17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

84. mál, útvarpslög

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Jafnvel þeir, sem lengi hafa átt sæti í þessari hv. d. eða á Alþ. og ýmislegt hafa reynt í sambandi við síðustu daga þings fyrir stórhátíðir og í þinglok, muna varla svo örlagarík átök sem virðast eiga sér stað nú. Það má næstum því segja að þingstörf séu orðin eins og færeyskur dans, það eru tvö skref áfram til virkjunar á Austurlandi og eitt aftur á bak til útvarpslaga, svo eru tvö áfram í virkjunarátt og eitt aftur til útvarpslaga. Skal ég ekki segja, hvernig dansinum lýkur, þegar þar að kemur.

Frv., sem hæstv. menntmrh. hefur flutt hér stutta og hóflega framsögu fyrir, hefur orðið mikið deilumál í þessu landi. Það stafar að sjálfsögðu af því að hljóðvarp og sjónvarp eru ákaflega áhrifaríkir fjölmiðlar sem hafa stórbrotin áhrif á líf nútímamanna. Í meiri hluta heims hygg ég að hljóðvarp og sjónvarp séu í eign og undir stjórn ríkisvaldsins. Þó er það engan veginn einhlítt. Það eru undantekningar á vesturhveli jarðar og í hluta af Asíu. Í sönnum lýðræðisríkjum hefur verið lögð á það rík áhersla að reka þessa miðla, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða einkaeigu, af fyllstu óhlutdrægni. En í ríkjum, sem hafa annað stjórnarfar, er þessum miðlum miskunnarlaust beitt af yfirvöldum. Segja má að sú saga hafi e.t.v. hafist með hinum þýsku nasistum og Göbbels, einhverjum mesta áróðursmeistara veraldarsögunnar, sem þá réð þar ríkjum á þessu sviði.

Hér á Íslandi fengum við hljóðvarp tiltölulega snemma, og við fetuðum okkur áfram við skipulag þess, eins og fram kom í framsögn hæstv. menntmrh., er hann skýrði frá því hvaða breytingum stjórn útvarpsins eða réttara sagt stjórn dagskrárinnar hjá útvarpinu hefði tekið. Þó má segja, að fyrstu áratugina hafi óhlutdrægni verið gætt af svo mikilli samviskusemi og nákvæmni í hljóðvarpinu íslenska, að þar mátti helst ekki ræða um neitt umdeilanlegt efni, nema þá til væru kallaðir 4 fulltrúar þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem á því tímabili voru til og réðu ríkjum. Á síðustu árum hefur það gerst annars vegar, að dagskrá hljóðvarps hefur aukist, sjónvarp hefur komið til skjalanna og þessir miðlar hafa í vaxandi mæli sýnt það hugrekki að taka fyrir deilumál samtíðarinnar á hverjum tíma og fjalla um þau án þess að í hvert skipti séu jöfn skipti á milli ræðumanna allra flokka á Alþ., eins og áður tíðkaðist. Þetta hefur gert okkur ljósara en nokkru sinni fyrr, að það er nauðsynlegt að Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, sé í fyrsta lagi eins sjálfstæð stofnun og hægt er að gera það þar sem það er ríkiseign, og í öðru lagi að útvarpsráð, sem fer með æðstu völdin yfir dagskrá þessara miðla, verði ekki frekar tengt við pólitísk yfirvöld landsins en framast er hægt að komast af með. Þetta eru þær grundvallarreglur, sem ég hygg að flestir hafi verið sammála um að nauðsynlegt væri að stefna að nú á hinum síðustu árum.

