17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Vill ekki hæstv. forsetinn hlutast til um að hæstv. iðnrh, hlýði á mál mitt. Ég mun hinkra við, ef svo skyldi vera að hann sé eigi langt undan. (Forseti: Ég gæti nú trúað, að hæstv. ráðh. væri ekki svo langt undan, væri a.m.k. svo skammt undan að hann heyrði mál hv. þm. Ég hélt að hann væri hér í hliðarherbergi.) Ég treysti því ekki fullkomlega, því að ég er í engu því skapi að ég fari að brýna raustina út af þessu, svo að glymji um allt hús. En ég á erindi við hann, einkum og sér í lagi vegna fyrri umr. hér í kvöld um þetta mál. (Forseti: Það er upplýst að hæstv. ráðh. mun standa í Ed.- ræðustól eins og er, svo að það verður varla unnt að hlutast til um að hann komi nú þegar til að hlýða á hv. þm.) Þá vil ég biðja virðulegan forsetann að athuga með hvaða hætti við eigum á þessu máli að taka, vegna þess að ég tel mér alveg nauðsynlegt að hann sé nærstaddur þegar ég segi þau fáu orð í sambandi við þetta mál sem ég tel nauðsyn á.