17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja ekki búið mig undir að ræða þetta mál sérstaklega nú. Ég var alvarlega tepptur undir lóð. Ég var að vinna að málefni sem mér hafði skilist að væri miklu brýnni að afgreitt yrði á hinu háa Alþ. nú í jólaönnunum heldur en þetta. Ég hafði satt að segja ekki hugmynd um það að á þetta mál væri knúið með þeim hætti sem nú virðist hafa komið fram.

Þegar ég varð var við það og sá að á dagskrá dagsins var þetta mál, þá óskaði ég eftir því við hæstv. forseta að það yrði ekki tekið fyrir, af því að svona stóð á fyrir mér. En ég varð síðan var við að það var öðru nær að það væri fyrirsvarsmönnum geðfellt og á það mjög knáið, að þetta yrði tekið fyrir í þá veru að það yrði þá afgreitt fyrir jól. Meðan ekki koma fram röksemdir fyrir því að þessu máli liggi svo mjög á, fer ég eindregið fram á að þetta verði ekki afgreitt nú á þessum miklu annadögum, til þess að það gefist frekar kostur á að athuga málið.

Það hefur komið fram hér að fjölmargar upplýsingar skortir, málið er allt á rannsóknastigi. Það kom fram hjá hv. 1. þm. Sunnl., frsm. n., að málið er vitanlega ekki á framkvæmdastigi, og að það sé nauðsyn fyrir ríkisstj. að fá þessa heimild nú, þannig að það mundi í einhverju liðka fyrir framhaldi málsins, fyrir því eru engin rök. Þvert á móti liggur það fyrir að hér á hinu háa Alþ. hafa menn einróma tekið undir þetta mál og lýst yfir fylgi sínu við það. Þess vegna getur framkvæmdavaldið haldið beinlínis áfram að vinna að rannsóknum og undirbúningi alls málsins, og þótt þetta frv. yrði ekki afgreitt fyrr en að jólahléi loknu mundi það í engu þurfa að tefja framgang málsins. Þvert á móti er fullkomlega eðlilegt að það verði ekki afgreitt nú, meðan svo margir þættir eru óljósir hvað allt málið varðar.

Það, sem veldur því sérstaklega að ég hef þessar óskir fram að færa, er það að ég hef í undirbúningi að endurflytja till. sem ég flutti hér í fyrra um að lokið verði rannsóknum á fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar, þ.e. Fljótsdalsvirkjunar. Þetta mál snertir það beint, vegna þess að ég er ekki sannfærður um að þetta mál, ákvörðum um þessa framkvæmd eigi rétt á sér nema beinlínis verði talið, að hún sé líður í væntanlegri stórvirkjun. Og það kemur hér einmitt fram, að varðandi það atriði er tekið mjög lausum tökum. Til þess að þetta geti haft þýðingu hvað snertir stærri virkjunarmöguleika þarf alveg án vafa að gera boranir í fjallið, en ekki að fara þá leið, sem líka er fitjað upp á hér, að vatnið verði leitt í pípum að stöðvarhúsi; heldur kom fram í bréfi, sem var lesið upp hér áðan, frá forustumönnum raforkumála að fjölmarga aðra þætti þarf vitanlega að rannsaka, og það er fjarri öllu lagi að þessu máli geti legið svo á sem ég nú allt í einu verð var við að eigi að knýja fram með þessum skjóta hætti.

Ég hefði talið eðlilegt, af því að ég tel mér málið viðkomandi, að það hefði verið á það minnst áður, ef það væri slík knýjandi nauðsyn á að það næði fram að ganga eins og nú virðist vera. Meðan öll rök eru alveg á hinn bóginn, að þessu liggi ekki á, þá fer ég eindregið fram á að þessari umr. verði frestað. Það er, eins og fram hefur komið, fjölmargt sem ber að athuga. Fram hefur komið að fullum fetum er unnið að þeim rannsóknum sem fram verður komið á þessum árstíma. Í ótal greinum er leitað eftir nýjum upplýsingum um það, sem beinlínis snertir framkvæmdina, og augljóst mál að þótt heimild verði ekki gefin núna hér á hinu háa Alþ. kemur það alls ekki til með í neinu að verða til torveldunar á framgangi málsins alls.