Núgildandi útvarpslög voru sett árið 1971, ef ég man rétt. Þau voru alger endurnýjun á útvarpslögum, því að fram til þess tíma höfðu gilt að heita má hin upprunalegu útvarpslög með að sjálfsögðu mörgum bótum á. Lögin frá 1971 gerðu miklar breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins og ákvæðum um hana. Þessum breytingum var öllum sameiginlegt að þau stefndu að því að gera Ríkisútvarpið að sem sjálfstæðastri stofnun, sem gæti starfað innan íslensks þjóðfélags, gæti gætt þeirrar óhlutdrægni sem er grundvallaratriði í lögum um starfsemi þess og gæti gert þjóðinni eins mikið gagn og slíkir miðlar framast geta. Ég get nefnt sem dæmi, að samkv. þessum l. var í fyrsta skipti ákveðið að útvarpsráð skyldi taka endanlegar ákvarðanir um dagskrá bæði hljóðvarps og sjónvarps. Ekki var ljóst fyrir þann tíma hvort ráðh. gæti gripið inn í, t.d. stöðvað einstaka dagskrárliði, eins og t.d. er gert í Bretlandi, svo að ég nefni nærtækt dæmi, enda þótt blessunarlega hafi ekki mikið á þetta reynt á undanförnum árum. Með þeim lögum var tekið af skarið um þetta atriði. Þá var gerð sú breyting, að Alþ. skyldi kjósa útvarpsráð, ekki að loknum hverjum alþingiskosningum, heldur til fjögurra ára og skyldi það standa hvað sem kynni að gerast varðandi ríkisstj. og skipan Alþ.

Hæstv. menntmrh. nefndi í framsöguræðu sinni, að það mundi varla hafa komið fram í seinni tíð, að til greina kæmi að aðrir en Alþ. kysu útvarpsráð. Þetta er rétt með farið hjá honum að því er ég best veit. En það stafar af reynslunni á fjórða áratugnum. Þá byrjuðum við á þeirri lofsverðu tilraun að láta útvarpshlustendur kjósa útvarpsráð í beinum kosningum. En þessi tilraun sem er einstök í sinni röð, — ég þekki ekkert dæmi í sögu útvarpsfyrirtækja í öðrum löndum sem er sambærilegt að öllu leyti, — bar ekki árangur, því að það sem gerðist var að pólitísku flokkarnir hreinlega yfirtóku þessa kosningu. Framboðslistar urðu pólitískir, pólitískir flokkar létu skrifstofur sínar, starfslið og maskínur vinna að kosningunni. Var því ekki hægt að segja að það væri verulegur munur á þeirri kosningu annars vegar og kosningu til Alþ. hins vegar. Þess vegna lifði þetta kerfi ekki lengur en raun bar vitni.

Til eru önnur dæmi, eins og t.d. í Danmörku, þar sem hlustendafélög eiga aðild að útvarpsráði, en í Danmörku er meginþorri útvarpsráðsmanna skipaður annars vegar af fjvn. þingsins og hins vegar af ríkisstj., svo og fulltrúar hlustendafélaganna hafa þar ekki úrslitavald, þótt þeir séu enn þá hafðir með.

Með lögunum 1971 var gerð sú breyting, að í staðinn fyrir að útvarpsráð skyldi kosið að loknum hverjum alþingiskosningum, þá skyldi það nú kosið til fjögurra ára. Þetta er það atriði sem núv. ríkisstj. hefur þótt ástæða til þess að breyta einu ári áður en það útvarpsráð, sem nú situr, hefur lokið tímabili sínu. Er ekki unnt að komast hjá því, að það hljóti að vera næsta furðulegar röksemdir, næsta furðulegur hugsunarháttur, sem er að baki því að flytja slíkt frv. og gera það að slíku kappsmáli rétt fyrir jólafrí Alþ., þegar margt annað kallar að, að losa þjóðina við þetta útvarpsráð síðasta árið sem það á að sitja. Eðlilegra væri að málið hefði verið tekið upp eftir eitt ár, þegar hvort eð er átti að skipta um útvarpsráð.

