17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst beina því til hæstv. forseta sem hefur í dag tekið málið fyrst út af dagskrá út af ósk eins þm. og gegn vilja ríkisstj., að ef hún ætlar nú aftur að taka málið út af dagskrá í miðjum umr., þá finnst mér það einkennileg og undarleg vinnubrögð.

Út af því, sem hér var fært fram af hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, þá telur hann að málið sé rekið með óeðlilegum hraða og eina ástæðan til þess að iðnn. hafi afgreitt málið sé að það sé gert að ósk iðnrh, Hv. 3. þm. Austf. fann einnig að því að málið væri tekið með óeðlilegum hraða. Það virðist hafa alveg farið fram hjá báðum þessum hv. þm., Magnúsi Kjartanssyni og Sverri Hermannssyni, að það, sem liggur hér til grundvallar, er einróma ósk austfirðinga. Á þingi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi í sept. s.l. var þetta aðalmálið, virkjun Bessastaðaár. Þar voru lagðar fram ítarlegar grg. af hálfu yfirverkfræðings áætlunardeildar Rafmagnsveitna ríkisins um málið, hann flutti þar ítarlegt erindi og þetta varð aðalumræðuefnið. Flestir þm. kjördæmisins mættu þar, tóku þátt í þessum umr. og lýstu fylgi sínu við málið. Af einhverjum ástæðum var hv. 3. þm. Austf. þar hvergi nærri.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, og ástæðan til þess, að óskað hefur verið eftir að fá það afgr. nú á þessu þingi og þá helst fyrir jól, eru óskir Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Það liggur alveg hreint fyrir. Ég hef talið mér skyldara að reyna að verða við óskum sambands austfirskra sveitarfélaga heldur en þó að hv. 3. þm. Austf. eða hv. 3. þm. Reykv., vilji drepa málinu á dreif, fá því frestað.

Ég vil svo út af þeim aths. hv. 3. þm. Reykv., að undirbúningi málsins sé skammt á veg komið, taka það skýrt fram, sem ekki kom fram í ræðu hans, að hér er um að ræða heimild til handa ríkisstj. til að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa og reka vatnsaflsstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal. Hér er því aðeins um heimild að ræða, og það hefur aldrei farið neitt dult, kemur fram bæði í grg., kom greinilega fram í framsöguræðu minni þegar ég lagði málið fram fyrir meira en einum mánuði í þessari hv. d., að ýmsar frekari athuganir og rannsóknir þurfa fram að fara áður en endanleg ákvörðun er tekin um virkjun. Þetta hefur alltaf legið fyrir. Þetta er ekkert einsdæmi. Fyrir því eru mörg fordæmi. Þegar hv. 3. þm. Reykv. telur að málið sé of lítt undirbúið til þess að megi lögfesta heimild er nú kannske ekki úr vegi að minnast á frv., sem þessi hv. þm. flutti sem iðnrh. um heimild til virkjunar Kröflu sem allur þingheimur var sammála um að veita, en það er auðvitað öllum mönnum ljóst að á marga lund var þeim undirbúningi skemmra á veg komið en þó undirbúningi að virkjun Bessastaðaár. Það hefur komið fram, m.a. í dag í svörum mínum við fsp. varðandi Kröflu, að eftir að lög um heimild til virkjunar Kröflu voru samþ. hér í þinginu voru boraðar tvær rannsóknarborholur sem voru alger nauðsyn og forsenda að áliti Orkustofnunar fyrir því að taka ákvörðun um virkjun Kröflu. Þess eru mörg fordæmi, ekki aðeins um Kröfluvirkjun, heldur um margar aðrar, að þegar virkjun þykir álitleg, þá er flutt frv. um að veita heimild til slíkrar virkjunar, þó að ýmsar athuganir og rannsóknir séu ekki fullgerðar. Ég fullyrði að sú virkjun, sem hér er um að ræða, Bessastaðaár, er á ýmsa lund lengra komin í undirbúningi en ýmsar þær virkjanir sem veitt hefur verið heimild til með lögum frá Alþingi.

Nú er það auðvitað alltaf álitamál hversu undirbúningi á að vera langt á veg komið þegar mál er lagt fyrir Alþ. Auðvitað má segja sem svo að öllum undirbúningi ætti að vera lokið, jafnvel allar áætlanir og hönnun að liggja fyrir um gerð og fyrirkomulag mannvirkis, fjáröflun til þess og annað slíkt. En ég held að Alþ. mundi ekki líka þau vinnubrögð. Ég hef haldið, og styðst þar við nokkuð langa setu hér á Alþ.,alþm. vilji fremur fá mál til meðferðar og athugunar á Alþ. áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar og öllu slegið föstu. Þess vegna hefur það iðulega gerst að flutt hafa verið frv. um heimild til virkjana sem álitlegar hafa þótt, en áður en öllum rannsóknum var lokið. Að sjálfsögðu verður þeim haldið áfram og þeim lokið að fullu áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.

