir, þá hafa menn a.m.k. fengið fyrir fram kennslu í merkilegri aðferð og þá má búast við því að halarnir verði æðilangir og margir, ef á að taka upp slíka reglu.

Ég fyrir mitt leyti lít svo á og af því stóð ég hér upp, að ég vildi beina því til hæstv. ríkisstj., að hún hreinlega taki að sér að koma því til leiðar við ríkisbankana, að þeir veiti öðrum sveitarfélögum í landinu hliðstæða fjárhagsfyrirgreiðslu og hér er veitt. Þetta ber að gera, ef ekki er meiningin að halda hér uppi misrétti. Það má vel vera að einhver sveitarfélög hafi einhverja fyrirgreiðslu frá bönkunum og ber vitanlega að taka til lit til þess. En ég sé ekki annað en svona verði á málinu að taka, en kann heldur illa við hina leiðina, að það eigi að leita til rn. aðeins í þeim tilfellum þar sem menn eru komnir í hreinar ógöngur og þeir einir eigi að leysast út, en aðrir, sem hafa orðið að stilla framkvæmdum sínum í hóf miðað við sínar tekjur, eigi að verða af allri fyrirgreiðslu. Það finnst mér vera óréttlátt.

En svo blandast hér inn í þessar umr. — ég skal ekki fara langt út í það — spurningin um það, hvort það á að heimila sveitarfélögum í landinu að leggja meira á íbúana en gert hefur verið. Það er auðvitað mál út af fyrir sig. Það er tiltölulega lítill vandi að bjóða þar hver upp fyrir annan. Einn býður að leyfa mönnum að leggja á 11%. Þá getur annar komið og boðið að leggja á 12%, 13% og 14%. Það er hægt að setja lög, Alþ. ræður nú yfir því. En spurningin er aðeins um þetta: Hvað vilja menn ákveða miklar álögur? — Þeir sem sýnist að álögurnar hafi ekki verið nægilega miklar í tíð fyrrv. ríkisstj„ sjá auðvitað um að bæta þar um nú og auka álögurnar öllu meir til þess að laga ástandið.