Nú vil ég taka það skýrt fram í þessu sambandi, að ég átti lengi sæti í útvarpsráði og vil því ekki, hvorki hér né annars staðar, fella neina dóma um störf eftirmanna minna þar. Af minni hálfu verður því eingöngu rætt um þetta mál frá þeim skipulagslegu, lýðræðislegu ástæðum, sem til þess liggja, og kann þó að vera að þar sé eitthvað látið ósnert.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að hér er um tvennt að ræða, annað hvort útvarpsráð kosið til fjögurra ára eða útvarpsráð kosið af hverju nýju Alþ. Alþ. hefur fjögurra ára tímabil sjálft, það er kosið til fjögurra ára, svo að þarna er um sama tímabilið að ræða. Spurningin er aðeins, hvort þessi tímabil verði endilega að vera samtímis, þannig að þegar nýjar ríkisstj. eru stofnaðar, eins og oftast gerist að loknum kosningum, eigi endilega að kjósa nýtt útvarpsráð eða hvort við höfum manndóm og þroska til þess að stofnanir eins og útvarpsráð geti setið áfram, jafnvel þótt þær gangi örlítið á mis við setu ríkisstj. Þegar við athugum, að undanfarinn hálfan annan áratug hafa ríkisstj. yfirleitt setið 3–4 ár og að hér er um að ræða fjögurra ára kjörtímabil útvarpsráðs, er augljóst að sá meiri hl., sem kosinn er hverju sinni á Alþ. og stendur á bak við ríkisstj., mun í flestum tilfellum fá tækifæri til að kjósa sér útvarpsráð einhvern tíma á starfstíma sinum. En að það sé svo mikil pólitísk og lýðræðisleg nauðsyn að það gerist strax og nýir menn setjist í ráðherrastólana, það er með öllu óskiljanlegt, og er gersamlega óboðlegt þroskuðu fólki í nútíma lýðræðisþjóðfélagi að halda því fram að svo sé.

Ég skal nefna eitt dæmi um það, hversu fáránlegt þetta kerfi getur verið. Hv. dm. er kunnugt um að til þess að breyta íslensku stjórnarskránni þarf tvennar kosningar. Þetta hefur gerst með nokkru millíbili, ekki mjög löngu, og þá eru tvennar kosningar á sama ári. Ég hef lifað þetta einu sinni síðan ég kom í þetta hús til starfa og það var árið 1959. Á því ári sátu þrjú útvarpsráð. Framan af árinu sat það útvarpsráð, sem kosið hafði verið rétt fyrir jólin 1956. Svo voru kosningar um vorið og skömmu eftir þær kom saman sumarþing. Það gerði skyldu sína samkv. lögum, sem síðasta sumarþing gerði ekki, það kaus nýtt útvarpsráð. Svo voru haustkosningar. Á haustdögum var komið enn nýtt Alþ. og það gerði líka skyldu sína, það kaus enn nýtt útvarpsráð. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að hægt sé að hafa einhverja skynsamlega stjórn á stofnun eins og Ríkisútvarpinu, sem er með tvær dagskrár inni á hverju einasta heimili landsins flest kvöld og nær til meginþorra þjóðarinnar mestallan daginn í hljóðvarpi, með því að hafa þrjú mismunandi útvarpsráð á einu ári. Afleiðingin varð auðvitað sú, að útvarpið var að mestu leyti hvað útvarpsráð snertir stjórnlaust þetta ár. Ég vil minna menn á, að síðasta, stysta og eitt besta loforðið í núv. stjórnarsamningi er að stjórnarskráin skuli verða endurskoðuð. Við eigum því eitt ár með þremur útvarpsráðum fram undan ef þessi stórkostlega umbót, sem ríkisstj. leggur mikla áherslu á, nær fram að ganga fyrir þessi jól.

Það getur verið, að menn verði þá ánægðastir þegar oftast er skipt á einu ári um útvarpsráð. Hitt get ég sagt þeim sem ekki gera sér það ljóst, ef einhverjir eru, að það verður aldrei nokkurn tíma skipað útvarpsráð tem allir eru ánægðir með. Af langri reynslu í stofnun eins og útvarpsráði, sem hefur fyrst og fremst með dagskrá að gera, — þetta er ekki stjórn út varpsins, þetta er ekki hópur manna sem hefur yfirráð yfir stjórnun, fjármálum eða öðru slíku í útvarpinu, alls ekki, þetta er fyrst og fremst dagskrárstjórn, — og reynsla mín er sú að þegar útvarpsráð var ekki skammað í blöðunum heila viku, þá hafði ég, held ég, mestar áhyggjur af því.