Spurningin er þá: Hvers vegna þarf að afgreiða þetta mál nú og æskilegt að það verði fyrr en seinna? Ástæðan er öllum kunn. Reynslan er sú að þegar búið er að samþykkja heimildarlög á Alþ. um virkjun verður unnið að henni af meira kappi og krafti en áður, það er reynslan, heldur en meðan allt er að því leyti í lausu lofti, að ekki er einu sinni búið að leggja málið fyrir Alþ. til könnunar. Sú er ástæðan til þess, að Samband sveitarfélaga í Austfjarðakjördæmi hefur óskað eftir því beinlínis með samþykkt að frv. yrði lagt fyrir nú og afgr., að það sér og veit af reynslunni að þá verður betur og fastar að málinu unnið.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði um fyrirhugaðar fjárveitingar í fjárl. fyrir næsta ár í sambandi við þetta mál. Eins og hann gat um var ákveðið af fjvn. að geyma til 3. umr. till. um fjárveitingar til orkumála. Þetta er eitt af því. Að sjálfsögðu verður að taka inn í fjárlagafrv. fjárveitingar og/eða lánsheimildir í sambandi við undirbúning þessarar virkjunar. Ég tel því gersamlega ástæðulaust þegar hv. þm. tala hér um undarlegan eftirrekstur og að málið sé ekki tímabært, andmæla þeim vinnubrögðum, sem hér hafa verið höfð. Iðnn. hefur haft röskan mánuð til athugunar á þessu máli og rætt það á mörgum fundum, fengið sérfræðinga og frá þeim bæði munnlegar og skriflegar upplýsingar. Ég held að það sé alveg ógrunduð gagnrýni að halda því fram, að málinu hafi verið hraðað óeðlilega í gegnum n. Síður en svo. N, hefur haft mjög rúman tíma. Þegar hv. 3. þm. Austf. virðist koma hér af fjöllum, undrandi á því að málið skuli tekið fyrir og vera á dagskrá, þá er þess fyrst að geta, að það eru 3 mánuðir síðan málið var til umr. á Austfjörðum, á þinginu á Eiðum, þingi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, þangað sem honum vor boðið sem þm., en hann hirti ekki um að mæta. Og hann hefur haft allan þennan tíma til að kynna sér málið.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil þakka hv. formanni og frsm. iðnn. og n. fyrir afgreiðslu á málinu og að mæla með því.

Ég vil aðeins að lokum geta þess í sambandi við umr. um Austurlandsvirkjun eða Fljótsdalsvirkjun, að það mál var rætt hér rækilega við 1. umr. þessa máls. Ég benti á að hér væru stórfelldir möguleikar, stærstu vatnsvirkjunarmöguleikar sem fyrirfyndust á Íslandi, þar sem er Austurlandsvirkjun, og ég lagði á það áherslu að öllum rannsóknum og undirbúningi þyrfti að hraða sem mest í því stórmáli. Það er líka tekið fram í grg. og liggur fyrir í álitsgerðum hinna kunnugustu manna, að Bessastaðaárvirkjun mundi ekki tefja fyrir því stóra máli, heldur jafnvel greiða fyrir því. Það kemur fram í sumum þessum álitsgerðum ítarlegar en gert er í grg., að Bessastaðaárvirkjun gæti að nokkru leyti orðið hluti af stórvirkjuninni og að ýmis mannvirki, sem þar eru gerð, mundu koma þar að fullu gagni.

Eins og ég gat um við 1. umr. og las upp úr grg., m.a. úr álitsgerð Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, var niðurstaðan sú hjá þeirri verkfræðistofu og enn fremur hjá Hauki Tómassyni jarðfræðingi, að Bessastaðaárvirkjun mundi fremur greiða fyrir stórvirkjun í Fljótsdal eða Austurlandsvirkjun, en ekki draga úr þeim möguleika. Þess vegna er það líka alger misskilningur þegar menn eru að telja sér trú um að þetta frv. eða væntanleg virkjun Bessastaðaár mundi á nokkurn hátt torvelda þessar stórvirkjanir, þvert á móti. Ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt hér áður, að ég legg áherslu á að hraða sem mest öllum undirbúningi að stórvirkjun í Fljótsdal, hvort sem það er kallað Fljótsdalsvirkjun eða Austurlandsvirkjun, og þarna eru möguleikarnir svo miklir að þá þarf að skoða sem rækilegast og það sem fyrst.

Hv. 3. þm. Reykv. lét þau smekklegu orð falla, að e.t.v. væri tilgangurinn með því að ýta á eftir þessu frv. sá að blöðin gætu þá skýrt frá því að ríkisstj. væri að leysa orkuvanda Austurlands, sem er náttúrlega ákaflega alvarlegur og hefur verið til umr. fyrr í dag í þinginu. Þetta er ákaflega ómaklega og ósmekklega sagt, þegar þess er gætt að það hefur alltaf komið skýrt fram við framlagningu og umr. um þetta frv. að ekki mætti gera sér vonir um að Bessastaðaárvirkjun kæmist í notkun fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1978 eða eftir 4 ár. Þetta tók ég skýrt fram og varð raunar fyrir nokkru ámæli úr sumum áttum fyrir að vilja ekki leggja til að það yrði lögfest að virkjunin yrði til fyrr. Vitanlega verður lögð öll áhersla á að hraða undirbúningi og virkjunarframkvæmdum svo sem kostur er ef ákveðið verður að ráðast í þessa virkjun. En það þýðir ekki að vera að gefa loforð um það eða jafnvel festa í lög að virkjun skuli verða lokið fyrr en möguleikar eru til að álíti hinna kunnugustu manna.

Ég vænti þess að þetta frv., sem iðnn. mælir einróma með og Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur einróma skorað á Alþ. að samþykkja, fái greiða göngu í gegnum þingið.