17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir):

Út af þeim ummælum hæstv. ráðh., að vinnubrögð forseta í sambandi við þetta mál væru undarleg, vil ég leyfa mér að segja þetta:

Í fyrsta lagi er það alltítt að mál séu tekin út af dagskrá eða þeim frestað eftir ósk þm., eins eða fleiri, og hefur það tíðkast svo lengi sem ég man eftir störfum Alþ. Að því er varðar ósk ríkisstj. um hið gagnstæða, þá má vera að þar skapist árekstur, en ég vil leggja á það áherslu, að forseti Alþingis er embættismaður þingsins, en ekki sérstaklega ríkisstj. Vitanlega tel ég mér þó skylt sem forseta að reyna að greiða fyrir afgreiðslu mála og samkomulagi um þau, eftir því sem verða má. Þess vegna var það, að ég vildi verða við þeirri ósk hv. 3. þm. Austf. að fresta umr. um þetta mál um stund. Hins vegar hafði ég alls ekki sagt að ég ætlaði að taka málið út af dagskránni, eins og hæstv. ráðh. sagði. Í því fólst misskilningur hans. Ætlun mín með því að fresta umr. um málið var sú að hv. þm. og hæstv. ráðh. eða ríkisstj. gæfist færi á því að ræða frekar um þetta mál. En eins og hv. þdm. er kunnugt liggur mikil og þung dagskrá fyrir þessum fundi, svo að það verður engan veginn til að tefja málið að fresta umr. um það nú um stund og taka til við fyrra dagskrármálið.

Í dag hafa verið haldnir 4 fundir í þessari d. Ég tók málið út af dagskrá fyrsta fundarins eftir ósk hv. 3. þm. Austf., sem er þm. þess kjördæmis sem hér á stærstan hlut að máli, vegna þess að hann var bundinn við skyldustörf í sambandi við annað mál, sem á líka að afgreiða hér, en síðan tók ég málið á dagskrá 4. fundarins samkv. ósk hæstv. ráðh. Á dagskrá þess fundar er málið enn. Og nú verður umr. um það mál frestað um stund.