Það er athyglisvert að gera sér grein fyrir þessum tveimur möguleikum, annars vegar núv. skipun, að útvarpsráð sitji til fjögurra ára, og hins vegar frv., að það skuli kosið eftir hverjar kosningar. Þegar núv. útvarpslög voru undirbúin var það undirbúningsstarf unnið af þriggja manna n. sem ég átti sæti í, svo að ég þekki mætavel störfin sem þar voru unnin. Sú tilviljun gerðist að ég var einnig formaður í menntmn. Nd. þegar fjallað var um þetta frv., og þar var ítarlega og lengi unnið að málinu, svo að ég hef þá reynslu einnig að baki. En þegar undirbúningsnefndin kom að þessu atriði, hvað útvarpsráð eigi að sitja lengi, urðu menn að sjálfsögðu hugsi og töldu rétt að athuga hver er háttur í íslensku stjórnkerfi í þessum efnum. Hver er venjan, og hvaða leið er rétt að velja? Það má rannsaka slíkt mál á ýmsan hátt og stundum gera menn það með því að spyrja reynda menn. Það var a.m.k. einn mjög reyndar lagasmiður í þessari n. En ég settist niður eitt kvöld og fletti í gegnum allt lagasafnið, — allt saman, það er ekki svo stórt, tvö bindi, — og ég á enn þá seðilinn þar sem ég skrifaði hvaða ráð og nefndir væru skipuð samkv. íslenskum lögum til fjögurra ára og hvaða ráð og nefndir og stjórnir væru skipaðar þannig, að þær skyldi kjósa að loknum hverjum kosningum. Á þessum tíma komst ég að þeirri niðurstöðu með talningu, að til ákveðins árabils, — það eru ekki alltaf 4 ár, það eru einstöku sinnum 3 ár, — til ákveðins árabils væru 35 stjórnir, nefndir og ráð, en eftir hverjar kosningar skyldi kjósa 9. Það voru sem sagt 35 á móti 9, sem ég held að í íþróttaheiminum sé kallað „burst“. Ákvæðin um sumar af merkari stofnunum, sem átti að kjósa eftir hverjar kosningar, eins og menntamálaráð, úthlutunarnefnd listamannalauna og útvarpsráðið sjálft, áttu uppruna sinn á árunum milli 1930 og 1940, þegar íslensk pólitík, sem var á merku tímabili sem kannske má segja að hafi byrjað 1928, var upp á sitt besta, og ég hygg að sé í raun og veru arfur frá ákveðnu, takmörkuðu tímabili. En skipanin, sem Alþ. sjálft hafði ákveðið á margvíslegum stofnunum og ráðum í gegnum árin, sýndi að þinginu hafði mörgum sinnum oftar þótt vera rétt að stofnanir, nefndir og ráð skyldu kosin til ákveðins árafjölda og sitja þann árafjölda, en ekki að það ætti að breyta eftir hverjar kosningar.

Ef við lítum út fyrir landsteinana sjáum við af reynslu erlendra lýðræðisþjóða, að þar hefur það þekkst að eftir hverjar meginkosningar sé skipt um svo að segja alla valdamenn, allt niður í póstmeistara í hverju þorpi, eins og gerðist í Bandaríkjunum þangað til fyrir 20 árum eða svo. En alls staðar undantekningarlaust hefur verið fráhvarf frá þessari gömlu stefnu og horfið að því, að það ætti að skipa menn og nefndir til ákveðins tíma og bera það traust til þeirra að stjóravöld, ríkisstjórnir, þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða stungnar í bakið af þessum aðilum.

