17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir síðustu orð síðasta ræðumanns, hv. 2. landsk. þm. Það er vitanlega mikið mál og nauðsynlegt og bráðaðkallandi að ráða bót á fjárhagserfiðleikum útvarpsins. Ég get sagt frá því hér, að ég hef þegar unnið nokkuð að því að undirbúa lausn á því máli hvað snertir rekstur þess, og eins og þessi hv. þm. veit og kannske enn betur en ég er unnið að undirbúningi byggingarmálsins.

Það er líka mikið atriði, sem hann minntist hér á, að ljúka því að koma efni útvarps og sjónvarps til allra landsmanna og treysta flutningaleiðirnar, þannig að þetta efni komist til skila með sómasamlegu móti.

Ég kvaddi mér raunar ekki hljóðs til að fara að ræða efnisatriði þessa máls, en vildi þó segja þessi orð til áherslu ummælum hv. þm. um þetta efni. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs út af tilmælum hv. 5. þm. Vestf. áðan um að haga þannig meðferð þessa máls að hann gæti sinnt skyldustörfum sinum, bæði hér í hv. d. og í hv. fjvn.

Komið hafa fram nokkur ummæli í þá átt að hér sé unnið að með óvenjulegum hætti. Ég vísa því algerlega á bug. Við þekkjum öll, hv. alþm., vinnubrögðin í jólaannríkinu. Þau eru alltaf söm við sig. Þá eru mörg mál fyrir þingi og skiptar skoðanir um nauðsyn sumra þeirra, og þetta er mjög venjulegt og ekkert sérstakt um það að segja. Hitt er svo annað mál, að ég tel brýna nauðsyn að sem best samstarf ríki varðandi þingstörfin sjálf á milli Alþ., ríkisstj. og stjórnarandstöðu hverju sinni. Ég tel það hina mestu nauðsyn og vil stuðla að því fyrir mitt leyti að svo geti orðið. Ég tel að ríkisstj. beri að sýna stjórnarandstöðunni eðlilega tillitssemi, teygja sig langt í því efni. Ég tel á hinn bóginn að stjórnarandstaðan eigi þá að koma til móts við hana. Það gerir stjórnarandstaðan oft, að mæta því með nokkurri tillitssemi einnig og greiða fyrir eðlilegum gangi þingmála, en tefja þau ekki með umr. sem tvímælalaust eru kannske ónauðsynlegar málefnisins vegna. Ég er ekki að segja það sérstaklega út af þessu máli, ég segi það almennt.

En sem sagt, ég vil komna til móts við óskir þessa hv. þm. að nokkru með því að óska þess við hæstv. forseta að umr. verði frestað og málið verði tekið út af dagskrá þessa fundar.