Hér á Alþ. er sérstaklega ánægjulegt að minnast þess, að það eru ekki nema örfá ár síðan það var tekið upp að sýna stjórnarandstöðunni það traust að hún mætti skipa varaforseta bæði í Sþ. og báðum deildum, og þessu hefur við stjórnarskipti verið haldið áfram, svo að að því hafa, hygg ég, allir flokkar á einn eða annan hátt staðið. Oft á tíðum hefur á það reynt að stjórnarandstæðingar hafa setið í forsetastóli. En ég þekki ekkert dæmi þess, að þeir hafi brugðist eðlilegu trausti gagnvart ríkisstj. eða svíkið hana, þótt að vísu sé til í þingsögunni dæmi um að stuðningsmenn ríkisstj. hafi stundum reynst þeim erfiðir.

Ég tel því, að þegar rætt er um grundvallaratriðin á bak við þetta frv., skipulagsmálin, — og ég ítreka að ég sleppi með öllu dægurhlið málanna, nöfnum eða störfum núv. útvarpsráðs, — þegar lítið er eingöngu málefnalega á skipulagshliðina, þá er þetta frv. ríkisstj. með öllu óverjandi. Ég tel að þær vinnuaðferðir, sem ríkisstj. beitir með því að flytja þetta frv. og leggja á það áherslu, séu bæði óviturlegar og ógeðfelldar og boði ekki gott ef fram á að halda í þessum dúr. Ég hélt að við ættum í vök að verjast, sem erum kenndir við þátttöku í stjórnmálum, og að við þyrftum á mörgu frekar að halda en þessu skrefi aftur á bak, sem felst í því að sérstakt frv. er flutt um breytingu á útvarpsráði eins og hér hefur gerst.

Á það hefur verið minnst, að Ríkisútvarpið eigi við mikil vandamál að stríða um þessar mundir, og ég hygg að það gangi enginn gruflandi að því sem nokkuð þekkir þar til. Fjárhagsmát stofnunarinnar eru í miklum ógöngum, vegna þess að afnotagjöldin ganga inn í vísitölu, ríkisstj. ákveður afnotagjöldin og þau hafa um langt árabil verið svo stórkostlega vanmetin, að þau hafa orðið til þess að kreppa að þessari stofnun meira en nokkur ástæða er til, þegar lítið er til þess hvaða þjónustu hún veitir þjóðinni. Dreifing sjónvarps og hljóðvarps um landið er mjög ófullkomin. Það þarf ekki að leita vitnanna út fyrir þennan sal, því að í þskj. okkar liggja fjölmargar till. og fsp. sem eru vitnisburður um það. Ef menn vilja nærtækt dæmi, þá er sagt að möstrin hér fyrir ofan Breiðholtið séu orðin svo ótraust að það mundi ekki koma neinum kunnáttumanni á óvart þótt þau hryndu einn góðan veðurdag, enda eru þau orðin mjög gömul.

Ríkisútvarpið er gömul og virðuleg stofnun, en það starfar enn þá hvað snertir aðalskrifstofur og hljóðvarp í leiguhúsnæði, sem það hefur með leigunni að mestu leyti greitt fyrir aðra aðila, og þessir hinir aðilar vilja nú losna við það burt. Lausn á húsnæðismálum útvarpsins, fyrst hljóðvarpsins og síðar sjónvarpsins, er risavaxið verkefni, svo stórt að ég þori ekki einu sinni að nefna neitt í því sambandi. Dagskráin sjálf er dýr. Um atriði í henni má deila. Margvíslegar óskir um nýjungar eða aukningar, sérstaklega í sjónvarpsdagskránni, er þó að finna og þarf ég þá ekki að nefna fleiri dæmi um óleyst vandamát útvarpsins. En til þess að leysa þau vandamál hefði gjarnan mátt eyða allri þeirri orku og öllum þeim tíma sem fer í að þrátta um þetta fráleita frv., sem ríkisstj. hefur flutt.

Því miður hefur brjóstvitið frá Brekku brugðist okkur. Ríkisstj. hefur orðið á meiri háttar yfirsjón með þessu frv., og það skynsamlegasta, sem hún gerði, væri að draga það til baka svo að við gætum öll í góðri samvinnu reynt að leysa nauðsynlegri mál sem þyrfti helst að afgr. fyrir helgi, svo að menn gætu allir lifað í friði og ánægju um komandi jól.